Ekkert er sjálfgefið

Ekkert er sjálfgefið

Sam­fylk­ing­in hélt lands­fund um liðna helgi. Nafn­inu var lít­il­lega breytt og skipt um for­ystu. Ung og kröft­ug kona, Kristrún Frosta­dótt­ir, var leidd í for­manns­stól án mót­stöðu en gam­all póli­tísk­ur ref­ur sett­ur við hlið henn­ar. Kristrún vill leiða flokk­inn inn í nýja tíma – inn á nýj­ar braut­ir. Hún ætl­ar að móta störf og stefnu Sam­fylk­ing­ar­inn­ar með því að breikka en ekki þrengja flokk­inn sí­fellt meira til vinstri. Annað helsta bar­áttu­málið, „nýja stjórn­skrá­in“, verður sett á hauga sög­unn­ar og eina lausn Sam­fylk­ing­ar­inn­ar – aðild Íslands að Evr­ópu­sam­band­inu – verður lát­in upp í hillu til að safna ryki. Verk­efnið er ekki auðvelt og öfl inn­an flokks­ins munu leggja stein í götu nýja for­manns­ins. Ekki liðu marg­ir klukku­tím­ar frá kjöri Kristrún­ar þangað til þing­flokks­formaður Sam­fylk­ing­ar­inn­ar gerði op­in­ber­lega ágrein­ing við hana.

Byrj­un­in lof­ar því ekki góðu. Fundi vart lokið og nýr formaður kom­inn í mótvind inn­an eig­in flokks. Ég er hins veg­ar sann­færður um að Kristrún hafi alla burði til að kljást við þá sem vilja að Sam­fylk­ing­in haldi áfram að vera í hlut­verki rjúp­unn­ar sem remb­ist við staur­inn. Hún hef­ur sýnt hæfi­leika sína á stutt­um stjórn­mála­ferli. Er hörð í horn að taka en í flestu mál­efna­leg og hef­ur ekki tekið þátt í inni­halds­laus­um upp­hlaup­um og leik­sýn­ing­um með fé­lög­um sín­um í stjórn­ar­and­stöðunni.

Lands­fund­ir stjórn­mála­flokka eru mis­jafn­ir. Ekki verður sagt með réttu að lands­fund­ur Sam­fylk­ing­ar­inn­ar hafi vakið mikla at­hygli þótt það hafi ekki farið fram hjá mörg­um að nýr formaður hef­ur tekið völd­in. En það hafa all­ir vitað í marg­ar vik­ur. Og ekki kveiktu mál­efn­in áhuga fjöl­miðla. Þannig náði fund­ur­inn rétt að gára hið póli­tíska vatn í nokkra klukku­tíma. Framtíðin leiðir í ljós hvort Kristrúnu tekst að marka spor í sög­una sem fenn­ir ekki yfir. Íhalds­sam­ur vinstri arm­ur Sam­fylk­ing­ar­inn­ar ætl­ar greini­lega ekki að létta und­ir með henni.

Ólýs­andi kraft­ur

Lands­fund­ir Sjálf­stæðis­flokks­ins eru ekki haldn­ir til að gára vatnið stutta stund held­ur til að móta stefnu öfl­ug­asta stjórn­mála­flokks lands­ins. Það er ein­hver ólýs­andi kraft­ur sem leys­ist úr læðingi þegar sjálf­stæðis­menn, alls staðar að af land­inu, koma sam­an. Ég hef lýst lands­fundi sem suðupotti hug­mynda og hug­sjóna. And­stæðing­ar Sjálf­stæðis­flokks­ins hafa aldrei skilið hvernig tek­ist hef­ur að búa til vett­vang þar sem sam­keppni hug­mynda blómstr­ar með skoðana­skipt­um, – þar sem tek­ist er á um ein­stök mál af festu, jafn­vel hörku en af hrein­skilni. Átta sig ekki á að styrk­ur Sjálf­stæðis­flokks­ins felst í dag­skrár­valdi al­mennra flokks­manna. Fyr­ir marga er það óskilj­an­legt af hverju okk­ur sjálf­stæðismönn­um þyki fátt leiðin­legra í póli­tísku starfi en logn­molla og hug­sjóna­leysi.

Ég hlakka til lands­fund­ar sem hefst næst­kom­andi föstu­dag. Þar hitti ég sam­herja til að eiga með þeim glaða daga. Við mun­um tak­ast á um menn og mál­efni, lít­il og stór. Við vit­um að stjórn­mála­flokk­ur sem forðast umræður, fjöl­breytt­ar skoðanir og nýj­ar hug­mynd­ir er ekki lík­leg­ur til stór­ræða.

Sjálf­stæðis­flokk­ur­inn bygg­ist á frjáls­lyndri íhalds­stefnu og rót­tækri markaðshyggju með áherslu á frelsi ein­stak­lings­ins, jafn­ræði, opna stjórn­sýslu, vald­dreif­ingu, upp­lýs­inga­frelsi, öfl­ugt og skil­virkt vel­ferðar­kerfi og full­veldi þjóðar­inn­ar. Við sem höf­um skipað okk­ur und­ir merki Sjálf­stæðis­flokks­ins erum ekki steypt í sama mót. Bak­grunn­ur okk­ar er mis­jafn. Við höf­um ólík­ar skoðanir á ein­stök­um mál­um. En öll sam­ein­umst við í grunn­hug­sjón um frelsi ein­stak­lings­ins, í trúnni á að sam­fé­lag­inu farn­ist best þegar ein­stak­ling­ur­inn fær að njóta eig­in dugnaðar – að hver og einn fái að vera hann sjálf­ur – að all­ir séu jafn­ir fyr­ir lög­um og njóti jafnra tæki­færa í líf­inu. Í frels­inu felst ábyrgð og um­hyggja fyr­ir ná­ung­an­um.

Leiðandi afl frá 2013

Að þessu sinni mark­ast lands­fund­ur­inn veru­lega af því að tek­ist verður á um for­mennsku í Sjálf­stæðis­flokkn­um. Ég get haft mín­ar skoðanir á tíma­setn­ing­um en þær skoðanir skipta litlu úr því sem komið er. All­ir sjálf­stæðis­menn, inn­an og utan þings, eiga rétt á því að skora sitj­andi for­ystu á hólm. Sá rétt­ur er samof­inn og órjúf­an­leg­ur hluti hug­sjóna okk­ar. En með þann rétt verður hver og einn að fara af ábyrgð.

Sú skylda hvíl­ir á lands­fund­ar­full­trú­um að taka af­stöðu til mál­efna og ein­stak­linga. Það gera þeir óhrædd­ir í þeirri sann­fær­ingu að í lok fund­ar taki all­ir hönd­um sam­an í bar­átt­unni fyr­ir fram­gangi hug­sjóna. Upp­gjör hafa áður átt sér stað á lands­fund­um og þau hafa á stund­um verið nauðsyn­leg fyr­ir flokk­inn. Þegar tek­ist er á af heiðarleika og án und­ir­mála get­ur bar­átta um for­ystu­hlut­verk virkað sem víta­mín. Óheiðarleiki og und­ir­mál kljúfa og rista sár. Og þar bera stuðnings­menn ekki síðri ábyrgð en þeir sem í fram­boði eru.

Eng­um treysti ég bet­ur en Bjarna Bene­dikts­syni til að ryðja braut­ina fyr­ir hug­sjón­ir okk­ar sjálf­stæðismanna. Und­ir for­ystu Bjarna hef­ur Sjálf­stæðis­flokk­ur­inn verið leiðandi afl í ís­lensk­um stjórn­mál­um allt frá 2013. Og þar hafa verk­in talað. Kaup­mátt­ur ráðstöf­un­ar­tekna hef­ur auk­ist um 39%. Tekju­skatt­ar og þá fyrst og síðast þeirra sem hafa lægstu laun­in hafa lækkað, al­menn­um vöru­gjöld­um var hent út í hafsauga, og skuld­ir heim­il­anna hafa lækkað hressi­lega sem hlut­fall af lands­fram­leiðslu. Er­lend staða þjóðarbús­ins hef­ur batnað á æv­in­týra­leg­an hátt. Árið 2012 var hrein eign­astaða þjóðarbús­ins nei­kvæð um 446 millj­arða en er nú já­kvæð um 24 millj­arða. Um 32 þúsund ný störf hafa orðið til í einka­geir­an­um, þrátt fyr­ir heims­far­ald­ur. Dregið hef­ur úr efn­is­leg­um skorti. Útflutn­ings­grein­ar hafa vaxið og verðmæta­sköp­un einnig. Þannig má lengi telja. Lífs­kjör hafa aldrei verið betri.

Með hug­sjón­um sjálf­stæðis­stefn­unn­ar hef­ur tek­ist að byggja upp traust­an grunn und­ir vel­ferð og um leið skapa tæki­færi til frek­ari sókn­ar. Ekk­ert af þessu var sjálf­gefið.

Share
Share

Written by:

View All Posts
Follow Me :