Að klípa og særa

Að klípa og særa

Stjórn­lynd­ir sam­fé­lags­verk­fræðing­ar og rík­is­rekn­ar barn­fóstr­ur láta ekki að sér hæða og eru alltaf á vakt­inni.

Sjálf­stæðir fjöl­miðlar hafa átt erfitt upp­drátt­ar á síðustu árum. Rekstr­ar­um­hverfið hef­ur verið þeim óhag­stætt. Alþjóðleg risa­fyr­ir­tæki hafa gert strand­högg í mik­il­væg­um tekju­stofn­um, jafnt aug­lýs­ing­um sem áskrift­ar­tekj­um. Og lifa auk þess ágætu lífi af því að nýta rit­stjórn­ar- og dag­skrárefni litlu ís­lensku miðlanna sér að kostnaðarlausu. Á heima­markaði þurfa sjálf­stæðir miðlar að berj­ast við rík­is­rekið fyr­ir­tækið sem engu eir­ir. Sú bar­átta verður aldrei háð á jafn­ræðis­grunni – er ósann­gjörn og ger­ir flóru fjöl­miðlun­ar fá­breytt­ari en ella.

En fram­taks­sam­ir og hug­mynda­rík­ir ein­stak­ling­ar leggja ekki árar í bát. Þeir finna nýj­ar leiðir, móta nýj­ar hug­mynd­ir og ryðja far­veg þar sem tækni sam­tím­ans er nýtt. Á und­an­förn­um árum hef­ur komið fram á sjón­ar­sviðið fjöldi hlaðvarpa sem mörg hver hafa notið mik­illa vin­sælda. Fjöl­breyti­leik­inn virðist óend­an­leg­ur; þjóðmál, sagn­fræði, kven­rétt­indi, heilsa, hug­leiðsla, list­ir og menn­ing, íþrótt­ir og raun­ar nær allt mann­legt.

Halda má því fram að hlaðvörp fram­taks­samra ein­stak­linga hafi verið og séu vaxt­ar­brodd­ar ís­lenskr­ar fjöl­miðlun­ar síðustu miss­er­in. Þegar efni­leg­ir vaxt­ar­brodd­ar ná að festa ræt­ur get­ur kerfið – báknið – ekki á sér setið. En í stað þess að vökva er klipið og sært.

Til at­lögu við ein­stak­linga

Rík­is­út­varpið, sem nýt­ur þess að lands­menn (og all­ir lögaðilar) eru þvingaðir til að greiða millj­arða í „áskrift“ á hverju ári, sér ofsjón­um yfir vel­gengni nokk­urra ein­stak­linga sem hafa notið vin­sælda með sjálf­stæðum hlaðvarpsþátt­um. Ekki næg­ir það rík­is­stofn­un­inni að setja dag­skrárefni sitt á „öld­ur“ hlaðvarps­ins held­ur eru fram­leidd­ir sér­stak­ir þætt­ir í sam­keppni við ein­stak­linga. Hvort rík­is­fyr­ir­tæk­inu sé heim­ilt að stunda slíka sam­keppni er vafa­samt en hitt er víst að eng­in laga­leg skylda hvíl­ir á stofn­un­inni að vera stöðugt á vakt­inni og hasla sér völl alls staðar þar sem einkaaðilar ná að skjóta líf­væn­leg­um rót­um í nýrri fjöl­miðlun.

Hvorki Sam­keppnis­eft­ir­litið né Fjöl­miðlanefnd hafa nokkuð við það að at­huga að rík­is­fyr­ir­tæki stundi hernað af þessu tagi gagn­vart ein­stak­ling­um. Engu skipt­ir þótt leik­ur­inn sé ójafn.

Fjöl­miðlanefnd sem tel­ur sér skylt að lög­um að standa vörð um „fjöl­breytni og fjöl­ræði á fjöl­miðlamarkaði“ er upp­tek­in af því að fylgj­ast með vin­sæl­um sjálf­stæðum hlaðvarpsþátt­um, sekta þá og tryggja að þeir séu skráðir í op­in­bera skrá stofn­un­ar­inn­ar um eig­end­ur fjöl­miðla. Ríkið fer sínu fram en ein­stak­ling­ar eru sektaðir og þeir sett­ir und­ir smá­sjá og hneppt­ir í spennitreyju op­in­bers eft­ir­lits.

Sam­keppnis­eft­ir­litið er of upp­tekið af því að koma bönd­um á tals­menn hags­muna­sam­taka at­vinnu­lífs­ins til að huga að því hvort rík­is­fyr­ir­tæki sé að nýta sér lögþvingaða meðgjöf með óeðli­leg­um og ósann­gjörn­um hætti. Að verja einkaaðila gagn­vart ásælni rík­is­fyr­ir­tæk­is er létt­væg­ara en að beita for­ystu­fólk at­vinnu­rek­enda aga­valdi svo það taki sem minnst­an þátt í op­in­berri umræðu, ekki síst þegar það bend­ir á hið aug­ljósa; hækk­un á alþjóðleg­um mörkuðum hrávöru og vöru­skort­ur geti til skamms tíma valdið verðhækk­un­um hér á landi.

(Ann­ars er það um­hugs­un­ar­efni að sam­tök blaðamanna skuli sitja þegj­andi hjá. Kannski á það ekki að koma á óvart þegar for­ysta þeirra er sann­færð um að ekki sé hægt að reka sjálf­stæða fjöl­miðla á Íslandi án beinna rík­is­styrkja. Bar­átta fyr­ir rík­is­styrkj­um virðist mik­il­væg­ari en sæmi­lega heil­brigt rekstr­ar­um­hverfi sjálf­stæðra fjöl­miðla eða varðstaða um mál­frelsi viðmæl­enda fjöl­miðla.)

Stjórn­lyndi gegn fjöl­breyti­leika

Stjórn­lyndi breyt­ist ekk­ert þótt það klæðist nýj­um bún­ingi. Sam­fé­lags­verk­fræðing­ar hafa hægt en ör­ugg­lega náð yf­ir­hönd­inni með aðstoð sér­hæfðra rík­is­rek­inna barn­fóstra. Ekk­ert mann­legt er þeim óviðkom­andi. Mann­leg hegðun skal römmuð inn og bönd­um komið á ein­stak­linga með lög­um og regl­um. Allt und­ir þeim for­merkj­um að verið sé að verja ein­stak­ling­inn sjálf­an gagn­vart sjálf­um sér. Vel­viljaðir emb­ætt­is­menn taka að sér hlut­verk barn­fóstrunn­ar og stunda öfl­ugt eft­ir­lit í nafni um­hyggju og al­manna­heilla.

Af­leiðing­in er sú að til verður sam­fé­lag sem drep­ur niður frum­kvæði og sköp­un­ar­kraft ein­stak­linga. Stjórn­lyndi hef­ur aldrei valið sér fjöl­breytni og dína­mík sem ferðafé­laga. Sam­fé­lags­verk­fræðing­ar skilja ekki að í frjálsu sam­fé­lagi greiða borg­ar­arn­ir at­kvæði á hverj­um degi með viðskipt­um og veita fyr­ir­tækj­um með þeim hætti beint aðhald.

Val­frelsi ein­stak­linga er for­senda heil­brigðrar sam­keppni sem leiðir til betri þjón­ustu, meiri gæða vöru og hag­stæðara verðs. Og svo það sé sagt enn einu sinni: Ekk­ert op­in­bert eft­ir­lit, reglu­gerðir eða lög koma í stað þessa aðhalds.

Við sem höf­um bar­ist fyr­ir frjáls­um viðskipt­um og tak­mörkuðum af­skipt­um rík­is­ins verðum að viður­kenna að við erum und­ir í bar­átt­unni við stjórn­lyndi og sam­fé­lags­verk­fræði. Við höf­um ekki náð að tryggja skil­virkni í eft­ir­liti með sam­keppni og starfs­hátt­um fyr­ir­tækja eða komið á jafn­ræði á mörkuðum þar sem ríkið sjálft sit­ur á fleti. Tæki­fær­in til að stokka upp, byggja und­ir virka sam­keppni og efla neyt­enda­vernd og sam­keppnis­eft­ir­lit hafa ekki verið nýtt. Það væri ábyrgðarlaust að láta næstu fjög­ur ár líða með hend­ur í skauti og horfa á dauða hönd fá­breyti­leik­ans leggj­ast yfir af full­um þunga.

Share
Share

Written by:

View All Posts
Follow Me :