Værukærir hægrimenn og vopnfimir vinstrimenn

Ég get ekki að því gert, en stundum dáist ég að vinstrimönnum. Ekki fyrir hugsjónir þeirra heldur málflutning, sem er oft leiftrandi, beittur og ósvífinn. Í baráttu fyrir málstaðnum þvælast aukaatriði ekki alltaf fyrir, staðreyndir eru lagðar til hliðar og fyrri orð og gjörðir löngu gleymd.

Einlæg sannfæring um málstaðinn gefur mörgum vinstrimanninum kjark til að ganga ítrekað gegn vilja meirihluta kjósenda, þegar og ef nauðsyn krefur. Þessu hafa landsmenn kynnst í flugvallarmálinu. Skipulega er unnið að því að loka Reykjavíkurflugvelli, þvert á vilja meirihluta landsmanna og höfuðborgarbúa. Í tvígang var gerð tilraun til að koma Icesave-byrðum á landsmenn án nokkurs samráðs. Tvær þjóðaratkvæðagreiðslur, þar sem yfirgnæfandi meirihluti þjóðarinnar hafnaði því að greiða skuldir einkaaðila, dugðu ekki til. Þess í stað var gert lítið úr fyrstu þjóðaratkvæðagreiðslu frá stofnun lýðveldisins – hún sögð dapurleg markleysa.

Vinstrimenn hafa margir verið duglegir að klæðast búningum umburðarlyndis og frjálslyndis. En umburðarlyndið er oftar en ekki einskorðað við þá sem eru sömu skoðunar, enda varla hægt að sýna „röngum skoðunum“ skilning eða þolinmæði. Í nafni frjálslyndis og beins lýðræðis ræður meirihluti þjóðar en þó því aðeins ef niðurstaðan er „rétt“. Röng ákvörðun meirihlutans gefur hinum réttsýnu og frjálslyndu rétt til að vinna gegn henni og virða að vettugi.

Hástemmdar yfirlýsingar

„Það dettur engum í hug að við göngum í Evrópusambandið nema þjóðin sjálf taki ákvarðanir í því máli jafnvel bæði hvort við eigum að fara í slíkar viðræður og þá að niðurstaðan verði lögð í dóm þjóðarinnar,“ sagði þáverandi formaður Vinstri grænna á þingi 2003. Í júlí 2009 tók Steingrímur J. Sigfússon þátt í því að koma í veg fyrir að „þjóðin sjálf“ tæki ákvörðun um aðildarumsókn að Evrópusambandinu. Þá var hann fjármálaráðherra ríkisstjórnar „norrænnar velferðar“.

Hástemmdar yfirlýsingar um beint lýðræði gleymast ef það hentar og þær settar ofan í skúffu.

Í stefnuyfirlýsingu eftir kosningar 2009 gaf ríkisstjórn Samfylkingar og Vinstri grænna fyrirheit um að „beita sér fyrir opinni stjórnsýslu, auknu gagnsæi og lýðræðisumbótum“. Það þurfti því ekki aðeins pólitískan kjark, heldur töluverða forherðingu, til að ganga til samninga við kröfuhafa og afhenda þeim tvo banka. Þá var vélað í bakherbergjum í lokaðri stjórnsýslu án nokkurs gagnsæis.

Staðreyndir flækjast ekki fyrir

Frá því að þing kom saman að nýju eftir sumarleyfi hafa stjórnarandstæðingar farið geyst. Ríkisstjórn Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks hefur verið sökuð um að „hola“ velferðarkerfið að innan og á sama tíma lækka skatta á efnafólk m.a. með „afnámi“ auðlegðarskatts. Hvorki staðreyndir né saga flækjast fyrir og ekki í fyrsta skipti. Útgjöld til heilbrigðismála og almannatrygginga hafa verið stóraukin frá tíma vinstristjórnarinnar. Um það verður ekki deilt. Þingmenn geta tekist á um hvort auka hefði átt útgjöldin enn meira og jafnvel hvort fjármunum sé öllum skynsamlega varið.

Þegar ríkisstjórnin beitti sér fyrir kerfisbreytingum á virðisaukaskattinum árið 2014, með lækkun efra þrepsins og hækkun þess neðra, samhliða afnámi vörugjalda, tók stjórnarandstaðan hraustlega til máls og gagnrýndi breytingarnar harðlega, og þá fyrst og fremst hækkun virðisauka á matvæli. Engu skipti þótt Samfylkingar og Vinstri græn hefðu áður látið sig dreyma um hækkun „matarskattsins“ samkvæmt ábendingum Alþjóða gjaldeyrissjóðsins [AGS].

Vildu hækka matarskattinn

Í samtali við fréttastofu ríkisins í júní 2011 staðfesti Steingrímur J. Sigfússon, þáverandi fjármálaráðherra, að verið væri að skoða að taka upp eitt virðisaukaskattþrep. Liðlega ári síðar lýsti Oddný Harðardóttir, sem tók við fjármálaráðuneytinu af Steingrími, því yfir að rétt væri að endurskoða virðisaukaskattskerfið. Í viðtali við Viðskiptablaðið í ágúst 2012 sagði ráðherrann:

„Ég myndi vilja skoða það að lækka efra þrepið þegar fram í sækir. Mér líst betur á það að vera bara með eitt þrep, þannig að við getum lækkað það sem nú er í efra þrepi og endurskoðað það sem er á undanþágunni. Við þurfum að endurskoða þetta reglulega.“

Hugmyndir ráðherra „norrænu velferðarstjórnarinnar“ fólu því í sér að stórhækka virðisaukaskatt á matvæli án þess að grípa til mótvægisaðgerða, t.d. með afnámi vörugjalda líkt og gert var.

Vildi ekki auðlegðarskattinn

Gagnrýni stjórnarandstöðunnar að ekki skuli lagður á auðlegðarskattur er sama marki brennd. „Norræna velferðarstjórnin“ lagði skattinn á og hét því að hann væri tímabundinn. Samkvæmt lögum skyldi skatturinn falla niður í lok árs 2013. Oddný Harðardóttir var afdráttarlaus í áðurnefndu viðtali við Viðskiptablaðið:

„Það eru ákveðin vandamál með auðlegðarskattinn. Hann er þó tímabundinn og ég mun leggja áherslu á að endurnýja hann ekki.“

Hvorki meira né minna: Fjármálaráðherra vinstristjórnarinnar lagði áherslu á að auðlegðarskatturinn yrði ekki endurnýjaður. Svo er ríkisstjórn Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks sökuð um að afnema skattinn og hygla þar með eignafólki. Þó var ekkert annað gert en láta ákvörðun meirihluta „norrænu velferðarstjórnarinnar“ ná fram að ganga og ákvæði laga féll úr gildi.

Skiljanlega eiga vinstrimenn erfitt með að láta fara framhjá sér tækifæri til að koma höggi á sitjandi ríkisstjórn, ekki síst í aðdraganda kosninga. Þá skortir ekki kjarkinn við endurritun sögunnar. Þeir vita sem er að í pólitískri baráttu eru hægrimenn værukærir og ekki eins vopnfimir. Óhræddir mæta vinstrimenn því á vígvöll stjórnmálanna og halda því kinnroðalaust fram að afnám milliþreps í tekjuskatti sé enn eitt dæmið um hvernig stöðugt er mulið undir þá efnameiri. Engu skiptir þótt venjulegt launafólk beri þyngstu byrðarnar. Sú staðreynd er aukaatriði.

Share