Stríðið gegn Evrópu og endurreisn lögreglunnar

Það er barnaskapur og raunar forheimska að halda að við Íslendingar njótum einhverrar friðhelgi frá morðóðum öfgamönnum sem hafa það eitt að markmiði að tortíma því sem okkur er kærast. Þeir fyrirlíta allt sem við, líkt og Frakkar og aðrir Vesturlandabúar, stöndum fyrir: Frelsinu sjálfu. Frelsi til að stunda trú okkar í friði og sátt við samferðamenn okkar. Frelsi til að efast og trúa ekki á neitt. Frelsi til segja það sem í brjósti okkar býr. Frelsi til velja valdhafa og rækta sögu okkar og menningu. Frelsi til að elska. Frelsi til að ferðast. Frelsi til að vera við sjálf.

Hryllingsverkin í París síðastliðinn föstudag þegar óbreyttir saklausir borgarar voru myrtir með köldu blóði, eru áminning um að engin er óhultur. Francois Hollande, forseti Frakklands, hefur lýst því yfir að Frakkland sé í stríði. Í hans huga er ástæður árásanna í París augljósar:

„Frakkland er land frelsis, vegna þess að Frakkland er heimili mannréttinda.“

Yfirveguð og markviss viðbrögð

Hinir morðóðu öfgamenn hafa ekki aðeins lýst yfir stríði á hendur Frakklandi. Þeir eru í stríði við alla Evrópu og aðrar frjálsar þjóðir. Við upphaf þingfundar síðastliðinn mánudag sagði Einar K. Guðfinnsson, forseti Alþingis:

„Hryðjuverkin í París voru árásir á saklaust fólk en þau eru líka atlaga að þeim vestrænu gildum mannúðar, frjálslyndis og umburðarlyndis sem eru hornsteinar samfélags okkar. Sú atlaga má aldrei takast.“

Undir þessi orð þingforseta geta allir tekið og öllum má vera ljóst að íslensk stjórnvöld líkt og stjórnvöld annarra vestrænna ríkja, verða að bregðast við. Þau viðbrögð eiga að vera yfirveguð og markviss til að tryggja öryggi lands og þjóðar. Viðbrögðin verða einnig að auka öryggistilfinningu almennings. Að öðrum kosti verður til frjór jarðvegur fyrir ógeðfellda öfgahópa sem nærast á tortryggni og óvild, sem grefur undan grunngildum frjálsra einstaklinga, þótt aðferðirnar kunni að vera aðrar en hrottarnir í París og vopnabræður þeirra beita.

Ólíkt flestum öðrum eigum við Íslendingar aðeins borgaralegar stofnanir til tryggja okkar eigið innra öryggi; lögregluna, tollgæsluna og Landhelgisgæsluna. Miðað við hvernig staðið hefur verið að fjárveitingum á síðustu árum, er illa hægt að komast að annarri niðurstöðu en að við séum fremur sinnulaus um eigið öryggi. Að raungildi hafa framlög ríkisins til almennrar löggæslu og Landhelgisgæslunnar lækkað. Þau voru 2,7 milljörðum krónum lægri á síðasta ári en árið 2007. En við höfum sett meiri fjármuni í dómsstóla og hækkað verulega framlög til fangelsismála.

Veikari löggæsla og minna öryggi

Afleiðing lægri fjárveitinga er sú að lögreglumönnum hefur fækkað hlutfallslega. Aldamótaárið var einn lögreglumaður á hverja 418 íbúa. Á síðasta ári voru 483 íbúar að baki hverjum lögreglumanni. Með öðrum orðum: Það vantar a.m.k. 104 lögreglumenn í fullt starf og þá aðeins til að halda í við fjölgun íbúa. Þar með er ekki öll sagan sögð.

Árið 2000 komu tæplega 303 þúsund erlendir ferðamenn til landsins eða 455 á hvern lögreglumann. Á liðnu ári heimsóttu tæplega 998 þúsund útlendingar landið heim eða 1.463 á hvern lögreglumann.

Með nokkurri einföldun er því hægt að segja:

  • Aldamótaárið þurfti hver lögreglumaður að sinna að meðaltali 418 Íslendingum og 455 útlendingum. Alls 873 einstaklingum.
  • Árið 2014 sinnti hvert lögreglumaður 483 Íslendingum og 1.463 erlendum borgurum. Alls 1.946 einstaklingum.

Það þarf engan sérfræðing til að túlka þessar tölulegu staðreyndir. Löggæslan á Íslandi hefur veikst og þar með hefur öryggi allra minnkað. Endurreisn lögreglunnar er eitt stærsta hagsmunamál landsmanna. Ákveðið skref var stigið á síðasta ári en samkvæmt ársskýrslu Ríkislögreglustjóra voru ráðnir nýir lögreglumenn enda fékkst aukið fé auk þess sem fjárveiting fékkst til aukinnar þjálfunar og til kaupa á búnaði. En betur má ef duga skal.

Frumskylda ríkisvaldsins gagnvart eigin borgurum er að tryggja öryggi þeirra. Voðaverkin í París er óvægin áminning um að þessari frumskyldu sé sinnt. Þegar fjárveitingarvaldið – Alþingi – gengur frá fjárlögum komandi árs, hlýtur forgangurinn að vera augljós. Fyrst skal tryggt að ríkið sinni skyldum sínum en láti léttvægari og á stundum hégómleg verkefni mæta afgangi.

Schengen riðar til falls

Endurreisn löggæslunnar ein og sér dugar skammt ef landamærin eru ekki trygg. Þess vegna verður ekki hjá því komist að endurskoða þátttöku Íslands í Schengen-samstarfinu, ekki síst ef ekki verða gerðar grundvallar breytingar á því.

Í orði og á blaði er sameiginlegt landamæraeftirlit Schengen-ríkjanna og afnám innri landamæra, skynsamleg og til hagsbóta fyrir borgarana. Á borði hefur reyndin því miður orðið önnur. Aðildarríkjunum hefur reynst um megn að verja ytri landamæri og afleiðingarnar blasa við.

Í huga Francois Hollande, forseta Frakklands, er málið einfalt:

„Ef Evrópa getur ekki stjórnað landamærum sínum við aðrar heimsálfur, þarf að snúa aftur til landamæra landanna sjálfra.“

Orð Frakklandsforseta eru augljós sannindi. Forsenda þess að innri landamæri Schengen-ríkjanna voru þurrkuð út, var loforðið um trygg ytri landamæri. Við það loforð hefur ekki tekist að standa.

Falli Schengen mun það hafa veruleg áhrif á allt samstarf innan Evrópusambandsins og því munu leiðtogar þess leggja mikið á sig svo lausn finnist á þeim vanda sem blasir við öllum. Miklu skiptir að íslensk stjórnvöld fylgist ekki aðeins með heldur leggi fram og hafi áhrif á með hvaða hætti Schengen-samstarfinu verður breytt. Það er síðan sjálfstæð ákvörðun hvort Ísland eigi að halda áfram að vera innan Schengen. Rökin fyrir aðild verða fátæklegri með hverjum mánuðinum.

Mikilvægt bandalag

Hryllingsverkin í París undirstrika ekki aðeins mikilvægi þess að efla innlenda löggæslu og endurskoða Schengen-samstarfið, heldur einnig nauðsyn þess að styrkja samstarfið við önnur ríki Atlantshafsbandalagsins og varnarsamninginn við Bandaríkin.

Það er gleðilegt að Gunnar Bragi Sveinsson  utanríkisráðherra taki af öll tvímæli í þessum efnum í þingsályktunartillögu  um þjóðaröryggisstefnu fyrir Ísland. Samkvæmt tillögunni eru áherslur í þjóðaröryggisstefnunni meðal annars:

  • Að aðild Íslands að Atlantshafsbandalaginu verði áfram lykilstoð í vörnum Íslands og meginvettvangur vestrænnar samvinnu sem Ísland tekur þátt í á borgaralegum forsendum til að efla eigið öryggi og annarra bandalagsríkja.
  • Að varnarsamningur Íslands og Bandaríkjanna frá 1951 tryggi áfram varnir Íslands og áfram verði unnið að þróun samstarfsins á grundvelli samningsins þar sem tekið verði mið af hernaðarlegum ógnum, sem og öðrum áhættuþáttum þar sem gagnkvæmir varnar- og öryggishagsmunir eru ríkir.

Það er mikilvægt að Alþingi staðfesti þessar áherslur þótt það sé um leið áhyggjuefni að hættumatið sem liggur að baki tillögunni um þjóðaröryggi, sé reist á sex ára gamalli skýrslu. Margt hefur breyst og við stöndum frammi fyrir nýjum ógnunum og ögrunum, allt frá norðurslóðum, til Úkraínu, frá hryðjuverkum til tölvuárása. Raunsæ og skynsamleg stefna í þjóðaröryggi getur aldrei verið byggð á öðru en nýjustu upplýsingum. Allt annað býr til falskt öryggi.

Share
Share

Written by:

View All Posts
Follow Me :