Skagfirskur íhalds- og athafnamaður kveður

Skagfirskur íhalds- og athafnamaður kveður

Sauðár­krók­ur æsku minn­ar er hægt og bít­andi að kveðja enda get­ur eng­inn staðið gegn fram­gangi tím­ans, ekki einu sinni skag­firsk­ir íhalds­menn. Í dag, föstudaginn 28. janúar, verður Bjarni Har­alds­son kaupmaður jarðsett­ur en hann hefði fagnað 92 ára af­mæli sínu 14. mars næst­kom­andi. Bjarni var allt í senn; full­trúi einkafram­taks­ins sem oft átti erfitt upp­drátt­ar í Skagaf­irði, hjálp­ar­hell­an sem leys­ir úr hvers manns vanda og sjálf­stæðismaður­inn sem trú­ir á frelsi ein­stak­lings­ins en skil­ur ábyrgð sína gagn­vart sam­ferðafólki. Bjarni var lífs­glaður húm­oristi sem naut þess að eiga sam­skipti við annað fólk.

Í yfir 60 ár stóð Bjarni vakt­ina í Versl­un Har­ald­ar Júlí­us­son­ar, sem faðir hans stofnaði árið 1919. En Bjarni hafði fleiri járn í eld­in­um. Bíla­della var í blóðinu enda sagði Bjarni að hann hefði farið að keyra flutn­inga­bíla og rút­ur til að svala dell­unni. Fyrsta vöru­bíl­inn keyrði hann átta ára. Í nokk­ur sum­ur gerði Bjarni út vöru­bíl í vega­vinnu og á ár­un­um 1950 til 1954 ók hann Norður­leiðar­rútu milli Ak­ur­eyr­ar og Reykja­vík­ur. Árið 1954, þá aðeins 24 ára, stofnaði hann Vöru­flutn­inga Bjarna Har­alds­son­ar og með ár­un­um varð út­gerðin um­svifa­meiri. Eft­ir tæpr­ar hálfr­ar ald­ar far­sæl­an rekst­ur seldi Bjarni vöru­flutn­inga­fyr­ir­tækið árið 2001, en hélt versl­un­ar­rekstri áfram. Verk­laus var Bjarni því aldrei.

Frá ör­birgð til vel­sæld­ar

Bjarni Har­alds­son var af þeirri kyn­slóð sem af harðfylgi og dugnaði lagði grunn­inn að því að Íslandi tókst að brjót­ast úr ör­birgð og ekki aðeins til bjargálna held­ur verða eitt mesta vel­ferðarsam­fé­lag heims. Hann tók þátt í því að umbreyta land­inu og barðist fyr­ir því, bæði með eig­in rekstri en einnig und­ir merkj­um Sjálf­stæðis­flokks­ins, að leysa þjóðina úr fjötr­um hafta og hels­is. Við sem á eft­ir höf­um komið njót­um góðra ævi­verka eldri kyn­slóða.

Sem merk­is­beri sjálf­stæða at­vinnu­rek­and­ans gerði Bjarni fyrst og síðast kröf­ur til sín sjálfs og taldi sig bera skyld­ur gagn­vart litlu sam­fé­lagi. Lífs­skoðun sem hann sótti til for­eldra sinna, Har­ald­ar og Guðrún­ar Bjarna­dótt­ur, sem réttu ófá­um Króks­ur­um hjálp­ar­hönd á erfiðum tím­um. En um það mátti aldrei ræða.

Faðir minn, Kári Jóns­son, hafði sem ung­ur maður verið inn­an­búðarmaður hjá Har­aldi og með þeim tókst ein­stak­ur vin­skap­ur. Har­ald­ur var vel­gjörðarmaður pabba og bak­hjarl. Móðir mín, Eva Snæ­bjarn­ar­dótt­ir, og Bjarni voru jafn­aldr­ar, en María syst­ir hans var ári yngri. María og mamma voru æsku­vin­kon­ur og sú vinátta var traust á meðan báðar lifðu. Öll eru þau fall­in frá.

Það var því eðli­legt að ég sem strákpolli væri tíður gest­ur í búðinni enda töfra­heim­ur, ekki síst kjall­ar­inn sem var full­ur af öllu milli him­ins og jarðar. Har­ald­ur var van­ur að lauma ein­hverju góðgæti til þess stutta og á stund­um meiru en for­eldr­um mín­um þótti við hæfi. Fyrsta og eina kú­reka­byss­an og byssu­belti sem ég eignaðist kom beint úr kjall­ar­an­um einn fal­leg­an sum­ar­dag. Mömmu var ekki skemmt.

Hryggj­ar­stykki sam­fé­lags­ins

En það var ekki ónýtt fyr­ir strákpjakk á Krókn­um að eiga skjól hjá Har­aldi og Bjarna og geta síðan farið í baka­ríið til afa Guðjóns. Hægt og bít­andi skynjaði ung­ur dreng­ur gildi þess að til séu ein­stak­ling­ar sem eru reiðubún­ir til að leggja allt sitt und­ir til að byggja upp fyr­ir­tæki og renna styrk­ari stöðum und­ir sam­fé­lagið. Búa til verðmæti, veita þjón­ustu og at­vinnu, oft við erfiðar aðstæður – ójafna og ósann­gjarna sam­keppni. Slík­ir ein­stak­ling­ar eru sann­kölluð at­hafna­skáld. Ég hef litið á það sem skyldu mína að berj­ast fyr­ir at­hafna­frelsi og hags­mun­um þeirra fjöl­mörgu karla og kvenna sem eru bak­bein ís­lensks sam­fé­lags með sköp­un sinni og vilja til að byggja upp fyr­ir­tæki.

Lífs­speki skáld­anna er ekki alltaf flók­in. „Ég lít svo á að pen­ing­ar séu nauðsyn­leg­ir en þeir eru ekki allt. Að eiga góða fjöl­skyldu og góða heilsu er miklu mik­il­væg­ara en ein­hver pen­ing­ur,“ sagði Bjarni í viðtali við Morg­un­blaðið árið 2009, þegar fagnað var 90 ára af­mæli versl­un­ar­inn­ar. Tíu árum síðar var haldið upp á ald­araf­mælið. Í viðtali við frétta­stofu Rík­is­út­varps­ins sagðist Bjarni, sem þá átti tæpt ár í ní­rætt, vona að „ég fái að ráða hvenær ég hætti“.

Líkt og margt eldra fólk naut Bjarni þess að búa yfir ágætu starfsþreki. Hann hafði löng­un til að halda áfram á vinnu­markaði á sín­um for­send­um – í eig­in versl­un sem í ára­tugi var lík­ari um­ferðamiðstöð en versl­un. Bjarni er ágæt áminn­ing um hve það er mik­il efna­hags­leg og fé­lags­leg firra að koma í veg fyr­ir að eldri borg­ar­ar, sem hafa þrek og vilja, haldi áfram að vinna, hvort held­ur er í fullu starfi eða hluta.

Bjarni réði sínu lífi sjálf­ur. Níræður hafði hann orð á því við blaðamann Morg­un­blaðsins að krakk­arn­ir væru „eitt­hvað að tala um að ég eigi að fara að hætta en ég er hér enn. Það er bæði til gagns og gam­ans“.

Share
Share

Written by:

View All Posts
Follow Me :