Óuppgerðir reikningar og tálsýn

Óuppgerðir reikningar og tálsýn

Harðar sóttvarnaaðgerðir í Evrópu og Bandaríkjunum, með umfangsmiklum félagslegum og efnahagslegum takmörkunum, skiluðu litlum eða engum árangri í baráttunni við Covid-19 og drógu aðeins úr dánartíðni um 0,2% að meðaltali. Þetta er niðurstaða umfangsmikillar rannsóknar á vegum rannsóknarstofnunar Johns Hopkins-háskólans í hagnýtri hagfræði, heilbrigðisvísindum og viðskiptum [Johns Hopkins Institute for Applied Economics, Global Health, and the Study of Business Enterprise].

Vísindamennirnir sem stóðu að rannsókninni segja að ekkert bendi til að lokun skóla, landamæra eða aðrar samkomutakmarkanir hafi leitt til lægri dánartíðni vegna Covid-19 en þó séu einhverjar vísbendingar um að lokun öldurhúsa hafi dregið úr dauðsföllum. Sóttvarnir með hörðum takmörkunum og lokunum, hafi því ekki verið árangursríkar til að verja líf og heilsu en valdið „gríðarlegum efnahagslegum og félagslegum kostnaði“. Samfélagslegar takmarkanir hafi verið illa ígrundaðar. Afnám borgaralegra réttinda geti ekki verið tæki í baráttu við hættulegan vírus.

Þetta er langt í frá að vera í fyrsta skipti sem vísindamenn draga í efa árangur þess að beita takmörkunum – lokunarstefnu – í baráttu við heimsfaraldur. Sunetra Gupta, prófessor í fræðilegri faraldsfræði við Oxford-háskóla, hafði uppi gagnrýni þegar í júní 2020: „Við getum ekki bara hugsað um þá sem eru viðkvæmir fyrir sjúkdómnum. Við verðum einnig að hugsa um þá sem eru viðkvæmir fyrir lokunum.“ Gupta hélt því fram að kostnaðurinn af takmörkunum og lokunum væri of hár.

Valdboð og veikara réttarríki

„Takmörkun borgaralegs frelsis, árásir á tjáningarfrelsið og misbrestur á lýðræðislegri ábyrgð vegna heimsfaraldursins eru alvarleg mál,“ sagði í skýrslu tímaritsins The Economist um Vísitölu lýðræðis 2020 sem birt var snemma á síðasta ári. (Þess má geta að Ísland var þar í öðru sæti á eftir Noregi, en Svíþjóð var í þriðja sæti).

Alþjóðastofnunin fyrir lýðræði og kosningaaðstoð [The International Institute for Democracy and Electoral Assistance] varaði við því undir lok síðasta árs að einræðistilburðir væru að aukast í heiminum og að jafnvel í lýðræðisríkjum væri bakslag, þar sem ríkisstjórnir tileinki sér valdboð til að takmarka málfrelsi og veikja réttarríkið, sem aftur gerir það erfiðara að hverfa aftur til eðlilegs lífs og endurheimta borgaraleg réttindi að loknum faraldrinum.

Í nóvember árið 2020 hafnaði ég þeim sjónarmiðum að á tímum neyðarástands sé stjórnvöldum heimilt að leggja ákvæði stjórnskipunarlaga til hliðar, sniðganga hefðbundið ferli löggjafar og grípa til þeirra aðgerða sem taldar séu nauðsynlegar til að verja líf og heilsu almennings. Ég hélt því fram hér á þessum stað að þegar samfélagi sé ógnað skipti mestu til lengri tíma litið að farið sé að meginreglum réttarríkisins og stjórnarskrár. „Ég hef haft efasemdir um að heilbrigðisyfirvöld geti sótt rökstuðning í sóttvarnalög fyrir öllum sínum aðgerðum – óháð því hversu skynsamlegar þær kunna að vera. Í besta falli eru yfirvöld komin á bjargbrún hins lögmæta. Borgaraleg réttindi, sem eru varin í stjórnarskrá, verða ekki afnumin tímabundið (og enginn veit hvað sá tími er langur) með reglugerðum og án nokkurs atbeina löggjafans eða undir ströngu eftirliti hans.“

Loforð um ávinning

Rannsókn stofnunar Johns Hopkins-háskólans er ekki síðasta rannsóknin og skýrslan sem gerð verður til að leggja mat á árangur eða árangursleysi harðra sóttvarna þar sem borgaralegt frelsi er lagt til hliðar í nafni almannaheilla. Við eigum enn eftir að átta okkur að fullu á þeim félagslega og efnahagslega kostnaði sem almenningur hefur þurft að greiða.

Hagfræðingar eiga eftir að deila um hver efnahagslegi kostnaðurinn hafi verið vegna faraldursins og aðgerða stjórnvalda. En þeir verða sammála um að hann hafi verið verulegur. Skuldir ríkja hækkuðu, milljónir manna misstu atvinnu, fyrirtæki lögðu upp laupana, verðmæti fóru í súginn. Aðfangakeðjur heimsins rofnuðu og kostnaðarverðbólga hefur grafið um sig í flestum ríkjum. Við slíkar aðstæður verða hefðbundin tæki peninga- og ríkisfjármála bitminni.

Við verðum fljótari að gera upp reikninginn þegar kemur að efnahagslegum kostnaði en þann sem greiða þarf vegna félagslegra áfalla samhliða hörðum sóttvörnum. Sá kostnaður verður að líkindum falinn að stórum hluta í mörg ár. Og við verðum að viðurkenna að mitt í baráttunni við Covid var almenn lýðheilsa og heilbrigði að nokkru sett til hliðar.

Vísbendingar eru orðnar nokkuð skýrar um að lokunarstefna sem flestar þjóðir innleiddu reyndist ekki eins árangursrík og vonir stóðu til. Kannski er mikilvægasti og dýrmætasti lærdómur almennings síðustu misseri sá að beita alltaf gagnrýnni hugsun. Ávinningurinn sem stjórnvöld lofa þegar gengið er á réttindi einstaklinga reynist oftar en ekki tálsýn.

Share
Share

Written by:

View All Posts
Follow Me :