EES-samningur á krossgötum

EES-samningur á krossgötum

Í janú­ar síðastliðnum voru 25 ár frá því að Alþingi samþykkti lög um Evr­ópska efna­hags­svæðið [EES] og tóku þau gildi í byrj­un árs 1994. Um það verður vart deilt að við Íslend­ing­ar höf­um notið góðs af sam­starfi EFTA-ríkj­anna við Evr­ópu­sam­bandið á grunni EES, en um leið þurft að sætta okk­ur við ýmsa ókosti. Að nokkru höf­um við greitt kostnaðinn af göll­un­um vegna eig­in sinnu­leys­is en einnig vegna brota­lama sem m.a. komu í ljós í reglu­verki ESB um fjár­mála­markaði.

Lífs­kjör og efna­hag­ur okk­ar Íslend­inga bygg­ist á tryggu aðgengi að er­lend­um mörkuðum og sann­gjörn­um aðgangi er­lenda aðila að ís­lensk­um markaði. Frelsi í viðskipt­um við önn­ur lönd er for­senda góðra lífs­kjara og því hef­ur EES-samn­ing­ur­inn reynst okk­ur mik­il­væg­ur. Í sam­vinnu við aðrar vest­ræn­ar þjóðir og ekki síst með varn­ar­samn­ingi við Banda­rík­in og þátt­töku í Atlants­hafs­banda­lag­inu, hef­ur ör­yggi og frelsi lands­ins verið tryggt allt frá lok­um síðari heims­styrj­ald­ar­inn­ar.

Davíð Þór Björg­vins­son, dóm­ari við Lands­rétt og fyrr­ver­andi dóm­ari við Mann­rétt­inda­dóm­stól Evr­ópu, hélt því fram í grein hér í Morg­un­blaðinu 20. apríl 2013 að EES-samn­ing­ur­inn hefði styrkt stöðu fyr­ir­tækja og byndi hend­ur stjórn­valda og þrengdi „mikið svig­rúm þeirra til að taka til­lit til sér­tækra hags­muna ein­stakra fyr­ir­tækja í op­in­ber­um ákvörðunum“. Davíð Þór tel­ur eng­an vafa leika á því að þetta hafi „leitt til stór­kost­legra rétt­ar­bóta til handa öll­um al­menn­ingi í land­inu og aukið gegn­sæi í starfs­um­hverfi fyr­ir­tækja“.

En með þátt­töku í EES höf­um við þurft að „sætta“ okk­ur við áhrif Evr­ópu­sam­bands­ins á ís­lenska laga- og reglu­gerðar­setn­ingu, sem virðist aukast frá ári til árs. Bent hef­ur verið á að slíkt geti í mörg­um til­fell­um gengið gegn stjórn­ar­skrá.

Vegið að grunnstoðum EES

Bjarni Bene­dikts­son, fjár­mála- og efna­hags­ráðherra, lýsti því yfir á þingi í síðustu viku að tíma­bært væri að Alþingi tæki til skoðunar stöðu EFTA-ríkj­anna á grund­velli EES-samn­ings­ins þegar Evr­ópu­sam­bandið krefðist þess ít­rekað að „við Íslend­ing­ar fell­um okk­ur við að sæta boðvaldi, úr­slita­valdi, sekt­ar­ákvörðunum eða með öðrum hætti skip­un­um frá alþjóðastofn­un­um sem Evr­ópu­sam­bandið hef­ur komið sér upp en við eig­um enga aðild að“. Með því sé verið að vega að grunnstoðum EES-samn­ings­ins. Um leið glími EFTA við þann vanda hversu fá ríki standi að baki stofn­un­um sam­bands­ins.

Aug­ljóst er að formaður Sjálf­stæðis­flokks­ins tel­ur að Alþingi og stjórn­völd gefi EES-sam­starf­inu ekki nægj­an­lega at­hygli. Und­ir það skal tekið og á stund­um virðist sem við af­greiðum EES-reglu­gerðir á færi­bandi, eft­ir tak­markaðan und­ir­bún­ing og könn­un.

Að nokkru erum við að súpa seyðið af þeirri of­ur­trú sem eitraði ís­lenska ut­an­rík­is­stefnu og leiddi til stöðnun­ar – of­ur­trú á að lausn allra vanda­mála okk­ar fæl­ist í aðild að Evr­ópu­sam­band­inu. Í stað þess að móta stefnu í ut­an­rík­is­viðskipt­um sem hefði það að mark­miði að fjölga kost­un­um í sam­skipt­um við aðrar þjóðir, var skipu­lega reynt að fækka þeim. „Stóra-lausn­in“ átti að vera evra og Evr­ópu­sam­bandið.

Óskaniðurstaða

Björn Bjarna­son, fyrr­ver­andi ráðherra, er á því að vandi EFTA-ríkj­anna í sam­skipt­um við Evr­ópu­sam­bandið sé „tregða af hálfu stjórn­enda þess­ara ríkja [EFTA] til að láta reyna á sér­stöðu þeirra“ á grunni EES. Síðastliðinn mánu­dag skrifaði Björn meðal ann­ars á heimasíðu sína:

„Á meðan ESB-aðild­ar­bröltið var stundað af hálfu ís­lenskra stjórn­valda hlóðust upp óaf­greidd EES-mál inn­an stjórn­kerf­is­ins. Í raun hef­ur aldrei tek­ist að hrinda nægi­lega vel í fram­kvæmd sjálf­stæðri stefnu ís­lenskra stjórn­valda í sam­skipt­um við ESB á grund­velli EES-samn­ings­ins.

Hóf­sam­leg niðurstaða í Brex­it-viðræðunum þjón­ar hags­mun­um EFTA-ríkj­anna best. Verði viður­kennt meira svig­rúm til að hafna inn­leiðingu ESB-reglna fell­ur það að helstu gagn­rýn­inni á EES-fyr­ir­komu­lagið eins og það er nú – þetta svig­rúm er þó einskis virði sé aldrei gerð til­raun til að nýta það og henni fylgt eft­ir á skipu­leg­an hátt.“

Ég er sam­mála Birni um að „ósk­aniðurstaða“ okk­ar Íslend­inga í Brex­it sé að Bret­ar gangi til liðs við EFTA og að nýr EES-samn­ing­ur verði gerður með aðild Breta og jafn­vel einnig Sviss­lend­inga. „Fyr­ir þessu ein­falda og skýra mark­miði ættu ís­lensk stjórn­völd að beita sér,“ skrif­ar Björn en þess má geta að Guðlaug­ur Þór Þórðar­son ut­an­rík­is­ráðherra hef­ur hvatt Breta til að ganga til liðs við EFTA.

Sjálf­stæð fasta­nefnd um EES

Í sátt­mála rík­is­stjórn­ar Katrín­ar Jak­obs­dótt­ur seg­ir að eitt mik­il­væg­asta hags­muna­mál Íslands sé „að sinna fram­kvæmd EES-samn­ings­ins vel“ og að Alþingi þurfi „að vera virk­ara á því sviði“.

Flest­ir geta verið sam­mála um nauðsyn þess að auka áhrif Íslands á fyrstu stig­um til­lagna um nýja Evr­ópu­lög­gjöf. Í skýrslu ut­an­rík­is­ráðherra á síðasta ári, „Ut­an­rík­isþjón­usta til framtíðar“, er bent á að huga þurfi að þrem­ur meg­inþátt­um í þess­um efn­um. Í fyrsta lagi verði ís­lensk stjórn­völd að vera ávallt á varðbergi gagn­vart stefnu­mót­un inn­an ESB. Í öðru lagi þurfi að efla skipu­lagt sam­ráð við Alþingi, hags­munaaðila og sam­starfs­ríki Íslands í EFTA. Í þriðja lagi verði „að vinna með skipu­legri hætti að því að koma sjón­ar­miðum Íslands á fram­færi í umræðu um stefnu­mót­un Evr­ópu­sam­bands­ins inn­an stofn­ana þess og gagn­vart aðild­ar­ríkj­un­um og nýta þá mögu­leika sem Ísland hef­ur, m.a. á grund­velli EES-samn­ings­ins, til að taka virk­an þátt í mót­un lög­gjaf­ar ESB“.

Við sem sitj­um á Alþingi þurf­um að horf­ast í augu við þá staðreynd að hægt er að standa bet­ur að verki þegar kem­ur að af­greiðslu EES-mála – þings­álykt­un­ar­til­lög­um og laga­frum­vörp­um. Sterk rök eru fyr­ir því að koma á fót sér­stakri fasta­nefnd á veg­um þings­ins – EES-nefnd – sem hafi það hlut­verk að fylgj­ast með fram­kvæmd EES-samn­ings­ins, vinna ít­ar­leg­ar grein­ing­ar á nýrri Evr­ópu­lög­gjöf, jafnt á fyrstu stig­um og áður en þær eru tekn­ar upp hér á landi. Í störf­um sín­um hefði nefnd­in sam­ráð við aðrar þing­nefnd­ir, eft­ir efni máls og við hags­munaaðila. Með sér­stakri fasta­nefnd um EES væri bet­ur tryggt að staðinn væri vörður um sér­stöðu Íslands.

Það væri við hæfi að ný fasta­nefnd tæki til starfa þegar þing kem­ur sam­an í sept­em­ber næst­kom­andi – fjór­um mánuðum áður en haldið er upp á að ald­ar­fjórðung­ur er liðinn frá gildis­töku laga um Evr­ópska efna­hags­svæðið. Eitt fyrsta verk nefnd­ar­inn­ar ætti að vera sjálf­stæð og víðtæk út­tekt á reynsl­unni af EES, ekki bara efna­hags­lega, held­ur ekki síður stjórn­sýslu­lega um leið og svarað er spurn­ing­um um hvernig full­veldi lands­ins verður best varið á kom­andi árum.

Share
Share

Written by:

View All Posts
Follow Me :