Innlend skattaskjól fá staðfestingu

Skattaskjól eiga sér fáa formælendur. Stjórnmálamenn eru duglegir að gagnrýna lönd sem veita skjól. Fjölmiðlar taka ekki aðeins undir heldur hafa þeir, með ýmsum hætti og aðferðum, dregið fram í dagsljósið upplýsingar um hvernig einstaklingar og fyrirtæki koma sér með skipulegum hætti undan því að greiða skatta. Stjórnmálamenn sem tengst hafa skattaskjólum eða lágskattaríkjum hafa neyðst til að segja af sér embættum.

Réttlætiskennd almennings er misboðið. Ríkisstjórnir á Vesturlöndum, og Evrópusambandið sérstaklega, hafa í orði skorið upp herör gegn skattaskjólum og segjast vinna sameiginlega að því að koma í veg fyrir að þau séu nýtt til að komast undan skattgreiðslum. Á sama tíma er regluverk nokkurra ESB-landa hannað með það sérstaklega í huga að hægt sé að fela eignarhald fyrirtækja, leyna fjármunum og koma fé í skjól fyrir ágengum skattheimtumönnum annarra landa.

Saga um Jón og séra Jón

Í baráttunni við skattsvik hafa ríkisstjórnir margra landa Í Evrópu keypt upplýsingar um eignir borgaranna í lágskattaríkjum. Upplýsingarnar sem fengnar eru með vafasömum hætti – svo ekki sé dýpra í árinni tekið – hafa verið nýttar til að hefja umfangsmiklar rannsóknir á skattskilum einstaklinga og fyrirtækja. Skjölum um bankareikninga og aflandsfélög í lágskattaríkjum hefur verið lekið og fjölmiðlar flutt af þeim ítarlegar fréttir.

Þótt ekki sé það ólöglegt að eiga bankareikninga eða félög í lágskattaríkjum og þekktum skattaskjólslöndum, er það sögð vísbending um einbeittan vilja til að fela eignir og koma sér undan skattgreiðslum, jafnvel með skipulegum skattsvikum. Og ekki sitja allir við sama borð. Hinir efnameiri hafa tækifæri til að nýta sér sérhæfða þjónustu alþjóðlegra banka og lögmanna við að stofna bankareikninga og aflandsfélög. Almenningur á þess ekki kost – hefur ekki til þess fjárhagslega burði. Stórfyrirtæki nýta sér kosti þess að stofna dótturfélög í lágskattaríkjum með einfalt regluverk. Lítil og meðalstór fyrirtæki verða að gera sér að góðu flókið regluverk heimalandsins.

Þetta er gamalkunnug saga um Jón og séra Jón. Ég hygg að fátt þoli Íslendingar verr en mismunun, ekki síst á grunni menntunar, stéttar og efnahags.

Tvöfalt skattkerfi

Það er því merkilegt hve Íslendingar eru umburðarlyndir þegar skipulega er unnið að því að búa til tvöfalt skattkerfi – mismuna fyrirtækjum og athafnamönnum. Allt samkvæmt lögum og ákvörðunum stjórnvalda á hverjum tíma. Jafnræðisreglan var numin úr gildi af vinstri ofstjórninni 2009 til 2013, þegar erlendum fjárfestum var boðið að kaupa eignir hér á landi með 20% afslætti í gegnum Seðlabankann. Þá nutu þóknanlegir auðmenn og þekktar Hollywood-stjörnur sérstakrar ríkisverndaðrar velvildar í formi skattfríðinda. Vinstri stjórn norrænnar velferðar innleiddi ójöfnuð og óréttlæti, setti íslenska framtaksmanninn út í horn og taldi rétt að launafólk stæði skörinni lægra en þekktar kvikmyndastjörnur. Nú er komin meiri formfesta á forréttindin.

„Af hverju eru Tom Cruise og Russell Crowe jafnari en við hin?“ var yfirskrift Morgunblaðsgreinar sem ég skrifaði í maí á síðasta ári. Þar var gagnrýnt hvernig skattalegir ívilnunarsamningar hefðu brotið gegn jafnræðisreglu, sem við Íslendingar viljum þó halda í heiðri – a.m.k. í orði. Orðrétt sagði:

„Skattalegar ívilnanir eru draugar sósíalismans. Eitt hlutverk hægri manna er að kveða niður slíka drauga og byggja upp heilbrigt skattaumhverfi sem örvar allt efnahagslífið. Þetta gerði Sjálfstæðisflokkurinn þegar hann tók við forystu í ríkisstjórn og fjármálaráðuneytinu árið 1991.

Umfangsmiklar breytingar á skattkerfinu, þar sem skattar voru ýmist lækkaðir eða felldir niður, skiluðu ríkissjóði auknum tekjum. Frá 1991 til 2007 tvöfölduðust tekjurnar að raunvirði.

Meiri hófsemd í tekjuskatti fyrirtækja skilaði öllum meira. Árið 1985 var tekjuskatturinn 50% en var kominn niður í 18% árið 2003. Skatttekjur ríkisins af fyrirtækjum hækkuðu engu að síður úr 0,9% í 1,5% sem hlutfall af vergri landsframleiðslu.“

Grænt ljós á forréttindi

Fyrir nokkru gaf ESA – Eftirlitsstofnun EFTA – grænt ljós á ívilnunarsamning sem íslensk stjórnvöld gerðu við Silicor Materials vegna byggingar sólarkísilverksmiðju á Grundartanga. Samningurinn tryggir eigendum verksmiðjunnar skattalegt hagræði og sérreglur um leigu og fyrningu í tíu ár. Þannig er búið til sérstakt „skattaskjól“ fyrir sólarkísilverksmiðju upp á 4.640 milljónir króna samkvæmt mati ESA.

Samningurinn gerir ráð fyrir að tekjuskattur fyrirtækisins verði 15% í stað 20% líkt og íslensk fyrirtæki þurfa að greiða. Þá fær verksmiðjan sérstakan 50% afslátt af tryggingagjaldi sem reiknast af launagreiðslum til starfsmanna og einnig 50% afslátt af fasteignagjöldum.

Áætlanir Silicor Materials gera ráð fyrir að um 450 starfsmenn verði á vegum fyrirtækisins þegar verksmiðjan tekur til starfa. Ívilnunarsamningurinn jafngildir því 10,3 milljónum króna á hvert starf. Sjálfstæði atvinnurekandinn sem hefur hug á því að fjölga starfsmönnum hefði örugglega ekkert á móti því að fá rúmlega tíu milljónir króna í meðgjöf með hverju nýju starfi, ekki síst á meðan tryggingagjaldið lækkar ekki meira. En athafnamanninum, með litla fyrirtækið, stendur ekki slíkur samningur til boða, ekki frekar en sérstakir þjálfunarstyrkir sem ríkið er tilbúið að veita á grunni ívilnana.

Forskrift að skattkerfi

Það er fullkomlega eðlilegt og skiljanlegt að eigendur Silicor Materials gangi til samninga við stjórnvöld um skattalegar ívilnanir og komi sér í skattalegt skjól í áratug. Allir atvinnurekendur myndu grípa slíkt tækifæri. En tækifærin standa ekki öllum til boða. Í því felast óréttlætið og ójöfnuðurinn. Kannast einhver við söguna um um Jón og séra Jón?

Auðvitað er það rétt og skynsamlegt að ýta undir fjárfestingu í atvinnulífinu með skattalegum hvötum. Þannig er byggt undir bætt lífskjör landsmanna. Forréttindi útvalinna er hins vegar versta aðferðin. Einföld reglusetning og hófsöm skattlagning, þar sem allir lúta sömu leikreglum, eru efnahagslegir hvatar sem brengla ekki ákvarðanir og tryggja hagkvæma nýtingu fjármuna.

Á undanförnum árum hafa verið gerðir fleiri ívilnunarsamningar s.s. um álþynnuverksmiðju, fiskvinnslu, gagnaver, stálendurvinnslu, fiskeldi og kísilver. Það er umhugsunarvert af hverju sérstöku skattaskjólin sem búin hafa verið til hér á landi vekja litla eða enga athygli. Fjölmiðlar beina fremur kastljósinu að aflandseyjum, sem fáir þekkja nema af afspurn. Stjórnmálamenn halda áfram að undirrita forréttindasamninga í stað þess að ganga hreint til verks og sníða hagstætt skattaumhverfi. Forskriftin liggur fyrir í ívilnunarsamningunum sjálfum.

Share