Óvild í garð framtaksmannsins

Óvild í garð framtaksmannsins

Sjálf­stæði at­vinnu­rek­and­inn á enn und­ir högg að sækja. Það hef­ur ekki tek­ist að hrinda at­lög­unni sem staðið hef­ur yfir linnu­lítið í mörg ár. Fjand­skap­ur rík­ir gagn­vart einkafram­tak­inu og það gert tor­tryggi­legt. Árang­ur í rekstri er lit­inn horn­auga.

Á Íslandi starfa þúsund­ir lít­illa og meðal­stórra fyr­ir­tækja. Eig­end­ur hafa sett allt sitt und­ir en hafa aldrei farið fram á að njóta sérrétt­inda, aðeins að sann­girni sé gætt og reglu­verk rík­is og sveit­ar­fé­laga sé stöðugt.

Hið op­in­bera sæk­ir að fram­taks­mann­in­um – litla at­vinnu­rek­and­an­um – með ýms­um hætti. Í sam­keppni við einkafram­takið hafa rík­is­fyr­ir­tæki komið sér fyr­ir á prent­markaði, tekið að sér vöru­dreif­ingu, vöru­hýs­ingu og brettaþjón­ustu. Ríkið er sæl­gæt­issali og um­svifa­mik­ill selj­andi leik­fanga, sel­ur und­irfatnað kvenna, heilsu­vör­ur og er stærsti smá­sali snyrti­vara á Íslandi. Um­svif rík­is­ins á fjöl­miðlamarkaði koma í veg fyr­ir fram­gang frjálsra fjöl­miðla, sem standa veik­b­urða í ósann­gjarni sam­keppni. Skatt­heimta og nokk­ur þúsund millj­óna for­gjöf trygg­ir yf­ir­burðastöðu rík­is­ins við miðlun upp­lýs­inga og frétta.

Alið á fjand­skap

Í Reykja­vík er skipu­lega og með ein­beitt­um hætti sótt að einka­rekstri. Komið er í veg fyr­ir að einka­fyr­ir­tæki geti safnað líf­ræn­um úr­gangi frá heim­il­um. Grafið er und­an þekk­ing­arþorpi flugs­ins á Reykja­vík­ur­flug­velli, þar sem er aðset­ur flug­skóla, flug­klúbba og fleiri fyr­ir­tækja. Kaup­menn í miðborg­inni eiga und­ir högg að sækja, þar sem borg­ar­stjórn hef­ur unnið skipu­lega að því að draga úr um­ferð með þreng­ing­um, sum­ar­lok­un­um og fækk­un bíla­stæða. Engu er lík­ara en að það sé einörð stefna meiri­hluta borg­ar­stjórn­ar að bola rót­grón­um versl­un­um og fyr­ir­tækj­um úr miðborg­inni.

Í þingsal er alið á fjand­skap í garð einka­rekstr­ar í heil­brigðis­kerf­inu. Marg­ir fjöl­miðlung­ar eru dug­leg­ir við að sá fræj­um tor­tryggni og óvild­ar í garð þeirra sem hafa haslað sér sjálf­stæðan völl í heil­brigðisþjón­ustu. Góð reynsla af einka­rekstri skipt­ir litlu, fjöl­breytt­ari og betri þjón­usta er auka­atriði, lægri kostnaður rík­is­ins (skatt­greiðenda) er létt­væg­ur. Stytt­ing biðlista eft­ir aðgerðum er ekki aðal­atriðið, held­ur að komið sé í veg fyr­ir einka­rekst­ur, jafn­vel þótt það leiði til þjóðhags­legr­ar sóun­ar og lak­ari lífs­gæða ein­stak­linga sem þurfa að bíða mánuðum sam­an eft­ir úr­lausn sinna mála. Fjand­menn einka­rekstr­ar vilja miklu frem­ur senda sjúk­linga til annarra landa en tryggja aðgengi al­menn­ings að nauðsyn­legri þjón­ustu hér á landi. Í stað þess að tryggja öll­um lands­mönn­um góða og trausta heil­brigðisþjón­ustu er rekstr­ar­formið mik­il­væg­ast – trú­ar­atriði. Hinir „sann­trúuðu“ leiða aldrei hug­ann að mik­il­vægi einka­rekstr­ar s.s. á sviði heilsu­gæslu, sér­fræðiþjón­ustu, end­ur­hæf­ing­ar og hjúkr­un­ar­heim­ila.

Óvild í garð einka­rek­inna skóla er sama marki brennd og af­leiðing­ar eru minni sam­keppni og fá­breytt­ari val­kost­ir. Kostnaðinn bera nem­end­ur, kenn­ar­ar og sam­fé­lagið allt.

Aflvaki breyt­inga

Fram­taksmaður­inn er og hef­ur alltaf verið drif­kraft­ur fram­fara og þar með bættra lífs­kjara. Hann er aflvaki breyt­inga – kem­ur auga á tæki­fær­in, býður nýja vöru og þjón­ustu, skap­ar störf og eyk­ur lífs­gæði sam­ferðamanna sinna. Með nýrri hugs­un og nýj­um aðferðum ógn­ar fram­taksmaður­inn hinum stóru og knýr hjól sam­keppn­inn­ar.

Við Íslend­ing­ar erum svo gæfu­sam­ir að hafa átt fjölda frum­kvöðla – at­hafna­menn sem rutt hafa nýj­ar braut­ir og skapað fjöl­breytt­ari tæki­færi. Dugnaðarforkar í sjáv­ar­út­vegi hafa byggt upp arðbær­asta sjáv­ar­út­veg í heim­in­um. Snjall­ir hug­vits­menn hafa þróað tæki og nýj­ar aðferðir í mat­vælaiðnaði, komið með bylt­ing­ar­kennda gervilimi, hannað nýja teg­und­ir báta, haslað sér völl í hug­búnaðar- og tölvu­leikja­gerð. Af mynd­ar­skap hafa bænd­ur náð að samþætta heil­brigði mat­væla og aukna fram­leiðni.

Á síðustu árum höf­um við orðið vitni að því hvernig frum­kvöðlarn­ir hafa gripið tæki­fær­in og byggt upp lít­il fyr­ir­tæki – oft fjöl­skyldu­fyr­ir­tæki – á sviði ferðaþjón­ustu. Nýj­um stoðum hef­ur verið skotið und­ir ein­staka byggðir, mann­lífið er lit­rík­ara og menn­ing­ar­lífið hef­ur blómg­ast. Fjöl­breytn­in er óend­an­leg; gist­ing, æv­in­týra­ferðir á sjó og landi, þyrl­ur, fjalla­skíði, sjó­stöng, jökl­ar, snjósleðar, jepp­ar, jarðböð, sjó­böð, hell­ar, snjó­bíl­ar, hval­ir, sel­ir, fugl­ar, mat­ur, ís­lensk saga, tónlist og menn­ing. Þannig má lengi telja.

Sjálf­stæðir at­vinnu­rek­end­ur eru ekki sér­lega kröfu­h­arðir gagn­vart öðrum en sjálf­um sér. Þúsund­ir karla og kvenna sem stunda sjálf­stæðan at­vinnu­rekst­ur í land­búnaði, sjáv­ar­út­vegi, ferðaþjón­ustu, iðnaði, hug­búnaði, versl­un og þjón­ustu, hafa borið þá von í brjósti að rík­is­valdið, en þó ekki síður stjórn­mála­menn, sýni í verki skiln­ing á stöðu þeirra sem reka lít­il og meðal­stór fyr­ir­tæki. Von­in er að tími skiln­ings­leys­is og andúðar sé að baki og með því verði gildi borg­ara­legs sam­fé­lags aft­ur haf­in til vegs og virðing­ar og það gert eft­ir­sókn­ar­vert að stunda sjálf­stæðan at­vinnu­rekst­ur.

Öflugra einkafram­tak

En jafn­vel þótt at­hafna­fólkið um allt land geri ekki mikl­ar kröf­ur ætl­ast það til þess að borg­ara­leg rík­is­stjórn und­ir for­ystu Sjálf­stæðis­flokks­ins leggi ekki steina í göt­ur þess og kippi ekki stoðum und­an rekstr­in­um. Gjör­breyti ekki reglu­verki, skött­um og gjöld­um með litl­um fyr­ir­vara. En Sjálf­stæðis­flokk­ur­inn ætl­ar að gera gott bet­ur eins og Bjarni Bene­dikts­son, formaður flokks­ins og for­sæt­is­ráðherra, und­ir­strikaði vel í setn­ing­ar­ræðu lands­fund­ar árið 2013:

„Við mun­um skapa ís­lensku efna­hags­lífi og at­vinnu­veg­um hvetj­andi, ör­ugg og traust starfs­skil­yrði og við ætl­um að eyða póli­tískri óvissu um grunn­atvinnu­veg­ina. Þá tek­ur at­vinnu­lífið við sér „eins og jurt sem stóð í skugga en hef­ur aft­ur litið ljós“. Á grund­velli þess­ara horn­steina hefst nýtt og kraft­mikið fram­fara­skeið í þágu heim­ila lands­ins þar sem stöðug­leiki og vöxt­ur verða aðals­merk­in. Þetta er leið Sjálf­stæðis­flokks­ins.“

Eyj­ólf­ur Kon­ráð Jóns­son [Ey­kon] hafði skýra sýn á at­vinnu­lífið. Í ræðu árið 1977 skil­greindi hann stefnu Sjálf­stæðis­flokks­ins í at­vinnu­mál­um ágæt­lega í einni setn­ingu:

„Inn­takið er meira frjáls­ræði, minni rík­is­af­skipti, öfl­ugra einkafram­tak, minni rík­is­um­svif.“

Ey­kon benti á að orð hefðu litla þýðingu ef þeim væri ekki fylgt eft­ir með því að hrinda þeim í fram­kvæmd. Það væri hlut­verk þeirra sem val­ist hefðu til trúnaðarstarfa fyr­ir Sjálf­stæðis­flokk­inn að tryggja fram­kvæmd­ina: „Okk­ur er kannski ekki hægt að draga til ábyrgðar, þótt okk­ur mistak­ist, en það er hægt að gera okk­ur ábyrg fyr­ir því að hafa ekki gert það, sem í okk­ar valdi stend­ur til að ná ár­angri.“

Þessi orð Eykons ramma inn hvernig við sjálf­stæðis­menn eig­um að haga störf­um okk­ar í rík­is­stjórn á næstu árum.

Share
Share

Written by:

View All Posts
Follow Me :