Þegar sængað er með lygum, dylgjum og hálfsannleika

Í löngun sinni til að koma höggi á pólitískan andstæðing hafa sumir, sem ekki eru sérstaklega vandir að virðingu sinni, talið sjálfsagt að setja fram staðlausa stafi, búa til fullyrðingar og hagræða staðreyndum. Aldrei bjóst ég við því að Sighvatur Björgvinsson, fyrrverandi þingmaður og ráðherra, væri í flokki þeirra sem tilbúnir eru að fórna jafnt sanngirni og því sem rétt er á altari lágkúru og lítilmennsku.

Við Sighvatur höfum ekki verið samferða í pólitík, en ég kunni að meta hann sem harðan baráttumann fyrir hugsjónum jafnaðarmennskunnar – hugsjónum kratanna í Alþýðuflokknum sem Samfylkingin ákvað að fórna með skelfilegum afleiðingum. Á þingi og sem ráðherra var Sighvatur harður baráttumaður fyrir stefnu Alþýðuflokksins – oft óvæginn, stundum ósvífinn en aldrei man ég eftir að hann beitti blekkingum og hreinum ósannindum. Ekki síst þess vegna kunni ég að meta stjórnmálamanninn Sighvat.

Í pistli sem birtist á Eyjunni, reiðir Sighvatur hátt til höggs. Nú skal lamið á Óla Birni Kárasyni, þingmanni Sjálfstæðisflokksins. Í fyrstu setningu segir Sighvatur:

„Óla Birni, alþingismanni Sjálfstæðisflokksins, þykja refsiverð ummæli um forseta Bandaríkjanna, Donald Trump, þegar hann var sagður vera fasisti.“

Það er nöturlegt hve Sighvatur leggst lágt. Ég hef aldrei haldið því fram að það eigi að vera refsivert að kalla Donald Trump fasista. Aldrei. Þetta veit Sighvatur en það skiptir hann engu. Hann vill fremur hafa það sem betur hljómar en það sem rétt er og satt.

En ég hef leyft mér að gera athugasemdir við þá sem halda því fram að forseti Bandaríkjanna sé fasisti og að bandarískt stjórnvöld séu fasísk. Ég hef gagnrýnt orð og orðanotkun og haldið því fram að hún þjóni engum tilgangi og sé röng. Það sem mér finnst verst er að með því er verið að drepa umræðuna í stað þess að takast á við hana efnislega – því það veit sá er allt veit að rök þeirra sem gagnrýna Trump eru sterk.

Aldrei, hvorki beint eða óbeint, hef ég haldið því fram að gera eigi ummælin refsiverð. Þetta veit Sighvatur, en það skiptir hann engu. Og það skal viðurkennt að mér sárnar að maður, sem ég taldi vera dreng góðan, skuli leggjast latur niður í lágkúru og ódrengskap.

, eru þeir tilbúnir til að fórna öllu, þar með merkilegum stjórnmálaferli. Það er dapurlegt. Og það skal játað að það er erfitt viðurkenna  að álit mitt á stjórnmálamanninum Sighvati Björgvinssyni, virðist hafa verið byggt á sandi.

Dylgjur og ósannindi Sighvats Björgvinssonar breyta ekki staðreyndum. Ég hef gagnrýnt Donald Trump og það meira og oftar en gamli kratinn sem nú stekkur allt í einu fram. Ólíkt Sighvati hef ég t.d. gagnrýnt opinberlega tilskipun Bandaríkjaforseta um að meina fólki frá ákveðnum löndum að heimsækja Bandaríkin. Ólíkt Sighvati tók ég til máls – löngu áður en repúblikanar útnefndu Trump sem forsetaefni og skrifaði í mars 2016:

„Með sérlega snjöllum hætti hefur Trump nýtt sér lýðskrum og spilað á lægstu hvatir kjósenda.“

Ekki veit ég til þess að Sighvatur Björgvinsson tæki undir með mér.

Kannski ætti Sighvatur Björgvinsson að lesa greinina sem birtist í Morgunblaðinu 23. mars á liðnu ári undir yfirskriftinni: „Íhaldsmaðurinn með blæðandi hjarta.“ Þar fjallaði ég ógöngur Repúblikanaflokksins og hversu langt flokkurinn hefði færst frá hugmyndafræði sem Jack Kemp barðist fyrir. Þar sagði meðal annars:

„Jack Kemp var maður drenglyndis í stjórnmálum. Hann taldi sig eiga pólitíska andstæðinga en enga pólitíska óvini. Í hverjum andstæðingi sá hann mögulega bandamenn og var óhræddur við að hrósa demókrötum og eiga við þá samvinnu til að vinna að hagsmunum almennings.

Ronald Reagan og Jack Kemp sannfærðu samherja sína í Repúblikanaflokknum um að með bjartsýni á efnahagslega framtíð væri hægt að ná eyrum og stuðningi kjósenda sem áður höfðu fylgt demókrötum að málum – allt frá verkamönnum til minnihlutahópa, frá fátækum fjölskyldum stórborganna til millistéttarinnar.

Kemp átti sér þann draum að rífa fjölskyldur úr fátæktargildru stórborganna. Sem húsnæðismálaráðherra 1989-1993 lagði hann áherslu á ódýrt húsnæði, að félagslegar íbúðir væru undir stjórn íbúanna sjálfra og að þeir ættu möguleika á að eignast húsnæðið.

Kemp var „góði hirðirinn“ og var umhugað um að hjálpa þeim sem villast af leið eða glíma við erfiðleika. Hann var óþreytandi að minna flokkssystkini sín á skyldur þeirra að vinna að almannaheill og huga sérstaklega að minnihlutahópum, láglaunafólki og þeim sem orðið hafa undir í lífsbaráttunni. Hann taldi að hver og einn hefði skyldur gagnvart náunganum.“

Síðan skrifaði ég:

„Donald Trump er andstæða alls þess sem Jack Kemp stóð fyrir. Í hugmyndabaráttunni spilaði Kemp aldrei á lægstu hvatir mannlegra tilfinninga. Þvert á móti. Hann blés bjartsýni í brjóst almennings – hann vildi gefa einstaklingum tækifæri með lágum sköttum og takmörkuðum ríkisafskiptum um leið og þeir axla ábyrgð, ekki aðeins á eigin gjörðum heldur ekki síður gagnvart öðrum með því að rétta þeim hjálparhönd sem á þurfa að halda.

Jack Kemp lést árið 2009. Hann var og er holdgervingur hins ástríðufulla íhaldsmanns þar sem hugsjónir hægri manns eru ofnar saman við mannúð og samkennd. Engan skal undra þótt margir repúblikanar spyrji hvar arftaki hans sé niðurkominn.“

En auðvitað skiptir engu hvað ég hef sagt og skrifað. Tilgangurinn helgar meðalið. Í huga Sighvats Björgvinssonar er það fullkomið aukaatriði þótt fáir hafi gangrýnt Donald Trump meira hér á Íslandi í skrifum og orðum en sá er þetta skrifar. Málstaðurinn krefst þess að virða staðreyndir að vettungi.

Allir þeir sem ákveða að taka þátt í stjórnmálum og sækjast eftir því að vera fulltrúar kjósenda á Alþingi eða í sveitarstjórnum, þurfa að sætta sig við athugasemdir, gagnrýni og jafnvel illmælgi og dylgjur. Það er eðlilegur en ekki alltaf sanngjarn hluti af starfi stjórnmálamannsins. Undan þessu get ég ekki vikist frekar en aðrir. En það breytir ekki því að það er sárt að þurfa að sitja undir dylgjum og ósannindum frá manni sem ég hélt að væri drengur góður.

 

 

 

Share