Breytum fasteign í vegi, brýr, göng, hafnir og flugvelli

Breytum fasteign í vegi, brýr, göng, hafnir og flugvelli

Fjárfesting í innviðum er forsenda þess að hægt sé að standa undir kröfum um góð lífsskilyrði hér á landi, sem standast samanburð við það besta sem þekkist í heiminum. Ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks, Viðreisnar og Bjartrar framtíðar ætlar að vera ríkisstjórn innviða og leggja með því grunn að lífskjarasókn komandi ára og áratuga. Til þess þarf að tryggja að innviðir samfélagsins séu í fremstu röð. Heilbrigðis- og menntakerfi séu í fremstu röð og að fjarskipti, samgöngur, flutningar og annað sem er grunnur að tengingum Íslands við alþjóðlegt efnahagsumhverfi standi á traustum fótum og séu með því besta sem völ er á.

Ekki verður deilt um jákvæð efnahagsleg áhrif sem skynsamleg uppbygging innviða hefur. Það eru ekki aðeins hagræn rök fyrir umsvifamikilli uppbyggingu innviða heldur ekki síður pólitísk fyrir stjórnarflokkana.

Þegar þetta er skrifað er Alþingi að ljúka umfjöllun um fjármálastefnu til næstu fimm ára og er að hefjast handa við fjármálaáætlun. Fjármálaáætlunin er ramminn sem afmarkar myndina. Áætlunin dregur upp meginlínur myndarinnar, jafnt útgjöld til helstu málaflokka og tekjur, ekki síst skatttekjur. Með því að marka stefnu í fjármálum hins opinbera er reynt að tryggja meiri aga en um leið horfa til lengri tíma en eins árs í senn.

Fjárfestingarstefna

Ég hef áður bent á hve bagalegt það er að ekki skuli mörkuð stefna til langs tíma um fjárfestingar hins opinbera og þá sérstaklega ríkisins. Afleiðingin er sú að erfitt er að átta sig á fjárfestingarþörf í innviðum samfélagsins á komandi árum. Við vitum að ráðist verður í að byggja nýjan Landspítala, við höfum óljósari hugmyndir um hvað gera á í samgöngumálum á næstu 5-10 árum eða hvernig og hvaða fjárfestingar eru nauðsynlegar í menntakerfinu. Þannig má lengi telja.

Um það er ekki deilt að það er skynsamlegt að agi ríki í fjármálum ríkisins. Fjármálastefna og fjármálaáætlun geta verið góð verkfæri til þess. Þau ein og sér duga hins vegar ekki og allra síst ef ekkert heildstætt yfirlit er til yfir þær innviðafjárfestingar sem stefnt er að. Almenn markmið um fjárfestingar sem hlutfall af vergri landsframleiðslu duga hér ekki.

Þótt ekki liggi fyrir áætlun um fjárfestingar hafa verið gerðar tilraunir til að meta þörfina. Að lágmarki er þörfin 500 milljarðar næsta áratuginn en líklega nær 700 milljörðum, eða tæplega 30% af áætlaðri vergri landsframleiðslu á síðasta ári. Mikil þörf á fjárfestingum skýrist m.a. af uppsafnaðri þörf, þar sem fjárfestingum hefur ekki verið sinnt í mörg ár. Innviðirnir eru farnir að láta á sjá, eins og allir þekkja af eigin raun. Leiða má að því rök að uppsöfnuð þörf sé mest í heilbrigðiskerfinu (m.a. nýr Landspítali og hjúkrunarheimili) og í vegakerfinu, sem ekki hefur verið haldið við né byggt upp þrátt fyrir að umferð hafi aukist gríðarlega.

Áhersla á lækkun skulda

Í fjármálastefnu ríkisstjórnarinnar er gert ráð fyrir að í árslok verði heildarskuldir ríkissjóðs 31% af vergri landsframleiðslu og lækki á komandi árum. Stefnt er að því að skuldirnar verði 21% af landsframleiðslu í lok árs 2022. Þessum árangri ætlar ríkisstjórnin að ná með afgangi af rekstri ríkissjóðs, stöðugleikaframlögum og sölu eigna og/eða arðgreiðslum, eða eins og segir í fjármálaáætlun:

„Auk þess er gengið út frá því að farið verði í sölu á eignarhlutum í fjármálafyrirtækjum eða gerðar verði aðrar ráðstafanir, sem skili 140 ma. kr. auknum tekjum á tímabili áætlunarinnar, sem dreifast jafnt á fjögur ár, 2018-20221. Þær ráðstafanir geta einnig verið í formi óreglulegra arðgreiðslna, s.s. vegna lækkunar eiginfjár bankanna.“

Í fjármálastefnu ríkisstjórnarinnar segir að „óreglulegu og einskiptis fjárstreymi í ríkissjóð verði varið til að hraða enn frekar niðurgreiðslu skulda eða til lækkunar á ófjármögnuðum lífeyrisskuldbindingum í því skyni að treysta fjárhagsstöðu ríkissjóðs og draga úr vaxtakostnaði“.

Almenningur á mikið undir – ekki síst ungt fólk – að skuldir ríkisins lækki á komandi árum. Með minnkandi vaxtabyrði eykst styrkur ríkissjóðs til að sinna grunnþjónustu og um leið lækka skatta á launafólk. En með sama hætti og lægri skuldir bæta hag almennings skiptir miklu að innviðir séu byggðir upp og stoðir hagvaxtar í framtíðinni styrktir. Lækkun skulda má aldrei verða á kostnað nauðsynlegra og arðbærra fjárfestinga í innviðum. Slíkt er hagfræði mannsins sem var upptekinn af því að spara aurana en kasta krónunum.

Umbreyting eigna

Einörð stefna ríkisstjórnarflokkanna að nýta einskiptistekjur til að lækka skuldir kemur ekki í veg fyrir að tekin sé ákvörðun um að breyta nýtingu eigna. Færa eigið fé sem er bundið í ákveðnum eigum yfir í aðrar eignir sem við teljum mikilvægari fyrir samfélagið. Þetta á t.d. við um Flugstöð Leifs Eiríkssonar.

Við sem sitjum á Alþingi og tökum afstöðu til fjármálaáætlunar ríkisstjórnarinnar til næstu fimm ára hljótum að velta því fyrir okkur hvort skynsamlegt sé að ríkið – í gegnum Isavia – haldi áfram að binda fé í Flugstöð Leifs Eiríkssonar (að ekki sé talað um gríðarlegar fjárfestingar sem eru fyrirhugaðar) eða hvort ekki sé rétt að færa fjármunina og setja í önnur samgöngumál.

Hægt er að orða þetta þannig:

Selja á flugstöðina og nýta þá fjármuni sem losna til að ráðast í nauðsynlegar framkvæmdir í samgöngum – í vegi, brýr, göng, hafnir og innanlandsflugvelli.

Með sölunni losar ríkissjóður tugi milljarða sem eyrnamerktir verða umbótum og uppbyggingu í samgöngum um allt land. Þessir fjármunir bætast við það sem ætlað er til árlegrar fjárfestingar í samgöngum á komandi árum samkvæmt fjármálaáætlun, þar á meðal smíði nýrrar Vestmannaeyjaferju og Dýrafjarðargöng.

Sá er þetta skrifar er sannfærður um að hagsmunum almennings og fyrirtækja er betur borgið með því að nýta fjármuni í umfangsmiklar umbætur í samgöngum en að binda þá í flugstöð, sem aðrir en ríkið eru betur færir um að reka.

Um leið og Alþingi markar stefnuna til næstu fimm ára í opinberum fjármálum er nauðsynlegt að fram fari umræða og athugun á því hvort og þá hvernig nýting eigna ríkisins þjóni hagsmunum landsmanna best. Alveg með sama hætti og almenningur gerir þá eðlilegu kröfu til fjárveitingavaldsins að dýrmætum skatttekjum sé vel varið er ætlast til þess að bundnir fjármunir séu nýttir í það sem mikilvægast er.

Share
Share

Written by:

View All Posts
Follow Me :