Missum ekki sjónar á því sem er mikilvægast

Missum ekki sjónar á því sem er mikilvægast

Við Íslendingar erum ekki samstiga í öllu – fjarri því. Það er stundum sagt að við getum ekki látið góða deilu framhjá okkur fara.

Um eitt virðist hins vegar ríkja órofa samstaða: Við viljum byggja upp besta heilbrigðiskerfi í heimi og tryggja öllum aðgang að nauðsynlegri heilbrigðisþjónustu óháð efnahag og búsetu. Við höfum einnig sammælst um öflugt almannatryggingakerfi og lagt metnað í sterkt menntakerfi. Þessi samstaða endurspeglast í útgjöldum ríkisins. Á síðasta ári námu útgjöld til heilbrigðismála, almannatrygginga og velferðarmála og menntamála 354 milljörðum króna eða 53,1% af gjöldum ríkissjóðs. Sem hlutfall af útgjöldum hefur þetta hlutfall hækkað á síðustu árum. Það var innan við 50% árið 2010 – 49,1%.

Átök milli stjórnmálaflokka – frá vinstri til hægri – snúast ekki um hvort sameiginlegur sjóður okkar eigi að fjármagna heilbrigðiskerfið, almannatryggingar og menntakerfið. Við höfum ólík viðhorf til þess hvernig best og skynsamlegast sé að tryggja góða nýtingu fjármuna, hvort og með hvaða hætti einkaaðilar geti veitt þjónustu á sviði heilbrigðis og mennta, hvort hægt sé að innleiða holla samkeppni á þessum sviðum og hvort stuðla eigi að því að heilbrigðisstarfsfólk og kennarar eigi möguleika á því að verða sínir eigin herrar. Í karpi dagsins líta margir framhjá því að íslenskt heilbrigðiskerfi kæmist ekki af án sjálfstæðra fyrirtækja, allt frá heilsugæslu til hjúkrunarheimila, frá sérfræðilæknum til endurhæfingarstofnana. Íslenskt menntakerfi er blómlegra og öflugra vegna sjálfstætt starfandi skóla – Ísaksskóli, Hjallastefnan, Verslunarskóli Íslands, Háskólinn í Reykjavík svo nokkur dæmi séu nefnd.

Deilurnar sýnast því á stundum léttvægar en góð deilumál mega ekki fara forgörðum. Við þjörkum því um hlut einkaframtaksins í heilbrigðis- og menntakerfinu. Hættan er hins vegar sú að í moldviðrinu missum við sjónar á því sem er mikilvægast; að byggja upp góða heilbrigðisþjónustu, öflugt og blómlegt menntakerfi og sterkt almannatrygginga- og velferðarkerfi.

Að sundra eða sameina

Niðurstaða kosninganna í lok október kemur í veg fyrir að hægt sé að mynda meirihlutastjórn tveggja flokka. Þessa vegna verða að minnsta kosti þrír flokkar að koma að næstu ríkisstjórn. Forystumenn stjórnmálaflokkanna geta leitað að málum sem sundra þjóðinni eða náð saman um þau sem skipta almenning mestu.

Að kollvarpa stjórnarskrá, umbylta stjórnkerfi fiskveiða, taka að nýju upp aðildarviðræður að Evrópusambandið og feta enn og aftur leið gríðarlegra skattahækkana á almenning og fyrirtæki, eru draumar sem einhverjir eiga. Þó eru innan við fjögur ár síðan kjósendur höfnuðu stjórnmálum sundrungar.

Svo eru þeir sem eiga sér aðra drauma: Að mynduð verði ríkisstjórn sem tekst á við verkefnin sem mestu skipta: Heilbrigðiskerfið, almannatryggingar, menntakerfið og fjárfestingu í innviðum, ekki síst samgöngum. Að mynduð verði ríkisstjórn flokka sem eru tilbúnir til að nýta uppsveiflu í efnahagslífinu til að byggja upp til framtíðar, án þess að leggja auknar byrðar á heimili og fyrirtæki, sem fyrr fremur en síðar mun draga úr hagsæld.

Nokkur atriði til minnis

Auðvitað er stefna stjórnmálaflokka í skattamálum gjörólík, jafnvel flokka sem eru ágætlega samstiga í öðrum mikilvægum málum. Á meðan einn flokkur leggur áherslu á að lækka skatta og einfalda skattkerfið, setur annar skattahækkanir á oddinn, ekki aðeins til að afla ríkissjóði tekna heldur ekki síður til jafna kjör landsmanna. (Hér verður látið vera að ræða um hvort skynsamlegt sé að nýta skattkerfið til kjarajöfnunar.)

Ef stefnan í skattamálum er helsta ágreiningsefnið liggur beinast við að flokkarnir mætist á miðri leið – skattar verða hvorki hækkaðir né lækkaðir – og taki höndum saman um önnur brýn verkefni. En auðvitað er þetta ekki svona einfalt. Það er aldrei neitt svona einfalt í pólitík.

Engu að síður er vert að vekja athygli á eftirfarandi staðreyndum, sem komu fram í frétt Morgunblaðsins í gær og byggjast á upplýsingum frá Hagstofu Evrópu, Eurostat:

  • Skattbyrði á Íslandi er sú þriðja þyngsta í Evrópu, leiðrétt fyrir greiðslum til almannatrygginga.
  • Tekjuskattar á einstaklinga og fyrirtæki hér á landi eru þeir þriðju hæstu í Evrópu.

Eitt til viðbótar:

  • Skattar sem eingöngu leggjast á fyrirtæki þrefölduðust í hlutfalli við landsframleiðslu frá 2003 til 2014. Samkeppnisstaða íslenskra fyrirtækja versnaði.

Það er því í besta falli lítið svigrúm til skattahækkana ef ný ríkisstjórn ætlar ekki að skerða samkeppnisstöðu fyrirtækja og draga þar með úr möguleikum til launahækkana og minnka skatttekjur ríkisins.

Hækkun skatta á einstaklinga skerðir einnig samkeppnisstöðu Íslands, ekki síst gagnvart þeim sem hafa alþjóðlega menntun; heilbrigðisstarfsfólk, verkfræðingar, iðnaðarmenn og þannig má lengi telja. Það verður ekki sérlega aðlagandi fyrir vel menntaða sérfræðilækna að flytja heim til Íslands í óvinveitt skattaumhverfi. Ekki frekar en fyrir hjúkrunarfræðinga sem eru eftirsóttir um allan heim. Án þessara starfsstétta verður heilbrigðiskerfið ekki byggt upp. Nauðsynleg fjárfesting í innviðum krefst verkfræðinga, tækni- og iðnaðarmanna. Vinnuafl þeirra er óháð landamærum.

Í stað þess að takast á um skattahækkanir er skynsamlegra að leggja drög að því að lækka fjármagnskostnað ríkissjóðs. Ef fjármagnskostnaður í hlutfalli af gjöldum hefði verið svipaður á síðasta ári og 2003-2006 hefði ríkið haft 46 milljörðum meira úr að spila. Þetta er næstum jafnmikið og allur rekstrarkostnaður Landspítalans. Þetta eitt lítið atriði sem gott er að hafa á minnisblaði og hafa upp á borði við myndun nýrrar ríkisstjórnar.

Share
Share

Written by:

View All Posts
Follow Me :