Kennedy, Reagan og íslenskir vinstrimenn

Fé­lags­hyggju­menn, vinstri­menn, sósí­al­ist­ar eða hvað þeir kall­ast sem hafa meiri trú á rík­inu en ein­stak­lingn­um hafa alltaf átt erfitt með að skilja sam­spilið milli hag­sæld­ar og hvata ein­stak­lings­ins til að afla sér tekna og skapa eitt­hvað nýtt. Rík­is­sinn­ar hafa ekki áttað sig á að of­stjórn og óstjórn eru tví­bura­syst­ur og fá­tækt er frænka þeirra.

Hug­mynda­fræði vinstrimanna hef­ur komið ágæt­lega í ljós við umræður um fjár­mála­áætl­un 2018 til 2022, sem verður af­greidd á Alþingi í dag, gangi starfs­áætl­un þings­ins eft­ir. Áætl­un­in ger­ir ráð fyr­ir að skatt­tekj­ur rík­is­ins verði um 185 millj­örðum króna hærri árið 2022 en á þessu ári. Heild­ar­tekj­ur verða 222 millj­örðum hærri. Hækk­un skatt­tekna kem­ur að mestu fram ann­ars veg­ar í skött­um af vöru og þjón­ustu, eða 105 millj­arðar, og hins veg­ar tekju­skött­um, sem áætlað er að skili 76 millj­örðum meira árið 2022 en í ár. Þessi mikla hækk­un skatt­tekna sem end­ur­spegl­ar vöxt efna­hags­lífs­ins er ekki nægj­an­leg í hug­um margra þing­manna. Þeir vilja ganga lengra jafnt í skatt­heimtu og í út­gjöld­um. Og það er tölu­verð sam­keppni meðal vinstrimanna.

Fjór­ar millj­ón­ir á fjöl­skyldu

Sam­fylk­ing­in hef­ur lagt fram breyt­inga­til­lögu við fjár­mála­áætl­un­ina sem ger­ir ráð fyr­ir að skatta- og eigna­tekj­ur verði 31 til 52 millj­örðum króna hærri á ári. Í heild telja Sam­fylk­ing­ar­menn rétt að auka skatt­heimt­una um 236 millj­arða á fimm ára tíma­bili. En til­lög­urn­ar eru ná­lægt því að vera hóf­sam­ar í sam­an­b­urði við hug­mynd­ir Vinstri grænna, sem eru harðir á því að hækka skatta um nær 334 millj­arða, króna, eða um 53 til 75 millj­arða á ári. Hvernig þess­ari auknu skatt­heimtu verður háttað er óljóst. Það eina sem hægt er að segja með full­vissu er að til­lög­ur Vinstri grænna fela í sér að aukna skatt­heimtu sem jafn­gild­ir um fjór­um millj­ón­um króna á hverja fjög­urra manna fjöl­skyldu á fimm árum, um­fram það sem fjöl­skyld­urn­ar þurfa að bera að óbreyttu.

Að minnsta kosti tveir fyrr­ver­andi for­set­ar Banda­ríkj­anna hefðu átt erfitt með að skilja hug­mynda­fræði ís­lenskra vinstrimanna og stefnu þeirra í skatta­mál­um og harða sam­keppni; John F. Kenn­e­dy og Ronald Reag­an.

Reag­an hélt því fram að því hærri sem skatt­arn­ir væru, því minni hvata hefði fólk til að vinna og afla sér auk­inna tekna. Lægri skatt­ar gæfu al­menn­ingi tæki­færi til auk­inn­ar neyslu og meiri sparnaðar, hvat­inn til að leggja meira á sig og afla tekna yrði eldsneyti hag­kerf­is­ins. „Niðurstaðan,“ sagði Reag­an, er „meiri hag­sæld fyr­ir alla og aukn­ar tekj­ur fyr­ir rík­is­sjóð.“ Hug­mynda­fræði Reag­ans var sú sama og John F. Kenn­e­dy kynnti um þrem­ur ára­tug­um fyrr. Re­públi­kan­inn sótti í smiðju demó­krat­ans, sem marg­ir ís­lensk­ir vinstri­menn hafa haft í há­veg­um í liðlega hálfa öld.

Mót­sagna­kennd­ur sann­leik­ur

Á blaðamanna­fundi í nóv­em­ber 1960 sagði Kenn­e­dy:

„Það er mót­sagna­kennd­ur sann­leik­ur að skatt­ar eru of háir og skatt­tekj­ur of lág­ar og að til lengri tíma litið er lækk­un skatta besta leiðin til að auka tekj­urn­ar.“

Kenn­e­dy lagði áherslu á að lækk­un skatta yrði til þess að auka ráðstöf­un­ar­fé heim­il­anna og hagnað fyr­ir­tækja og þar með kæm­ist jafn­vægi á rík­is­fjár­mál­in með hækk­andi skatt­tekj­um. Á fundi fé­lags hag­fræðinga í New York árið 1962 sagði for­set­inn meðal ann­ars:

„Efna­hags­kerfi sem er þrúgað af háum skött­um mun aldrei skila nægi­leg­um tekj­um til að jafn­vægi ná­ist í rík­is­fjár­mál­um, al­veg eins og það mun aldrei búa til nægi­leg­an hag­vöxt eða nægi­lega mörg störf.“

Efna­hags­stefn­an bar ár­ang­ur. Á fjór­um árum, frá því að John F. Kenn­e­dy tók við for­seta­embætt­inu, jókst lands­fram­leiðslan í Banda­ríkj­un­um meira en hún hafði gert á átta árum þar á und­an. Verðbólga hélst lág og at­vinnu­leysi snar­minnkaði. Hag­vaxt­ar­skeiðið sem hinn ungu for­seti lagði grunn­inn að stóð fram til 1970.

Sam­eig­in­leg hug­mynda­fræði

Síðasta mánu­dag var öld liðin frá því að John F. Kenn­e­dy fædd­ist í Brook­line í Massachusetts í Banda­ríkj­un­um. Hann var kjör­inn 35. for­seti Banda­ríkj­anna og tók við embætti í janú­ar 1961, þá rétt tæp­lega 44 ára. Óhætt er að halda því fram að fáir stjórn­mála­menn 20. ald­ar­inn­ar hafi haft meiri út­geisl­un og áhrif á tím­um mik­illa umróta. Enn í dag veit­ir hann ungu fólki jafnt þeim sem eldri eru inn­blást­ur.

John F. Kenn­e­dy var „hauk­ur“ í ut­an­rík­is­mál­um, and­komm­ún­isti, bar­áttumaður frels­is og jafn­rétt­is. JFK, eins og hann var oft kallaður, skildi sam­spil vel­meg­un­ar og skatta. Hann gerði sér grein fyr­ir því að bætt lífs­kjör verða ekki sótt annað en í aukna verðmæta­sköp­un – hag­vöxt.

Ég get haft á því nokk­urn skiln­ing að ís­lensk­ir vinstri­menn vilji ekki taka Ronald Reag­an sér til fyr­ir­mynd­ar. En a.m.k. ein­hverj­ir þeirra gætu farið í smiðju JFK. Við hægri­menn eig­um að skilja sam­eig­in­lega hug­mynda­fræði þess­ara tveggja for­seta, en mörg­um okk­ar virðist erfitt að muna eft­ir henni eða erum af ein­hverj­um ástæðum ekki reiðubún­ir til að vinna henni braut­ar­gengi.

Share