Bankar og almenningur

Bankar og almenningur

Þeir sem hafa látið sig dreyma um að almenningur fái að njóta með beinum hætti þess mikla virðisauka sem orðið hefur í íslensku bankakerfi á undanförnum árum, geta verið vongóðir um að draumurinn rætist. Í stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnar Sjálfstæðisflokks, Viðreisnar og Bjartrar framtíðar, eru gefin fyrirheit um almenningsvæðingu bankakerfisins. Með almenningsvæðingu eykst aðhald að fjármálakerfinu, tortryggni minnkar, hlutabréfamarkaður styrkist og eignastaða heimilanna styrkist enn frekar.

Í stefnuyfirlýsingunni segir að til langs tíma litið sé ekki „ákjósanlegt að ríkið fari með meirihlutaeign í viðskiptabönkum“. Þess vegna sé mikilvægt að minnka hlut ríkisins „í varfærnum skrefum og víðtækri sátt“. Síðan segir:

„Áhersla verði lögð á opið og gagnsætt ferli þar sem gætt verður að sem mestri dreifingu eignarhalds. Í því augnamiði verði stefnt að því að almenningur geti fengið tiltekinn eignarhlut afhentan endurgjaldslaust.“

Hugmynd Bjarna Benediktssonar

Ætlun ríkisstjórnarinnar er því skýr; að tryggja almenningi beinan eignarhlut í bönkunum. Þetta er í samræmi við hugmynd Bjarna Benediktssonar forsætisráðherra, sem hann setti meðal annars fram í ræðu á landsfundi Sjálfstæðisflokksins árið 2015. Í aðdraganda kosninganna í október síðastliðnum tók flokksráðsfundur Sjálfstæðisflokksins undir í stjórnmálaályktun:

„Við viljum almenningsvæða banka. Rétt er að almenningur fái drjúgan hlut eignar sinnar milliliðalaust í hendur samhliða skráningu bankanna á markað.“

Nær undantekningalaust urðu allir fyrir miklum búsifjum við fall bankanna í október 2008 – ríkið sem sameiginlegur sjóður okkar allra, heimilin og fyrirtækin. Með neyðarlögum ríkisstjórnar Geirs H. Haarde var lagður grunnur að endurreisn fjármálakerfisins og einörð stefna ríkisstjórnar Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks á síðasta kjörtímabili, gagnvart þrotabúum bankanna, varð árangursríkari en nokkur gat vonað. Stöðugleikaframlög hafa gjörbreytt stöðu ríkissjóðs og hafa samhliða gríðarlegri virðisaukningu og góðri afkomu bankanna, gert það raunhæft að almenningur fái, án endurgjalds, hluta af eignum sínum til baka – eignina í bönkunum.

320 milljarða aukning

Ég fjallaði sérstaklega um almenningsvæðingu bankanna í tveimur greinum hér í Morgunblaðinu á liðnu ári. Þar var því haldið fram að það væri „sanngjarnt að almenningur fái að njóta með beinum hætti þeirrar verðmætaaukningar sem orðið hefur innan veggja bankanna“ á undanförnum árum. Stór hluti virðisaukningarinnar er vegna endurmats á eignum – útlánum og eignum sem tekin voru yfir.

Frá árslokum 2009 til loka þriðja ársfjórðungs á liðnu ári hækkaði eigið fé bankanna þriggja samtals um tæplega 320 milljarða króna. Á sjö árum nær tvöfaldaðist eigið fé bankanna. Þetta jafngildir nærri einni milljón króna á hvern Íslending. Með því að afhenda almenningi tiltekinn hlut í bönkunum er aðeins verið að tryggja að heimilin fái sinn skerf í þeirri gríðarlegu aukningu verðmæta sem átt hefur sér stað.

Ríkissjóður á nær allt hlutafé Landsbankans, allt hlutafé Íslandsbanka og 13% hlut í Arion banka. Stefnuyfirlýsing ríkisstjórnarinnar ber þess merki að stigið verður gætilega niður við að minnka eignarhlut ríkisins í bönkunum. Hvenær hafist verður handa liggur ekki fyrir né heldur hvenær og þá hversu stór hluti verður afhentur almenningi endurgjaldslaust.

Miðað við bókfært eigið fé bankanna í lok september síðastliðins væri 5% hlutdeild almennings nær 33 milljarðar og 10% helmingi meira eða 66 milljarðar króna. 20% hlutur í Landsbanka og Íslandsbanka og 13% hlutur (öll eign ríkisins) í Arion eru liðlega 117 milljarðar. Raunvirðið er hins vegar nokkuð lægra en aðeins tíminn og skráning bréfa á markaði leiðir raunvirðið í ljós.

Kvaðir á bréfin

Líkt og ég hef áður bent á er eðlilegt að setja kvaðir á hlutabréfin. Eiga verður hlutabréfin í 3-5 ár, en skynsamlegt kann að vera að heimila einstaklingum að selja bréfin ef keypt eru önnur skráð hlutabréf fyrir sömu fjárhæð. Að öðrum kosti er söluverðið skattlagt sem launatekjur. Eldri borgarar gætu hins vegar selt hlutabréfin hvenær sem er eftir að farið er á eftirlaun og á söluverðmætið ekki að skerða ellilífeyrisgreiðslur eða önnur réttindi.

Reynsla fyrri ára sýnir að samhliða sölu á hlutabréfum, skráningu þeirra á markað og almenningsvæðingu, er nauðsynlegt að setja skorður við eignarhald, þannig að tengdir aðilar geti aldrei farið með meira en 10-15% hlutafjár. Með því verður tryggt dreift eignarhald.

Ekki er við öðru að búast en að reynt verði að gera almenningsvæðingu bankanna tortryggilega. Þeir eru margir ríkisrekstrarsinnarnir sem þó eru pólitískir afkomendur þeirra sem stóðu að fyrstu einkavæðingu fjármálakerfisins með sölu á Útvegsbankanum árið 1990. Þá sat að völdum vinstri stjórn – samsteypustjórn Framsóknarflokks, Alþýðubandalags, Alþýðuflokks og Borgaraflokks. Sú stjórn lagði lítið upp úr því að tryggja dreift eignarhald.

Með því að „almenningur fái drjúgan hlut eignar sinnar milliliðalaust í hendur“ öðlast tugþúsundir rétt til þess að sækja hluthafafundi, leggja þar fram spurningar fyrir stjórn og helstu stjórnendur, hafa áhrif á stefnu viðkomandi banka og kjósa í stjórn. Aðhaldið eykst og hluthafafundir bankanna verða opinn vettvangur almennings til að láta til sín taka. Fátt mun auka meira traust á íslensku fjármálakerfi. Almenningsvæðing bankanna getur orðið forskrift að því að lýðræðisvæða lífeyrissjóðina og tryggja sjóðsfélögum þann sjálfsagða rétt að kjósa stjórnir þeirra með beinum hætti og móta stefnu sjóðanna.

Share
Share

Written by:

View All Posts
Follow Me :