Teikniborð samfélagsverkfræðinga og teknókrata

„Það er jafnauðvelt að blekkja sjálfan sig án þess að taka eftir því og það er erfitt að blekkja aðra svo þeir komist ekki að því.“

Francois de la Rochefoucauld

Þeir segjast vera frjálslyndir, umburðarlyndir og ekki síst þess vegna víðsýnni en aðrir. En í öllu sínu umburðarlyndi virðast margir þeirra hafa litla eða enga þolinmæði fyrir öðrum skoðunum. Í nafni frjálslyndis er leitað á náðir samfélagsverkfræðinnar og stjórnlyndis. Í víðsýni eru boðaðar töfralausnir.

Góðhjartaðir stjórnmálamenn hafa alltaf verið tilbúnir til þess að beita ríkisvaldinu – setja lög og reglur – til að leysa vandamál sem þeir telja að séu til staðar. Í góðmennsku sinni eru þeir sannfærðir um nauðsyn þess að hafa vit fyrir samborgurum sínum, sem vita ekki hvað þeim er fyrir bestu.

Velviljaðir stjórnmálamenn, sem sveipa sig skikkju frjálslyndis, eru tilbúnir til þess að ganga gegn einföldum lögmálum hagfræðinnar og beita til þess ríkisvaldinu. Þeir berjast gegn því að „frumskógarlögmál“ markaðarins fái að ráða. Þess vegna vilja þeir t.d. setja þak á húsaleigu og skýrar reglur um verðhækkun. Tilgangurinn er göfugur; að verja hag leigjenda. Afleiðingin verður hins vegar verri en vandinn sem glímt er við. Framboð dregst saman – íbúðum sem boðnar eru til leigu fækkar, neðanjarðarhagkerfi verður til og staða leigjenda versnar. Lögmál hagfræðinnar verða ekki tekin úr sambandi af stjórnmálamönnum frekar en þyngdarlögmálið.

Þeir sem benda á að skortur og svartamarkaður séu afleiðing hafta og verðlagsþvingana, sitja undir ásökunum um að vera annaðhvort eða hvort tveggja þröngsýnir afturhaldsseggir eða nýfrjálshyggjumenn sem standa vörð um „frumskógarlögmál“ markaðarins. Og guð forði nokkrum frá því að benda á að vandinn á húsnæðismarkaði sé að stórum hluta búinn til af stjórnmálamönnunum sjálfum sem með lóðaskorti og reglugerðum hafa komið í veg fyrir að eðlilega verðmyndun á leigumarkaði.

Úr jafnvægi vegna efasemda

Góðhjartaðir stjórnmálamenn eru gjarnir á að tala hátt og snjallt um eigið frjálslyndi og umburðarlyndi. En þegar upp er staðið eru þeir í raun aðeins teknókratar – samfélagsverkfræðingar sem eru sannfærðir um að hægt sé að leysa flest viðfangsefni þjóðar við skrifborðið, í töflureikni og reiknilíkönum. Teikniborð teknókratans er allt samfélagið. Í huga samfélagsverkfræðingsins er honum ekkert mannlegt óviðkomandi. Vandamál, raunveruleg og huglæg, eru hans ær og kýr. Stjórnlyndi er honum í blóð borið.

Fátt kemur samfélagsverkfræðingum meira úr jafnvægi en efasemdir um að vandi sem þeir hafa dregið upp á teikniborð sín, sé til staðar eða hann sé jafn mikill og þeir hafa sannfærst um. Nýlegt dæmi um þetta er launamisrétti kynjanna og umræða um nauðsyn þess að lögþvinga fyrirtæki til jafnlaunavottunar.

Einar Steingrímsson, stærðfræðiprófessor við Strathclyde-háskóla í Skotlandi, heldur því fram að engin áreiðanleg gögn sýni fram á að kynbundinn launamunur sé til staðar á Íslandi. „Allar kannanir stéttarfélaga sem ég hef séð síðustu árin eru algjörlega marklausar,“ sagði Einar í samtali við mbl.is. Helgi Tómasson, prófessor í tölfræði við Háskóla Íslands, benti á í viðtali við Morgunblaðið að skýringin á því að óútskýrðan launamun væri að finna í rannsóknum á launum kynjanna, væri að alltaf væri verið að gera sömu villuna:

„Það er ekki verið að margendurtaka rannsóknir, það er verið að margendurtaka sömu vitleysuna.“

Þessum efasemdum Einars og Helga er svarað með þjósti. Kristín Ástgeirsdóttir, framkvæmdastýra Jafnréttisstofu, vísar til þess að Evrópusambandið hafi komið sér saman um ákveðna aðferðarfræði:

„Vita þessir spekingar, þeir Einar og Helgi, meira en þessir hagfræðingar og tölfræðingar sem hafa komið sér saman um þessa aðferðafræði?“

Þannig er gagnrýnendurnir afgreiddir af samfélagsverkfræðingunum. Efnisleg umræða er þeim lítt að skapi. Andstæðum sjónarmiðum og skoðunum er mætt með tilraunum til að gera lítið úr einstaklingum, skiptir engu hvort um er að ræða viðurkennda fræðimenn eða stjórnmálamenn.

Hér verður það látið liggja á milli hluta hve öfugsnúið það er að boða aukin afskipti ríkisins í nafni frjálslyndis og leggja íþyngjandi kvaðir á fyrirtæki til að leysa vanda og misrétti, sem enginn veit hversu mikið er í raun eða hvort það er fyrir hendi.

Lögin skýr

Stjórnarskrá dugar ekki velviljuðum stjórnmálamönnum en í 65. grein segir að allir „skulu vera jafnir fyrir lögum“ og að konur og karlar „skulu njóta jafns réttar í hvívetna“. Skýr ákvæði laga jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla, virðast gagnslítil í höndum samfélagsverkfræðinganna. „Konum og körlum er starfa hjá sama atvinnurekanda skulu greidd jöfn laun og skulu njóta sömu kjara fyrir sömu eða jafnverðmæt störf,“ segir meðal annars í 19. grein laganna og í 25. grein segir að atvinnurekendum sé „óheimilt að mismuna konum og körlum í launum og öðrum kjörum á grundvelli kyns“. Í sömu grein segir einnig:

„Ef leiddar eru líkur að því að kona og karl sem starfa hjá sama atvinnurekanda njóti mismunandi launakjara fyrir sömu eða jafnverðmæt störf skal atvinnurekandi sýna fram á, ef um launamun er að ræða, að munurinn skýrist af öðrum þáttum en kyni.“

Í 31. grein sömu laga segir:

„Sá sem af ásettu ráði eða vanrækslu brýtur gegn lögum þessum er skaðabótaskyldur samkvæmt almennum reglum. Enn fremur má dæma hlutaðeigandi til að greiða þeim sem misgert er við, auk bóta fyrir fjártjón ef því er að skipta, bætur vegna miska.“

Brot gegn lögunum og reglugerðum geta samkvæmt 31. grein „varðað sektum nema þyngri refsing liggi við samkvæmt öðrum lögum,“ en þar segir einnig að með „mál er varða brot á lögum þessum eða reglugerðum settum samkvæmt þeim fer að hætti [laga um meðferð sakamála]“.

Það er Jafnréttisstofa sem skal hafa eftirlit með framkvæmd laganna og er stofnunum, fyrirtækjum og félagasamtökum skylt að veita henni hvers konar almennar upplýsingar sem nauðsynlegar eru starfsemi hennar. Jafnréttisstofa hefur heimild til að beita dagsektum ef umbeðnar upplýsingar eru ekki veittar.

Verkfærin eru því til staðar til að berjast gegn misrétti á vinnumarkaði. Stjórnarskrá og lög eru skýr. En í hugarheimi samfélagsverkfræðinganna dugar það ekki til. Nauðsynlegt er að hafa endaskipti á hlutunum og láta hina „kaldlyndu“ atvinnurekendur sanna með lögþvingaðri jafnlaunavottun að farið sé að lögum og stjórnskrá.

Hvar næst verður borið niður þegar þess er krafist að einstaklingar og fyrirtæki sanni að farið sé að lögum, veit ekki sá er hér skrifar. Reglum réttarríkisins verður hins vegar reynt að fórna á fleiri sviðum.

Share