Útgjöld ríkisins: Aftur til ársins 2007

Þetta er farið að minna á árið 2007, segja margir sem vilja gagnrýna það sem miður fer í íslensku efnahagslífi. Ekkert er óeðlilegt við að setja gagnrýni fram á einfaldan hátt, þótt í einfaldleikanum geti myndin sem dregin er upp af stöðu efnahagsmála orðið villandi og jafnvel röng.breyting á útgjöldum

Árið 2007 var Íslendingum hagfellt í mörgu. Atvinnuleysi var hverfandi, kaupmáttur launa jókst verulega, hagvöxtur var mikill og góður afgangur var á ríkissjóði þrátt fyrir umtalsverða raunaukningu útgjalda. Ríkissjóður átti peningalegar eignir umfram skuldir. Væntingar almennings og stjórnenda fyrirtækja voru í hæstu hæðum. Almenn bjartsýni ríkti um framtíðina.

Að þessu leyti er ekki vont að snúa aftur til ársins 2007 og margt bendir til þess að íslenskt efnahagslíf sé á þeirri vegferð. Væntingavísitala Gallup hefur náð svipuðum hæðum og sumarið 2007, byggingakranar rísa um allt höfuðborgarsvæðið og víða um land, atvinnuleysi er lítið og kaupmáttur hefur aukist verulega á síðustu misserum. Hagur flestra fyrirtækja hefur vænkast og eignastaða heimilanna er sterkari en áður.

Hærri útgjöld

Samkvæmt ríkisreikningi námu heildarútgjöld ríkissjóðs um 667 milljörðum króna á síðasta ári en þar af var liðlega 79 milljarða vaxtakostnaður. Án fjármagnskostnaðar voru útgjöld því liðlega 587 milljarðar króna.

Á verðlagi síðasta árs voru útgjöld ríkisins 2007 án vaxta tæpir 587 milljarðar. Sem sagt:

Í útgjöldum er ríkissjóður kominn aftur til 2007. Þar munar mestu að útgjöld til velferðarmála hafa hækkað gríðarlega í tíð þessarar ríkisstjórnar og eru tæplega 12 milljörðum króna hærri að raunvirði en 2007. Hækkun á útgjöldum fjármálaráðuneytisins er vegna skuldaleiðréttingarinnar sem er gjaldfærð á nokkrum árum.

Framlög til vegaframkvæmda eru hins vegar langt undir raungildi á árinu góða og útgjöld til löggæslu eru það einnig og munar þar liðlega 2,1 milljarði króna. Við settum hins vegar töluvert meiri fjármuni til fangelsismála og dómstóla á síðasta ári.

Það ætti að gleðja einhverja að útgjöld til landbúnaðarmála voru á liðnu ári 3,4 milljörðum króna lægri að raungildi en 2007. Útgjöld vegna framhaldsskóla hækkuðu en framlög til háskóla lækkuðu að raungildi þrátt fyrir að nemendum hafi fjölgað töluvert.breyting á útgjöldum2

Ekki alveg 2007

Það sem skilur á milli 2007 og 2015 eru yfir 900 milljarðar vegna verri eignastöðu ríkissjóðs – skuldir umfram eignir. Samkvæmt ríkisreikningi voru skuldir og skuldbindingar um 913 milljörðum króna hærri en eignir í lok síðasta árs þrátt fyrir töluverða lækkun skulda á milli ára. Á þessu ári munu skuldir lækka gríðarlega. Þannig færist ríkissjóður nær árinu 2007 þegar eignir voru umfram skuldir. Og það hlýtur að vera fagnaðarefni, jafnvel í hugum þeirra sem tala um árið 2007 af töluverðri fyrirlitningu.

Verri skuldastaða endurspeglast í þeirri staðreynd að á liðnu ári greiddi ríkissjóður um 44,6 milljörðum króna meira í vexti að raunvirði en 2007. Þetta er litlu lægri fjárhæð en rann til reksturs Landspítalans allt síðasta ár.

En þrátt fyrir að útgjöld ríkissjóðs hafi hækkað verulega á síðustu árum og séu svipuð á föstu verðlagi og á »gullárinu« vantar töluvert upp á tekjurnar. Skatttekjur ríkisins voru liðlega 16 milljörðum króna lægri á síðasta ári. Engu að síður hafa skatttekjur ríkissjóðs hækkað verulega á síðustu árum. Tekjuskattur einstaklinga var nær 22 milljörðum króna hærri á liðnu ári en 2012 og tryggingagjaldið um 10 milljörðum. Þannig færast tekjur ríkisins nær 2007 og raunar eru sumir skattstofnar að skila meiru en þá.

Margt eftirsóknarvert

Auðvitað er ekki allt eftirsóknarvert frá árinu 2007, en það er langt í frá að allt hafi verið slæmt. Það er a.m.k. gott markmið að gera ríkissjóð skuldlausan nettó – eignir séu hærri en skuldir og að vaxtagreiðslur lækki í framtíðinni. Fyrir skattgreiðendur væri heldur ekki ónýtt að horfið yrði aftur til fortíðar með skattkerfið, þar sem;

  • tekjuskattur er í einu 23,75% þrepi og meðalútsvar 12,97%,
  • tryggingagjald er 5,79%,
  • fjármagnstekjuskattur 10%
  • tekjuskattur lögaðila 15%
  • og neðra þrep virðisaukaskatts er 7%.

Þannig má lengi telja.

Vinstri stjórn Samfylkingar og Vinstri grænna vann ötullega að því að umbylta skattkerfinu og leggja þyngri byrðar á fyrirtæki en ekki síður á herðar millistéttarinnar og eldri borgara. Á árunum 2008 til 2015 voru alls gerðar 176 breytingar á skattkerfinu. Meginþorri breytinganna voru skattahækkanir eða 132 á meðan 44 skattalækkanir voru gerðar og þær voru flestar á árinu 2014, í tíð ríkisstjórnar Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks.

Undir forystu Bjarna Benediktssonar, formanns Sjálfstæðisflokksins og fjármálaráðherra, hafa verið gerðar róttækar breytingar á ýmsum sköttum og gjöldum. Þar skiptir mestu að almenn vörugjöld hafa verið afnumin og tollar af fatnaði einnig. Kerfisbreytingarnar auka samkeppni í verslun og ákvörðun H&M, sænska verslunarrisans, um að opna verslanir hér á landi er staðfesting þesshvernig ríkið getur stuðlað að aukinni samkeppni með lægri álögum. Að þessu leyti stöndum við betur að vígi en 2007.

Share