Dýrkeypt sjö ára skjól sem aldrei varð

Dýrkeypt sjö ára skjól sem aldrei varð

Áður en Steingrímur J. Sigfússon settist í stól fjármálaráðherra í febrúar 2009 voru flestir sannfærðir um að hann myndi standa fast á rétti Íslendinga og verja hagsmuni þeirra gagnvart breskum og hollenskum stjórnvöldum í Icesave-deilunni. Yfirlýsingar hans gáfu tilefni til þess að almenningur gæti treyst því að hann myndi verja málstað Íslands með kjafti og klóm.

Í viðtali við mbl.is 22. október 2008 – fáum dögum eftir að bankarnir hrundu – var Steingrímur J. skýrmæltur um Icesave:

„Ég hef heyrt þann orðróm að þarna séu tengsl á milli og ef það er svo að þetta sé fyrirfram skilyrði af hálfu Alþjóðagjaldeyrissjóðsins til þess að koma hér að málum, að við gerum upp öll þessi ósköp í Bretlandi og Hollandi án þess að það liggi endilega fyrir að okkur sé lagalega og þjóðréttarlega skylt að gera það, þá er það auðvitað ekkert annað en fjárkúgun. Þá eru allar okkar verstu martraðir að rætast hvað varðar aðkomu Alþjóðagjaldeyrissjóðsins.“

Steingrímur var sannfærður um að engin ríkisábyrgð væri á Icesave-reikningum Landsbankans og 24. janúar 2009 – örfáum dögum áður en hann tók við ráðuneyti fjármála í ríkisstjórn sem kenndi sig við norræna velferð – skrifaði hann grein í Morgunblaðið og sagði með- al annars:

„Eins og lögfræðingar hafa bent á var hlutverk innlánatryggingakerfa samkvæmt reglum ESB/ EES- svæðisins aldrei að takast á við allsherjar bankahrun, heldur að- eins fall einstakra banka. Sama sjónarmið kemur fram í skýrslum og yfirlýsingum frá Seðlabanka Evrópu og framkvæmdastjórn ESB. Veigamikil rök hnigu því strax frá upphafi að því að íslenska ríkið bæri ekki ábyrgð á skuldum vegna Icesave-reikninganna umfram þá upphæð sem var til staðar í Tryggingasjóði innistæðueigenda.“

Steingrímur hélt því fram að mesta ögurstundin í Icesavemálinu væri eftir og því „hægt að afstýra stórslysi fyrir íslenska þjóð“:

„Taki Tryggingarsjóðurinn hins vegar við skuldunum er ljóst að þá verður ekki aftur snúið: Þá hefur þjóðin endanlega verið skuldsett á grundvelli pólitískra þvingunarskilmála sem ríkisstjórnin hafði ekki dug í sér til að standa gegn.“

Syndir heimsins bornar burt

Ekki liðu fjórir mánuðir frá því að Steingrímur tók við völdum í fjármálaráðuneytinu þar til dró til tíðinda. Í umræðum á Alþingi 3. júní 2009 fullvissaði Steingrímur þingheim um að „það standi ekki til að ganga frá einhverju samkomulagi á morgun eða einhverja næstu daga og áður en til slíks kæmi yrði að sjálfsögðu haft samráð við utanríkismálanefnd og aðra þá aðila sem þingið hefur haft til að fylgjast með framvindu þessara mála“. Aðeins væru „könnunarviðræður eða könnunarþreifingar“ í gangi.

Tveimur dögum síðar skrifaði Svavar Gestsson, formaður samninganefndar íslenskra ríkisins, hins vegar undir samninga við bresk og hollensk stjórnvöld. Þremur dögum eftir undirritun sagðist Svavar í samtali við Morgunblaðið hafa verið „svo forhertur“ að taka að sér „þetta svakalega verkefni ásamt samstarfsmönnum, eitt stærsta efnahagslega verkefni sem Ísland hefur nokkurn tímann glímt við“.

Í huga Svavars var meira undir; ef ekki hefði verið gengið frá samningunum hefði allt innistæðutryggingakerfið í Evrópu hrunið – hvorki meira né minna:

„Við erum í rauninni að bera burt syndir heimsins, eins og sagt var um Jesú Krist.“

Sjö ára skjól

Í viðtalinu undirstrikaði Svavar að íslenska hagkerfið væri komið í skjól í sjö ár og að alþjóðlegir fjármálamarkaðir myndu opnast með því að bresk stjórnvöld aflétti frystingu og taki Ísland af hryðjuverkalista. Réttlæting Svavars Gestssonar á gerðum samningum var í takt við rökstuðning Jóhönnu Sigurðardóttur forsætisráðherra sem skrifaði meðal annars í Morgunblaðið 9. júní 2009:

„Eftir að hafa farið vandlega yfir málið með samninganefnd íslenska ríkisins sannfærðist ríkisstjórnin um að ekki væri hægt að ná betri samningum án þess að taka enn frekari áhættu með framhald endurreisnarstarfsins sem nú stendur yfir. Lengra yrði ekki komist án harkalegra árekstra við alþjóðasamfélagið eða mikilla tafa á endurreisnarstarfinu. Skiptir þar sköpum það 7 ára svigrúm sem gefið er til að nýta sem best eignir Landsbankans til að borga upp skuldina, áður en til ábyrgðar eða útgjalda íslenska ríkisins gæti komið.“

Jóhanna ítrekaði oft þessar röksemdir meðal annars í pistli á heimasíðu sinni, þar sem hún hélt því fram að „háum þröskuldi“ hefði verið „rutt úr vegi endurreisnaráætlunar Íslands og með því opnast á ný, þær efnahagslegu og pólitísku dyr til alþjóðasamfélagsins sem framtíð Íslands byggir ekki hvað síst á“.

Fyrirvarar á ríkisábyrgð

Efni Svavars-samninganna var ekki gert opinbert í fyrstu en þrátt fyrir það var ljóst að samningarnir voru mjög umdeildir, svo ekki sé tekið dýpra í árinni. Sumarið 2009 fór í miklar deilur um Icesavemálið. Talsmenn Svavars-samninganna sökuðu andstæðinga þeirra um „lítilsverðan sparðatíning, upphrópanir og órökstuddar fullyrðingar“. Svo fór að lokum að Alþingi samþykkti – með atkvæðum stjórnarþingmanna – ríkisábyrgð á Icesave. Þá höfðu verið gerðir miklir fyrirvarar sem aftur voru forsenda þess að Ólafur Ragnar Grímsson forseti ákvað að staðfesta lögin en um leið gaf hann út skriflega yfirlýsingu, þar sem bent var á að í lögunum væru margvíslegir fyrirvarar:

„Forseti hefur því ákveðið að staðfesta lögin með sérstakri áritaðri tilvísun til fyrirvara Alþingis.“

Bresk og hollensk stjórnvöld felldu sig ekki við fyrirvara Alþingis. Svavar-samningarnir náðu því aldrei fram að ganga. Ástæða þess var að Alþingi tók fram fyrir hendur ríkisstjórnarinnar. En ríkisstjórnin hélt áfram, samdi að nýju, forseti hafnaði og þjóðin tók undir með honum í þjóðaratkvæðagreiðslu með afgerandi hætti. Í þriðja sinn var samið, forsetinn hafnaði og þjóðin sömuleiðis.

Í janúar 2013 komst EFTA-dómstóllinn að þeirri niðurstöðu að engin ríkisábyrgð væri á Icesave-skuldum Landsbankans.

208 milljarða skuld

Svavars-samningarnir hefðu reynst Íslendingum dýrkeyptir. Sjö ára skjólinu, sem Jóhanna Sigurðardóttir forsætisráðherra lagði svo mikla áherslu á, hefði lokið síðastliðinn sunnudag – 5. júní. Skuld ríkissjóðs – íslenskra skattgreiðenda – hefði numið 208 milljörðum króna eða 8,8% af áætlaðri landsframleiðslu. Þetta jafngildir að hver fjögurra manna fjölskylda hefði skuldað 2,5 milljónir króna vegna samninga, sem áttu sér enga lagastoð.

Steingrímur J. Sigfússon hefur aldrei skýrt ástæðu sinnaskipta sinna gagnvart ríkisábyrgð á Icesave-skuldum Landsbankans. Ekki frekar en ráðherrar og þingmenn norrænu ríkisstjórnarinnar sem þegja þunnu hljóði um hvað fólst í „baktjaldasamkomulagi“ stjórnarflokkanna um ESB, en liðlega mánuði eftir að Svavars-samningarnir voru undirritaðir var samþykkt að sækja um aðild Íslands að sambandinu.

Lærdómurinn af Svavars-samningunum og Icesave-deilunni allri er margþættur. Fyrst og síðast hversu mikilvægt það er að forystumenn þjóðar standi á lagalegum rétti. Að þeir hafi hugrekki til verja hagsmuni landsmanna og láti ekki hræðsluáróður „fræðimanna“ eða annarra um Kúbu norðursins eða Norður-Kóreu, hafa áhrif á sig. Að þeir hafi þekkingu til að átta sig á því að með engum hætti sé hægt að réttlæta að almenningur sé neyddur til „að greiða skuldir óreiðumanna“. Að í krafti reynslu geti þeir sýnt yfirvegun í erfiðum málum en fari ekki úr jafnvægi þegar mest á reynir.

 

Share
Share

Written by:

View All Posts
Follow Me :