Hugsjónir og samkvæmisleikur stjórnmála

Jæja, þá er leikurinn hafinn. Stjórnmálaflokkarnir eru farnir að huga að kosningum í haust og fjölmiðlar hafa þjófstartað með hefðbundnum samkvæmisleik, þar sem kastljósinu er beint að persónum og leikendum. Fáir hafa áhuga á pólitískri stefnu, hugsjónum eða hugmyndum.

Samkvæmisleikur fjölmiðlanna er ein birtingarmynd þróunar sem átt hefur sér stað á síðustu árum, þar sem pólitísk átök eru sögð af hinu illa en málamiðlanir og samræður eru merki um þroska og skynsemi. Kjörnir fulltrúar, hvort heldur á Alþingi eða í sveitarstjórnum, eiga ekki að deila um grunnvallaratriði og hugsjónir. Þeir eiga að setjast niður, eiga huggulegar samræður líkt og heldri menn í teboði, gera málamiðlanir hver í kapp við annan og komast að sameiginlegri niðurstöðu.

Hugsjónum pakkað í kassa

Hugsjónir skal setja til hliðar enda aukaatriði í listgrein samræðustjórnmálanna. Pólitísk sannfæring flækist fyrir og er því lítt æskileg. Með samræðustjórnmálum eru pólitísk og hugmyndafræðileg mörk þurrkuð út jafnt milli stjórnmálamanna og stjórnmálaflokka. Í andrúmslofti samræðunnar er ekki lengur nauðsynlegt að stjórnmálamenn, eða þeir sem sækjast eftir kjöri í kosningum, byggi á skýrri hugmyndafræði og hafi djúpstæða sannfæringu. Að standa fast við grunnhugsjónir er ekki heppilegt – slíkt getur eyðilagt huggulegheit samræðustjórnmálanna.

Þegar búið er að pakka hugsjónum niður í kassa er lítið annað eftir fyrir fjölmiðla en að beina athyglinni að einstaklingum sem líklegir eru til að sækjast eftir kjöri í embætti. Því þekktari sem viðkomandi er, því „betri“ er fréttin og ekki þarf djúpa þekkingu á stjórnmálum til að matreiða hvert „skúbbið“ á fætur öðru. Skoðanir á flóknu skattkerfi skipta engu, hugmyndir um varnar- og öryggismál eru aukaatriði, viðhorf til skipulags heilbrigðiskerfisins eru léttvæg, afstaðan til eignarréttarins er eins og hvert annað skitirí, hugmyndir í menntamálum eru veigalitlar og hugsjónir um ríkisvaldið, verksvið þess og rétt einstaklingsins eru svo miklir smámunir að þær eru settar til hliðar.

Útspil í samkvæmisleiknum

Frétt sem Eyjan.is birti síðastliðinn sunnudag um framboðsmál Viðreisnar Benedikts Jóhannessonar var eitt útspilið í samkvæmisleiknum. Fullyrt var að innan Viðreisnar standi „vonir til þess að hægt sé að fá Höllu Tómasdóttur forsetaframbjóðanda til þess að taka við forystu í flokknum og verða forsætisráðherraefni hans“. Fréttin var „eftir öruggum heimildum“ Eyjunnar og einnig var upplýst að „Páll Magnússon, fv. útvarpsstjóri og núverandi umsjónarmaður Sprengisands á Bylgjunni, verði í framboði fyrir flokkinn á Suðurlandi“.

Halla Tómasdóttir var fljót að lýsa því yfir að hún hefði engan hug á framboði en ljóst er að Pál Magnússon skortir ekki áhugann – en kannski ekki fyrir Viðreisn.

Í bakgrunni fréttarinnar virðist sú sannfæring blaðamanns og/eða heimildarmanna hans að Halla og Páll eigi góða pólitíska samleið með Viðreisn, – flokki sem var stofnaður til að vinna að aðild Íslands að Evrópusambandinu.

Fyrir forsetakosningarnar sagðist Halla hafa „afar blendnar tilfinningar til Evrópusambandsins, en er þeirrar skoðunar að þjóðin eigi að fá að segja hug sinn í þessu máli þegar samningsdrög liggja fyrir“. Kannski eru þessar skoðanir Höllu nægilega loðnar til að falla vel að stefnu Viðreisnar, sem leggur æ minni áherslu á Evrópusambandið og engu er líkara en flokkurinn vilji lítt kannast við fortíðina, sem þó er ekki löng.

Páll Magnússon er andvígur aðild eins og kom skýrt fram í pistli sem birtist á vefsíðu Hringbrautar í febrúar 2015. Rök hans voru skýr: Hagsmunum Íslendinga er „betur borgið utan ESB en innan“. Og hann taldi rétt að slíta aðildarviðræðum:

„Aðildarviðræðum verður að fylgja vilji til að ganga inn og hann er ekki fyrir hendi; hvorki hjá ríkisstjórninni, meirihluta Alþingis né meirihluta þjóðarinnar. Við slíkar aðstæður eru aðildarviðræður í besta falli bjánalegar.“

Þrátt fyrir þessa skýru andstöðu Páls Magnússonar við ESB-aðild finnst fjölmiðlungum og a.m.k. einhverjum liðsmönnum Benedikts Jóhannessonar það ekki fráleitt að hann taki sæti á framboðslista flokksins fyrir komandi kosningar. Líklega vegna þess að Viðreisn er að leita leiða til að „jarðsetja“ baráttumálið mikla; aðild að Evrópusambandinu. Hvað er þá betra en hafa yfirlýstan andstæðing aðildar í forystusveitinni? Helsta forsenda fyrir stofnun Viðreisnar er hvort sem er brostin.

Merkingarlaust frjálslyndi

En Viðreisn segist vera frjálslyndur flokkur og Páll Magnússon upplýsti í viðtali við DV að hann íhugaði framboð til þings. „Stuðningsmenn tveggja stjórnmálaflokka hafa talað um það við mig núna að fara í framboð í haust,“ sagði Páll og svaraði spurningu um pólitíska skoðun sína:

„Ef það ætti að pína mig til að nota eitt orð væri það frjálslyndur og ég gæti ábyggilega fundið því frjálslyndi stað í fleiri en einum stjórnmálaflokki. Sennilega myndi einhver vilja bæta við: hægra megin við miðju – en þessi vinstri/hægri skali dugar ekki jafnvel og áður til að staðsetja fólk á hinu pólitíska litrófi.“

Í huga Páls er svo lítill munur á stjórnmálaflokkum að hann treystir sér til að ganga til liðs við fleiri en einn stjórnmálaflokk og berjast fyrir hans hönd. Þetta er dómur hugsanlegs frambjóðanda yfir íslenskum stjórnmálum nema að frjálslyndið þýði lítið annað en að fyrir hendi sé vilji til að eiga huggulegar samræður.

Stjórnmálamenn til vinstri og hægri eru duglegir að kenna sig við frjálslyndi. Orðið er fallegt og jákvætt en hefur litla þýðingu – merking þess er án innihalds. Hver og einn skilur það með sínum hætti. Hinir „frjálslyndu“ saka aðra um kreddufestu og þröngsýni, jafnvel þá sem kenna sig við umburðarlyndi og víðsýni. Frjálslyndi vinstri mannsins felst í því að seilast dýpra í vasa skattgreiðenda og sýna samfélagslega ábyrgð með því að þenja út ríkisvaldið og -reksturinn. Hægri maðurinn sem lítur á sig sem frjálslyndan vill takmarka umsvif ríkisins, takmarka skattheimtu og auka frjáls viðskipti.

Þannig eru hugtökin vinstri og hægri sæmilega skýr í pólitík. Frjálslyndi er hins vegar orðið merkingarlaus klisja en hentar ágætlega í stjórnmálum samtímans – gefur mörgum aukna möguleika á uppboðsmarkaði stjórnmálanna og í samkvæmisleiknum.

 

Share