Árangurstengdar greiðslur stytta biðtíma og bæta þjónustu

Árangurstengdar greiðslur stytta biðtíma og bæta þjónustu

Ríkisútvarpið greindi frá því síðastliðinn sunnudag að bið eftir þjónustu á heilsugæslustöðvum höfuðborgarsvæðisins hefði styst úr 3-4 vikum í eina viku eftir að árangurstengdar greiðslur frá ríkinu voru teknar upp. Mér fannst rétt að vekja athygli á þessari breytingu í umræðum um störf þingsins 27. febrúar:

„Herra forseti. Ég ætla að vekja athygli á jákvæðri frétt sem birtist í Ríkisútvarpinu síðastliðinn sunnudag. Það var viðtal við Óskar Reykdalsson, sem er framkvæmdastjóri Lækninga hjá Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins. Þar bendir hann á nýtt fyrirkomulag í fjármögnun heilsugæslustöðva; þær fá greitt miðað við þann fjölda einstaklinga sem eru skráðir og tekið er tillit til þess hversu íþyngjandi eða erfitt er að sinna þeim, m.a. varðandi undirliggjandi sjúkdóma. Árangurinn af þessum breytingum er sá að biðtími hjá Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins hefur styst úr fjórum vikum í innan við eina.

Á undanförnum árum hefur Landspítali Íslands verið að vinna að og þróa svokallað ferilkerfi, DRG-kostnaðargreiningarkerfi, sem gefur okkur möguleika á að innleiða nýja fjármögnun á Landspítalanum og í raun að koma fjármögnun hans í eðlilegt horf þar sem tekið er tillit til þess hversu margar aðgerðir og hvers konar aðgerðir er verið að gera í staðinn fyrir að beita þeim aðferðum sem við beitum, að hafa Landspítalann alfarið á föstum fjárlögum. Þetta leiðir líka til þess ef við berum gæfu til þess að taka upp sömu fjármögnunaraðferð á sjúkrahúsum um allt land og í öllu heilbrigðiskerfinu að við náum sama árangri og Heilsugæsla höfuðborgarsvæðisins hefur náð í því að stytta biðtímann úr fjórum vikum í innan við viku og þjónustan verður betri og markvissari. Ég er sannfærður um að heilsa landsmanna verður miklu betri.“

Frétt Ríkisútvarpsins

Share
Share

Written by:

View All Posts
Follow Me :