Áskoranir nýrrar ríkisstjórnar

Áskoranir nýrrar ríkisstjórnar

Ný ríkisstjórn tekur við völdum í dag, ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks, Bjartrar framtíðar og Viðreisnar undir forystu Bjarna Benediktssonar.

Um það verður ekki deilt að ríkisstjórnin tekur við góðu búi. Ríkissjóður hefur verið rekinn með afgangi í tíð Bjarna Benediktssonar í fjármálaráðuneytinu, skuldir hafa verið greiddar niður, lífeyrisréttindi landsmanna jöfnuð og lagður grunnur að breyttum og heilbrigðari samskiptum milli aðila vinnumarkaðarins. Eignastaða heimilanna hefur styrkst, skuldir fyrirtækja lækkað og kaupmáttur aukist gríðarlega, hvort heldur mælt er í íslenskum krónum eða erlendum myntum. Aldrei hafa fleiri verið á vinnumarkaði. Á síðustu fjórum árum hefur störfum fjölgað um tæplega 22 þúsund.

Það er því bjart yfir þjóðarbúinu og tækifærin hafa sjaldan ef nokkru sinni verið meiri til að sækja fram, auka lífsgæði allra, jafnt í þéttbýli sem dreifbýli.

Strax í skotgrafirnar

Hveitibrauðsdagar ríkisstjórnarinnar verða hins vegar fáir ef nokkrir. Fjölmiðlar hafa þegar sett sig í stellingar – tónninn sleginn og það ætlar stjórnarandstaðan að nýta sér. Vinstrisinnaðir álitsgjafar boða stríð, líkt og Gísli Baldvinsson, sem hefur séð drauminn um að Samfylkingin yrði „turn“ í íslenskum stjórnmálum breytast í martröð. Hann skrifaði á bloggsíðu Stundarinnar síðastliðinn mánudag:

„Stórskotahríðin er eftir þegar málefnasamningur ríkisstjórnar verður kynntur. Hugsanlega loftárás einnig.“

Þeir sem hæst hafa talað um ný vinnubrögð, aukið og betra samtal og samvinnu á Alþingi hafa þegar grafið sér skotgrafir. Áður en ríkisstjórnin hefur formlega tekið við völdum boða Píratar Birgittu Jónsdóttur að hugsanlegt sé, til greina komi og ekki sé ólíklegt að þeir leggi fram vantraust á ríkisstjórnina þegar þing kemur saman síðar í þessum mánuði.

Einhverjir hafa samúð og jafnvel skilning á þessum viðbrögðum Pírata, sem eru í sárum. Þeim tókst ekki að mynda vinstristjórn fyrir kosningar. Þeir fóru með himinskautum í skoðanakönnunum í nokkurn tíma – voru taldir stærsti flokkur landsins og voru vinveittir erlendir blaðamenn boðaðir til landsins til að skrásetja glæsilegan kosningasigur í október og valdatöku Pírata í kjölfarið. Kjósendur voru á öðru máli og Sjálfstæðisflokkurinn vann kosningasigur og styrkti stöðu sína sem langstærsti flokkur landsins og leiðir nú ríkisstjórn. Fleiri en Píratar urðu fyrir vonbrigðum vegna þessa.

Eftir kosningar runnu tilraunir til að mynda fimm flokka vinstristjórn út í sandinn. Katrín Jakobsdóttir, formaður Vinstri grænna, reyndi en hafði ekki árangur. Birgitta fékk sjálf tækifæri með umboð frá forseta Íslands upp á vasann. Henni mistókst svo hrapallega að aldrei tókst að koma á formlegum viðræðum milli flokka.

Allt Katrínu að kenna?

Birgitta Jónsdóttir var með það á hreinu hver bæri ábyrgðina á að vinstristjórn varð ekki að veruleika; Vinstri græn undir forystu Katrínar Jakobsdóttur. Í samtali við Stundina 14. desember sagði leiðtogi Pírata:

„Mér sýnist nú, því miður, VG hafa ákveðið að taka sleggju og lemja sundur brúna sem við náðum að byggja á milli fólks.“

Í umræðum á Facebook-síðu Birgittu um áramótin tók gamall samherji hennar til máls. Þór Saari, frambjóðandi Pírata og fyrrverandi þingmaður Borgarahreyfingarinnar og Hreyfingarinnar, var síður en svo hress með fréttir um að hafnar væru viðræður milli Sjálfstæðisflokks, Bjartrar framtíðar og Viðreisnar um ríkisstjórn. Og auðvitað bar Katrín Jakobsdóttir ábyrgðina:

„Þessi hægri stjórn, langt, langt, langt til hægri er í boði Vinstri-grænna og þá sérstaklega Katrínar Jakobsdóttur. Það var meira að segja hálendisþjóðgarður í boði en VG sagði nei. Vinstri hvað? Grænt hvað? Megi þetta duglausa eiginhagsmunalið fara sömu leið og Samfylkingin í næstu kosningum.“

Almenningur jafnt sem stjórnarliðar hafa því fengið smjörþefinn af því hvernig Píratar ætla að haga störfum sínum á Alþingi á kjörtímabilinu. „Nýju vinnubrögðin“ hafa verið ákveðin og „samtalið“ verður markað upp- og úthrópunum. Það verður forvitnilegt að fylgjast með hvort og þá hvernig stjórnarandstöðunni tekst að stilla saman strengi sína í samvinnu við Pírata.

Skemmtilegur samkvæmisleikur

Milli þess að flytja neikvæðar fréttir af myndun nýrrar ríkisstjórnar undir forystu Sjálfstæðisflokksins hafa fjölmiðlar fremur verið uppteknir af skemmtilegum samkvæmisleik en efnisatriðum ríkisstjórnarsamstarfsins og þeim verkefnum sem fram undan eru. Hvaða ráðuneyti falla í hlut hvers stjórnarmálaflokks vekur meiri forvitni en stefna nýrrar ríkisstjórnar í skattamálum. Hvaða einstaklingar verða ráðherrar er fréttnæmara en hvernig staðið verður að uppbyggingu heilbrigðiskerfisins eða endurbótum í samgöngum. Hvort og þá hvernig ný ríkisstjórn ætlar að tryggja nauðsynlegt aðhald í ríkisfjármálum á sama tíma og ráðist er í nauðsynlega fjárfestingu í innviðum samfélagsins fær litla athygli.

Fáir leiða hugann að því hvernig ríkisstjórn þriggja flokka ætlar að tryggja samkeppnishæfni íslensks atvinnulífs á komandi árum, í ljósi hækkandi gengis krónunnar, of hárra vaxta Seðlabankans og hærri skatta á heimili og fyrirtæki en í flestum samkeppnislöndum. Skattbyrði á Íslandi, sem hlutfall af vergri landsframleiðslu, er sú þriðja þyngsta í Evrópu að teknu tilliti til lífeyris- og almannatrygginga. Slíkar staðreyndir eru helst ekki dregnar fram í dagsljósið – dagsetningar á skýrslu um aflandsfélög, sem unninn var að frumkvæði formanns Sjálfstæðisflokksins, eru taldar mikilvægari.

Ríkisstjórnarinnar bíða áskoranir, sumar erfiðari en aðrar. Íslendingar þekkja betur en flestar aðrar þjóðir að oft þarf sterk pólitísk bein til að nýta uppsveiflu og góðæri þannig að tækifærin glatist ekki. Og beinin þurfa að vera enn sterkari í þeim skotgrafahernaði sem þegar er hafinn í fjölmiðlum og boðaður hefur verið á þingi.

Share
Share

Written by:

View All Posts
Follow Me :