Hafi einhver haldið að hugmyndafræði skipti litlu eða engu í sveitarstjórnum, þá ætti sá hinn sami að hugsa sig tvisvar um. Ekki þarf annað en horfa til Reykjavíkur. Skoða hvernig staðið er að verki við stjórnsýslu borgarinnar, bera þjónustu við íbúana saman við það sem gengur og gerist í nágrannasveitarfélögunum. Þegar hugmyndaauðgi meirihluta borgarstjórar um auknar álögur er höfð í huga er illa hægt að komast að annarri niðurstöðu en að hugmyndafræði – pólitísk sannfæring – kjörinna fulltrúa hafi veruleg áhrif á afkomu og lífsgæði Reykvíkinga.
Rekstur og þjónusta sveitarfélaga hafa bein áhrif á lífskjör almennings. Það skiptir okkur öll miklu, hvar sem við búum, hvernig til tekst við rekstur sveitarfélagsins, hvernig staðið er að skólamálum, hvernig þjónusta við eldri borgara er, að þörfum fatlaðra sé sinnt en þeim ekki gleymt, líkt og dæmi eru um.
Íbúum sveitarfélags þar sem umhverfismálum er sinnt af kostgæfni líður örugglega betur en íbúum sveitarfélags þar sem umhverfið er hornreka. Einu sinni var sagt: Hrein borg er fögur borg. Þessi einföldu sannindi hljóma ekki lengur í höfuðborginni.
Víða hefur tekist að samþætta góða þjónustu sveitarfélaga og hóflega skattheimtu og álögur. En svo eru dæmi þar sem álögur eru eins háar og lög leyfa án þess að þjónustan sé með þeim hætti sem íbúarnir ætlast til. Þegar óánægjan kemur upp á yfirborðið bregðast sveitarstjórnarmenn við með misjöfnum hætti.
Á undanförnum árum hef ég skrifað töluvert um málefni sveitarfélaga og ekki síst beint sjónum að Reykjavíkurborg. Ritlingur þessi inniheldur nokkrar þessara greina frá árinum 2014-2017. Hér fyrir neðan er hlekkur á pdf-útgáfu.
You must be logged in to post a comment.