Sumum er það eðlislægt að draga upp svarta mynd af stöðu efnahagsmála þvert á flesta hagvísa. Aðrir hafa pólitíska hagsmuni af því að hanna leiktjöld efnahagslegra þrenginga til að fela góða stöðu. Svo eru þeir til sem einfaldlega trúa því að samfélagið glími við erfiðleika og að fram undan séu þrengingar fyrir heimili og fyrirtæki. Þess vegna þurfi ríkið að grípa inn í – hækka ríkisútgjöld, auka millifærslur, niðurgreiðslur og hækka skatta á fyrirtæki ekki síst fjármálafyrirtæki og sjávarútveg.
Gamall fjandi okkar Íslendinga hefur látið á sér kræla á síðustu mánuðum líkt og í flestum öðrum löndum. Í janúar var verðbólga um 5,7%, svipuð og í Þýskalandi en töluvert lægri en í Bandaríkjunum. Hækkun húsnæðisverðs skýrir tæplega helming verðbólgunnar hér á landi enda glímt við framboðsvanda, sem ekki verður leystur með auknum millifærslum, líkt og góðhjartaðir stjórnmálamenn vilja telja sjálfum sér og öðrum trú um.
Seðlabankinn reiknar með að á komandi mánuðum verði verðbólga á svipuðum slóðum sem endurspeglar meðal annars „kröftugri efnahagsbata innanlands undir lok síðasta árs og þrálátari verðhækkanir á húsnæðismarkaði,“ líkt og segir í Peningamálum en einnig hefur „alþjóðleg verðbólga verið meiri en gert var ráð fyrir, m.a. vegna hækkunar olíu- og hrávöruverðs“. Ljóst þykir að lengri tíma taki, en reiknað var með, að vinda ofan af „framboðshnökrum vegna afleiðinga farsóttarinnar þótt svo virðist sem flutningskostnaður hafi náð hámarki“.
Við þessar aðstæður kom það engum á óvart að peningastefnunefnd Seðlabankans tæki ákvörðun um að hækka meginvexti á fundi sínum 9. febrúar. Stýrivextir eru nú 2,75%. Þrátt fyrir hækkun vaxta eru þeir enn neikvæðir.
Sterk staða
Öllum má vera það ljóst að aukin verðbólga og hærri vextir rýra kjör heimila að öðru óbreyttu. En það eitt og sér getur ekki réttlætt inngrip ríkissjóðs til að létta róðurinn með millifærslum og niðurgreiðslum. Með því er beinlínis unnið gegn auknu aðhaldi peningastefnunnar og dregið úr virkni hennar til að hemja verðbólgu til lengri tíma. Engum er greiði gerður, allra síst launafólki.

Okkur Íslendingum hefur tekist að sigla betur í gegnum þrengingar heimsfaraldurs kórónuveirunnar en flestum öðrum þjóðum. Áætlað er að hagvöxtur á síðasta ári hafi verið 4,9% og að vöxtur efnahagslífsins verði 4,8% á þessu ári. Á fjórða ársfjórðungi 2020 hækkaði launavísitalan um 7,5% milli ára og útlit er fyrir að launahækkanir vegna hagvaxtarauka kjarasamninga verði meiri í ár en áður var reiknað með. Á fyrstu þremur ársfjórðungum síðasta árs voru ráðstöfunartekjur á mann 11% hærri en á sama tíma 2019. Að teknu tilliti til verðbólgu jókst kaupmáttur ráðstöfunartekna á mann um 3%, þrátt fyrir heimsfaraldurinn.
Í sögulegu samhengi eru skuldir heimilanna lágar, þótt þær séu lítillega hærri en fyrir faraldurinn. Sem hlutfall af landsframleiðslu eru skuldir íslenskra heimila þær lægstu á Norðurlöndunum, eða 85% á móti 95% til 115%, eins og sést á meðfylgjandi línuriti. Hið sama á við um hlutfall skulda af ráðstöfunartekjum. Hér eru hlutfallið um 154% en allt að 215% í Danmörku og 206% í Noregi.
Vaxtagjöld vegna íbúðalána hafa farið stöðugt lækkandi á undanförnum árum í hlutfalli af ráðstöfunartekjum. Þar ræður mestu tvennt; lægri vextir og hærri ráðstöfunartekjur. Árið 2020 var hlutfallið 4,8% en til samanburðar má nefna að árið 2010 var hlutfallið 7,9%.
Greiðslubyrði nýrra íbúðalána hefur verið að meðaltali um 19% af ráðstöfunartekjum í faraldrinum. Í upphafi árs 2020 var greiðslubyrðin um 22%. Sem sagt: Greiðslubyrðin er töluvert undir þeim viðmiðunarreglum sem Seðlabankinn setti á liðnu ári en samkvæmt þeim skal almennt hámark greiðslubyrði vera 35% en allt að 40% hjá þeim sem eru að kaupa sína fyrstu íbúð. Óhjákvæmilegt er að hækkun vaxta samfara verðbólgu leiði til þess að greiðslubyrðin þyngist og verði að líkindum næstu mánuði a.m.k. svipuð og fyrir faraldurinn. En langt undir reglum Seðlabankans.
65% hækkun eigin fjár
Í ítarlegri úttekt Páls Kolbeins á niðurstöðum álagningar einstaklinga 2021 (vegna ársins 2020) kemur fram að heildareignir landsmanna voru metnar á nær 8.104 milljarða króna í árslok 2020 og jukust um 275 milljarða á milli ára. Páll bendir á að á árunum 2015-2020 jukust framtaldar eignir landsmanna um 2.598 milljarða eða 47,2%, sem jafngildir átta prósenta árlegri ávöxtun. Á sama hækkuðu skuldirnar liðlega 371 milljarð eða um 17,7%. Eigið fé jókst því um 2.227 milljarða. Hækkunin er hvorki meiri né minni en liðlega 65%. (Í þessu sambandi er vert að hafa í huga að raunvirði (markaðsverðmæti) eigna er yfirleitt hærra en verðmat í skattframtali og á það við um fasteignir og ýmsar aðrar eignir, s.s. hlutabréf).
Skuldsetning heimilanna hefur hríðlækkað á undanförnum árum, þótt það hafi hækkað lítillega á milli áranna 2019 og 2020. Í úttekt Páls, sem birtist í Tíund – tímariti Skattsins – kemur fram að um 30,5% eigna landsmanna var í skuld í lok árs 2020, sem er hálfu prósentustigi meira en ári áður. Í botni fjármálakreppunnar var skuldahlutfallið 55,2% árið 2010. Á hverju einasta ári eftir það hefur hlutfallið lækkað (fyrir utan 0,5%-stiga hækkun 2020) og hefur ekki verið lægra síðan í árslok 1994 en þá voru skuldir 22,4% af eignum.
Staða heimilanna er því sterk á flesta mælikvarða. Eigið fé er hátt, ráðstöfunartekjur hafa hækkað og kaupmáttur ekki verið meiri. Vanskil hafa ekki aukist og ef undan eru skilin lán í frystingu var hlutfall lána heimilanna sem er í vanskilum lægra í september síðastliðnum en fyrir veirufjandann. Dregið hefur verulega úr atvinnuleysi og er orðið svipað og fyrir faraldurinn. Samkvæmt starfaskráningu Hagstofunnar má áætla að 5.400 störf hafi verið laus á fjórða ársfjórðungi síðasta árs. Að mati Seðlabankans er því slakinn sem myndaðist af völdum faraldursins horfinn.
Allar þessar tölur breyta því ekki að búast má við töluverðum búsifjum einhverra heimila vegna verðbólgu og vaxtahækkana. Líklegt er að ekki verði línulegt samhengi á milli tekna og hugsanlegra greiðsluerfiðleika. Það er hluti af hefðbundinni starfsemi fjármálafyrirtækja og lífeyrissjóða að vinna með lántökum að endurskipulagningu í samræmi við breyttar forsendur.
Það vitlausasta er hins vegar að ríkið grípi til umfangsmikilla aðgerða til að greiða niður vexti eða fari í flóknar millifærslur. Hættan er sú að þá sé aðeins pissað í skóinn. Undirliggjandi vandi á húsnæðismarkaði stendur óleystur – framboð hefur ekki mætt eftirspurn. Um lausn þess vanda verður örugglega tekist á í aðdraganda sveitarstjórnarkosninga í maí.
You must be logged in to post a comment.