Styrkjum sjálfstæða fjölmiðla

Leik­ur­inn er ójafn – eins ójafn og nokk­ur sam­keppn­is­rekst­ur get­ur orðið. Einka­rekn­um fjöl­miðlum er ætlað að keppa við rík­is­rekið fyr­ir­tæki sem nýt­ur meiri for­rétt­inda en þekk­ist í öðrum rekstri.

Íslensk­ur fjöl­miðlamarkaður á lítið skylt við jafn­ræði og sann­girni. Með lögþvinguðum hætti fær Rík­is­út­varpið stærsta hluta sinna tekna og á síðustu árum hef­ur rík­is­fyr­ir­tækið notið auka­fjár­veit­inga. Eng­in op­in­ber stofn­un eða rík­is­fyr­ir­tæki hef­ur búið við meiri vel­vilja hjá fjár­veit­ing­ar­vald­inu en Rík­is­út­varpið.

Af­leiðing­in er skekkt staða á sam­keppn­ismarkaði. For­rétt­indi rík­is­miðils­ins hafa leitt til þess að einka­rekn­ir fjöl­miðlar eru flest­ir veik­b­urða og marg­ir berj­ast í bökk­um. Þegar haft er í huga hversu vit­laust og ósann­gjarnt er gefið, er það þrek­virki að halda úti sjálf­stæðum einka­rekn­um fjöl­miðlum á Íslandi.

Ólíkt Rík­is­út­varp­inu þurfa sjálf­stæðir fjöl­miðlar að standa reikn­ings­skil á því sem þeir gera. Á hverj­um degi fella lands­menn sinn dóm – sem les­end­ur, áhorf­end­ur og hlust­end­ur. Ef þeim lík­ar illa við vinnu­brögðin, hætta þeir hrein­lega að lesa og kaupa viðkom­andi blað, segja upp áskrift­inni að sjón­varps­stöðinni og hætta að hlusta á út­varps­stöðina. Ef þeir eru ósátt­ir við hvernig frétt­ir og frétta­skýr­ing­ar eru mat­reidd­ar, gef­ast þeir upp á að heim­sækja viðkom­andi vef­miðil. Minnk­andi vin­sæld­ir fjöl­miðils hafa áhrif á mögu­leika hans til að afla tekna með sölu aug­lýs­inga.

Með öðrum orðum: Einka­rekn­ir fjöl­miðlar búa við aðhald al­menn­ings. Aga­vald al­menn­ings nær hins veg­ar ekki til rík­is­rek­inn­ar fjöl­miðlun­ar. Lands­menn þurfa að greiða sitt út­varps­gjald – um það sér inn­heimtumaður rík­is­sjóðs. Eng­inn hef­ur frelsi til að láta óánægju sína í ljós með því að segja upp áskrift­inni – slíta viðskipta­sam­band­inu.

Jafn­ari staða

„Rekst­ur rík­is­ins á fjöl­miðlum má ekki hamla frjálsri sam­keppni og raska rekstr­ar­grund­velli annarra fjöl­miðla,“ sagði meðal ann­ars í álykt­un lands­fund­ar Sjálf­stæðis­flokks­ins árið 2014. Und­ir þessi orð geta lík­leg­ast all­ir tekið hvar í flokki sem þeir standa.

En frá því að sjálf­stæðis­menn samþykktu að rík­is­rekst­ur mætti ekki hamla frjálsri sam­keppni á fjöl­miðlamarkaði hef­ur hallað á ógæfu­hliðina. Það hef­ur molnað und­an mörg­um sjálf­stæðum miðlum. Hækk­un virðis­auka­skatts úr 7% í 11% var líkt og strand­högg rík­is­ins í rekst­ur dag­blaða og tíma­rita. Á sama tíma voru Rík­is­út­varp­inu tryggðir aukn­ir fjár­mun­ir frá skatt­greiðend­um.

Þá standa ís­lensk­ir fjöl­miðlar frammi fyr­ir auk­inni sam­keppni við er­lenda aðila. Face­book, Google og aðrir net- og sam­fé­lags­miðlar sækja inn á aug­lýs­inga­markaðinn. Þannig eru sjálf­stæðir fjöl­miðlar ekki aðeins að keppa við for­rétt­indi rík­is­rek­ins fjöl­miðil held­ur ekki síður við er­lend stór­fyr­ir­tæki.

Flest ríki Evr­ópu leggja áherslu á að tryggja stöðu frjálsra fjöl­miðla, með skatta­leg­um aðgerðum eða bein­um fjár­hags­leg­um stuðningi. Á Íslandi eru áskrifta­gjöld dag­blaða og tíma­rita í neðra virðis­auka­skattsþrepi sem og af­nota­gjöld einka­rek­inna ljósvakamiðla, en ra­f­ræn­ar áskrift­ir að sömu fjöl­miðlum eru í efra þrepi.

Virðis­auka­skatt­ur á prentaða fjöl­miðla er hærri á Íslandi en ann­ars staðar á Norður­lönd­um. Í Dan­mörku er eng­inn virðis­auka­skatt­ur af sölu prent­miðla og Nor­eg­ur er hvorki inn­heimt­ur virðis­auka­skatt­ur af prent­miðlum né net­miðlum. Sala prent­miðla í Svíþjóð fell­ur und­ir lægra þrep virðis­auka­skatts­ins, sem er 6%. Í Bretlandi, Belg­íu og Dan­mörku er allt prentað mál und­anþegið virðis­auka­skatti.

Fjöl­breytt flóra fjöl­miðla

Oft­ar en einu sinni hef ég haldið því fram að stjórn­mála­menn – lög­gjaf­inn – eigi að plægja jarðveg­inn fyr­ir fjöl­breytt­ari flóru fjöl­miðla. Ekk­ert trygg­ir bet­ur en fjöl­breytni að rétt­ar upp­lýs­ing­ar séu dregn­ar fram og að ólík sjón­ar­mið fái að heyr­ast.

Auðvitað er ekki til töfra­lausn á vanda sjálf­stæðra fjöl­miðla. Skjald­borg­in um Rík­is­út­varpið er sterk og eng­ar lík­ur eru á því að póli­tísk samstaða ná­ist um að draga ríkið út úr fjöl­miðla- og afþrey­ing­ar­rekstri. Leik­regl­un­um verður því ekki breytt að þessu leyti. En það er hægt að jafna leik­inn lít­il­lega. Styðja við sjálf­stæða fjöl­miðla. Við alþing­is­menn get­um sýnt í verki að við skilj­um mik­il­vægi þess að til séu öfl­ug­ir sjálf­stæðir fjöl­miðlar. Við get­um stutt við fjöl­breyti­leik­ann og byggt und­ir frjálsa miðlun upp­lýs­inga.

Af­nám virðis­auka­skatts af áskrift­um prent-, ljósvaka- og net­miðla get­ur orðið mik­il­vægt skref í átt að því að styrkja rekst­ur sjálf­stæðra fjöl­miðla. Og um leið leiðrétta – þó að ekki sé nema að litlu leyti – stöðuna gagn­vart Rík­is­út­varp­inu. Af­nám virðis­auka­skatts­ins væri ekki aðeins viður­kenn­ing á mik­il­vægi frjálsra fjöl­miðla held­ur einnig yf­ir­lýs­ing um nauðsyn þess að leiðrétta lít­il­lega sam­keppn­is­stöðu á fjöl­miðlamarkaði – gera hana ör­lítið sann­gjarn­ari og heil­brigðari.

Sam­keppn­is­um­hverfi margra ís­lenskra fyr­ir­tækja er erfitt og ríkið hef­ur á mörg­um sviðum gert það enn erfiðara og lagt steina í göt­ur eðli­legra viðskipta­hátta. Snyrti­vöru­kaupmaður­inn stend­ur höll­um fæti gagn­vart rík­is­rekstri í Flug­stöð Leifs Ei­ríks­son­ar sem hef­ur lagt und­ir sig stór­an hluta markaðar­ins í krafti skatt­fríðinda. Það er með hrein­um ólík­ind­um að hið op­in­bera skuli njóta for­rétt­inda á sviði smá­sölu – það er eitt­hvað skakkt við að ríkið skuli yfir höfuð stunda smá­sölu. Ohf-væðing rík­is­fyr­ir­tækja er líkt og eit­ur um seytl­ar um æðar at­vinnu­lífs­ins. Í skjóli laga eru op­in­beru hluta­fé­lög­in eins og lokuð einka­fyr­ir­tæki, sem í skjóli eign­ar­halds og sérrétt­inda sækja inn á sam­keppn­ismarkaði og herja á einka­fyr­ir­tæki í stóru sem smáu. Í þess­um efn­um er Rík­is­út­varpið eng­in und­an­tekn­ing fyr­ir utan að njóta enn meira for­skots en önn­ur rík­is­fyr­ir­tæki í formi þvingaðrar inn­heimtu áskrifta­gjalda.

Eitt besta ný­árs­heit sem við þing­menn get­um gefið er að vinna að því að jafna stöðu einka­fyr­ir­tækja í ójafnri sam­keppni við rík­is­fyr­ir­tæki. Koma á heil­brigðara um­hverfi í at­vinnu­líf­inu – leyfa sam­keppn­inni að blómstra og sjálf­stæðum at­vinnu­rek­end­um að dafna. Og það er til­tölu­lega ein­falt að hefja leik­inn með því að renna styrk­ari stoðum und­ir sjálf­stæða fjöl­miðla og af­nema virðis­auka­skatt af áskrift­um.

Share