Kannski var það blanda af óskhyggju og einfeldningshætti sem fékk okkur flest til að trúa því að Vladimir Pútín myndi aldrei fyrirskipa rússneska hernum að gera innrás í Úkraínu – frjálst og fullvalda ríki. Við erum oft bláeygð gagnvart ofbeldismönnum sem ógna frelsi og friði. Neville Chamberlain, forsætisráðherra Bretlands, lýsti því yfir að friður væri tryggður, eftir að hafa gert samkomulag við Hitler á fundi í München í september 1938. Hann ráðlagði samlöndum sínum að fara heim og sofa rólegir. Á meðan Bretland svaf lagði þýski herinn undir sig Súdetaland í Tékklandi og í mars 1939 lagði Hitler Tékkland undir sig að fullu. Frjálsar þjóðir Evrópu vöknuðu ekki fyrr en 1. september þegar þýski herinn gerði innrás í Pólland.
Auðvitað voru þeir til sem höfðu uppi sterk varnaðarorð í aðdraganda seinni heimsstyrjaldarinnar. Winston Churchill sat undir ásökunum um að vera stríðsæsingamaður. Hann sá og mat hrottana undir merkjum nasista rétt. Þá líkt og í aðdraganda innrásarinnar í Úkraínu féllu varnaðarorðin fyrir daufum eyrum.
Þjóðir Evrópu hafa greitt hátt verðið fyrir andvaraleysi gagnvart yfirgangi einræðisherra sem eru tilbúnir til að beita hervaldi gegn nágrannaþjóðum. Enn og aftur kennir sagan okkur erfiða lexíu: Hernaðarlegur styrkur og samstaða lýðræðisþjóða er eina leiðin til að stöðva ofbeldismenn sem virða ekki fullveldi frjálsra þjóða. Og einmitt þess vegna geta lönd Evrópu, Bandaríkin og önnur lýðræðisríki ekki setið hjá líkt og áhorfendur þegar hernaðarveldi leggur til atlögu við nágrannaríki. Lýðræðið sjálft er í húfi.
Umpólun í öryggis- og varnarmálum
Innrásin í Úkraínu í síðustu viku breytti heimsmyndinni til frambúðar. Jafnvel aðdáendur Pútíns á Vesturlöndum hafa neyðst til að horfast í augu við staðreyndir. Traustustu bandamenn Rússlandsforseta hafa yfirgefið hann – a.m.k. í bili. Allt frá Milo Zeman forseta Tékklands, til Viktors Orbán í Ungverjalandi, Matteo Salvini, leiðtoga Norðurbandalagsins á Ítalíu, og Marine Le Pen, leiðtoga þjóðernissinna í Frakklandi. Árum saman hafa þessir stjórnmálamenn borið blak af Pútín og endurómað áróður og lygar sem þjónuðu hagsmunum Kremlverja.
Sundraðar þjóðir Evrópusambandsins hafa loksins náð að sameinast í umfangsmiklum efnahagsþvingunum gegn Rússlandi ásamt Bandaríkjunum og öðrum lýðræðisþjóðum, þar á meðal Íslandi. Pútín hefur því tekist það sem leiðtogum Evrópusambandsins hefur reynst ókleift. Forystufólk innan Evrópusambandsins er hægt og bítandi að láta af draumórum um að sambandið sjálft hafi bolmagn og pólitískt þrek til að tyggja frið, öryggi og frelsi í Evrópu.
Stjórnvöld og almenningur um alla Evrópu hafa neyðst til að endurskoða afstöðu og stefnu í öryggis- og varnarmálum – ekki síst þær þjóðir sem standa utan NATO. Vaxandi stuðningur við þátttöku í varnarbandalagi vestrænna þjóða er í Finnlandi og Svíþjóð. Rússnesk stjórnvöld hafa í hótunum við þessar frændþjóðir okkar, ef þær hugleiða aðild. Sviss hefur í raun yfirgefið hlutleysisstefnu sína og sömu sögu er að segja af Austurríki. Hans Dahlgren, ESB-ráðherra Svíþjóðar, segir mikilvægt að grípa til frekari ráðstafana til að einangra Rússland. Í fyrsta skipti frá 1939 hafa Svíar heimilað vopnaflutning til átakasvæðis – Úkraínu.
Algjör umpólun hefur átt sér stað í Þýskalandi. Þjóðverjar hafa ákveðið að senda vopn til Úkraínu. Olaf Scholz, kanslari vinstri stjórnar, hefur lýst því yfir að útgjöld til hermála verði aukin í 2% af landsframleiðslu. Þýski herinn verður stórefldur með 100 milljarða evra aukafjárveitingu.
Við Íslendingar stöndum einnig frammi fyrir því að endurmeta stefnu okkar í öryggis- og varnarmálum. Við þurfum að styrkja enn frekar samvinnu meðal ríkja NATO og við verðum að tryggja framkvæmd varnarsamningsins við Bandaríkin. Stjórnvöld, en ekki síður stjórnmálaflokkar, komast ekki hjá því að endurskoða stefnu sína í utanríkismálum og samvinnu frjálsra þjóða í varnarbandalagi. Ekki er hjá því komist að móta nýju stefnu í málefnum norðurslóða.
Í skjóli veiklyndis
Þegar Pútín fyrirskipaði innrásina í Úkraínu var hann greinilega sannfærður um skjótan árangur. Auðvelt yrði að koma Volodimír Selenskí, forseta Úkraínu, og stjórn hans frá völdum. Í skjóli veiklyndis og klofnings Vesturlanda taldi Pútín sér óhætt að leggja til atlögu.
En fyrirstaðan var meiri og öflugri en Kremlverjar reiknuðu nokkru sinni með. Hetjuleg framganga Úkraínumanna, undir forystu forseta með ljónshjarta, gegn ofbeldisfullu herveldi hefur komið klíkunni í Kreml í opna skjöldu. En þrátt fyrir hetjulega vörn er því miður líklegt að Kænugarður falli í hendur rússneska hersins á komandi dögum, sem verða skelfilegir, ekki síst fyrir almenna borgara.
Eftir sundurlyndi hafa Vesturlönd borið gæfu til þess að þétta raðirnar og standa saman eftir innrásina. Sú samstaða má ekki rofna. Víðtækar efnahagslegar refsiaðgerðir skipta miklu en við verðum einnig að tryggja Úkraínumönnum vopn og landflótta fólki skjól til lengri eða skemmri tíma.
Eftir standa lygar og blekkingar Pútíns, sem verður stöðugt einangraðri í samfélagi þjóða. Rússneskur almenningur á betra skilið en að búa við einræði og ógnarstjórn Pútíns og skósveina hans. Um leið og við Íslendingar, líkt og öll Vesturlönd, stöndum með frjálsi Úkraínu, eigum við einnig að taka okkur stöðu með frjálsu og lýðræðislegu Rússlandi.