Almenningur vs. elítan

Almenningur vs. elítan

Svo lengi sem almenningur tekur ákvarðanir sem eru embættismönnum og stjórnmálamönnum að skapi þá virkar lýðræðið. Taki kjósendur »rangar ákvarðanir« skal annaðhvort kosið aftur eða fundin er leið til að fara í kringum niðurstöðu kosninga. Þegar elítan – embættismenn, stjórnmálamenn, sérfræðingar og hinir menntuðu háskólamenn – kemst að niðurstöðu um hvað öllum sé fyrir bestu, er henni fylgt eftir enda talið nauðsynlegt að hafa vit fyrir illa upplýstum almúganum.

Þannig er viðhorf elítunnar sem á hátíðarstundum berst fyrir lýðræði og rétti almennings til að ráða örlögum sínum. Sá réttur takmarkast við að kjósendur taki „réttar ákvarðanir” í kosningum og aðeins elítan hefur burði og þekkingu til að ákveða rétt og rangt.

Síðastliðinn fimmudag samþykkti meirihluti breskra kjósenda að Bretland segi skilið við Evrópusambandið. Viðbrögðin við niðurstöðu þjóðaratkvæðagreiðslunnar (Brexit) eru með ólíkindum. Þar birtist hrokinn gagnvart almenningi grímulaus.

Rétt að hunsa meirihlutann

Þingmaður breska Verkamannaflokksins kallar eftir því að þingið hunsi vilja meirihluta kjósenda. „Við getum stöðvað þetta brjálæði og bundið enda á þessa martröð með atkvæðagreiðslu í þinginu,” voru skilaboð sem David Lammy, þingmaður sendi á Twitter-síðu sinni. Hann heldur því fram að þjóðaratkvæðagreiðslan hafi aðeins verið ráðgefandi og því séu stjórnvöld óbundin af niðurstöðu hennar. Í huga þingmannsins er ekkert athugavert eða siðferðilega rangt við að þjóðþing virði vilja meirihluta kjósenda að vettugi.

Skoðanir þingmannsins eru í samræmi við rótgróna hugmyndafræði sem hefur náð að festa rætur í Brussel. Lýðræðið er af hinu góða, svo lengi sem almenningur fylgir leiðsögn þeirra sem best eru til þess fallnir að taka mikilvægar ákvarðanir.

Viðbrögðin meðal ESB-sinna á Íslandi eru litlu betri. Árni Páll Árnason, fyrrverandi formaður Samfylkingarinnar, heldur því fram að þjóðaratkvæðagreiðslur geti verið „nauðsynlegar stundum, en þær brjóta niður þetta net lýðræðisins sem við höfum byggt upp í Vestur-Evrópu, þar sem fjölbreyttir hagsmunir vegast á og fólk ræðir sig að niðurstöðu”.

Sem sagt:

Þjóðaratkvæðagreiðslur eru »stundum« nauðsynlegar en ekki þegar kjósendur komast að „rangri niðurstöðu”.

Innantóm loforð

Skrif Árna Páls á fésbók varpa skýru ljósi á þau viðhorf sem réðu ferðinni í ríkisstjórn Samfylkingar og Vinstri grænna á síðasta kjörtímabili. Þá lögðust allir þingmenn Samfylkingarinnar og meirihluti þingmanna Vinstri grænna gegn því að kjósendur fengju að ákveða hvort Ísland óskaði eftir aðild að Evrópusambandinu eða ekki. Tvisvar var reynt að koma í veg fyrir að landsmenn gætu sagt sitt um Icesave-samninga sem hefðu lagt þungar byrðar á komandi kynslóðir.

Þannig reyndust öll loforðin og hástemmdu yfirlýsingarnar um aukið lýðræði og gegnsæi, aðeins innihaldslaus orð. Í stefnuyfirlýsingu sem samþykkt var á stofnfundi Samfylkingarinnar í maí 2000 sagði meðal annars:

„Við viljum víðtækt lýðræði. Fulltrúar almennings taki ákvarðanir um sameiginleg málefni fyrir opnum tjöldum. Sem flestar ákvarðanir verði teknar beint af þeim hópum fólks sem þær varða. Einstaklingar, samtök á vinnumarkaði og frjáls félagasamtök hafi sem mestan sjálfsákvörðunarrétt.”

Í stjórnmálaályktun landsfundar Samfylkingarinnar fyrir kosningarnar 2009 var rætt um »rétt almennings til þjóðaratkvæðagreiðslna«. Þetta var í takt við það sem fyrri landsfundir höfðu ályktað en fyrir þingkosningar sagði meðal annars í stjórnmálaályktun:

„Samfylkingin leggur höfuðáherslu á lýðræðismál með auknu íbúalýðræði og réttur almennings til þjóðaratkvæðagreiðslna verði tryggður í stjórnarskrá.”

Veit ekki sitt rjúkandi ráð

Nú segir fyrrverandi formaður Samfylkingarinnar að lýðræði snúist »ekki um að ná einu sinni meira en helmingi kjósenda, á óljósum forsendum. Þvert á móti er lýðræðiskerfi okkar og friður og velsæld Vesturlanda byggt á skuldbindingu um sameiginleg örlög og að lönd deili byrðum með þeim hætti að sum leggja stundum miklum mun meira af mörkum en önnur.«

Þessi skilgreining á lýðræðishugsjón samfylkinga kemur líklega einhverjum kjósendum á óvart. Þó er hún í ágætu samræmi við skoðanir forvera Árna Páls og fyrrverandi forsætisráðherra, Jóhönnu Sigurðardóttur um tvær þjóðaratkvæðagreiðslur um Icesave. Föstudaginn 5. mars 2010 – daginn fyrir fyrri þjóðaratkvæðagreiðsluna – lýsti Jóhanna því yfir í viðtali við Fréttablaðið að hún ætlaði ekki að taka þátt í atkvæðagreiðslunni um lög sem hún bar ábyrgð á. Hún taldi atkvæðagreiðsluna »markleysu«.

Elítan í Evrópu veit ekki sitt rjúkandi ráð. Hún neitar að horfast í augu við dóm kjósenda í Bretlandi. Þrátt fyrir hræðsluáróðurinn – í ætt við það sem við Íslendingar fengum að kynnast í aðdraganda Icesave-kosninganna – lét meirihluti breskra kjósenda ekki segjast. Tók sjálfstæða ákvörðun, þvert á það sem elítan vildi.

Talsmaður hrokans

Og þegar óbreyttur almúginn gengur gegn vilja elítunnar er nauðsynlegt að finna einfaldar skýringar. Egill Helgason hefur tekið að sér vera talsmaður elítunnar. Daginn eftir þjóðaratkvæðagreiðsluna er talað niður til almennings. Talsmaðurinn hélt því fram að »gamla fólkið« hefði ákveðið framtíðina fyrir þá yngri og þar með var gefið í skyn að miðaldra fólk og eldra ætti minni rétt en þeir sem yngri eru. Á bloggsíðu sinni segir Egill síðan:

„Sjötíu prósent þeirra sem eru með háskólapróf vilja vera áfram í ESB, en fólk með litla menntun vill fara út.”

Talsmaður elítunnar – álitsgjafinn – er skýr í afstöðu sinni og viðhorfum. Þar er hann í félagi við einn af forvígismönnum sjónvarpsstöðvarinnar Hringbrautar – Guðmund Örn Jóhannsson, sem af yfirlæti gagnvart breskum almenningi skrifaði:

„Bretar eru íhaldssamir, gamaldags og staðnaðir. Úrsögn úr ESB mun enn auka þessi einkenni þeirra og þeir munu halda áfram að dragast aftur úr öðrum iðnríkjum Evrópu.”

Úrsögn Bretlands úr Evrópusambandinu er söguleg og hefur gríðarleg áhrif – efnahagsleg og pólitísk. Vonir um að embættismenn og Evrópu-elítan bæru gæfu til að draga réttan lærdóm af skilaboðum meirihluta breskra kjósenda, virðast því miður ekki ætla að rætast. Valdastéttin í Evrópu er ekki fær um að hlusta. Þegar almenningur segir hingað og ekki lengra; við sættum okkur ekki hrokann frá valdhöfum, við erum á móti aukinni miðstýringu, við viljum fá að ráða meiru um eigin örlög, við viljum endurheimta fullveldi okkar frá embættismönnum í Brussel sem enginn hefur kosið, hristir elítan hausinn. Vísað er til fávísi og menntunarleysis almúgans sem elítan er sannfærð um að geti ekki tekið skynsamlega ákvörðun um framtíðina.

Share
Share

Written by:

View All Posts
Follow Me :