Valfrelsi, stjórnlyndi, hófsemd og skuldsetning

Valfrelsi, stjórnlyndi, hófsemd og skuldsetning

Hvernig til tekst við rekst­ur og þjón­ustu sveit­ar­fé­laga hef­ur bein áhrif á lífs­kjör okk­ar allra. Í sum­um sveit­ar­fé­lög­um hef­ur tek­ist að samþætta hóf­semd í op­in­ber­um álög­um og gjöld­um við öfl­uga þjón­ustu. Í öðrum (og þau eru því miður of mörg) eru álög­ur í há­marki en íbú­arn­ir fá ekki þá þjón­ustu sem þeir ætl­ast til að sveit­ar­fé­lagið veiti.

Ég hef áður gert það að um­tals­efni á þess­um síðum að hug­mynda­fræði skipti ekki síður máli við stjórn­un sveit­ar­fé­laga en við rík­is­rekst­ur­inn. Þar tak­ast á hug­mynd­ir um hvort íbú­arn­ir njóti val­frels­is í sam­göngu­mál­um, hús­næðismál­um og skóla­mál­um eða hvort stjórn­lyndi ráði för. Sveit­ar­stjórn­ar­maður sem legg­ur áherslu á aðhalds­semi í rekstri gef­ur ekki út kosn­inga­víxla eða und­ir­rit­ar vilja­yf­ir­lýs­ing­ar um hitt og þetta, sem lít­il inni­stæða er fyr­ir – ekki einu sinni í aðdrag­anda kosn­inga til að fá af sér huggu­lega ljós­mynd. Stjórn­mála­maður sem berst fyr­ir sí­fellt aukn­um út­gjöld­um hef­ur litl­ar áhyggj­ur af þung­um álög­um á íbú­ana. Áhugi hans snýst um að láta eng­in tæki­færi til tekju­öfl­un­ar fram hjá sér fara og ef nauðsyn­legt er að skuld­setja sveit­ar­sjóð.

Í aðdrag­anda sveit­ar­stjórn­ar­kosn­inga er ekki óeðli­legt að mesta at­hygl­in bein­ist að höfuðborg­inni – lang­stærsta sveit­ar­fé­lagi lands­ins. Það skipt­ir ekki aðeins Reyk­vík­inga máli hvernig til tekst við rekst­ur borg­ar­inn­ar held­ur eiga all­ir lands­menn beint eða óbeint mikið und­ir því að þar tak­ist vel til. Blóm­leg, vel skipu­lögð og hrein höfuðborg er metnaðar­mál allra.

Gengið á eigið fé

Sam­fylk­ing­in hef­ur verið leiðandi í meiri­hluta borg­ar­stjórn­ar allt frá ár­inu 2010. Fyrst í sam­starfi við Besta flokk­inn en síðan í bræðingi annarra vinstri flokk­anna; VG, og Pírata og Viðreisn­ar síðustu fjög­ur ár. Frá 2014 hef­ur Dag­ur B. Eggerts­son verið borg­ar­stjóri en fjög­ur ár þar á und­an var hann formaður borg­ar­ráðs.

Hægt er að nota ýmsa mæli­kv­arða á hvernig til hef­ur tek­ist á þessu valda­tíma vinstri manna í borg­inni. Sam­göngu­mál eru í ólestri. Lof­orð um gríðarlega upp­bygg­ingu leigu­íbúða hafa ekki staðist. Skipu­lags­mál hafa leitt til ófremd­ar­ástands á íbúðamarkaði. Viðhaldi skóla hef­ur ekki verið sinnt. Barna­fjöl­skyld­ur fá ekki nauðsyn­lega þjón­ustu og þannig má lengi telja. Og ekki hef­ur tek­ist vel í rekstri borg­ar­sjóðs.

Skatt­stofn­ar Reykja­vík­ur, líkt og flestra annarra sveit­ar­fé­laga, hafa styrkst veru­lega á síðustu árum. Útsvars­stofn ein­stak­linga hef­ur hækkað hressi­lega vegna launa­hækk­ana og grunn­ur fast­eigna­gjalda hef­ur stór­hækkað vegna þró­un­ar fast­eigna­verðs. Meiri­hlut­inn í Reykja­vík hef­ur ekki séð ástæðu til þess að nýta þetta tæki­færi – hag­stæða þróun – til að slaka ör­lítið á klónni. Þegar litið er á rekst­ur A-hluta borg­ar­sjóðs er það skilj­an­legt. Upp­safnaður halli frá 2014 er um 14 þúsund millj­ón­ir króna á föstu verðlagi. Tekj­urn­ar duga sem sagt ekki fyr­ir grunn­rekstri borg­ar­inn­ar. Skuld­ir aukast og gengið er á eigið fé. Borg­ar­sjóður er ósjálf­bær og þar að treysta á af­komu fyr­ir­tækja í B-hluta.

Borg­in gef­ur lítið eft­ir við að afla sér fjár með skött­um eða þjón­ustu­gjöld­um. Útsvarið er eins hátt og lög leyfa og mun hærra en í mörg­um minni sveit­ar­fé­lög­um, sem njóta ekki hag­kvæmni stærðar­inn­ar sem Reykja­vík ætti að búa við væri rétt staðið að mál­um.

Í viðtali við DV í októ­ber 2015 hélt borg­ar­stjóri því fram að Reykja­vík glímdi við tekju­vanda – út­gjalda­vandi væri ekki til staðar. Ári síðar taldi borg­ar­stjóri rétt að borg­in fengi sér­staka rík­isaðstoð til að hægt væri að skipta út eitruðu dekkjak­urli á íþrótta­völl­um barna og ung­linga. Tekju­vand­inn kom hins veg­ar ekki í veg fyr­ir „bragga-æv­in­týrið“.

Skuld­ir hækkað um 87%

„Tekju­vandi“ A-hluta borg­ar­sjóðs er ekki meiri en svo að tekj­urn­ar hafa hækkað um 43% að raun­v­irði frá 2014. Eft­ir 12 ára valda­tíma vinstri flokk­anna glím­ir borg­ar­sjóður við út­gjalda- og skulda­vanda, þar sem eigið fé er étið upp:

  • Árið 2021 voru skatt­tekj­ur Reykja­vík­ur liðlega 33 þúsund millj­ón­um krón­um hærri á föstu verðlagi en 2014 – árið sem Dag­ur B. Eggerts­son sett­ist í stól borg­ar­stjórna. Raun­hækk­un­in var tæp­lega 43%. Sé litið aft­ur til árs­ins 2010 þegar þeir fé­lag­ar Jón Gn­arr og Dag­ur B. tóku við völd­um í Reykja­vík þá voru skatt­tekj­urn­ar um 41 þúsund millj­ón­um hærri á síðasta ári.
  • Í heild voru rekstr­ar­tekj­ur A-hluta borg­ar­inn­ar liðlega 42 þúsund millj­ón­um hærri á liðnu ári en 2014 og nær 58 þúsund millj­ón­um sé miðað við 2010.
  • Á föstu verðlagi voru tekj­ur A-hluta borg­ar­sjóðs um 970 þúsund krón­um hærri á hverja fjög­urra manna fjöl­skyldu 2021 en 2010, þar af skatt­tekj­ur 717 þúsund.
  • Í borg­ar­stjórn­artíð Dags B. Eggerts­son­ar hef­ur launa­kostnaður A-hluta hækkað um 60% að raun­v­irði eða rúm­lega 32 þúsund millj­ón­ir. Hlut­fall launa­kostnaðar af tekj­um hef­ur farið úr 53,6% í 60,4%.
  • Rekstr­ar­gjöld á hverja fjög­urra manna fjöl­skyldu voru 674 þúsund krón­um hærri á síðasta ári en 2014 – á föstu verðlagi. Í heild hækkuðu gjöld­in um nær 35 þúsund millj­ón­ir króna að raun­v­irði.
  • Að raun­gildi hafa skuld­ir borg­ar­sjóðs hækkað um 87% eða um rúm­lega 67 þúsund millj­ón­ir króna. Þetta jafn­gild­ir rúm­lega 1,7 millj­óna króna skulda­aukn­ingu á hverja fjög­urra manna fjöl­skyldu.
  • Eigið fé borg­ar­sjóðs hef­ur rýrnað um tæp­lega 13 þúsund millj­ón­ir króna á föstu verðlagi frá 2014. Eig­in­fjár­hlut­fallið hef­ur lækkað úr 58% árið 2014 í 39% í lok síðasta árs.

Það er bor­in von að álög­ur á borg­ar­búa lækki á kom­andi árum haldi nú­ver­andi meiri­hluti velli – enn eitt vara­dekkið breyt­ir þar engu. Útsvarið lækk­ar ekki, þjón­ustu­gjöld lækka ekki. Þjón­usta borg­ar­inn­ar verður ekki betri. Sam­göng­ur verða áfram í ólestri og þar skipt­ir engu þótt göm­ul kosn­ingalof­orð um stokk séu end­ur­nýjuð. Bol­magn borg­ar­inn­ar til að ráðast í nauðsyn­leg­ar fjár­fest­ing­ar í hagræðum og fé­lags­leg­um innviðum verður tak­markað. Á sama tíma styrkj­ast ná­granna­sveit­ar­fé­lög­in. Um­svifa­mik­il upp­bygg­ing­in er fram und­an í Mos­fells­bæ. Haldið verður áfram að lækka álög­ur á íbúa í Kópa­vogi og Hafnar­f­irði. Á Seltjarn­ar­nesi verður út­svarið lækkað. Í Garðabæ njóta íbú­ar hóf­semd­ar í álög­um. Í öll­um þess­um sveit­ar­fé­lög­um verður góð þjón­usta auk­in með óbreytt­um meiri­hlut­um.

Í kjör­klef­an­um á laug­ar­dag­inn velja kjós­end­ur um allt land á milli ólíkra hug­mynda. Niðurstaðan hef­ur áhrif á lífs­kjör okk­ar allra á kom­andi árum.

Share
Share

Written by:

View All Posts
Follow Me :