Stjórnlyndir samfélagsverkfræðingar og ríkisreknar barnfóstrur láta ekki að sér hæða og eru alltaf á vaktinni.
Sjálfstæðir fjölmiðlar hafa átt erfitt uppdráttar á síðustu árum. Rekstrarumhverfið hefur verið þeim óhagstætt. Alþjóðleg risafyrirtæki hafa gert strandhögg í mikilvægum tekjustofnum, jafnt auglýsingum sem áskriftartekjum. Og lifa auk þess ágætu lífi af því að nýta ritstjórnar- og dagskrárefni litlu íslensku miðlanna sér að kostnaðarlausu. Á heimamarkaði þurfa sjálfstæðir miðlar að berjast við ríkisrekið fyrirtækið sem engu eirir. Sú barátta verður aldrei háð á jafnræðisgrunni – er ósanngjörn og gerir flóru fjölmiðlunar fábreyttari en ella.
En framtakssamir og hugmyndaríkir einstaklingar leggja ekki árar í bát. Þeir finna nýjar leiðir, móta nýjar hugmyndir og ryðja farveg þar sem tækni samtímans er nýtt. Á undanförnum árum hefur komið fram á sjónarsviðið fjöldi hlaðvarpa sem mörg hver hafa notið mikilla vinsælda. Fjölbreytileikinn virðist óendanlegur; þjóðmál, sagnfræði, kvenréttindi, heilsa, hugleiðsla, listir og menning, íþróttir og raunar nær allt mannlegt.
Halda má því fram að hlaðvörp framtakssamra einstaklinga hafi verið og séu vaxtarbroddar íslenskrar fjölmiðlunar síðustu misserin. Þegar efnilegir vaxtarbroddar ná að festa rætur getur kerfið – báknið – ekki á sér setið. En í stað þess að vökva er klipið og sært.
Til atlögu við einstaklinga
Ríkisútvarpið, sem nýtur þess að landsmenn (og allir lögaðilar) eru þvingaðir til að greiða milljarða í „áskrift“ á hverju ári, sér ofsjónum yfir velgengni nokkurra einstaklinga sem hafa notið vinsælda með sjálfstæðum hlaðvarpsþáttum. Ekki nægir það ríkisstofnuninni að setja dagskrárefni sitt á „öldur“ hlaðvarpsins heldur eru framleiddir sérstakir þættir í samkeppni við einstaklinga. Hvort ríkisfyrirtækinu sé heimilt að stunda slíka samkeppni er vafasamt en hitt er víst að engin lagaleg skylda hvílir á stofnuninni að vera stöðugt á vaktinni og hasla sér völl alls staðar þar sem einkaaðilar ná að skjóta lífvænlegum rótum í nýrri fjölmiðlun.
Hvorki Samkeppniseftirlitið né Fjölmiðlanefnd hafa nokkuð við það að athuga að ríkisfyrirtæki stundi hernað af þessu tagi gagnvart einstaklingum. Engu skiptir þótt leikurinn sé ójafn.
Fjölmiðlanefnd sem telur sér skylt að lögum að standa vörð um „fjölbreytni og fjölræði á fjölmiðlamarkaði“ er upptekin af því að fylgjast með vinsælum sjálfstæðum hlaðvarpsþáttum, sekta þá og tryggja að þeir séu skráðir í opinbera skrá stofnunarinnar um eigendur fjölmiðla. Ríkið fer sínu fram en einstaklingar eru sektaðir og þeir settir undir smásjá og hnepptir í spennitreyju opinbers eftirlits.
Samkeppniseftirlitið er of upptekið af því að koma böndum á talsmenn hagsmunasamtaka atvinnulífsins til að huga að því hvort ríkisfyrirtæki sé að nýta sér lögþvingaða meðgjöf með óeðlilegum og ósanngjörnum hætti. Að verja einkaaðila gagnvart ásælni ríkisfyrirtækis er léttvægara en að beita forystufólk atvinnurekenda agavaldi svo það taki sem minnstan þátt í opinberri umræðu, ekki síst þegar það bendir á hið augljósa; hækkun á alþjóðlegum mörkuðum hrávöru og vöruskortur geti til skamms tíma valdið verðhækkunum hér á landi.
(Annars er það umhugsunarefni að samtök blaðamanna skuli sitja þegjandi hjá. Kannski á það ekki að koma á óvart þegar forysta þeirra er sannfærð um að ekki sé hægt að reka sjálfstæða fjölmiðla á Íslandi án beinna ríkisstyrkja. Barátta fyrir ríkisstyrkjum virðist mikilvægari en sæmilega heilbrigt rekstrarumhverfi sjálfstæðra fjölmiðla eða varðstaða um málfrelsi viðmælenda fjölmiðla.)
Stjórnlyndi gegn fjölbreytileika
Stjórnlyndi breytist ekkert þótt það klæðist nýjum búningi. Samfélagsverkfræðingar hafa hægt en örugglega náð yfirhöndinni með aðstoð sérhæfðra ríkisrekinna barnfóstra. Ekkert mannlegt er þeim óviðkomandi. Mannleg hegðun skal römmuð inn og böndum komið á einstaklinga með lögum og reglum. Allt undir þeim formerkjum að verið sé að verja einstaklinginn sjálfan gagnvart sjálfum sér. Velviljaðir embættismenn taka að sér hlutverk barnfóstrunnar og stunda öflugt eftirlit í nafni umhyggju og almannaheilla.
Afleiðingin er sú að til verður samfélag sem drepur niður frumkvæði og sköpunarkraft einstaklinga. Stjórnlyndi hefur aldrei valið sér fjölbreytni og dínamík sem ferðafélaga. Samfélagsverkfræðingar skilja ekki að í frjálsu samfélagi greiða borgararnir atkvæði á hverjum degi með viðskiptum og veita fyrirtækjum með þeim hætti beint aðhald.
Valfrelsi einstaklinga er forsenda heilbrigðrar samkeppni sem leiðir til betri þjónustu, meiri gæða vöru og hagstæðara verðs. Og svo það sé sagt enn einu sinni: Ekkert opinbert eftirlit, reglugerðir eða lög koma í stað þessa aðhalds.
Við sem höfum barist fyrir frjálsum viðskiptum og takmörkuðum afskiptum ríkisins verðum að viðurkenna að við erum undir í baráttunni við stjórnlyndi og samfélagsverkfræði. Við höfum ekki náð að tryggja skilvirkni í eftirliti með samkeppni og starfsháttum fyrirtækja eða komið á jafnræði á mörkuðum þar sem ríkið sjálft situr á fleti. Tækifærin til að stokka upp, byggja undir virka samkeppni og efla neytendavernd og samkeppniseftirlit hafa ekki verið nýtt. Það væri ábyrgðarlaust að láta næstu fjögur ár líða með hendur í skauti og horfa á dauða hönd fábreytileikans leggjast yfir af fullum þunga.