„Algild sannindi“ eða aukin samkeppni

„Algild sannindi“ eða aukin samkeppni

Tillögur um fækkun og sameiningu sveitarfélaga eru hvorki nýjar af nálinni né sérlega frumlegar. Flestar eiga þær það sameiginlegt að ganga út frá því að stórt sé fallegt en lítið vesældarlegt og vanburða. Hugmyndir sem koma fram í skýrslu Samtaka atvinnulífsins [SA] um stöðu og framtíð sveitarfélaga á Íslandi eru róttækari en aðrar sem komið hafa fram, en byggjast á þeim „sannindum“ að stórt sé betra en lítið – að fjölmenni sé eftirsóknarverðara en fámenni – að styrkur sé í fjölda og veikleiki í fáum.

Hér verða þessi „sannindi“ dregin í efa. Þegar litið er til reksturs og efnahags sveitarfélaga er langt í frá hægt að draga þá ályktun að árangri sé best náð með stórum einingum. Rekstur A-hluta stærsta sveitarfélagsins er ósjálfbær – tekjur standa ekki undir þjónustu – skuldum er safnað. Minni sveitarfélög á höfuðborgarsvæðinu standa mun betur að vígi og ekki síst þau sem gæta hófsemdar í álögum á íbúana.

Frá árinu 1990 hefur sveitarfélögum fækkað úr 204 í 74. Í tillögum Samtaka atvinnulífsins er lagt til að gengið verði enn lengra og aðeins verði níu sveitarfélög á landinu. Með stærri og öflugri sveitarfélögum skapist tækifæri til að flytja fleiri verkefni frá ríkinu til sveitarfélaganna og hagkvæmni aukist. Ég efast ekki um að í mörgum tilfellum kunni sameining sveitarfélaga að vera rétt enda náist markmið um öflugri þjónustu við íbúana. En vænt hagkvæmni og lægri stjórnsýslukostnaður í reiknireglu excel-skjals getur ekki markað stefnuna.

Lögmál samkeppninnar

Skýrsla Samtaka atvinnulífsins er ágætlega unnin. Þar koma fram merkilegar upplýsingar sem almenningur ætti að kynna sér. Gagnrýni mín á hugmyndir/tillögur sem þar eru settar fram er fyrst og síðast tvíþætt. Í fyrsta lagi er ekki séð að nokkur efi sé um að hagkvæmni stærðarinnar sé „algild sannindi“. Í öðru lagi eru það vonbrigði að svo virðist sem SA telji að samkeppni milli sveitarfélaga sé annaðhvort útilokuð eða óæskileg. Það er miður að í skýrslu um sameiningu sveitarfélaga skuli ekki dregin fram nauðsyn þess að efla samkeppni milli sveitarfélaga, jafnt um íbúa sem fyrirtæki og sýnt fram á hvernig samkeppni kemur meiri aga á rekstur og ýtir undir betri þjónustu. Lögmál samkeppninnar gilda jafnt um sveitarfélög sem aðra starfsemi. Vandi okkar er skortur á samkeppni, ekki síst í þjónustu hins opinbera og fyrirtækja ríkis og sveitarfélaga.

Getur ekki verið að hagsmunir þeirra fyrirtækja sem eru innan vébanda Samtaka atvinnulífsins liggi fremur í því að auka samkeppni milli sveitarfélaga en að fækka þeim í níu? Það er illskiljanlegt af hverju Samtök atvinnulífsins nýta ekki tækifærið með skýrslugerð um sveitarfélög til þess að ýta undir samkeppni, t.d. þegar kemur að álagningu fasteignagjalda atvinnuhúsnæðis og hvernig búið er að fyrirtækjum í sveitarfélögum, framboð atvinnulóða, samgöngur o.s.frv. Og það hefði glatt marga – m.a. þann er þetta skrifar – ef tekið hefði verið undir stefnu Sjálfstæðisflokksins um að afnema lágmarksútsvar.

Hnífurinn í kúnni

Samtök atvinnulífsins færa þau rök fyrir sameiningu sveitarfélaga að þannig verði hægt að auka umfang sveitarstjórnarstigsins. „Stærri og öflugri sveitarfélög eru betur í stakk búin til að auka gæði þjónustu sinnar við íbúa án frekari fjárútláta og taka á sig fleiri verkefni og þannig færa þjónustuna nær íbúum landsins,“ segir í skýrslunni.

Auðvitað á það að vera markmið allra sem fara með opinbert fé að það nýtist sem best um leið og það rennur til þeirra verkefna sem íbúar/skattgreiðendur vilja að hið opinbera sinni. Hér stendur hnífurinn í kúnni.

Það kann að vera að með stærri og öflugri sveitarfélögum sé hægt að ná fram „hagkvæmni stærðarinnar“ – lækka stjórnsýslukostnað verulega. Í skýrslu SA er t.d. bent á að stjórnsýslukostnaður á hvern íbúa sé um 56% lægri í sveitarfélagi sem hefur íbúafjölda yfir átta þúsund en í sveitarfélagi með 500 íbúa. Það segir sig sjálft að kostnaður við yfirstjórn hlýtur alltaf að vera nokkru hærri í fámennum sveitarfélögum en þeim þar sem þúsundir eða tugþúsundir búa. En stærðin segir ekki allt um rekstur, skipulag eða þjónustu sveitarfélaga. „Stærðarhagkvæmnin“ tryggir ekki að fjármunir skattgreiðenda séu nýttir með skynsamlegum hætti eða þeir fari til þeirra verkefna sem íbúarnir leggja áherslu á. Færa má rök fyrir því að eftir því sem fjarlægðin er meiri milli íbúanna og stjórnsýslunnar aukist líkurnar á því að fjármunum sveitarfélagsins sé beint í annan farveg en vilji íbúanna stendur til. Þetta vita Reykvíkingar betur en aðrir landsmenn.

Ekki ávísun á góða þjónustu

Stærð sveitarfélags er ekki ávísun á góða þjónustu. Ánægja með þjónustu er ekki bundin við fjölda íbúa heldur það hvernig kjörnum fulltrúum og stjórnsýslu viðkomandi sveitarfélags tekst að uppfylla skyldur sínar.

Þetta hefur komið berlega í ljós í árlegri þjónustukönnun Gallup (áður Capacent Gallup) fyrir stærstu sveitarfélög landsins. Niðurstöður könnunar, sem birtist í febrúar á síðasta ári, var skýr. Hvergi voru íbúar eins óánægðir með þjónustu leikskóla, grunnskóla, þjónustu við fatlaða, eldri borgara og barnafjölskyldur og í Reykjavík. Stærðarhagkvæmni tryggði með öðrum orðum ekki góða þjónustu. Dagur B. Eggertsson borgarstjóri var undrandi. Í samtali við fréttastofu Ríkisútvarpsins sagðist hann halda að Reykvíkingar væru „bara kröfuharðari og svona gagnrýnni“. En þar sem niðurstöðurnar voru óþægilegar fyrir meirihluta borgarstjórnar – falleinkunn er aldrei góð – var ákveðið að borgin tæki ekki aftur þátt í samanburðarkönnunum á þjónustu sveitarfélaga!

Í skýrslu starfshóps um þjónustu Reykjavíkurborgar, sem kynnt var í ágúst á liðnu ári, er myndin sem dregin var upp ekki sérlega falleg. Breytingar á þjónustu borgarinnar undanfarin ár hafa verið gerðar að óathuguðu máli og án þess að þörf væri á. Starfshópurinn sem var skipaður einstaklingum úr stjórnkerfi borgarinnar komst að því að ákveðin upplausn væri í þjónustu borgarinnar og það hefði bitnað á gæðum hennar. „Þjónusta borgarinnar er nú skipulögð þannig að íbúar þurfa að hafa umtalsverða innsýn í skipulag Reykjavíkurborgar til að vita hvert þeir eiga að leita eftir þjónustu,“ segir í niðurstöðum starfshópsins. Skipulag borgarinnar var sagt snúast fremur um skipulag fagsviða en skipulag er miðar að því að veita íbúum heildstæða þjónustu.

Eitt er víst að „hagkvæmni stærðarinnar“ heillar mig ekki og ég hygg að fleiri sveitungum mínum á Seltjarnarnesi sé eins farið. Við erum ekki ginnkeypt fyrir því að sameinast Reykjavík, líkt og Samtök atvinnulífsins leggja til. Eitthvað segir mér að íbúar margra annarra sveitarfélaga séu sama sinnis.

Share
Share

Written by:

View All Posts
Follow Me :