Eftirlitsstofnanir, kostnaður og útvistun verkefna

Um það verður ekki deilt að verulegar brotalamir hafa komið í ljós í eftirlitskerfi ríkisins. Nú síðast hjá Matvælastofnun [Mast]. Vegna þessa hef ég lagt fram fyrirspurnir til allra ráðherra, að undanskyldum utanríkisráðherra, um eftirlitsstofnanir á vegum þeirra ráðuneyta, árleg framlög ríkisins, sértekjur og heildarfjölda starfsmanna viðkomandi stofnana. Þá er beðið um upplýsingar um hvort eftirliti eða einstökum verkefnum eftirlitsstofnana hefir verið útvistað og hvort ráðherra hafi látið kanna kosti og galla þess að útvista starfsemi einstakra stofnana að hluta eða öllu leyti.

Fyrirspurnirnar eru allar samhljóða:

1.      Hvaða stofnanir ráðuneytisins sinna eftirliti, sbr. 1. gr. laga nr. 27/1999, um opinberar eftirlitsreglur?
2.      Hver hafa verið árleg framlög ríkissjóðs til hverrar stofnunar árin 2010–2016?
3.      Hverjar hafa verið árlegar sértekjur hverrar stofnunar árin 2010–2016?
4.      Hver var heildarfjöldi starfsmanna hverrar stofnunar í lok árs 2010 og árslok 2016?
5.      Hefur eftirliti eða einstökum verkefnum eftirlitsstofnana verið útvistað? Ef svo er, hverju hefur verið útvistað?
6.      Hefur ráðherra látið kanna kosti þess og galla að útvista starfsemi einstakra eftirlits­stofnana að hluta eða öllu leyti? Telur ráðherra að slík útvistun geti verið skynsamleg?

Fyrirspurnir til forsætisráðherra, fjármála- og efnahagsráðherra, innanríkisráðherra, félags- og húsnæðisráðherra, heilbrigðisráðherra, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, iðnaðar- og viðskiptaráðherra, mennta- og menningarmálaráðherra, umhverfis- og auðlindaráðherra,

Í pistli sem ég birti fyrir nokkru var fjallað um eftirlitsstofnanir og sagt meðal annars:

Að hugsanlegt sé að útvista matvælaeftirliti og auka ábyrgð kaupmanna og neytenda, er ekki meira rætt en snara í hengds manns húsi. Engu skiptir þótt við höfum ágæta reynslu af því að vista út nauðsynlegu eftirliti. Skoðunarstöðvar bifreiða eru ekki lengur á hendi ríkisins heldur í eigu einkaaðila sem keppast um að bjóða góða þjónustu og hagstætt verð. Enginn sem man eftir Bifreiðaeftirliti ríkisins lætur sig dreyma um að hverfa aftur til þess tíma, jafnvel ekki hörðustu vinstrimenn og talsmenn Stóra bróður þegja þunnu hljóði.

Síðar var fjallað um gríðarlega kostnaðar af eftirlitsiðnaðinum:

Í skýrslu sem Hagfræðistofnun Háskóla Íslands vann fyrir forsætisráðuneytið árið 2004 kom fram að áætlaður beinn árlegur kostnaður fyrirtækja við að framfylgja eftirlitsreglum væri um 7,2 milljarðar króna á verðlagi 2003. Kostnaðurinn er um 13,8 milljarðar á verðlagi 2016. Fjárhæðin er svipuð og ætlunin er að verja til löggæslunnar á komandi ári samkvæmt frumvarpi til fjárlaga.

Kostnaðurinn hefur hins vegar örugglega hækkað verulega á síðustu árum. Reglum hefur fjölgað, þær hertar og eftirlit stóraukist. Í maí 2013 hélt ég því fram að þessi kostnaður væri 15-20 milljarðar. Því miður eru vísbendingar um að ég hafi gerst sekur um vanáætlun.

Share