Dagskrárvaldið með skráð lögheimili í Efstaleiti

Dagskrárvaldið með skráð lögheimili í Efstaleiti

Margt bendir til þess að í aðdraganda alþingiskosninga síðar á þessu ári, verði fjölmiðlun í besta falli neikvæð fyrir stjórnarflokkanna. Ef tekið er mið af framgöngu þekktra álitsgjafa og flestra fjölmiðla – ríkisrekinna jafnt sem einkarekinna – í baráttunni um Bessastaði, er ekki hægt að reikna með öðru að gengið verði hart fram. Sanngirni og hlutleysi verður lagt til hliðar þegar og ef það hentar. Þeir sem njóta velþóknunar fjölmiðlunga fá að baða sig í jákvæðu kastljósi fjölmiðla.

Auðvitað er ekkert við því að segja að einkareknir fjölmiðlar taki skýra afstöðu með eða á móti einstökum frambjóðendum eða stjórnmálaflokkum. Með sama hætti er það eðlilegt og oft nauðsynlegt að frjálsir fjölmiðlar hafi ákveðnar skoðanir á þjóðfélagsmálum, ekki síst mikilvægum deilumálum sem skipta þjóðarhag miklu. Það er ekkert við það að athuga að fjölmiðlar gangi hart fram, fylgi skoðunum sínum eftir af festu og sanngirni.

Einkareknir fjölmiðlar þurfa að standa reikningsskil á því sem þeir gera – fyrr eða síðar fella lesendur, áhorfendur eða hlustendur sinn dóm. Ef þeir eru ósáttir eða þeim er misboðið, er viðskiptasambandinu við viðkomandi fjölmiðil slitið; lesendur hætta að kaupa viðkomandi blað, áhorfendur slökkva á sjónvarpsstöðinni, hlustendur velja aðra útvarpsstöð eða hætta að heimsækja vefmiðilinn. Auglýsendur verða fráhverfir því að beina viðskiptum til fjölmiðils sem nýtur minnkandi vinsælda meðal almennings.

Þannig búa einkareknir fjölmiðlar við aðhald almennings – neytenda sem greiða á hverjum degi atkvæði.

Ægivald ríkisins

Ríkisrekin fjölmiðlun lýtur ekki þeim aga sem einkareknir fjölmiðlar búa við. Hvað sem tautar og raular neyðast landsmenn til greiða sitt útvarpsgjald. Enginn getur sagt upp viðskiptasambandinu við ríkismiðilinn, ekki einu sinni þeir sem fyrir löngu eru hættir að horfa eða hlusta á það sem Efstaleiti hefur ákveðið að bjóða upp á.

Ægivald ríkisrekinnar miðlunar er orðið svo mikið að stjórnmálamenn treysta sér ekki til að breyta leikreglunum. Koma sér undan því að jafna stöðu einkarekinna og ríkisrekinna fjölmiðla. Stjórnmálamaður sem vill breytingar veit hversu auðvelt það er að taka gagnrýnendur út af sakramentinu og takmarka aðgang þeirra að ljósvaka ríkisins.

Sjálfstæðir dagskrár- og kvikmyndagerðarmenn stíga varlega til jarðar gagnvart valdinu í Efstaleiti. Listamenn sem vilja koma verkum sínum á framfæri eru líkt og í spennitreyju.

Gagnrýni á vinnubrögð ríkismiðils er litin hornauga. Hún er oftar en ekki kæfð í fæðingu. Gagnrýnandinn er sakaður um tilraunir til ritskoðunar með því að vilja »koma böndum« á fjölmiðil »okkar allra«. Enginn hefur áhyggjur af þversögninni.

Allir vita að það er best að styggja ekki valdið í Efstaleiti.

Dagskrárvaldið í Efstaleiti

Afleiðingin af þessu öllu er að engin stofnun samfélagsins býr við minna aðhald en Ríkisútvarpið. Þess vegna er það talið í góðu lagi að nýta barnatíma sjónvarpsins fyrir pólitískan áróður. Í Efstaleiti er litið svo á að dagskrárvald í þjóðfélagsumræðunni liggi og eigi að liggja hjá ríkismiðlinum. Þar skal ákveðið hvaða mál eru sett á dagskrá og hver ekki, hvaða einstaklingar séu þess verðir að gegna æðstu embættum og hvaða álitsgjafa og sérfræðingi almenningur eigi að taka mark á.

Í Efstaleiti er búið að ákveða hverjir skuli krafðir svara og standa reikningsskil orða og gjörða. Þá er talið eðlilegt og sanngjarnt að gengið sé hart fram. Á sama tíma hafa verið gefin út aflátsbréf til þeirra sem njóta velþóknunar. Eðli máls samkvæmt er það ósanngjarnt að rifja upp skoðanir og álit þeirra í deilumálum er varðaði þjóðarhagsmuni til langrar framtíðar. Slíkt er sagt lýsa illvilja og lítilli sómakennd.

Mælistikan á menn og málefni er ákveðin í Efstaleiti og veikburða sjálfstæðir fjölmiðlar taka mið af henni. Sumir þeirra komast í kærkomið skjól ríkismiðilsins, – til þeirra er vitnað í ríkisreknum fréttatímum og ritstjórar og blaðamenn komast á listann yfir þá sem gott er að ræða við í útvarps- og sjónvarpsþáttum.

Þannig er unnið gegn raunverulegri valddreifingu í íslenskri fjölmiðlun. Það er erfiðara og jafnvel útilokað fyrir fjölmiðla, sem vilja berjast gegn ríkjandi viðhorfum samfélagsins, að lifa. Afleiðingin er frábreyttari flóra fjölmiðla og fátæklegri umræða.

Engu er líkara en að búið sé að skrá dagskrárvaldið með lögheimili í Efstaleiti. Þar hafa umræðustjórarnir komið sér fyrir eða eru þóknanlegir húsráðendum.

Með hendur í skauti

Ég hef áður haldið því fram að það þjóni litlum tilgangi fyrir liðsmenn stjórnarflokkanna að láta pólitíska slagsíðu fjölmiðla fara í taugarnar á sér. Þeir eigi fremur að verja tíma og orku í að plægja jarðveginn fyrir fjölbreyttari flóru fjölmiðla. Ekkert tryggir betur að réttar upplýsingar komist á framfæri og að ólík sjónarmið fái að heyrast. Því miður hefur lítið sem ekkert gerst á yfirstandandi kjörtímabili sem styrkir grunn frjálsra fjölmiðla. Raunar þvert á móti.

Kannski er ekki sanngjarnt að halda því fram að forystumenn borgaralegra afla hafi búið til sitt eigið sjálfskaparvíti með aðgerðarleysi sínu – afhent andstæðingum sínum dagskrárvaldið. En þeir geta illa kvartað yfir framgöngu einstakra fjölmiðla eða amast við duglegum og snjöllum vinstrisinnuðum pennum og álitsgjöfum.

Hitt er svo rétt að það er ástæða fyrir stjórnarflokkanna að hafa töluverðar áhyggjur af því hvernig þeir ætla að koma stefnumálum sínum og verkum á framfæri við kjósendur í aðdraganda þingkosninga. Ef forsetakosningarnar eru smjörþefurinn af því sem koma skal, verður það ekki létt verk.

Share
Share

Written by:

View All Posts
Follow Me :