Stjórnarandstaða í vondu skapi

Þingmenn stjórnarandstöðunnar voru fremur þungir í lund í upphafi vikunnar þegar þeir snéru aftur til starfa á Alþingi eftir sumarleyfi. Í umræðum um skýrslu forsætisráðherra um stöðu þjóðmála gætti lítillar bjartsýni í málflutningi forystu stjórnarandstöðunnar þrátt fyrir að hafa fengið sína heitustu ósk uppfyllta; dagsetningu kosninga (að öðru óbreyttu). Sjálfsagt jók það ekki gleði stjórnarandstöð- unnar að stuttu áður en þing kom saman kynnti ríkisstjórnin tillögur sem skjóta nýjum og styrkari stoðum undir séreignarstefnuna og auka valfrelsi í húsnæðismálum.

Stjórnarandstöðunni virðist fyrirmunað að sjá eða skynja birtuna sem er yfir íslensku efnahagslífi. Hún neitar að trúa því að framtíðin geti verið björt ef rétt er haldið á málum, en ekki horfið aftur til fortíðar vinstri stefnunnar og stjórnarhátta „you-ain‘t-seennothing-yet“.

Töfralausn enn boðuð

Hagvöxtur var 4,2% á fyrsta ársfjórðungi og horfurnar eru góðar. Á sama tíma var vöxtur efnahagslífsins aðeins 0,6% á evrusvæðinu og fór niður í 0,3% á öðrum ársfjórðungi. Í Frakklandi var enginn hagvöxtur. Þrátt fyrir þetta leggur formaður Samfylkingarinnar áherslu á að Ísland taki upp evru. Enn og aftur boða samfylkingar upptöku evru sem lausn á öllum vandamálum okkar Íslendinga – búið er að dusta rykið af töfralausninni. Í við- tali við Eyjuna síðastliðinn mánudag hélt Oddný Harðardóttir því fram að það sé „auðvitað augljóst“ að evra sé „lausnin“:

„En hún [lausnin] er ekki í sjónmáli og þá verðum við að bera kostnaðinn. Það er bara staðreynd. Það er það sem ríkisstjórnin er að leggja til.“

Í umræðum um skýrslu forsætisráðherra hélt formaður Samfylkingarinnar því fram að óánægja væri með ríkisstjórnina á fleiri en einu sviði. „Heilbrigðiskerfið líður fjárskort og það gerir menntakerfið líka,“ sagði Oddný Harðardóttir sem var um nokkurt skeið fjármálaráðherra vinstri stjórnar Samfylkingar og Vinstri grænna. Auðvitað gat hún þess ekki að á þessu ári verða útgjöld til heilbrigðismála rúmlega 38 milljörðum króna hærri en gert var ráð fyrir í síðustu fjárlögum vinstri stjórnarinnar árið 2013.

Holuviðgerðir

Endurreisn heilbrigðiskerfisins er því hafin en hvergi nærri lokið. Útgjöld til menntamála hafa hækkað og verið er að byggja almannatryggingakerfið upp að nýju. Fjárlög yfirstandandi árs gera ráð fyrir að yfir 98 milljarðar renni til almannatrygginga. Þrátt fyrir að þetta sé liðlega 24 milljörðum hærri fjárhæð en Oddný Harðardóttir og samherjar hennar í vinstri stjórninni vildu árið 2013, má öllum vera ljóst að styrkja þarf stöðu eldri borgara og öryrkja enn frekar. Tækifærin eru til staðar.

Kári Stefánsson felldi harðan dóm yfir velferðarstefnu vinstri stjórnarinnar í grein í Fréttablaðinu 9. ágúst:

„Þegar í harðbakkann sló holaði hún velferðarkerfið að innan, lét utanríkisþjónustuna í friði, reisti Hörpu (að vísu vildi Katrín Jakobsdóttir láta mála vinstri hliðina á henni græna en það gleymdist) og byrjaði að bora gat í gegnum Vaðlaheiðina. Þetta var fyrsta hreinræktaða félagshyggjuríkisstjórnin í sögu lýðveldisins!“

Ríkisstjórn Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokksins hefur fyllt þessar holur og boðar uppbyggingu til framtíðar.

Enginn fögnuður

Það er umhugsunarvert af hverju stjórnarandstöðunni virðist fyrirmunað að gleðjast yfir bættri stöðu launafólks. Í stað þess að ræða og leggja fram hugmyndir um hvernig góð staða verði best nýtt til að bæta lífskjör enn frekar er stjórnarandstaðan föst í umræðum um afsögn fyrrverandi forsætisráðherra.

Engu er líkara en að það fari illa með geðslag forystumanna vinstri flokkanna að launavísitalan hafi hækkað um um 12,5% frá miðju síðasta ári til sama tíma í ár og að verðbólgan sé aðeins 1,1% síðustu 12 mánuði. Þeir finna litla gleði í þeirri staðreynd að í 30 mánuði hefur verðbólga verið undir markmiðum Seðlabanka Íslands. Mikil aukning kaupmáttar launa í tíð ríkisstjórnar Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokksins, vekur litla kæti. Kaupmáttur launa hefur aldrei verið hærri. Og ekki er sýnd ánægja með að atvinnuleysi í júní síðastliðnum er það minnsta í þeim mánuði frá 2008.

Á síðasta ári lækkuðu skuldir einstaklinga vegna íbúðakaupa um nær 60 milljarða króna. Í samantekt Páls Kolbeins, rekstrarhagfræðings hjá Ríkisskattstjóra, kemur fram að skuldir sem hlutfall af tekjum hafa lækkað mikið á undanförnum árum, þótt enn sé það of hátt. Árið 2010 voru skuldir einstaklinga nær tvöfalt hærri en tekjur en í lok síðasta árs var hlutfallið komið niður í 32,5%. Ástæða lækkunarinnar er tvíþætt; hærri tekjur og lægri skuldir. Engu er líkara en að vinstri menn séu vonsviknir með þessa jákvæðu þróun; eignastaða íslenskra heimila er að styrkjast verulega.

Skattahækkun í þunglyndi

Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra benti á athyglisverða staðreynd í umræðunum síðasta mánudag:

„Á þessu ári stefnir í að afgangur á ríkisfjármálunum verði meiri en allur uppsafnaður halli vinstri stjórnarinnar á árunum 2009 til 2013.“

Í þrjú ár í röð hafa fjárlög verið afgreidd með afgangi. Ríkissjóður greiddi á síðasta ári 150 milljarða fyrir fram af innlendum og erlendum skuldum. Skuldir ríkissjóðs hafa lækkað gríðarlega og verða komnar niður fyrir 50% af vergri landsframleiðslu á þessu ári. Gjörbreytt staða ríkissjóðs – jöfnuður í rekstri og mikil lækkun skulda – gefur aukin færi til að byggja upp velferðarkerfið samhliða því að lækka skatta enn frekar og stokka upp í ríkisrekstrinum.

Frammi fyrir þessum staðreyndum hefur pólitískur dapurleiki náð tökum á vinstri mönnum. Í þunglyndi sínu boða þeir hækkun skatta, þar sem enn einu sinni verður barið á millistéttinni. Draumurinn um að innleiða að nýju auðlegðarskatt lifir – ætlunin er að kreista fjármuni út úr sjálfstæðum atvinnurekendum og eldri borgurum. Hækkun skatta er sögð í nafni „félagslegs réttlætis“. Og komist vinstri flokkarnir til valda að loknum kosningum eru líkur á því að ungt fólk verði að sætta sig við „félagsleg úrræði“ í húsnæðismálum í stað þess að eiga valfrelsi og raunhæfan kost á að eignast eigin íbúð. Hægt og bítandi verður krafturinn dreginn úr atvinnulífinu í anda „norrænnar velferðarstjórnar“. Möguleikar til að ráðast í umfangsmiklar og nauðsynlegar innviðafjárfestingar, ekki síst í heilbrigðis- og samgöngukerfinu, verða takmarkaðir. Þá verður gripið til þess ráðs að veðsetja framtíðina, gefa út víxla á komandi kynslóðir.

Í Reykjavík hafa vinstri flokkarnir – Samfylking, Vinstri grænir, Píratar og Björt framtíð – sýnt hversu auðvelt það er að setja fjárhag hins opinbera á hliðina. Leikinn á að endurtaka á landsvísu að loknum alþingiskosningum.

Share