Tugmilljarða skattalækkun tryggð

Tugmilljarða skattalækkun tryggð

Þegar nýtt ár gengur í garð getur íslenskt launafólk fagnað áfangasigri. Milliþrep tekjuskatts fellur niður og skatthlutfall neðra þrepsins lækkar. Tekjuskattskerfið verður einfaldara og einstaklingar halda meiru eftir af því sem þeir afla. Um áramótin verður einnig stigið enn eitt skrefið við afnám tolla. Íslenskir neytendur munu njóta lægra vöruverðs með frjálsari utanríkisviðskiptum.

Eftir kosningarnar í október var ekki sjálfgefið að skattalækkanir og afnám tolla næðu fram að ganga. Fimm flokka vinstri bræðingur, allt frá Vinstri grænum til Viðreisnar, hefði snúið við þróuninni sem hófst árið 2013. Undir forystu Bjarna Benediktssonar, formanns Sjálfstæðisflokksins og fjármálaráðherra, hafa skattar og álögur á almenning og fyrirtæki verið lækkuð verulega. Tekjuskattur er lægri ekki síst hjá lágtekju- og millitekjuhópum, tryggingagjald er lægra, almenn vörugjöld hafa verið afnumin og nær allir tollar heyra sögunni til.

Vegna þeirrar stefnu í skattamálum sem ríkisstjórn Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks fylgdi verða álögur ríkisins um 33 milljörðum króna lægri á komandi ári en annars hefði verið. Ef tekið er tillit til þess að auðlegðarskatturinn – eignaskattur vinstri stjórnarinnar – rann sitt skeið á enda, er lækkunin enn meiri.

Boða hærri skatta

Á lokasprettinum við afgreiðslu fjárlaga 2017 voru felldar ýmsar tillögur um hækkun skatta og gjalda. Annars vegar voru þetta tillögur frá Vinstri grænum og hins vegar Pírötum.

Róttækustu tillögurnar um hækkun skatta voru í nafni Vinstri grænna og var formaðurinn Katrín Jakobsdóttir flutningsmaður. Hún átti stuðningsmenn í öðrum flokkum.

Katrín vildi hætta við að fella niður milliþrep í tekjuskatti, innleiða þrepaskiptan fjármagnstekjuskatt með 20% og 25% þrepum, endurvekja eignarskatt undir hatti auðlegðarskatts, setja komugjöld á farþega, hækka kolefnisgjald enn frekar og setja á sykurskatt. Tillögurnar fólu í sér róttækar skattkerfisbreytingar og verulega hækkun skatta. Þær voru lagðar fram daginn áður en gengið var frá fjárlögum og tekjuforsendum þeirra og voru ekki ræddar í þingnefnd. Katrín sætti að ósekju gagnrýni fyrir vinnubrögðin. Hún var „kosin á þing fyrir pólitískar skoðanir og væntanlega erum við öll hér þess vegna,“ svo vitnað sé til orða Katrínar. Tillögurnar voru því eðlilegar og í samræmi við grunnhugmyndir vinstri manna í öllum flokkum.

Tillögur um umfangsmiklar skattahækkanir og umræður um þær á síðustu dögunum fyrir jól, voru ekki aðeins gagnlegar heldur nauðsynlegar. Þær vörpuðu skýrara ljósi en áður á pólitíska hugmyndafræði einstakra flokka og þingmanna.

Í samræmi við bræðinginn

Formaður Vinstri grænna var ekki einn um að leggja fram hugmyndir um skatta. Smári McCarthy, þingmaður Pírata, var með breytingatillögur og vildi meðal annars hætta við eða fresta niðurfellingu milliþreps í tekjuskatti og lækkun skattprósentu á neðsta þrepið. Í atkvæðaskýringu Smára komu fram merkilegar upplýsingar en hann sagði meðal annars:

„Þessi tillaga kemur upp úr þeim stjórnarmyndunarviðræðum sem voru hér í gangi fyrir nokkrum vikum milli fimm flokka þar sem gengið var út frá því að reyna að afla tekna til að styrkja betur heilbrigðiskerfið. Þessi tiltekna breyting snýr að því að fresta niðurfellingu á milliskattþrepi og önnur sambærileg tillaga gengur út á að fresta lækkun á almennu skattþrepi, hvort tveggja til eins árs. Þetta er fyrst og fremst lagt fram til þess að sjá í raun hversu mikill áhugi var fyrir því að fara þessa leið.“

Smári taldi að tillagan væri gott veganesti fyrir næstu ríkisstjórn, en Píratar, Vinstri grænir, Viðreisn, Björt framtíð og Samfylking reyndu myndun fimm flokka stjórnar. Sú tilraun rann út í sandinn – með formlegum eða óformlegum hætti. En orð Smára í þingsal, sem enginn mótmælti, benda til að flokkarnir fimm hafi verið búnir að ná saman um stefnuna í tekjuskattsmálum einstaklinga.

Segir ekkert um afstöðuna

Þingmenn Viðreisnar greiddu atkvæði gegn tillögum Katrínar Jakobsdóttur en það gerðu þeir fremur vegna formsins en innihaldsins, ef marka má yfirlýsingu Benedikts Jóhannessonar, formanns Viðreisnar. Hann benti á að tillögurnar hafi ekki verið kynntar í efnahags- og viðskiptanefnd en mikilvægt sé að viðamiklar skattbreytingar „fái umfjöllun í þinginu, fái umfjöllun í nefndum“:

„Hér er verið að tala um afar viðamiklar breytingar sem þingmenn hafa mismunandi skoðun á, en miðað við þau vinnubrögð sem hér eru viðhöfð mun þingflokkur Viðreisnar greiða atkvæði gegn tillögunum. Það segir þó ekkert um afstöðu þingflokksins til ákveðinna þátta, heldur erum við hér að mótmæla þessum vinnubrögðum.“

Sigurður Ingi Jóhannsson, forsætisráðherra og formaður Framsóknarflokksins, skipaði sér einnig í sveit þeirra sem gætu stutt hærri skatta og þyngri álögur. Fram hafi komið tillögur, „sumar hverjar ágætar, sem við framsóknarmenn aðhyllumst mjög“ en „í ljósi þess að við ætlum að reyna að ljúka þessu hér saman munum við greiða atkvæði gegn þessum tillögum og vísa þeirri vinnu til ríkisstjórnar sem þarf að taka á málum er varðar ferðaþjónustuna og tekjuöflun fyrir ríkið í því þensluástandi sem við búum við í dag“. Óttarr Proppé, formaður Bjartrar framtíðar, var á svipuðum nótum fyrir atkvæðagreiðslu um tekjuöflun ríkissjóðs.

Ekki kemur á óvart að Samfylkingin reyni að vera samstiga Vinstri grænum í flestum málum, ekki síst skattamálum. Logi Einarsson, formaður flokksins, benti á við atkvæðaskýringu að flokkurinn hafi „barist fyrir því að hér sé settur á auðlegðarskattur“, það sé „réttlætismál að þau breiðu bök í samfélaginu beri meiri þunga“. Hann taldi sér hins vegar ekki fært að styðja tillögu Katrínar Jakobsdóttur þar sem ekki lægi fyrir „kostnaðargreining“ og ekki væri búið að útfæra skattatillögurnar „og ekki endilega nákvæmlega eins og við hefðum viljað gera þær“. Logi sat því hjá, líkt og helmingur þingflokks Pírata en hinn helmingurinn studdi að eignarskattur yrði lagður á að nýju – skattur sem lagðist sérstaklega þungt á eldri borgara og sjálfstæða atvinnurekendur.

Þegar farið er yfir orð og yfirlýsingar forystumanna þeirra stjórnmálaflokka sem eiga sæti á Alþingi, er merkilegt að tekist hafi að koma í veg fyrir hækkun skatta á komandi ári. Þar réð mestu skýr stefna, hugmyndafræði og vinnubrögð Bjarna Benediktssonar.

Share
Share

Written by:

View All Posts
Follow Me :