Holur, kurl og borgarstjóri með betlistaf

Reykjavík stæði ágætlega undir því að vera höfuðborg holunnar, þar sem boðið er upp á dekkjakurl, ýmis gæluverkefni, sífellt lakari þjónustu, heilsuferðir í grenndargáma og fjárhagslega ósjálfbærni.

Gatnakerfi borgarinnar er að hrynja. Varla er til sú stofnbraut, tengibraut eða íbúðagata í höfuðborginni sem ekki er eins og svissneskur ostur. Holur og sprungur.

Kannski á ástandið ekki að koma á óvart. Meirihluti borgarstjórnar hefur aldrei haft áhuga á að tryggja greiðar samgöngur, nema þá helst fyrir hjólreiðamenn, sem eru alls maklegir, ekki síður en þeir sem fara leiðar sinnar á einkabíl. Ekki er gert við götur nema í algjörri neyð eða þá helst til að þrengja að einkabílnum og gera slökkvi- og sjúkrabílum erfiðara fyrir. Fjárhagsstaða borgarsjóðs leyfir ekki að lagðir séu miklir fjármunir í viðhald og uppbyggingu gatnakerfisins, allra síst þegar leggja þarf fram fjármuni í skemmtileg gæluverkefni.

Borgarstjóra er vorkunn

Í byrjun mars fór borgarstjóri í felur þegar fjölmiðlar vildu fá að vita hvað gera ætti til að lagfæra götur borgarinnar. Embættismaður var látinn svara og í viðtali við Morgunblaðið taldi hann að ástandið væri viðunandi.

Tveimur dögum síðar kom borgarstjóri úr felum og visir.is hafði eftir honum:

„Ég setti mig í samband við vegamálastjóra og bæjarstjórana á höfuðborgarsvæðinu og allir segja sömu söguna. Það eru miklar áhyggjur af stöðu gatnakerfisins.“

Borgarstjóri þurfti staðfestingu frá öðrum um ástand gatnakerfisins og þar með varð hann áhyggjufullur.

Borgarstjóra er vorkunn. Staða borgarsjóðs leyfir lítið sem ekkert. Tekjur duga ekki fyrir grunnrekstri – svo illa hefur verið haldið á málum allt frá því að Samfylkingin og Besti flokkurinn (forveri Bjartrar framtíðar) tóku við völdum 2010.

Samkvæmt áætlun voru skatttekjur borgarsjóðs á síðasta ári um 11,3 milljörðum króna hærri að raunvirði en 2010 (m.v. meðalverðlag 2015). Meirihluti borgarstjórnar getur því ekki kvartað yfir tekjuleysi eða óhagstæðri þróun. Þvert á móti. Allir tekjustofnar eru þandir til hins ýtrasta, útsvarsprósentan eins há og lög heimila og ný gjöld eru tekin upp.

Það er því ekki glímt við tekjuvanda heldur heimatilbúinn vanda. Meirihlutinn hefur misst tökin á rekstri borgarinnar. Á liðnu ári kostaði rekstur A-hluta tæplega 15 milljörðum króna meira að raunvirði en 2010 og eru þá lífeyrisskuldbindingar og afskriftir ekki taldar með.

Alvarleg staða – skert þjónusta

Eftir nær sex ár í meirihluta og nú einnig með Vinstri grænum og Pírötum, er svo komið að borgarsjóður er ekki sjálfbær. Að óbreyttu stefnir í óefni eins og alltaf þegar eytt er um efni fram. Nú ætlar borgarstjóri að spara – ekki í yfirbyggingunni og stjórnkerfinu. Nei, hnífnum verður beitt á annað auk þess sem Ráðhúsinu verður lokað um helgar fyrir þúsundum ferðamanna.

Borgin hefur skert ýmsa þjónustu við borgarbúa. Sorphirða er í öfugu hlutfalli við hækkun sorphirðugjalda og þegar íbúarnir kvarta, benda stoltir borgarfulltrúar á að það sé bæði hollt og gott að fá sér göngutúr að næsta grenndargámi með ruslið!

Þjónusta við eldri borgara hefur verið skert og nú skal hnífnum einnig beint að börnum og unglingum.

Gunnskólar, frístundaheimili og leikskólar skulu skera niður um 670 milljónir króna á þessu ári. Forstöðumenn þessara stofnana vita hins vegar ekki hvernig það á að gerast. Allt er í lausu lofti – ekkert fast í hendi.

Elín Erna Steinarsdóttir, leikskólastjóri á leikskólanum Bakkaborg í Breiðholti, sagði í viðtali við fréttastofu Ríkisútvarpsins 11. mars síðastliðinn:

„Það er erfitt að geta ekki gengið að rekstrinum vísum, geta í raun illa áætlað hversu mikla mönnun við getum haft. Það er í rauninni þessi barátta við að halda uppi eins mikilli mönnun og hægt er. Þá er alltaf hætta á að fara yfir.“

Forgangsröðunin er sérkennileg. Á sama tíma og stjórnendum leik- og grunnskóla er gert að spara er ráðist í enn eitt gæluverkefnið – breyta á Grensásvegi fyrir 170 milljónir króna. Íbúar við götuna og þeir sem þurfa að fara þar um daglega geta að vísu þakkað fyrir að engin áætlun er um að reisa þar fuglahús. Þeir sem fara um Hofsvallagötu velta því hins vegar margir fyrir sér af hverju í ósköpunum allar þessar holur eru í götunni sem skartaði í nokkra mánuði fuglahúsum án fugla sem kostuðu tugi milljóna.

Ólíkt hafast þeir að

Svo aumt er ástandið að Reykjavíkurborg hefur ekki burði til að láta heilsu barna og unglinga njóta vafans og skipta úr dekkjakurli á íþróttavöllum. Foreldrar hafa áhyggjur af því að kurlið innihaldi krabbameinsvaldandi eiturefni.

Í viðtali við fréttastofu Ríkisútvarpsins 6. mars sagði borgarstjóri að öll gögn málsins hefðu verið skoðuð og leitað til Umhverfisstofnunar og Heilbrigðiseftirlitsins um hvort gefa eigi út nýjar leiðbeiningar um notkun vallanna:

„En þetta er sú leið sem lönd sem gæta hvað mestrar varúðar hafa farið og það er sú leið sem við erum að fara.“

Leiðin sem borgarstjóri ætlar að fara er að skipta út kurlinu þegar vellirnir eru endurnýjaðir. Einn er á dagskrá á þessu ári og tveir á því næsta. Þegar fréttamaður innti borgarstjóra eftir því hvort ekki væri hægt að forgangsraða þannig að þessu væri flýtt til að róa áhyggjufulla foreldra var svarið:

„Jú, við erum í raun að gera það en þetta snýst um yfir 127 velli í 59 sveitarfélögum. Þannig að ef Alþingi og ríkið vill koma myndarlega að málinu myndi ég fagna því. Endurbótasjóður sem myndi flýta þessu um land allt væri örugglega eitthvað sem myndi mælast mjög vel fyrir hjá þeim sem hafa lýst áhyggjum af málinu.“

Borgarstjóri ætlar með öðrum orðum að fara með betlistaf í hendi og óska eftir fjárhagslegum stuðningi ríkisins til að fjarlæga hið eitraða dekkjakurl. Á sama tíma berast fréttir um að sveitarstjórnir Akraness, Hafnarfjarðar, Kópavogs og Seltjarnarness ætli að fjarlæga kurlið á íþróttavöllum bæjanna og það án þess að blanda ríkinu í verkefnið.

Ólíkt hafast þeir að, sjálfstæðismennirnir í sveitarfélögunum fjórum og meirihluti félagshyggjunnar í Reykjavík.

Traustið hrynur

Samkvæmt könnun Gallup hefur traust kjósenda á borgarstjórn Reykjavíkur verið í frjálsu falli síðustu mánuði. Aðeins 19% segjast treysta borgarstjórn á móti 31% fyrir réttu ári. Þetta þýðir að tæplega fjórir af hverjum tíu sem áður höfðu traust á borgarstjórn hafa það ekki lengur.

Miðað við ástandið í borginni kemur þessi niðurstaða varla flatt upp á nokkurn mann. Reykjavíkurborg er í fjárhagslegum ógöngum, lausung ræður ríkjum við stjórn fjármála, forstöðumenn stofnana vita ekki sitt rjúkandi ráð, göturnar eru að grotna niður, þjónusta við eldri borgara er skert, börn og unglingar sitja á hakanum, gjöld og skattar í hæstu hæðum, borgarbúum er vísað á grenndargáma sér til heilsubótar og óþægilegum staðreyndum um þjónustu borgarinnar er stungið niður í skúffu. Til að kóróna þetta allt hefur borgarstjóri breyst í ölmusumann fyrir framan Alþingi.

Um það skal efast að minnihluti í íslensku sveitarfélagi hafi nokkru sinni fengið önnur eins sóknarfæri og boðið er upp á í Reykjavík. Færin eru hins vegar lítils virði ef þau eru ekki nýtt.

Share