Sameiginlegir hagsmunir launafólks og atvinnurekenda

Oddný Harðardóttir, þingmaður Samfylkingarinnar, átti frumkvæði að sérstökum umræðum um félagsleg undirboð og svik á vinnumarkaði 30. janúar síðastliðinn. Ég tók þátt í umræðunum fyrir hönd Sjálfstæðisflokksins:

„Herra forseti. Félagsleg undirboð á vinnumarkaði. Ég þakka hv. þm. Oddnýju Harðardóttur fyrir að vekja athygli okkar á þessu og koma þessu máli á dagskrá. Það er mikið verk óunnið.

En hér fara saman hagsmunir launafólks og hagsmunir atvinnurekenda, að minnsta kosti þeirra sem vilja stunda og stunda sín viðskipti með heiðarlegum hætti. Hv. þm. Þorsteinn Sæmundsson talaði um að fórnarlömbin væru tvö, annars vegar starfsmaðurinn, launamaðurinn sem svikinn er um rétt kjör, og hins vegar ríkissjóður. Ég segi: Þau eru þrjú. Því að fórnarlamb er líka sá er stundar heiðarleg viðskipti, bóndinn, verktakinn o.s.frv.

Ég tek undir með hv. málshefjanda um að heilbrigður vinnumarkaður sé forsenda góðs samfélags. En ég ætla að taka aðeins dýpra í árinni og halda því fram að heilbrigður vinnumarkaður, þar sem farið er eftir lögum og reglum, sé forsenda þess að við náum að byggja hér upp sjálfbæran hagvöxt. Vegna þess að undirboð líkt og skattsvik, m.a. þau sem kennitöluflakkarar stunda með því að stela innskatti, grafa undan hinum heiðarlegu viðskiptum sem til framtíðar eru eina leið okkar til bættra lífskjara.

Ég hygg að það sé mjög mikilvægt að við höfum þetta í huga. Það verður og er alltaf sérstakt verkefni að fylgjast með því að farið sé eftir leikreglum. Engu skiptir hvort um er að ræða skatta og gjöld eða að staðið skuli við gerða samninga þegar kemur að kjarasamningum, lögum og reglum, er gilda. Það á að tryggja að eftir leikreglunum sé farið og allir sitji við sama borð.”

Share
Share

Written by:

View All Posts
Follow Me :