Innistæðulaus gífuryrði

Innistæðulaus gífuryrði

Stjórn­sýslu­út­tekt rík­is­end­ur­skoðanda á sölu 22,5% hlut rík­is­ins í Íslands­banka í mars síðastliðnum er ekki sá áfell­is­dóm­ur sem marg­ir stjórn­ar­and­stæðing­ar höfðu von­ast eft­ir. Stór­yrðin og sleggju­dóm­arn­ir, sem féllu síðasta vor, verða ekki studd með vís­an til skýrsl­unn­ar. And­stæðing­ar þess að umbreyta áhættu­söm­um eign­um rík­is­ins í fjár­mála­fyr­ir­tækj­um í mik­il­væga innviði fyr­ir ís­lenskt sam­fé­lag, munu ör­ugg­lega ekki gef­ast upp. Þeir halda áfram til­raun­um sín­um til að grafa und­an trausti og sá fræj­um tor­tryggni með gíf­ur­yrðum til að koma í veg fyr­ir að haldið verði áfram að draga ríkið út úr aðal­hlut­verki á fjár­mála­markaði.

Rík­is­end­ur­skoðandi kemst að eft­ir­far­andi niður­stöðu í ít­ar­legri skýrslu sinni um söl­una á Íslands­banka­bréf­un­um:

„Þrátt fyr­ir ýmsa ann­marka á sölu­ferl­inu dreg­ur Rík­is­end­ur­skoðun ekki í efa að fjár­hags­leg niðurstaða sölu­ferl­is á hlut rík­is­sjóðs í Íslands­banka þann 22. mars 2022 hafi verið rík­is­sjóði al­mennt hag­felld. Það á einnig við um þróun á gengi bréfa í bank­an­um á eft­ir­markaði í kjöl­far söl­unn­ar. Þó er ekki hægt að full­yrða að sal­an hafi verið rík­is­sjóði eins hag­kvæm og verða mátti.“

Niðurstaðan er í sam­ræmi við yf­ir­lýs­ingu rík­is­stjórn­ar­inn­ar 19. apríl síðastliðinn, þar sem sagði að þeir „ann­mark­ar sem í ljós hafa komið við und­ir­bún­ing og fram­kvæmd sölu á eign­ar­hluta rík­is­ins í fjár­mála­fyr­ir­tækj­um hafa leitt í ljós þörf­ina fyr­ir end­ur­skoðun á lagaum­gjörð og stofnana­fyr­ir­komu­lagi“.

Í yf­ir­lýs­ingu rík­is­stjórn­ar­inn­ar seg­ir að ljóst sé „að fram­kvæmd söl­unn­ar stóð ekki að öllu leyti und­ir vænt­ing­um stjórn­valda, m.a. um gagn­sæi og skýra upp­lýs­inga­gjöf“. Vaknað hafi „spurn­ing­ar, álita­mál og gagn­rýni um fram­kvæmd söl­unn­ar sem fór fram sem nauðsyn­legt er að rann­saka og upp­lýsa al­menn­ing um“.

Mik­il­vægt inn­legg

Rík­is­end­ur­skoðandi gagn­rýn­ir margt sem bet­ur hefði mátt fara í sölu­ferl­inu, ekki síst að kynna hefði átt fyr­ir­komu­lagið bet­ur. Þá hafi ekki verið nægi­lega vandað til gerðar sölu­samn­ings sem Banka­sýsl­an gerði við um­sjón­araðila, söluráðgjafa og selj­anda. Ljóst er einnig að illa var haldið um til­boðsbók selj­anda. Aðfinnsl­ur Rík­is­end­ur­skoðunar bein­ast bæði að und­ir­bún­ingi og fram­kvæmd. Einnig er ljóst að það voru mis­tök að láta Íslands­banka leika lyk­il­hlut­verk í sölu á eig­in bréf­um. Slíkt skap­ar alltaf hættu á hags­muna­árekstr­um og orðsporsáhættu.

Skýrsla Rík­is­end­ur­skoðunar er mik­il­vægt inn­legg í að móta lag­aramma til framtíðar um sölu rík­is­eigna al­mennt og þá sér­stak­lega í fjár­mála­fyr­ir­tækj­um. Sú vinna er þegar haf­in, eins og fyrr­nefnd yf­ir­lýs­ing rík­is­stjórn­ar­inn­ar ber með sér.

„Þeir ann­mark­ar sem í ljós hafa komið við und­ir­bún­ing og fram­kvæmd sölu á eign­ar­hluta rík­is­ins í fjár­mála­fyr­ir­tækj­um hafa leitt í ljós þörf­ina fyr­ir end­ur­skoðun á lagaum­gjörð og stofnana­fyr­ir­komu­lagi.“

Þá seg­ir að rík­is­stjórn­in hafi ákveðið að „leggja það til við Alþingi að Banka­sýsla rík­is­ins verði lögð niður og inn­leitt verði nýtt fyr­ir­komu­lag til að halda utan um eign­ar­hluta rík­is­ins í fjár­mála­fyr­ir­tækj­um“. Lögð verði áhersla á rík­ari aðkomu Alþing­is og gagn­sæi bet­ur tryggt sam­hliða upp­lýs­inga­gjöf til al­menn­ings. Þess er að vænta að frum­varp þessa efn­is líti dags­ins ljós á kom­andi vik­um.

Auðvitað er skýrsla Rík­is­end­ur­skoðunar ekki yfir gagn­rýni haf­in. Vanga­velt­ur um það hvort hægt hefði verið að fá hærra verð fyr­ir hluta­bréf­in en raun varð eru ekki annað en vanga­velt­ur. Eng­inn er þess um­kom­inn að fella þar dóm.

Til­boðsfyr­ir­komu­lagið, sem stuðst var við, er ný­lunda hér á landi en ágæt­lega þekkt í öðrum lönd­um. Ný­lega seldi írska ríkið hluti í Allied Irish Banks í tvennu lagi. Þar var sölu­verðið 6,5% og 7,8% und­ir dags­loka­gengi á markaði. Í til­felli Íslands­banka var „af­slátt­ur­inn“ 4,1%, sem er vís­bend­ing um að vel hafi tek­ist til við verðlagn­ing­una. Ef mark­mið með sölu á eign­ar­hlut­um rík­is­ins er aðeins það að há­marka verðið hefði verið skyn­sam­leg­ast að selja ein­um kaup­anda – hæst­bjóðanda – bank­ann í heild sinni eða góðan meiri­hluta í það minnsta. En þá hefðu önn­ur mark­mið ekki náðst, s.s. um fjöl­breytt, heil­brigt og dreift eign­ar­hald.

Raun­veru­leg póli­tík

Ákvörðun um að selja eign­ar­hluti rík­is­ins í Íslands­banka er í eðli sínu póli­tísk og í sam­ræmi við stefnu rík­is­stjórn­ar­inn­ar um að „halda áfram að draga úr eign­ar­haldi rík­is­ins í fjár­mála­kerf­inu og nýta fjár­muni sem liggja í slík­um rekstri í upp­bygg­ingu innviða“. Marg­ir stjórn­ar­and­stæðing­ar eru í hjarta sínu, leynt eða ljóst, mót­falln­ir þess­ari stefnu. Þeir halda áfram til­raun­um sín­um til að þyrla upp moldviðri, óháð skýrslu rík­is­end­ur­skoðanda.

Stór­yrðin, sleggju­dóm­arn­ir og dylgj­urn­ar verða ekki rök­studd með aðstoð Rík­is­end­ur­skoðunar. Í viðtali við frétta­stofu Rík­is­út­varps­ins síðastliðið mánu­dags­kvöld var Guðmund­ur Björg­vin Helga­son rík­is­end­ur­skoðandi spurður hvort „ein­hvers kon­ar lög­brot“ hefði átt sér stað við sölu­ferlið. Svarið var skýrt:

„Nei, við erum ekki að benda á lög­brot í sölu­ferl­inu en við erum hins veg­ar að benda á ýmsa ann­marka í fram­kvæmd þess, sann­ar­lega.“

Svarið kem­ur ekki á óvart enda er hvergi í skýrsl­unni látið að því liggja að lög hafi verið brot­in. Í þessu sam­bandi er vert að hafa í huga að rík­is­end­ur­skoðanda er bæði rétt og skylt að vekja at­hygli Alþing­is og eft­ir at­vik­um lög­reglu og annarra eft­ir­lits­stofn­ana á því ef grun­ur vakn­ar um að lög hafi verið brot­in eða laga­fyr­ir­mæl­um ekki fylgt við fram­kvæmd stjórn­valda.

Fjár­mála­eft­ir­lit Seðlabank­ans [FME] vinn­ur enn að rann­sókn á starfs­hátt­um eft­ir­lits­skyldra selj­enda vegna Íslands­banka­söl­unn­ar. Vís­bend­ing­ar eru um að þar hafi ým­is­legt farið úr­skeiðis. Ekki er ólík­legt að niðurstaða FME hafi áhrif á laga­setn­ingu um fyr­ir­komu­lag á sölu rík­is­eigna.

Eitt stend­ur óhaggað. Rík­is­sjóður hef­ur fengið um 108 millj­arða króna fyr­ir sölu hluta­bréfa í Íslands­banka og held­ur enn á 42,5% hlut. Búið er að tryggja dreift eign­ar­hald á bank­an­um með þátt­töku al­menn­ings, líf­eyr­is­sjóða og er­lendra fjár­festa. Áhætta rík­is­ins af áhættu­söm­um rekstri hef­ur verið minnkuð og jarðveg­ur­inn fyr­ir heil­brigðara fjár­mála­kerfi verið und­ir­bú­inn í sam­ræmi við til­lög­ur hvít­bók­ar um fjár­mála­kerfið frá 2018. Sölu­and­virðið hef­ur verið nýtt til að styrkja innviði sam­fé­lags­ins. Áhættu­samri rík­is­eign hef­ur verið umbreytt meðal ann­ars í nýj­an Land­spít­ala, sam­göngu­bæt­ur og hjúkr­un­ar­heim­ili. Sú umbreyt­ing er póli­tík sem skil­ar ár­angri fyr­ir al­menn­ing. Gíf­ur­yrðin skipta þar engu.

Share
Share

Written by:

View All Posts
Follow Me :