Bjart yfir Íslandi

Fjölmiðlar eru ekki og hafa aldrei verið uppteknir af því sem vel er gert. Þetta á jafnt við um íslenska fjölmiðla sem fjölmiðla í öðrum löndum. Það eru helst afrek á sviði íþrótta sem vekja áhuga. Á stundum njóta framúrskarandi listamenn kastljóssins. Af og til, en þó aðeins í stutta stund, beinist athygli fjölmiðlunga að fjölbreytileika mannlífsins og kynlegum kvistum sem krydda tilveruna.

Það er eðli fjölmiðla að beina sjónum sínum að því sem miður fer – að hinu afbrigðilega fremur en hinu hefðbundna. Það er ekki frétt að hundur bíti mann, en það er frétt að maður bíti hund. Þetta er gömul þumalputtaregla sem allir læra þegar þeir stíga sín fyrstu skref í blaða- og fréttamennsku.

Almenningur ætlast til að fókus fjölmiðla sé á hið óvenjulega, á spillingu og glæpi, á stríð, óveður og slys. Hinn venjubundni gangur hversdagsins er ekki frétt og verður aldrei frétt. Við höfum meiri áhuga á ríka og fræga fólkinu (jafnvel fólkinu sem er aðeins frægt fyrir að vera frægt), en skemmtilegu og uppbyggilegu starfi í félagsmiðstöðvum um allt land. Og dauðinn er meira spennandi en lífið sjálft.

Brengluð mynd

Það er ekki vegna sinnuleysis fjölmiðla sem almenningur fær litlar fréttir af því sem vel er gert í heilbrigðiskerfinu. Fátt þykir sjálfsagðara en að læknar og hjúkrunarfræðingar bjargi lífi á hverjum degi. En þegar eitthvað fer úrskeiðis, mistök eiga sér stað, eru fjölmiðlar mættir á staðinn. Brotalamir í heilbrigðiskerfinu vekja áhuga fjölmiðla og þeir væru að bregðast skyldu sinni ef þeir greindu ekki frá þeim skilmerkilega. Hættan er hins vegar sú að almenningur fái brenglaða mynd af raunveruleikanum, þegar aðeins hið neikvæða er dregið fram en hið jákvæða – góð öflug heilbrigðisþjónusta – er aukaatriði og fellur í skuggann.

Myndin sem dregin er upp í fjölmiðlum verður oft dekkri og verri en veruleikinn. Mannleg forvitni og eðli fjölmiðla gerir það að verkum. Manngæska þykir yfirleitt ekki sérlega gott efni í frétt en ofbeldi vekur athygli. Þurrar tölur um gang efnahagsmála eru leiðinlegar. Efnisinnihald skýrslu er aukaatriði en dagsetningar aðalatriði. Ágreiningur er fréttnæmari en samstaða og samvinna.

Skoðanir vekja meiri athygli og fá meira pláss á síðum dagblaða og lengri tíma í ljósavaka en staðreyndir. Auðvitað eru skoðanir oft fréttnæmar, ekki síst ef áhrifafólk setur þær fram. En skoðanir eru eitt og staðreyndir annað. Í fjölmiðlun samtímans þurrkast mörkin oft út, staðreyndir víkja fyrir skoðunum sem matreiddar eru líkt og um algild sannindi sé að ræða.

Í trausti þess að fjölmiðlungar veiti staðreyndum litla athygli en skoðunum þeim mun meiri eru stjórnmálamenn yfirlýsingaglaðir og áhyggjulitlir. Þurrar og leiðinlegar tölulegar staðreyndir eru sjaldan dregnar fram í dagsljósið. Haldi stjórnmálamaður því fram að skuldir ríkissjóðs séu ekki mikið áhyggjuefni er ólíklegt að bent verði á að skuldir og skuldbindingar ríkissjóðs séu um 1.970 milljarðar króna eða um 85% af landsframleiðslu. Jafngildi þess að hver fjögurra manna fjölskylda skuldi tæpar 24 milljónir króna.

Ekki spennandi

Það á því ekki að koma á óvart að jákvæðar hagtölur þyki ekki spennandi eða fangi ekki hug fjölmiðlunga. Endurskoðuð þjóðhagsspá Hagstofunnar, þar sem fram kemur að vöxtur efnahagslífsins er meiri en áður var talið, verður líkt og neðanmálsgrein, í flóði frétta sem reynt er að matreiða fyrir almenning.

Á mælikvarða landsframleiðslu var hagvöxtur á liðnu ári 5,9% en áður hafði Hagstofan talið að vöxturinn hefði verið 4,8%. Fjárfesting var meiri en reiknað var með. Gríðarleg umsvif í þjóðbúskap Íslendinga, með miklum vexti einkaneyslu, fjárfestinga og utanríkisverslunar, þykja lélegt fréttaefni. Alveg með sama hætti og það eru lítil tíðindi að verðbólga hafi í þrjú ár verið undir markmiði Seðlabankans.

Launavísitalan heldur áfram að hækka og kaupmáttur launa hækkaði um 7,1% á síðasta ári. Frétt? Tæplega nema þá helst í gúrkutíð. Lítið atvinnuleysi er ekki frásagnarvert. Að fjöldi starfandi hafi verið 8.500 fleiri á fjórða ársfjórðungi síðasta árs en á sama tíma 2015, telst ekki til tíðinda.

Fyrstu árin eftir hrun fjármálakerfisins voru fjölmiðlar sæmilega duglegir við að greina frá „flótta“ frá landinu. Íslendingar leituðu sér að vinnu í öðrum löndum og margir erlendir ríkisborgarar sem voru hér búsettir ákváðu að yfirgefa landið. Þróunin hefur snúist við og fjölmiðlar verða áhugalitlir.

Fjöldi aðfluttra erlendra ríkisborgara umfram brottflutta var 4.090 á liðnu ári. Árið 2012 var munurinn 680. Uppsafnaður fjöldi aðfluttra umfram brottflutta er 11.170 á árunum 2012 til 2016. Hagstofan bendir á að þátttaka útlendinga í íslenskum vinnumarkaði sé lykilatriði í að mæta vaxandi eftirspurn eftir vinnuafli, en þessi ár fjölgaði starfandi um 23.300.

Afgangur af ríkissjóði er sjálfsagður og fjölmiðlar láta þess getið – svona í framhjáhlaupi – að lánshæfi ríkisins hafi batnað. Matsfyrirtækið Fitch Ratings telur horfur fyrir lánshæfiseinkunnir ríkissjóðs jákvæðar og Standard & Poor’s hækkaði nýlega lánshæfiseinkunnina fyrir langtímaskuldbindingar í A- úr BBB+.

Birtan yfir Íslandi þykir ekki lengur frásagnarverð – ekki frekar en það sem er gengið er út frá sem sjálfsögðum hlut eða er hversdagslegt. Kannski er það jákvæðasta fréttin en hún er ekki sögð.

Share