Formenn þeirra þriggja flokka sem hafa starfað saman í ríkisstjórn síðustu fjögur ár eru að sinna skyldu sinni með því að ræða saman og komast að sameiginlegri niðurstöðu um hvort raunhæft og hyggilegt sé að halda samstarfinu áfram. Allt í takt við það sem sagt var fyrir kosningar og í samræmi við niðurstöður kosninganna.
Þegar þetta er skrifað liggur ekki fyrir hvort viðræðurnar skila árangri eða ekki. Katrín Jakobsdóttir nálgaðist verkefnið með réttum hætti í samtali við fréttastofu ríkisins síðasta mánudag. Ef samstarf þessara þriggja ólíku flokka „á að vera farsælt eins og það hefur verið þá skiptir öllu máli að vanda til verka og gefa sér tíma þegar lagt er af stað, þannig að við gerum ráð fyrir einhverjum vikum í þetta ferli allt saman“.
Sem sagt: Það liggur ekki lífið á.
Á meðan forystumenn ríkisstjórnarflokkanna gefa sér nauðsynlegan tíma til að fara yfir málin eykst vanlíðan vinstri smáflokkanna, sem eftir útreið í kosningunum horfa fram á eyðimerkurgöngu næstu árin. Píratar bjóða stuðning við minnihlutastjórn og Samfylkingin spilar undir.
Brúarsmíði
Fáum getur dulist að í mörgum málum er langt á milli stjórnarflokkanna. Brúarsmíðin verður flókin og krefst útsjónarsemi og lagni smiðsins. Sá trúnaður og traust sem ríkt hefur á milli forystumanna stjórnarflokkanna hjálpar.
Í aðdraganda kosninganna var ég eins skýr og mér var unnt. Undir lok júní hélt ég því fram að ein forsenda þess að Sjálfstæðisflokkurinn tæki þátt í ríkisstjórn væri að málefnasamningur og verkefni nýrrar ríkisstjórnar „endurspegli skilning á samhengi skatta, ríkisútgjalda, hagvaxtar og velsældar. Að samkeppnishæfni þjóðar ráðist ekki síst af öflugum innviðum, hófsemd í opinberum álögum, greiðu aðgengi að erlendum mörkuðum, skilvirkni í stjórnkerfinu og hagkvæmum ríkisrekstri“.
Ég tók einnig fram hið augljósa: Sjálfstæðisflokkurinn geti ekki „tekið þátt í ríkisstjórn sem heldur áfram að ríkisvæða heilbrigðiskerfið, kemur í veg fyrir samþættingu og samvinnu sjálfstætt starfandi þjónustuaðila og hins opinbera – tekur hagsmuni kerfisins fram yfir hagsmuni sjúkratryggðra (okkar allra) og undirbýr þannig jarðveg fyrir tvöfalt heilbrigðiskerfi, sem er eitur í beinum hvers sjálfstæðismanns“.
Stórkostleg tækifæri
Sé það einlægur ásetningur stjórnarflokkanna að ná árangri í loftslagsmálum og leggja grunn að orkuskiptum verður að marka skýra stefnu um orkunýtingu og orkuöflun – tryggja skynsamlega, arðbæra og sjálfbæra nýtingu orkuauðlinda. Í stjórnarsáttmála verður að koma fram staðfastur vilji ríkisstjórnar að Ísland nýti þau stórkostlegu tækifæri sem geta verið í orkumálum.
Ríkisstjórn sem ætlar að tjalda lengur en til einnar nætur verður að hafa skýra sýn á ríkisfjármálin og leggja fram trúverðuga stefnu í því hvernig samkeppnishæfni íslensks atvinnulífs verður best tryggð á komandi árum. Þar skiptir regluverkið miklu og sú staðreynd að skattbyrði á Íslandi, sem hlutfall af vergri landsframleiðslu, er ein sú þyngsta í Evrópu að teknu tilliti til lífeyris- og almannatrygginga. Sú stefna ræður mestu um hvort hægt verður að tryggja enn betri lífskjör hér á landi á komandi árum.
Þegar ekki er djúpstæður ágreiningur um málefni milli flokka sem ætla að mynda samsteypustjórn er yfirleitt ekki ástæða til mikilla málalenginga í stefnuyfirlýsingu. Annað gildir um samstarf þriggja ólíkra flokka. Áður en lagt er af stað í nýtt fjögurra ára ferðalag er nauðsynlegt að útkljá flest ágreiningsmálin því „margt mun verða á okkar vegi, sem við nú eigum á enga von, og mundi þó ærinn vandi við það að ráða, sem við þykjumst sjá, að í vændum er“, svo vitnað sé til orða Ólafs Thors þegar hann kynnti málefnasamning Nýsköpunarstjórnarinnar; samsteypustjórn Sjálfstæðisflokks, Alþýðuflokks og Sósíalistaflokksins, sem er sem fjarskyldur forfaðir Vinstri-grænna.
Að endurspegla þingstyrk
Hér verður ekki gert lítið úr því að jafnvægi sé við fundarborð ríkisstjórnar sem endurspeglar fylgi og þingstyrk flokkanna. Uppstokkun stjórnarráðsins getur verið skynsamleg, ekki síst með hliðsjón af áherslum í stjórnarsáttmála. Og það er oft hægt að hafa nokkra skemmtun af samkvæmisleik fjölmiðla um fjölda ráðherrastóla og hverjir séu líklegir til að setjast við ríkisstjórnarborðið og þá í hvaða stól. Samkvæmisleikur af þessu tagi verður hins vegar innihaldslaus takist forystumönnum flokkanna ekki að ná saman um málefnin.
Samsteypustjórn ólíkra flokka byggist á málamiðlunum. En eðli máls samkvæmt verður stjórnarsáttmáli samsteypustjórnar að taka mið af niðurstöðu kosninga og þingstyrk þeirra flokka sem taka höndum saman í ríkisstjórn.