Fjölmörg verkefni eru enn óleyst

Fjölmörg verkefni eru enn óleyst

Líklegast mun ég aldrei skilja af hverju ríkisstjórnarflokkarnir komust að þeirri niðurstöðu að skynsamlegast væri að stytta kjörtímabilið og boða til alþingiskosninga í haust. Ríkisstjórn Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks hefur náð miklum árangri frá því að hún tók við völdum og nýsamþykkt lög um meðferð aflandskróna undirstrika árangurinn og renna styrkum stoðum undir afnám fjármagnshafta.

Stöðugleiki, jafnvægi í búskap ríkisins, aukinn kaupmáttur, sterkur hagvöxtur, lítið atvinnuleysi, aukin framlög til heilbrigðismála og almannatrygginga bera þess vitni að í flestu hefur tekist vel til. Afnám almennra vörugjalda, niðurfelling tolla á fatnaði og lækkun tryggingagjalds eru til marks um vilja stjórnarflokkanna að lækka opinberar álögur á fyrirtæki og launafólk um leið og stólpar velferðarkerfisins eru styrktir. Tekin hafa verið mikilvæg skref í átt að skynsamlegu kerfi tekjuskatts, þótt enn sé langt í land að lagfæra þau skemmdarverk sem unnin voru á einföldu og gegnsæju skattkerfi á síðasta kjörtímabili.

En þótt vel hafi gengið og lífskjör batnað verulega á síðustu árum hefur ríkisstjórnin langt í frá lokið við öll verkefnin sem stefnt var að eða stuðningsmenn hennar bundu vonir við að yrðu kláruð.

Heilbrigðismál í hættu

Fyrir tæpu ári, þegar ég líkt og aðrir taldi að tvö ár væru enn til kosninga, hélt ég því fram að helstu mál næstu kosninga yrðu heilbrigðismál; heilbrigðiskerfið, fjármögnun þess, skipulag og hvernig við sameiginlega tryggjum hvert öðru bestu mögulegu heilbrigðisþjónustu óháð aldri, efnahag og búsetu. Ég var sannfærður um að nýtt ár gæti markað upphaf sóknar í heilbrigðisþjónustu, ekki aðeins með því að tryggja aukna fjármuni heldur ekki síður með skipulagsbreytingum og betri nýtingu fjármagns og þess mikla mannauðs sem fyrir hendi er. Þar skiptir miklu að nýta krafta einkaframtaksins samhliða því að byggja upp öflugt háskólasjúkrahús og styrkja grunninn – heilsugæsluna.

Á kjörtímabilinu hafa verið stigin stór skref og útgjöld til heilbrigðismála á þessu ári verða að óbreyttu um 38 milljörðum hærri en á fjárlögum 2013. Fyrir nokkru var rekstur þriggja nýrra heilsugæslustöðva boðinn út og heilbrigðisráðherra hefur lagt fram tímamótafrumvarp um greiðsluþátttöku í heilbrigðisþjónustu. Verði frumvarpið að lögum verður komið í veg fyrir mikla fjárhagslega erfiðleika og jafnvel gjaldþrot einstaklinga sem glíma við langvarandi veikindi.

Kosningar í haust stefna þessu öllu í óvissu og hættu. „Kerfið“ lítur á frumvarp um greiðsluþátttöku – mikilvægt réttlætismál – sem tækifæri til að „koma böndum“ á starfsemi sjálfstætt starfandi sérfræðinga og annarra einkaaðila í heilbrigðisþjónustu. Nái „kerfið“ sínu fram verður ekki aðeins dregið úr valmöguleikum einstaklinga heldur verður aðgengi skert, biðlistar lengjast og þjóðhagslegur kostnaður hækkar. Taki vinstri stjórn við völdum að loknum kosningum er öruggt að settir verða steinar í götu nýrra heilsugæslustöðva. Hagkvæmni – skynsamleg nýting mannauðs og fjármuna – samhliða öflugri þjónustu þar sem aðgengi allra er tryggt, er líkt og aukaatriði í hugum vinstri manna. Aðalatriðið er að ríkið sjái um reksturinn.

Ungt fólk og fjárhagslegt sjálfstæði

Eitt stærsta óleysta verkefni ríkisstjórnarinnar er á sviði húsnæðismála. Frumvarp stjórnarinnar um húsnæðisbætur byggist á rangri hugmyndafræði og grefur fremur undan möguleikum launafólks til að öðlast fjárhagslegt sjálfstæði. Ungt fólk hefur áttað sig á þessu.

Í febrúar skrifaði Erla María Tölgyes pistil á vefritið romur.is um húsnæðisbótafrumvarpið. Þar varaði hún við hugmyndafræði bótavæðingarinnar, sem frumvarpið byggist á:

„Upp í hugann kemur orðtakið gefðu manni að borða og hann verður saddur í dag, kenndu honum að veiða og hann þarf aldrei að líða hungur aftur. Ég spyr því lesendur hvort hljómi betur; mánaðarlegur tékki frá ríkissjóði eða hvatar sem verðlauna sparnað fólksins sjálfs.“

Kristófer Már Maronsson hagfræðinemi hefur lagt fram athyglisverðar hugmyndir um hvernig gera má almenningi – ekki aðeins ungu fólki – kleift að eignast eigið húsnæði. Hann vill að launafólki verði heimilt að nýta hluta iðgjalda í lífeyrissjóð í allt að sjö ár til að eignast eigið húsnæði – byggja upp eigið fé og greiða beint inn á höfuðstól húsnæðislána.

Hugmynd Kristófers Más er róttæk en gjörbreytir húsnæðismarkaðinum. Hún byggir undir séreignarstefnuna og styrkir fjárhagslega stöðu almennings í bráð og lengd. Ríkisstjórnin gerði margt vitlausara en að taka hugmyndir af þessu tagi upp á sína arma, útfæra og hrinda í framkvæmd.

Kosningar í haust ganga þvert á vonir ungs fólks um róttækar breytingar. Ríkisstjórn vinstri flokka framkvæmir ekki hugmyndir af þessu tagi heldur þrammar áfram veg bótavæðingar og leiguliðastefnu.

Enn fleiri verkefni

Verkefnin eru miklu fleiri sem ríkisstjórnin gæti unnið að.

Sameiginlega verða Íslendingar að lyfta grettistaki við að styrkja innviði samfélagsins. Á næstu 10 árum þurfum við ráðast í allt að 500 milljarða innviðafjárfestingu, ekki síst í heilbrigðiskerfinu, menntakerfinu, samgöngu- og fjarskiptakerfi. Slík fjárfesting verður ekki nema með þátttöku einkaaðila, lífeyrissjóða og fagfjárfesta. Heildstæð stefna og áætlun liggur ekki fyrir.

Hvernig undið verður ofan af ríkisvæðingu fjármálakerfisins er óljóst. Hvert hlutverk ríkisins verður eða á að vera er óljóst og umdeilt. Sá er þetta ritar hefur lagt til að fyrsta skrefið til að draga ríkið út úr áhættusömum rekstri fjármálafyrirtækja sé að afhenda skattgreiðendum og fjölskyldum þeirra 12% í öllum bönkunum – alls 74 milljarða miðað við eigið fé. Með þessum hætti fengju landsmenn að njóta með beinum hætti þess mikla virðisauka sem myndast hefur innan veggja bankanna frá endurreisn þeirra.

Rökin fyrir kosningum í haust verða sífellt léttvægari. Ég hef lýst áhyggjum mínum yfir því að þær breytingar sem búið er að ákveða á tekjuskatti einstaklinga muni ekki ná fram að ganga, ef ný ríkisstjórn tekur við völdum fyrir komandi áramót. Þriggja þrepa tekjuskattur fær að lifa (á kostnað millistéttarinnar) og líklega mun það eitt gerast að skattprósentan hækkar, ef hugmyndafræði „norrænu velferðarstjórnarinnar“ 2009-2013 verður endurvakin. Vonir um lækkun annarra skatta – erfðafjárskatts, tekjuskatts fyrirtækja, tryggingagjalds, verða að þokukenndum draumi en martröð skattahækkana tekur við.

Traustur meirihluti á þingi gefur ríkisstjórninni tækifæri til að ganga rösklega til verks; tryggja að fyrirhugaðar breytingar á skattkerfinu verði að veruleika, sótt verði fram á sviði heilbrigðisþjónustu, lögð fram stefna í fjárfestingum innviða næstu árin, byggt undir séreignarstefnuna, tryggt að almenningur fái beinan hlut í virðisauka bankanna, að ekki sé minnst á einföldun almannatryggingakerfisins, með bættum hag eldri borgara og öryrkja.

Share
Share

Written by:

View All Posts
Follow Me :