Á jötu hins opinbera

Á jötu hins opinbera

Ekki ætla ég að blanda mér í deilur um Flokk heimilanna og meðferð ríkisstyrkja sem flokkurinn hefur fengið frá síðustu þingkosningum. Ýmislegt hefur gengið á hjá þessum smáflokki sem náði þó þeim árangri að fá 3% atkvæða og þar með rétt á tugmilljóna styrk úr ríkissjóði á kjörtímabilinu.

Í byrjun vikunnar var Pétur Gunnlaugsson, útvarpsmaður og lögmaður, sýknaður í Héraðsdómi Reykjavíkur vegna ummæla um núverandi forráðamenn Flokks heimilanna og ráðstafanir ríkisstyrkjanna. Pétur, sem var í framboði og í forystu flokksins í síðustu kosningum, hefur fagnað sýknudómnum enda sé hann mikilvægur fyrir lýðræðislega umræðu í landinu.

Deilurnar um Flokk heimilanna ættu að beina athygli almennings að þeim ógöngum sem íslenskir stjórnmálaflokkar eru komnir í. Flestir flokkar eiga nær allt sitt undir ríki og sveitarfélögum. Samkvæmt ársreikningum þeirra flokka sem eiga fulltrúa á Alþingi voru allt að 90% af tekjum þeirra frá opinberum aðilum árið 2013. Aðeins Sjálfstæðisflokkurinn hafði minni hluta tekna sinna frá hinu opinbera og Framsóknarflokkurinn um 52%.

Í desember 2006 voru samþykkt lög um fjármál stjórnmálasamtaka og frambjóðenda [nr. 162/2006]. Þar með voru stjórnmálaflokkar endanlega settir á jötu ríkis og sveitarfélaga.

Lögin kveða á um að árlega skuli „úthluta fé úr ríkissjóði til starfsemi stjórnmálasamtaka sem fengið hafa a.m.k. einn mann kjörinn á Alþingi eða hlotið hafa a.m.k. 2,5% atkvæða í næstliðnum alþingiskosningum samkvæmt ákvörðun á fjárlögum hverju sinni“. Hver stjórnmálaflokkur fær greitt í hlutfalli við atkvæðamagn. Því meira fylgi því hærri er ríkisstyrkurinn. Stjórnmálasamtök sem bjóða fram í öllum kjördæmum geta sótt um sérstakan styrk úr ríkissjóði og runnu nokkrir tugi milljóna úr ríkissjóði til hinna ýmsu framboða í síðustu kosningum. Auk þessa er árlega veitt fé úr ríkissjóði til starfsemi þingflokka á Alþingi.

Lögin skylda sveitarfélög með fleiri en 500 íbúa til að styrkja stjórnmálasamtök sem hafa fengið a.m.k. einn mann kjörinn í sveitarstjórn eða a.m.k. 5% atkvæða í kosningum.

2.100 milljónir

Frá 2010 til 2015 fengu stjórnmálaflokkar í heild tæplega 2.100 milljónir króna úr ríkissjóði. Þetta jafngildir því að hver Íslendingur með atkvæðisrétt í síðustu alþingiskosningum hafi greitt um 8.800 krónur til stjórnmálasamtaka. Þessu til viðbótar bættust nokkur hundruð milljónir frá sveitarfélögunum.

Með setningu laga um fjármál stjórnmálasamtaka ákvað Alþingi að setja stjórnmálaflokkunum miklar skorður við að afla sér fjár til rekstrar með frjálsum framlögum frá einstaklingum og fyrirtækjum. Þar með voru stjórnmálaflokkarnir og sérstaklega forystumenn þeirra gerðir óháðari eigin flokksmönnum.

Nú er svo komið að stjórnmálamenn eru farnir að líta á ríkisstyrkina sem sérstakt viðskiptamódel. Þannig komust Píratar í Reykjavík, að þeirri niðurstöðu á stjórnarfundi í janúar á síðasta ári að „business modelið okkar ætti að vera að fá sem mestar tekjur frá ríkinu“. Í fundargerð segir:

„Þar fáum við mest áhrif og miklu meiri tekjur en frá fjáröflun. Ná inn mönnum í öllum sveitarfélögum, öllum þröskuldum. Besta return on investment er í kjörnum fulltrúum.“

Gegn skoðanafrelsi

Ég hef haldið því fram að umrædd lög gangi gegn skoðanafrelsi. Hvernig hægt er að réttlæta að þvinga kjósanda til að styrkja stjórnmálasamtök, sem ganga gegn öllum grunngildum viðkomandi, er a.m.k. ofar mínum skilningi. Einstaklingi sem hefur skömm á stefnu Sjálfstæðisflokksins og er sannfærður um að hún leiði til ógæfu, er gert skylt að styrkja íhaldið. Og sjálfstæðismaðurinn sem berst fyrir takmörkuðum ríkisafskiptum og lægri sköttum, er neyddur að standa undir starfsemi Vinstri grænna sem leggja áherslu á hærri skatta og ríkisafskipti.

Frumvarp til laganna var samið á vegum nefndar fulltrúa allra þingflokka sem skipuð var árið 2005 til að fjalla um lagalega umgjörð stjórnmálastarfsemi á Íslandi. „Það er lagt fram í þeim tilgangi að kveða á um fjárframlög til stjórnmálasamtaka og stjórnmálastarfsemi, draga úr hættu á hagsmunaárekstrum og tryggja gagnsæi í fjármálum stjórnmálasamtaka, með það að markmiði að auka traust á stjórnmálastarfsemi og efla lýðræðið,“ sagði í nefndaráliti allsherjarnefndar. Frumvarpið var samþykkt með öllum greiddum atkvæðum en þrír þingmenn Sjálfstæðisflokksins sátu hjá; Birgir Ármannsson, Einar Oddur Kristjánsson og Sigurður Kári Kristjánsson.

Óhætt er að halda því fram að markmið laganna um að „auka traust á stjórnmálastarfsemi“ hefur ekki náðst. Vefþjóðviljinn benti á þessa staðreynd í pistli 2. febrúar 2014. Árið sem lögin voru sett var Ísland í fyrsta sæti á lista Transparency International yfir þau lönd sem þar sem minnsta spillingu mátti finna:

„Eftir að lögin um fjármál flokkanna voru sett hér á landi hefur heldur hallað undan fæti hjá Íslandi í könnunum Transparency International… Það virðist hvorki hafa dugað til að halda í ágætiseinkunn að fjórflokkurinn hafi tapað fylgi né að stjórnmálin væru ríkisvædd.“

Á síðasta ári var Ísland fallið niður í 13. sæti. Öll hin Norðurlöndin voru fyrir ofan Ísland þar sem Danmörk var metið sem það land í heiminum þar sem er minnst spilling.

Mat á spillingu er huglægt en úttekt Transparency Internarional rennir að minnsta kosti stoðum undir þá staðhæfingu að ríkisrekstur stjórnmálaflokka hafi ekki aukið traust almennings á stjórnmálamönnum og Alþingi. Kannanir Gallups benda til hins sama. Í febrúar á síðasta ári báru aðeins 18% landsmanna traust til Alþingis. Árið 2006 sögðust 43% treysta Alþingi.

Þrátt fyrir allt þetta er engin umræða um að rétt sé að endurskoða lög um fjármál stjórnmálasamtaka. Kannski er stjórnmálaflokkunum farið að líða of vel á jötu ríkisins.

Share
Share

Written by:

View All Posts
Follow Me :