Að stíga í takt við þjóðarsálina

Að stíga í takt við þjóðarsálina

Sú skylda hvílir á herðum þeirra sem kosnir eru á Alþingi að tryggja starfhæfa ríkisstjórn. Þegar sest er niður við samningaborðið við myndun ríkisstjórnar er eðlilegt að ólíkir stjórnmálaflokkar haldi sínum stefnumálum fast fram – reyni að ná sem mestu í gegn við gerð stjórnarsáttmála.

Efni og gerð stjórnarsáttmála samsteypustjórna hlýtur eðli máls samkvæmt að endurspegla niðurstöðu kosninga – þingstyrk þeirra flokka sem ákveða að taka höndum saman í ríkisstjórn. Enginn fær sína villtustu drauma uppfyllta, allir gefa eftir – komast að málamiðlun. Um leið er það keppikefli að sáttmálinn endurspegli væntingar, vonir og kröfur kjósenda. Að verkefnin sem mestu skipta séu skilgreind og fyrirheit gefin um framkvæmd.

Kannski má orða þetta með öðrum hætti. Stjórnarsáttmáli ríkisstjórnar sem ætlar að ná árangri verður að vera í takt við þjóðarsálina. Við höfum bæði nýleg og gömul dæmi um hvað gerist þegar stjórnmálamenn rjúfa tengslin við kjósendur og hætta að skynja hvað hinum venjulega borgara finnst skipta máli.

Eldurinn sem á að forðast

Þegar þetta var skrifað stóðu yfir viðræður milli Sjálfstæðisflokks, Viðreisnar og Bjartrar framtíðar um myndun ríkisstjórnar með minnsta mögulega meirihluta. Niðurstaðan lá ekki fyrir en eitt er víst: Ríkisstjórn verður mynduð, vonandi fyrr en síðar. Ný ríkisstjórn getur sótt sér fyrirmynd eða skapað og mótað eigin framtíðarsýn og vinnubrögð.

Ein fyrirmyndin er vinstristjórnin 2009 til 2013, þar sem mál sem sundruðu þjóðinni voru sett í forgang; aðild að Evrópusambandinu, umbylting fiskveiðistjórnunar, kollvörpun stjórnarskrár og ítrekaðar tilraunir til að koma Icesave-klyfjunum á herðar þeirra sem ekkert höfðu til saka unnið. Almenningur sannfærðist um að sundurtætt ríkisstjórnin hugsaði fremur um hagsmuni alþjóðlegra fjármagnsafla og vogunarsjóða en hag íslenskra heimila og fyrirtækja. Þeir voru til sem slógu taktinn fyrir ríkisstjórnina í þeim efnum.

Ný ríkisstjórn forðast fótspor vinstristjórnarinnar eins og heitan eldinn. Þess í stað vinnur hún að því að tryggja jafnvægi milli dreifbýlis og þéttbýlis, stuðlar að jafnræði atvinnugreina, vinnur að aukinni samkeppni og gagnsæi í allri stjórnsýslu. Heldur áfram endurbótum á almannatryggingakerfinu með innleiðingu starfsgetumats og hlutabótakerfi örorkubóta. Beitir sér fyrir öflugri og markvissri uppbyggingu heilbrigðiskerfisins sem miðar að því að tryggja bestu heilbrigðisþjónustu sem völ er á fyrir alla landsmenn. Styrkir menntakerfið, greiðir sérstaklega fyrir verk- og tækninámi og öflugri háskólamenntun. Ýtir undir nýsköpun, ekki aðeins á sviði hátækni heldur ekki síður í matvælaframleiðslu, listum og menningu. Kemur á jafnræði í lífeyrismálum landsmanna og greiðir um leið fyrir skynsamlegri þróun á vinnumarkaði, auknum sveigjanleika og jöfnuði. Hrindir í framkvæmd umfangsmikilli fjárfestingu í innviðum samfélagsins, tryggir jafnvægi í búskap ríkisins, greiðslu skulda og stuðlar að lækkun vaxta. Tekur forystu í umhverfismálum og gengst fyrir sátt um nýtingu náttúruauðlinda. Byggir undir stöðugleika í efnahagsmálum og stjórnsýslu. Vinnur að nauðsynlegum breytingum að stjórnarskrá í víðtækri sátt.

Listinn er lengri. Eitt þeirra mála sem eiga ekkert erindi á listann er aðild að Evrópusambandinu.

Sérkennileg staða

Vandi ríkisstjórnar sem beinum eða óbeinum hætti setur aðild eða aðildarviðræður við Evrópusambandið á dagskrá ætti að vera flestum augljós. Mikill meirihluti þingmanna er andvígur aðild og er samstíga meirihluta landsmanna. Ríkisstjórnin væri því strax í upphafi komin í sérkennilega stöðu (svo ekki sé meira sagt) gagnvart þingi og þjóð. Í kosningunum í lok síðasta mánaðar kölluðu kjósendur ekki eftir að enn einu sinni yrði lagt upp í leiðangur í átt að Brussel. Þvert á móti. Hér skal fullyrt að í hugum yfirgnæfandi meirihluta kjósenda eru önnur verkefni brýnni.

Ríkisstjórnin yrði einnig að glíma við annan vanda.

Engar þjóðir geta tekið íslensk stjórnvöld alvarlega á næstu árum þegar og ef óskað er eftir því að hefja viðræður um fríverslunarsamninga eða aðra viðskiptasamninga. Íslendingum verður kurteislega bent á að ganga fyrst frá sínum málum gagnvart Evrópusambandinu. Gangi Ísland inn í sambandið falla allir samningar niður og þess vegna er tilgangslaust að leggja vinnu í slíka samninga, sem taka nokkur ár.

Frost í fjögur ár

Hugmyndir um að efna til þjóðaratkvæðagreiðslu um aðildarviðræður í lok kjörtímabilsins – árið 2020 að öðru óbreyttu – leiða einfaldlega til þess að allar hugmyndir og tilraunir við gerð fríverslunarsamninga við önnur lönd verða settar á ís – frystar í a.m.k. fjögur ár. Þetta á t.d. við um samninga við bresk stjórnvöld um viðskipti landanna í kjölfar þess að Bretland yfirgefur Evrópusambandið. Bretland er eitt mikilvægasta viðskiptaland okkar Íslendinga og gríðarlegir hagsmunir í húfi að tryggja frjáls viðskipti milli landanna.

Vandséð er hvernig ríkisstjórn sem ákveður að efnt skuli til þjóðaratkvæðis um Evrópusambandið ætlar að tryggja hagsmuni landsins í því millibilsástandi sem búið verður til á kjörtímabilinu. Ísland verður í viðskiptalegu og pólitísku tómarúmi – verður í kyrrstöðu sem dregur úr samkeppnishæfni landsins og leiðir til lakari lífskjara en ella.

Staða efnahagsmála á Íslandi er um flest öfundsverð. Hagvöxtur er sterkur, verðbólga lítil, atvinnuleysi hverfandi, kaupmáttur aldrei meiri og afkoma ríkissjóðs til lengri tíma í jafnvægi. Tækifærin eru því til staðar. Ný ríkisstjórn getur nýtt meðbyrinn til góðra verka sem almenningur vill og ætlast til að verði unnin. Til þess þarf hins vegar að forðast sundrungargildru áranna eftir hrun fjármálakerfisins.

Share
Share

Written by:

View All Posts
Follow Me :