Mantra brenglunar og villandi upplýsinga

Þeir eru til sem telja að hægt sé að breyta staðreyndum með því að berja hausnum nægilega oft og þungt við steininn. Staðreyndir breytast auðvitað ekkert en veruleiki þess sem heldur áfram að skalla steininn, brenglast. Lítil von er til þess að hægt sé leiðrétta brenglunina. Rökræður munu engu skipta.Útgjöld til heilbrigðismála

Svo eru þeir sem vísvitandi fara fram með staðlausa stafi, leggja fram villandi eða rangar upplýsingar, endurtaka þær aftur og aftur líkt og möntru. Þeir hafa lært að með endurtekningunni síast rangar upplýsingar inn í þjóðmálaumræðuna. Hægt og bítandi verða staðleysustafirnir viðurkennd sannindi, ef enginn gerir hina minnstu tilraun til að draga hið rétta fram í dagsljósið.

Í pólitískum átökum þvælast staðreyndir ekki alltaf fyrir. Tilgangurinn helgar meðalið. Hið sama á við þegar miklir viðskiptahagsmunir eru í húfi. Til varnar sérhagsmunum – hvort heldur er fyrir einkafyrirtæki, kerfið sjálft og/eða samþætta hagsmuni kerfis og einkaaðila – er sannleikanum fórnað fyrst og sanngirni fljótlega þar á eftir.

Gríðarleg aukning útgjalda

Í aðdraganda kosninga eru andstæðingar ríkisstjórnarinnar og Sjálfstæðisflokksins sérstaklega, sannfærðir um að sóknarfærin liggi í því að snúa staðreyndum á hvolf og draga upp rangar myndir. Þetta á ekki hvað síst við um heilbrigðismálin.

Auðvitað er það skiljanlegt að stjórnarandstæðingar eigi erfitt með að horfast í augu við þróun síðustu ára. Það er ekki síst erfitt fyrir þá, sem þurftu að beita niðurskurðarhnífnum á fyrstu árunum eftir hrun, að sætta sig við að hafa fyrst og síðast beitt hnífnum á heilbrigðiskerfið og sett fjármuni í gælur og önnur verkefni sem minnstu skipta. Endurreisn heilbrigðiskerfisins sem hófst árið 2013, er örugglega ónotaleg áminning um vitlausa forgangsröðun vinstristjórnar.

Samkvæmt fjárlögum yfirstandandi árs verða útgjöld til heilbrigðismála 38,5 milljörðum hærri en fjárlög 2013 – síðustu fjárlög vinstristjórnarinnar. Hækkunin er rúmlega 30%. Hægt er að færa gild rök fyrir því að nauðsynlegt hefði verið að auka útgjöldin enn frekar, ekki síst eftir harkalegan niðurskurð í tíð ríkisstjórnar sem neitaði að forgangsraða í þágu heilbrigðiskerfisins. Undir þetta er tekið í ríkisfjármálaáætluninni 2017 til 2021 sem Alþingi samþykkti fyrir skömmu. Þar er blásið til sóknar, þótt pólitískir andstæðingar, óvildarmenn og steinbarðir þverhöfðar, haldi öðru fram.

60 milljarðar á fimm árum

Í ríkisfjármálaáætluninni er gengið út frá því að framlög til heilbrigðismála verði stórlega aukin á næstu árum. Árið 2021 verða útgjöldin yfir 200 milljarðar króna – 68 milljörðum hærri en árið 2013. Nær 52% hækkun.

Áætlunin gerir ráð fyrir að raunaukning útgjaldanna á næstu fimm árum (2017-2021) verði 18% fyrir utan allar launahækkanir, s.s. til lækna og hjúkrunarfræðinga, auk annarra verðlagsbreytinga. Í ríkisfjármálaáætluninni kemur fram að reikna megi með að launa- og verðlagsbreytingar til heilbrigðismála verði yfir 30 milljarðar króna. Þetta þýðir einfaldlega að heildaraukning útgjalda til heilbrigðismála á næstu fimm árum verður a.m.k. 60 milljarðar króna!

Endurreisn heilbrigðiskerfisins kemur ágætlega fram í áætlunum um tugmilljarða fjárfestingar í innviðum. Bygging fyrsta verkáfanga nýs Landspítala, einkum meðferðarkjarna og rannsóknarhús, verður boðin út árið 2018 og komin á fullan skrið árin 2019-2021. Þessar framkvæmdir koma til viðbótar byggingu sjúkrahótels sem lýkur á komandi ári og fullnaðarhönnun meðferðarkjarna sem þegar hafði verið gert ráð fyrir í fjárlögum yfirstandandi ár og síðustu ríkisfjármálaáætlun.

Með öðrum orðum: Fjármögnun á uppbyggingu Landspítalans er tryggð. Engin óljós fyrirheit eða draumórakennt hálfkák. Samhliða byggingu nýs Landspítala gerir fjármálaáætlunin ráð fyrir áframhaldi á sérstakri tækjakaupaáætlun fyrir spítalann og Sjúkrahúsið á Akureyri.

Í ríkisfjármálaáætluninni er reiknað með að þrjú hjúkrunarheimili verði byggð fyrir alls 5,6 milljarða króna og þar af nemur hlutur ríkisins 4,7 milljörðum. Um leið er gengið út frá að útgjöld ríkisins vegna reksturs þessara heimila verði um tveir milljarðar á ári. Þessu til viðbótar er hækkun framlaga frá og með næsta ári til starfandi hjúkrunarheimila til að styrkja fjárhagsstöðu þeirra.

Nefna má fleiri dæmi s.s. um aukningu útgjalda vegna lyfja og fjölgun heilsugæslustöðva á höfuðborgarsvæðinu með tilheyrandi útgjöldum. Fyrst og síðast endurspeglar ríkisfjármálaáætlunin hvernig ríkisstjórnin undir forystu Bjarna Benediktssonar fjármálaráðherra, vill nýta jafnt efnahagslegt svigrúm og lægri vaxtakostnað til að efla grunnþjónustu og forgangsraða í þágu velferðar- og heilbrigðismála.

Að óreyndu hefði mátt ætla að jafnvel þeir sem dugmestir eru við að berja hausnum við villusteininn, fagni. En sumum er það um megn.

Kosningamálið

Í júlí á liðnu ári hélt ég því fram, hér á síðum Morgunblaðsins, að heilbrigðismál yrðu kosningamál. Þá gekk ég út frá því að kosið yrði til þings vorið 2017 og þótt kosningum hafi verið flýtt er ég sömu skoðunar:

„Mikilvægasta kosningamálið…verður heilbrigðiskerfið, fjármögnun þess, skipulag og hvernig við sameiginlega tryggjum hvert öðru bestu mögulegu heilbrigðisþjónustu óháð aldri, efnahag og búsetu.“

Í skrifunum tók ég fram að ekki væri um það deilt að víða vantaði fjármuni í heilbrigðisþjónustuna, ekki síst í þjónustu við eldri borgara. En um leið eigi öllum að vera ljóst að fjármunum er einnig sóað. Uppbygging heilbrigðisþjónustunnar felst ekki aðeins í auknum fjárveitingum (réttri forgangsröðun í ríkisfjármálum) heldur ekki síður í að koma í veg fyrir sóun – nýta fjármunina betur, beina peningum í arðbæran farveg meðal annars með skipulagsbreytingum. Útilokað er að ræða slíka hluti við útgjaldasinna – þá sem trúa (í einlægni) að lausn flestra vandamála felist í auknum útgjöldum hins opinbera.

Sjálfstæðisflokkurinn kemur ágætlega nestaður til kosningabaráttunnar þegar kemur að heilbrigðismálum. Endurreisninni er langt í frá lokið en stigin hafa verið stór skerf á kjörtímabilinu og enn stærri eru boðuð í ríkisfjármálaáætluninni. Og enginn getur deilt um að Kristjáni Þór Júlíussyni heilbrigðisráðherra tókst að ná fram einu mesta réttlætismáli í íslenskri heilbrigðisþjónustu – greiðsluþátttökukerfi.

Þar með rættist gamall draumur Péturs heitins Blöndal, sem barðist fyrir réttlátu og sanngjörnu tryggingakerfi okkar allra, þar sem komið er í veg fyrir mikla fjárhagslega erfiðleika og jafnvel gjaldþrot einstaklinga og fjölskyldna sem þurfa að treysta á heilbrigðiskerfið.

Share