Hugrekki er smitandi

Hugrekki er smitandi

Þegar ég fagnaði komu nýs árs, skaut upp nokkrum flugeldum, faðmaði fjölskylduna, nágranna og vini, var stríð í Evrópu óhugsandi. En ég var bláeygður gagnvart ofbeldismönnum sem ógna friði og frelsi. Innrás Rússlands í Úkraínu 24. febrúar var harkaleg áminning til allra frjálsra þjóða um að halda vöku sinni í varðstöðu um fullveldi og verða aldrei efnahagslega háðar þrælmennum. Á einum degi gjörbreyttist heimsmyndin.

Vladimír Pútín Rússlandsforseti hefur fyrir löngu skipað sér á bekk sögunnar meðal illmenna sem tilbúnir eru til að beita valdi og virða í engu frelsi og líf almennra borgara eða fullveldi annarra ríkja. Svívirðilegir glæpir rússneskra hermanna gagnvart óbreyttum borgurum í Úkraínu vekja óhug og reiði. Þegar hildarleiknum í Úkraínu lýkur verða þeir sem ábyrgðina bera að svara til saka.

Árið 2022 sem senn er að baki verður fyrst og síðast minnst sem ársins þegar stríð braust út að nýju í Evrópu. Þetta er árið þar sem óskhyggja og einfeldningsháttur biðu skipsbrot. Þetta er árið þegar það sannaðist enn og aftur að sakleysi, barnalegar hugmyndir um vopnleysi og friðelskandi heim, kosta þjóðir fullveldi og þjáningar og líf almennra borgara.  

Maður ársins

Volodimír Selenskí, forseti Úkraínu, hefur stigið fram á sviðið sem kyndilberi þeirra sem eru reiðubúnir til ganga á hólm við illskuna sem ógnar frelsi og fullveldi þjóða. Framganga hans og hugrekki úkraínsku þjóðarinnar hefur verið innblástur fyrir okkur öll sem höfum gengið að frelsinu sem sjálfsögðum réttindum.

Þrautseigja hermanna og óbreyttra borgara Úkraínu í baráttu gegn ofurefli hefur vakið aðdáun og látið fáa ósnortna. Í þess að leggja á flótta gripu almennir borgarar til þeirra vopna sem voru í boði til að verja bæi og borgir þegar rússneskir skriðdrekar og árásarþyrlur sóttu fram. „Herfræðin gerir ekki ráð fyrir venjulegum náungum í íþróttabuxum með veiðiriffla að vopni,“ sagði Valeriy Zaluzhny hershöfðingi í viðtali við blaðamann Time á fyrstu vikum innrásarinnar.

Tímaritið Time hefur útnefnt Selenskí mann ársins 2022. Ritstjórn tímaritsins segir að sjaldan hafi valið verið jafn augljóst en Time hefur útnefnd „mann ársins“ frá 1927.

Bakgrunnur Selenskís gaf ekki til kynna að þar færi maður með ljónshjarta – reiðubúinn til bjóða öflugum innrásarher byrginn. Áður en hann var kjörinn forseti árið 2019 var hann leikari og grínisti – einna frægastur fyrir að leika forseta í „Þjónn fólksins“, vinsælum gamanþáttum. Fáir höfðu trú á því að Selenskí hefði hugrekki til að leiða þjóð sína á stríðstímum.  Arsenij Jat­senjúk, fyrrverandi forsætisráðherra Úkraínu, ráðlagði Selenskí að forðast að hitta Vladimír Pútín Rússlandsforseta þar sem hann myndi „borða hann í morgunmat“.

Jatsenjúk líkt og Pútín vanmat Selenskí og úkraínsku þjóðina fullkomlega. Sem leiðtogi á stríðstímum hefur Selenskí sýnt og sannað að hugrekki er smitandi. Það hefur breiðst út meðal almennra borgara í Úkraínu og gefið almenningi í öðrum löndum styrk og trú á „ljósið muni hafa betur í baráttunni við myrkrið“.

Sólin verður daufari

Selenskí neitaði að yfirgefa Úkraínu þrátt fyrir hvatningu þar um þegar innrás Rússa hófst. Sagan geymir mörg dæmi um leiðtoga sem velja fremur þann kost að flýja land en halda baráttunni gegn ofurefli áfram við hlið samlanda sinna. Snemma í síðari heimsstyrjöldinni flúðu leiðtogar Albaníu, Belgíu, Tékkóslóvakíu, Grikklands, Póllands, Hollands, Noregs og Júgóslavíu undan sókn þýska hersins. Þeir völdu útlegð. Ashraf Ghani forseti Afganistan lagði á flótta þegar talibanar nálguðust höfuðborg landsins.

„Þetta gæti verið í síðasta skipti sem þið sjáið mig á lífi,“ sagði Selenskí á fjarfundi með leiðtogum Evrópu skömmu eftir að innrásin hófst. Hann hefur verið óþreytandi að halda málstað Úkraínu á lofti og hvatt frjálsar þjóðir heims að leggja Úkraínu lið. Þar hefur hann nýtt eðlislæga eiginleika sína og sannfæringakraft: Úkraína verður að vinna stríðið, hvað sem það kostar. „Sýnið að þið séuð með okkur,“ sagði hann í ávarpi til Evrópuþingsins á fyrstu dögum innrásarinnar. „Sýnið að þið sleppið okkur ekki. Sannið að þið séuð Evrópubúar og þá mun lífið sigra dauðann og ljósið sigra myrkrið.“

Selenskí hefur minnt þjóðir heims á að hernám einnar þjóðar rýri frelsi annarra. Ef Úkraína falli muni „sólin á himni þínum verða daufari“. Í viðtali við blaðamann Time segist hann vilja byggja upp land „tækifæranna, þar sem allir eru jafnir fyrir lögum og þar sem allar reglur eru sanngjarnar, gagnsæjar og gilda jafnt fyrir alla. Og til þess þurfum við stjórnvöld sem þjóna fólkinu.“

Það er skylda allra frjálsra þjóða að hlýða kalli Selenskís og styðja við bakið á fólki sem sýnt hefur hugdirfsku gagnvart yfirgangi og hrottaskap. Á árinu 2022 vorum við minnt á að síðasti ofbeldismaðurinn og hrottinn er ekki fæddur. Og þess vegna verðum við að halda vöku okkar.

Þegar Alþingi kemur saman á nýju ári bíða mörg verkefni. Eitt þeirra er endurskoðun og þjóðaröryggisstefnu landsins. Innrásin í Úkraínu verður óhjákvæmilega ofarlega í hugum þingmanna. Þátttaka Íslands í öflugu varnarsamstarfi NATO og varnarsamningurinn við Bandaríkin hafa fengið nýja og sterkari merkingu. Þjóðaröryggisstefna sem byggir ekki á þessu tvennu er ekki mikið meira virði en orð á blaði.  

Share
Share

Written by:

View All Posts
Follow Me :