Bækur eftir ÓBK

Manifesto hægri manns

Manifesto hægri manns er safn greina og pistla sem Óli Björn hefur skrifað undanfarin fjögur ár í Morgunblaðið, Þjóðmál og víðar.

Í formála segir að ekki sé um heildarsafn að ræða enda margt skrifað í dagsins önn og eigi lítið erindi til lengri tíma. Við valið á greinum er fylgt þeirri reglu að með safninu fáist góð innsýn í skoðanir og hugmyndafræði höfundar. Heiti bókarinnar – Manifesto hægri manns – kemur frá grein sem birtist í sumarhefti Þjóðmála árið 2011.

Bókinni er skipt niður í sjö meginkafla til að gera efnið aðgengilegra og er greinunum raðað í tímaröð innan hvers kafla – þær elstu fyrst:

  • Sjálfstæðisflokkurinn
  • Atvinnu- og viðskiptalíf
  • Ríkisfjármál, efnahagsmál, lífeyrismál og velferðarkerfið
  • Icesave
  • Utanríkismál
  • Stjórnmálaflokkar, landsdómur, stjórnarskrá og dægurmál
  • Fjölmiðlar, dómstólar og réttarríkið

Síðasta vörnin – Hæstiréttur á villigötum í eitruðu andrúmslofti

Í Síðustu vörninni er sett fram hörð gagnrýni á íslenska dómskerfið og því haldið fram að dómar Héraðsdóms og Hæstaréttar í Baugsmálum hafi reynst Íslendingum dýrkeyptir og haft alvarlegar afleiðingar. Skiptir þá engu sekt eða sakleysi þeirra sem voru ákærðir. Dómstólar komu sér hjá því að taka efnislega afstöðu til ákæruliða og beittu langsóttum lögskýringum. Viðskiptalífinu var gefið til kynna að aðrar reglur væru í gildi gagnvart því en öðrum.

Því er haldið fram að fræðimenn og starfandi lögmenn hafi brugðist skyldu sinni. Ástæðurnar eru sagðar einfaldar. Lögmenn hafi áhyggjur af því að hörð gagnrýni þeirra á úrskurði dómstóla geti komið niður á umbjóðendum þeirra í framtíðinni. Og hins vegar hafi fræðimenn og starfandi lögmenn, sem hafa hug á því að sækjast eftir sæti við Hæstarétt, það í huga að gagnrýni geti haft áhrif á möguleika þeirra til að ná ráðningu.

Þegar héraðsdómur ákvað að vísa öllum upphaflegu ákærunum frá dómi, ekki síst á þeim grunni að ákæruliðir væru óskýrir, fögnuðu margir. Sú gleði var byggð á misskilningi. Með frávísun gafst ákæruvaldinu tækifæri til að gefa út nýjar ákærur. Á meðan urðu þeir sem sættu ákæru að bíða í eins konar lögfræðilegu tómarúmi. Ekki þarf að hafa mörg orð um það hversu erfitt það hlýtur að vera fyrir þann sem telur sig saklausan að bíða eftir því að nafn hans sé hreinsað. Því er haldið fram að hagur þeirra sem sættu ákæru hefði verið betur tryggður ef dómstólar hefðu tekið upphaflegu ákæruliðina fjörutíu til efnislegrar meðferðar og látið hina ákærðu njóta vafans sem fólgin var í óljósum málatilbúnaði ákæruvaldsins

Í bókinni er skipulag Hæstaréttar gagnrýnt harðlega og þó sérstaklega hvernig staðið er að skipun dómara. Ástæða er til að hafa áhyggjur af því að dómstólar láti undan almenningsálitinu og í því andrúmslofti sem nú er í þjóðfélaginu. Sú hætta virðist vera raunveruleg að hagsmunir sakborninga verði fyrir borð bornir. Veruleg hætta er á að dómstólar hafi ekki bolmagn til að standa gegn háværri kröfu um að ákveðnir einstaklingar verði dregnir til ábyrgðar og dæmdir.

Fórnarlömbin verða ekki aðeins þeir sem verða dæmdir heldur allir Íslendingar. Þegar og ef dómstólar láta undan þrýstingi almenningsálitsins er réttarríkinu fórnað.

Þeirra eigin orð

Í Þeirra eigin orðum er safnað ýmsum eftirminnilegustu  ummælum  útrásartímans, þegar allt var á útopnu – líka talfæri mannanna. Hverjir fóru yfir strikið? Hverjir urðu sér til skammar? Hverjir hittu naglann á höfuðið? Þetta er einstakt safn skemmtilegra og misjafnlega gáfulegra ummæla frá útrásartímanum. Í formála segir að mörg þessara ummæla hafi enga þýðingu nema í stund dagsins en önnur séu merkileg og nauðsynlegt að þeim sé haldið til haga. „Tilsvör, fullyrðingar, athugasemdir og yfirlýsingar segja oft mikla sögu og gefa skemmtilega innsýn  í  andrúm samfélagsins á hverjum tíma … Hér er á ferðinni persónulegt val sem er fyrst og  fremst ætlað til skemmtunar en líka til að geyma á einum stað ýmislegt sem ekki má gleymast og hollt er að rifja upp.“

Umsagnir:

„… frábært safn tilvitnana í stjórnmálamenn, útrásarvíkinga, álitsgjafa og fleiri …“

Skafti Harðarson, Eyjan.is

„… þetta er ótrúleg lesning, að sjá hvernig jafnvel mætustu menn gátu ruglað og bullað í þeim tilgangi einum að réttlæta vitleysuna …“

Jón Þ. Þór, DV.is

„Þeir eru margir gullmolarnir í bókinni Þeirra eigin orð.“

Orðið á götunni, Eyjan

Stoðir FL bresta

FL Group – Stoðir – var fremst í flokki íslenskrar útrásar. Félagið varð eitt fyrsta fórnarlamb alþjóðlegrar fjármálakreppu. Ekki vegna kreppunnar heldur vegna þess að forráðamenn félagsins höfðu ekki reynt að búa félagið undir hina mögru tíma. Aldrei var reynt að búa í haginn fyrir framtíðina og því var ekki borð fyrir báru þegar það gaf á bátinn. Dregin er upp fremur dökk mynd og því haldið fram að saga FL Group sé dapurlegur vitnisburður um framgöngu íslenskra viðskiptajöfra á undanförnum árum og áfellisdómur yfir sinnulausum almennum hluthöfum. Ákafinn við að byggja upp viðskiptaveldi og verja fjárhagslega hagsmuni sinna nánustu varð skynseminni yfirsterkari. Samþætting fjárhagslegra hagsmuna og samtrygging var höfð að leiðarljósi á kostnað arðsemi. Stefnu- og ístöðuleysi, sem kristallaðist í nafnabreytingum, stöðugum skipulagsbreytingum og sundraðri fjárfestingastefnu, einkenndi alla starfsemi fyrirtækisins.

Varpað er ljósi á dómgreindarleysi greiningardeilda bankanna og hversu veikburða íslenskir fjölmiðlar hafa verið gagnvart ráðandi öflum í viðskiptalífinu.

Valdablokkir riðlast

Fremur auðvelt var að átta sig á íslensku viðskiptalífi á árum áður. Þó það sé mikil einföldun að halda því fram að það hafi skipst upp í tvær fylkingar, er sanngjarnt að segja að ákveðið viðskiptalegt og pólitískt jafnvægi hafi ríkt á milli Sambandsins og einkaframtaksins. Þetta jafnvægi var ekki lengur  fyrir hendi þegar Valdablokkir riðlast kom úr átið 1999, enda Sambandið liðið undir lok þó sterk fyrirtæki hafi risið upp á rústum þess, sum að vísu tímabundið. Einkafyrirtækin voru heldur ekki einsleitur eða samstilltur hópur heldur fyrirtæki í harðri samkeppni. Eftir fall Sambandsins hélt togstreita og valdabarátta áfram milli rótgróinna einkafyrirtækja og gömlu Sambandsfyrirtækjanna sem lifðu af. Fjölmiðlar töluðu yfirleitt um baráttuna milli Kolkrabbans og Smokkfisksins. Þessar gömlu valdablokkir riðluðust og heyrðu brátt sögunni til. Ekki vegna þess að forystumenn þeirra settust niður og sömdu um „vopnahlé” heldur vegna ytri aðstæðna og þar réð enginn ferðinni.

Í bókinni er því haldið fram að þrír þættir hafi öðrum fremur orðið til þess að gömlu valdablokkirnar hafa smátt og smátt molnað niður. Markaðsvæðing sjávarútvegsins með innleiðingu kvótakerfisins með frjálsu framsali aflaheimilda gerði útsjónarsömum útgerðarmönnum kleift að byggja upp glæsileg fyrirtæki sem höfðu fjárhagslega burði til að taka þátt í atvinnulífinu á flestum sviðum. Í stað þess að vera upp á opinbera fyrirgreiðslu og velvilja birgja komin urðu til öflug og sjálfstæð fyrirtæki í sjávarútvegi. Aukið frelsi á fjármálamarkaði og þá ekki síst þróun hlutabréfamarkaðar gerði fyrirtækjum, fjárfestingarfélögum, lífeyrissjóðum og einstaklingum kleift að taka beinan þátt í atvinnulífinu og auðgast verulega. Hlutabréfamarkaðurinn og frelsi á fjármálamarkaði opnaði auk þess nýja og áður óþekkta möguleika fyrirtækja til fjármögnunar – þau þurftu ekki lengur að ganga með betlistaf í hendi á milli stjórnmálamanna og valdsherra einkaframtaksins eða Sambandsins.

Þessi mikla markaðsvæðing sjávarútvegs og fjármálakerfisins var möguleg vegna þess að skynsamlega var haldið á efnahagsmálum. Seðlabankinn fylgdi aðhaldssamri stefnu í peningamálum á sama tíma og meiri agi hefur komist á fjármál ríkissjóðs þó enn hafi víða verið pottur brotinn. Óðaverðbólga fyrri ára sem gerði ókleift að reka fyrirtæki með skynsamlegum hætti, var aðeins slæm minning.

Svo virtist að heilladísir hafi vakað yfir íslenskum verðbréfamarkaði á árunum fyrir 1999 komið í veg fyrir að afleiðingar mistaka og jafnvel vítaverðra viðskiptahátta hafi mikil áhrif á tiltrú almennings og fjárfesta á verðbréfum. Í Valdablokkum riðlast eru nefnd dæmi um slíka viðskiptahætti. Þá eru svokallaðir talnaleikir fyrirtækja, þar sem eigið fé er útblásið, gagnrýnir harðlega og því haldið fram að talnaleikir af þessu tagi séu ávísun á vandræði í framtíðinni. Óskiljanlegt sé að endurskoðendur hafi undirritað ársreikninga án athugasemda þegar loftfimleikar af þessu tagi eru gerðir. Að ekki sé minnst á allan þann fjölda sérfræðinga sem vinna hjá verðbréfafyrirtækjum og bönkum sem létu þetta átölulaust og raunar nýttu sér talnaleikina í útboðslýsingum til að gera hlutabréf viðkomandi fyrirtækis enn áhugaverðari fyrir fjárfesta. Síðar kom í ljós að þessi gagnrýni átti fullan rétt á sér.

Share
Share