Allir vilja meira – sumir miklu meira

Allir vilja meira – sumir miklu meira

Fjár­mála­áætl­un rík­is­stjórn­ar­inn­ar 2018 til 2022, ger­ir ráð fyr­ir að út­gjöld rík­is­sjóðs verði um 212 millj­örðum króna hærri árið 2022 en áætlað er að út­gjöld­in verði á yf­ir­stand­andi ári. Þetta jafn­gild­ir liðlega 2,5 millj­ón­um á hverja fjög­urra manna fjöl­skyldu.

Þessi mikla aukn­ing út­gjalda dug­ar ekki til, ef marka má um­sagn­ir um fjár­mála­stefn­una sem send­ar hafa verið til fjár­laga­nefnd­ar. Flest­ir vilja meira og sum­ir miklu meira. Ef reynt yrði að koma til móts við all­ar ósk­ir, kröf­ur og vænt­ing­ar er ljóst að auka þyrfti út­gjöld­in um tugi millj­arða á hverju ári. Þar með væri ný­samþykkt fjár­mála­stefna fok­in út í veður og vind enda ljóst að út­gjöld hins op­in­bera (rík­is og sveit­ar­fé­laga) færu langt um­fram 41,5% af lands­fram­leiðslu. Sjálfsagt finnst mörg­um það ágætt. Aukn­um út­gjöld­um verður aðeins mætt með hærri álög­um á lands­menn og/​eða eft­ir at­vik­um skulda­söfn­un.

Óþrjót­andi auðlind?

Gangi til­laga um fjár­mála­áætl­un eft­ir verða heild­ar­tekj­ur rík­is­sjóðs um 218 millj­örðum hærri árið 2022 en á þessu ári. Á síðasta ári áætl­un­ar­inn­ar verða skatt­tekj­ur liðlega 185 millj­örðum hærri en reiknað er með að þær verði á þessu ári. Þetta er 30,5% hækk­un. Ákall um auk­in út­gjöld er krafa um að auka tekj­ur rík­is­ins með hækk­un skatta og gjalda. „Styrkja verður tekju­stofna rík­is­ins,“ er rök­semd þeirra sem kalla á auk­in út­gjöld og aukna skatt­heimtu. Í huga þeirra felst styrk­ing tekju­stofna í að hið op­in­bera taki meira í sinn hlut – seil­ist stöðugt dýpra í vasa lands­manna. Engu er lík­ara en að skatt­greiðend­ur séu óþrjót­andi auðlind fyr­ir ríki og sveit­ar­fé­lög og að það hafi eng­in áhrif hversu hart sé gengið fram í álög­um. Þvert á móti.

Ekki er ástæða til að gera lítið úr þeim um­sögn­um sem liggja á borði fjár­laga­nefnd­ar. Sum­ar eru að vísu með þeim hætti að fjár­veit­inga­valdið – Alþingi – hlýt­ur að huga að eðli, til­gangi og skipu­lagi margra stofn­ana. Aðrar varpa ljósi á hugs­an­lega veik­leika í áætl­un­um eins og um­sögn Útlend­inga­stofn­un­ar sem bend­ir á að bú­ast megi við 1.700-2.000 um­sókn­um um alþjóðlega vernd á þessu ári. Í fjár­mála­áætl­un sé hins veg­ar gengið úr frá því að fjöld­inn „fari aldrei fram úr 700 ár hvert, en þær töl­fræðiupp­lýs­ing­ar eru grund­völl­ur hækk­un­ar fram­lags til mál­efna­sviðsins um tæpa 2 millj­arða“. Þá seg­ir:

„Sé miðað við að um­sækj­end­ur um vernd verði 2000 í stað 700, verður að hækka fram lag til sviðsins um 7 millj­arða í stað tveggja og tryggja verður því sam­hliða að mannafli sé til staðar á öll­um stjórn­sýslu­stig­um, með til­heyr­andi kostnaði.“

„Hlá­leg­asti hluti“ áætl­un­ar­inn­ar

Dóm­stólaráð hef­ur áhyggj­ur þar sem veru­lega ber á milli óska héraðsdóm­stól­anna um aukn­ar fjár­heim­ild­ir og til­lagna inn­an­rík­is­ráðuneyt­is­ins eins og þær birt­ast í fjár­mála­áætl­un. Lög­reglu­stjóra­fé­lag Íslands send­ir skýr skila­boð um að svig­rúm „til bættr­ar al­mennr­ar lög­gæslu virðist ekki til staðar í fjár­mála­áætl­un rík­is­stjórn­ar“.

Stjórn­end­ur Land­helg­is­gæsl­unn­ar eru á því að „auka þurfi fram­lög til mála­flokks­ins Land­helgi um 1,4 millj­arða á ári til þess að tryggja lág­marks þjón­ustu- og ör­ygg­is­stig“. Sam­tök hernaðarand­stæðinga eru hins veg­ar á nokkuð öðrum nót­um:

„Hlá­leg­asti hluti fjár­mála­áætl­un­ar­inn­ar er þó vafa­lítið áhersl­an á herflug­sæfing­ar þær sem ganga und­ir nafn­inu loft­rým­is­gæsla. Sam­tök hernaðarand­stæðinga leggja því til að við loka­af­greiðslu fjár­mála­áætl­un­ar verði gert ráð fyr­ir úr­sögn Íslands úr Nató á tíma­bil­inu.“

Sam­kvæmt um­sögn Neyt­enda­stofu vant­ar tölu­verða fjár­muni til starf­sem­inn­ar og stjórn­end­ur bera sig illa:

„Hér er því vak­in at­hygli þings­ins á því að fjár­veit­ing­ar til Neyt­enda­stofu, sem sinn­ir jafn fjölþættu hlut­verki og raun ber vitni, eru marg­falt minni en t.d. til eft­ir­lits með fjár­mála­mörkuðum, sam­keppni eða fisk­veiðistjórn­un svo nokk­ur dæmi séu tek­in. Það er því brýnt að Alþingi taki til gagn­gerr­ar end­ur­skoðunar fyr­ir­komu­lag fjár­veit­inga til Neyt­enda­stofu og tryggi að stofn­un­in hafi sam­bæri­lega fjár­mögn­un og nægi­legt starfs­fólk til að sinna þeim fjöl­breyttu verk­efn­um sem Alþingi hef­ur falið stofn­un­inni fram­kvæmd á.“

Um­fangs­mik­il hækk­un og lof­orð

Hljóðið í fjöl­miðlanefnd er svipað og í Neyt­enda­stofu þar sem fjár­mála­áætl­un „er ekki í sam­ræmi við fjárþörf nefnd­ar­inn­ar“ sem tel­ur „að það þurfi um­fangs­mikla hækk­un á fjár­veit­ing­um til starf­semi nefnd­ar­inn­ar á fjár­lög­um næstu ára“.

Þjóðkirkj­an er á því að ekki hafi verið staðið við gerða samn­inga. Í ít­ar­legri um­sögn seg­ir meðal ann­ars:

„Svo sem áður er komið fram þurftu fram­lög til þjóðkirkj­unn­ar vegna inn­heimtu sókn­ar­gjalda að hækka um 792,1 m.kr. Fram­lög til Jöfn­un­ar­sjóðs sókna þurfa því að hækka um 146,5 m.kr. Þau voru í fjár­lög­um síðasta árs 385,5 m.kr. og þurfa því að hækka í 532 m.kr. Þrátt fyr­ir þetta gerði fjár­mála- og efna­hags­ráðherra aðeins til­lögu um 9,5 m.kr. verðlags­hækk­un á fram­lög­um til sjóðsins. Með því myndaðist því skuld rík­is­sjóðs við sjóðinn að fjár­hæð 137 m.kr.“

Fáum kem­ur á óvart að kraf­ist sé auk­inna fjár­muna til mennta­kerf­is­ins. Fé­lag fram­halds­skóla­kenn­ara „skor­ar á Alþingi að láta hér staðar numið í niður­skurði til fram­halds­skól­anna, standa við fyrri lof­orð“. For­ráðamenn Há­skóla Íslands minna á al­var­leg­an vanda sem skól­inn stend­ur frammi fyr­ir og er skorað á „fjár­laga­nefnd og þar með Alþingi að bregðast við vanda há­skól­ans og tryggja með af­ger­andi hætti rekstr­ar­grund­völl hans til framtíðar“. Stúd­entaráð enduróm­ar áskor­un­ina, harm­ar stöðu skól­ans og „leggst al­farið gegn því að fram­lögð rík­is­fjár­mála­áætl­un til árs­ins 2022 verði samþykkt í óbreyttri mynd“.

Kraf­an um hærri laun

Banda­lag há­skóla­manna „lýs­ir yfir þung­um áhyggj­um varðandi fjöl­marg­ar til­lög­ur“ í fjár­mála­áætl­un­inni. Minnt er á að Alþingi hafi sett lög á verk­fall aðild­ar­fé­laga BHM árið 2015 og með gerðardómi hafi verið komið „í veg fyr­ir að frjáls­ir samn­ing­ar næðust um mik­il­væg kjara­mál aðild­ar­fé­lag­anna og ger­ir BHM þá eðli­legu kröfu að gengið verði til samn­inga við aðild­ar­fé­lög­in af fullri al­vöru og heil­ind­um að þessu sinni“. BHM líkt og mörg stétt­ar­fé­lög op­in­berra starfs­manna búa sig und­ir kjara­samn­inga og þar verður kraf­ist hærri launa. Kjara­samn­ing­ar lækna eru laus­ir en laun þeirra hækkuðu veru­lega árið 2015. Nú er enn kallað eft­ir hærri laun­um. Á sama tíma ganga stjórn­end­ur Land­spít­al­ans hart fram í kröf­unni um aukið fjár­magn. Í um­sögn til fjár­laga­nefnd­ar seg­ir:

„Sam­kvæmt til­lög­unni [fjár­mála­áætl­un] vant­ar á ár­inu 2018 um bað bil 10 millj­arða til rekstr­ar og nauðsyn­legra tækja­kaupa og ann­ars stofn­kostnaðar á Land­spít­ala.“

Það er því nær al­veg sama hvert litið er. Heil­brigðis­kerfið, mennta­kerfið, al­manna­trygg­ing­ar, eft­ir­lits­stofn­an­ir hús­næðismál, fæðing­ar­or­lof; það vant­ar meiri fjár­muni og hærri laun. Sömu sögu er að segja um list­ir og menn­ingu ef litið er til um­sagn­ar Fé­lags ís­lenskra leik­ara og Fé­lag leik­stjóra á Íslandi sem telja að fram­lög „úr lista- og verk­efna­sjóðum til sjálf­stætt starf­andi sviðslista­manna eru allt of lág“. Og ekki má gleyma Rík­is­út­varp­inu en Rit­höf­unda­sam­bandið hvet­ur til að hið op­in­bera fjöl­miðlafyr­ir­tæki „fái stór­auk­inn stuðning til að standa und­ir merkj­um og sinna mik­il­vægu hlut­verki í þágu menn­ing­ar“.

Svo á eft­ir að fjár­magna upp­bygg­ingu innviða þar sem upp­söfnuð þörf, vegna of lít­illa fjár­fest­inga á und­an­förn­um árum, er vart und­ir 250 millj­örðum.

Share
Share

Written by:

View All Posts
Follow Me :