Skortur á samkeppni og opinbert eftirlit

Skortur á samkeppni og opinbert eftirlit

Mér er til efs að við séum að draga réttan lærdóm af máli Brúneggja og framgöngu Matvælastofnunar [Mast].

Hugsanlegar brotalamir í eftirliti Mast eru sagðar sýna fram á nauðsyn þess að efla opinbert eftirlit með atvinnulífinu og að nauðsynlegt sé að auka útgjöld ríkisins vegna þessa. Þó er ekki eins og stofnunin hafi verið fjársvelt á liðnum árum a.m.k. ekki þegar litið er til þróunar framlaga ríkisins.

Samkvæmt fjárlögum þessa árs rennur liðlega 1,1 milljarður úr ríkissjóði til Mast en auk þess hefur stofnunin um 480 milljónir í sértekjur. Framlag úr ríkissjóði er nær 80% hærra að raunvirði á þessu ári en það var fyrir áratug. Á föstu verðlagi fær stofnunin nær 500 milljónum krónum meira úr ríkissjóði en árið 2006.

Hið opinbera eftirlitskerfi hefur hægt og bítandi gert okkur sinnulaus. Við höfum framselt ábyrgðina til hins opinbera sem skal hafa eftirlit með öllu og öllum. Forráðamenn verslana treysta á opinberar stofnanir í stað þess að fylgjast sjálfir með og ganga úr skugga um að þær vörur sem settar eru í hillurnar uppfylli gæðakröfur og standi undir því sem lofað er. Við neytendur skiptum skapi í stutta stund, tökum undir kröfur um að efla opinbert eftirlit (kannski í þeirri von að einhver annar borgi), og höldum síðan áfram viðskiptunum.

Útvistun eftirlits

Að hugsanlegt sé að útvista matvælaeftirliti og auka ábyrgð kaupmanna og neytenda, er ekki meira rætt en snara í hengds manns húsi. Engu skiptir þótt við höfum ágæta reynslu af því að vista út nauðsynlegu eftirliti. Skoðunarstöðvar bifreiða eru ekki lengur á hendi ríkisins heldur í eigu einkaaðila sem keppast um að bjóða góða þjónustu og hagstætt verð. Enginn sem man eftir Bifreiðaeftirliti ríkisins lætur sig dreyma um að hverfa aftur til þess tíma, jafnvel ekki hörðustu vinstrimenn og talsmenn Stóra bróður þegja þunnu hljóði.

En góð reynsla af útvistun eftirlits með samkeppni milli eftirlitsaðila til hagsbóta fyrir almenning og fyrirtæki, hefur ekki komið í veg fyrir útþenslu opinberra eftirlitsstofnana á síðustu árum. Þeir sem efast eru úthrópaðir sem öfgamenn frjálshyggjunnar, baráttumenn sérhagsmuna sem berjist gegn hagsmunum almennings. Engu skiptir þótt sterkar vísbendingar séu um að aukið opinbert eftirlit, með sífellt flóknara og breytilegu regluverki, þjóni fremur stórum fyrirtækjum og – samsteypum en almenningi – dragi úr samkeppni og ábyrgð þeirra sem framleiða og/eða selja vöru og þjónustu. Litli atvinnurekandinn á sér litlar bjargir. Dregið er úr samkeppni með tilheyrandi kostnaði fyrir þjóðfélagið allt.

Meðalhóf og yfirgangur

Í skýrslu sem Hagfræðistofnun Háskóla Íslands vann fyrir forsætisráðuneytið árið 2004 kom fram að áætlaður beinn árlegur kostnaður fyrirtækja við að framfylgja eftirlitsreglum væri um 7,2 milljarðar króna á verðlagi 2003. Kostnaðurinn er um 13,8 milljarðar á verðlagi 2016. Fjárhæðin er svipuð og ætlunin er að verja til löggæslunnar á komandi ári samkvæmt frumvarpi til fjárlaga.

Kostnaðurinn hefur hins vegar örugglega hækkað verulega á síðustu árum. Reglum hefur fjölgað, þær hertar og eftirlit stóraukist. Í maí 2013 hélt ég því fram að þessi kostnaður væri 15-20 milljarðar. Því miður eru vísbendingar um að ég hafi gerst sekur um vanáætlun.

Leiðarahöfundur Morgunblaðsins hélt því fram í júlí 2013 að opinberar stofnanir „sem jafnt og þétt hafa fengið ríkari valdheimildir hafa margar sýnt að þær kunna ekki með þær að fara“. Þær gæti ekki meðalhófs:

„Þær svara ekki eða eins og út úr kú athugasemdum þolendanna, sem eru hluti almennings í landinu. Gerðar eru óbilgjarnar kröfur til þeirra sem í myllu stofnananna lenda, en síðan er dregið á langinn að gera hreint fyrir sínum eigin dyrum. Eins og bent hefur verið á, þá virðist iðulega út frá því gengið að í samskiptum við slíkar stofnanir hafi sönnunarbyrðinni heimildarlaust verið snúið við.“

Gagnslausar stofnanir eru dæmi um sóun almannafjár, sagði í leiðaranum og því bætt við að eftirlitsiðnaðurinn verði „að skilja að hann er þjónustustarfsemi í eðli sínu en ekki búrókratískur yfirgangsiðnaður“. Á þennan skilning hefur skort.

Vandinn er ekki fjársvelti

Þegar eftirlitsstofnun bregst er oftar en ekki höggvið í sama hnérunn; skattgreiðandinn er krafinn um aukna fjármuni. Það er bjargföst trú margra – ekki síst þingmanna og embættismanna – að lausn flestra vandamála felist í því að herða austurinn úr hirslum ríkissjóðs. Á öngstrætum forræðishyggjunnar eru eftirlitsstofnanir mikilvægari en almenn löggæsla og öryggi borgaranna. Fjárveitingavaldið dælir peningum í eftirlitsiðnaðinn og lögreglan situr á hakanum.

Vandinn sem blasir við er ekki skortur á opinberu eftirliti eða fjársvelti stofnana. Vandinn er miklu fremur skortur á samkeppni. Flókið regluverk, svifaseinar stofnanir og á stundum yfirgangur draga úr samkeppni. Jafnvel yfirvöld samkeppnismála virtust kærulaus á árunum fyrir hrun bankanna þegar stórfyrirtækin þöndust út í krafti aðgengis að láns- og áhættufé og gengu að litlum keppinautunum. Og þau eru fullkomlega áhyggjulaus þegar stærsta sveitarfélag landsins kemur í veg fyrir samkeppni í sorphirðu.

Varla er hægt að búast við því að opinbert eftirlitskerfi hafi áhuga á að stuðla að öflugri og heilbrigðri samkeppni, þegar áhuginn virðist takmarkaður innan Samtaka atvinnulífsins [SA]. Róttækar tillögur um fækkun sveitarfélaga bera það með sér. Rökin eru hagkvæmni stærðarinnar. Hugsjónir samkeppninnar eru úti í horni – gleymd og kannski tröllum gefin. Fátt veitir kjörnum fulltrúum í sveitarstjórnum og stjórnsýslunni allri meiri aga og aðhald en samkeppni um íbúana og fyrirtækin. Það ætti að vera sérstakt áhugamál SA að ýta undir samkeppni sveitarfélaga. Í mörgum tilfellum munu sveitarfélög telja það besta kostinn að sameinast eða auka samvinnu til að vera betur í stakk búin til að veita öfluga þjónustu og gæta hófsemdar í álögum á íbúa og fyrirtæki. Sameining yrði á forsendum samkeppninnar og betri þjónustu en ekki í leit – villuleit – að hagkvæmni stærðarinnar, líklega með Reykjavíkurborg sem sérstaka fyrirmynd.

Dapurlegt er hversu fáir hafa áhyggjur af samkeppnisleysi og hve margir virðast vera með böggum hildar vegna fjársveltis eftirlitsiðnaðarins. Líkt og skattgreiðandinn er samkeppnin vinafá.

Share
Share

Written by:

View All Posts
Follow Me :