Drög að verkefnalista fyrir frambjóðendur

Drög að verkefnalista fyrir frambjóðendur

Próf­kjör eru langt því frá að vera galla­laus en því verður varla á móti mælt að þau geta leyst ótrú­leg­an kraft úr læðingi – kraft al­mennra flokks­manna. Vel heppnað og fjöl­mennt próf­kjör Sjálf­stæðis­flokks­ins í Reykja­vík um liðna helgi get­ur orðið góður upp­takt­ur fyr­ir kosn­ing­arn­ar í sept­em­ber.

Dag­ana 10. til 12. júní fer fram próf­kjör í Suðvest­ur­kjör­dæmi en þar sæk­ist sá er þetta skrif­ar eft­ir end­ur­nýjuðu umboði til að sitja sem full­trúi Sjálf­stæðis­flokks­ins á Alþingi. Óháð niður­stöðu próf­kjörs­ins skynja ég að Sjálf­stæðis­flokk­ur­inn er með vind í segl­um um allt land. Með öfl­ug­um fram­bjóðend­um en ekki síður skýrri stefnu og mál­flutn­ingi eig­um við sjálf­stæðis­menn mögu­leika á því að standa að lokn­um kosn­ing­um um fjöl­menn­an og öfl­ug­an þing­flokk, sem gef­ur styrk til að hrinda hug­sjón­um okk­ar í fram­kvæmd.

Ég hef ít­rekað haldið því fram í ræðu og riti að Sjálf­stæðis­flokk­ur­inn verði að lýsa því yfir að hann sé flokk­ur at­vinnu­rek­enda, flokk­ur launa­fólks, flokk­ur bænda, flokk­ur þétt­býl­is og dreif­býl­is, flokk­ur þeirra sem þurfa á sam­hjálp að halda, flokk­ur unga fólks­ins og þeirra sem eldri eru – flokk­ur sem brú­ar en sundr­ar ekki. En fyrst og fremst á Sjálf­stæðis­flokk­ur­inn að lýsa því yfir að hann sé flokk­ur hins venju­lega Íslend­ings. Það er á grund­velli þessa og með hliðsjón af því sem ég hef sagt en ekki síður ritað í hundruðum greina þar sem ég lagði drög að verk­efna­lista fyr­ir fram­bjóðend­ur. Eðli mál sam­kvæmt er slík­ur listi ekki tæm­andi en gef­ur a.m.k. inn­sýn í mörg þeirra verk­efna sem ég tel að við sjálf­stæðis­menn eig­um að sinna á kom­andi árum.

Fjár­hags­legt sjálf­stæði

Við eig­um að leggja áherslu á hag millistétt­ar­inn­ar – á hags­muni launa­fólks. Við skul­um koma aft­ur á einu þrepi í tekju­skatti en inn­leiða um leið stig­lækk­andi per­sónu­afslátt eft­ir því sem tekj­ur hækka. Við erum sann­færð um mik­il­vægi þess að stefna í skatta­mál­um eigi að mót­ast með hliðsjón af sam­keppn­is­hæfni lands­ins – fyr­ir­tækj­anna og launa­fólks.

Við vit­um að grund­völl­ur jafn­rétt­is er fjár­hags­legt sjálf­stæði ein­stak­lings­ins og við skilj­um sam­hengið á milli fjár­hags­legs sjálf­stæðis, lágra skatta, at­vinnu­frels­is og vel­sæld­ar. Við eig­um okk­ur þann draum að allt launa­fólk verði eigna­fólk og fjár­hags­lega sjálf­stætt.

Við vilj­um tryggja að ungt fólk eigi a.m.k. ekki síðri tæki­færi til að eign­ast eigið hús­næði en for­eldr­ar þeirra, afar og ömm­ur. Okk­ar skjald­borg er um sér­eigna­stefn­una svo fólk eigi raun­veru­legt val um hvort það vill eiga eða leigja þak yfir höfuðið.

Við mun­um tryggja rétt­indi borg­ar­anna gagn­vart hinu op­in­bera, standa vörð um friðhelgi einka­lífs­ins, eigna­rétt­inn, trúfrelsið og rétt­inn til tján­ing­ar og fé­laga­frelsið. Við eig­um að inn­leiða og standa vörð um net­frelsi og upp­lýs­inga­frelsi borg­ar­anna.

Við þurf­um að tryggja að launa­fólk hafi aukið val­frelsi um líf­eyr­is­sjóð um leið og við auk­um mögu­leika þess til að taka bein­an þátt í at­vinnu­líf­inu með skatta­leg­um hvöt­um.

Aukn­ar kröf­ur til rík­is­rekstr­ar

Við ætl­um að gera rík­ari kröf­ur til op­in­bers rekstr­ar, auka skil­virkni og gera þjón­ust­una betri – fá meira fyr­ir pen­ing­inn. Við höfn­um því að öll vanda­mál verði leyst með aukn­um rík­is­út­gjöld­um.

Við vild­um koma á sam­starfi rík­is­ins, líf­eyr­is­sjóða og annarra fag­fjár­festa við upp­bygg­ingu hagrænna innviða, ekki síst í sam­göng­um.

Við verðum að inn­leiða sam­keppni á flest­um sviðum til að tryggja hag­kvæma nýt­ingu fjár­magns og vinnu­afls, góða þjón­ustu og hag­stætt verð.

Við eig­um að gera það eft­ir­sókn­ar­vert að stofna og eiga fyr­ir­tæki – setja sjálf­stæða at­vinnu­rek­and­ann aft­ur á sinn stall. Hætta að refsa fram­taks­mönn­um fyr­ir að ná ár­angri í rekstri, ein­falda reglu­verk og ýta þannig und­ir heil­brigða sam­keppni. Við hrós­um fram­taks­semi og gleðjumst yfir vel­gengni sam­ferðafólks okk­ar og vilj­um ryðja hindr­un­um úr vegi frum­kvöðla.

Við verðum að draga úr sam­keppn­is­rekstri rík­is­ins við einkaaðila – gera leik­inn a.m.k. sann­gjarn­ari, jafnt á fjöl­miðlamarkaði sem í öðrum at­vinnu­grein­um.

Við vilj­um nýta full­veldi þjóðar­inn­ar í sam­skipt­um við aðrar þjóðir á jafn­ræðis­grunni. Kjör­orð okk­ar er að fjölga tæki­fær­un­um en ekki fækka þeim.

Við skul­um opna alla stjórn­sýslu hins op­in­bera þannig að al­menn­ing­ur geti fylgst með gerðum og ákvörðunum stjórn­mála­manna og emb­ætt­is­manna.

Val­frelsi í heil­brigðu sam­fé­lagi

Við vilj­um leiða um­fangs­mikla fjár­fest­ingu í heil­brigðis­kerf­inu. Við erum óhrædd við að nýta kosti einkafram­taks­ins í heil­brigðisþjón­ustu en stönd­um vörð um hug­sjón­ina um að all­ir séu sjúkra­tryggðir, óháð efna­hag, tryggj­um val­frelsi þeirra og kom­um í veg fyr­ir tvö­falt heil­brigðis­kerfi. Skipu­lag heil­brigðisþjón­ustu á að taka mið af þörf­um hinna sjúkra­tryggðu en ekki kerf­is­ins. Öflug heil­brigðisþjón­usta bygg­ir á samþætt­ingu og sam­vinnu hins op­in­bera og sjálf­stætt starf­andi aðila.

Við ætl­um að huga að grunnþátt­um mennt­un­ar – inn­leiða sam­keppni og auka þar með val­mögu­leika ungs fólks til mennt­un­ar. Við vilj­um styrkja iðn- og tækni­nám og gera það enn eft­ir­sókn­ar­verðara. Fyrst og síðast ætl­um við að styrkja mennta­kerfið sem öfl­ug­asta tækið til jöfnuðar.

Við verðum að stokka upp al­manna­trygg­inga­kerfið, inn­leiða nýja hugs­un við að aðstoða þá sem þurfa á því að halda. Við vilj­um trygg­inga­kerfi ör­yrkja sem refs­ar ekki þeim sem geta bætt sinn hag. Með sama hætti skal auka val­frelsi eldri borg­ara og auka mögu­leika þeirra til að afla sér at­vinnu­tekna.

Við skul­um tryggja fötluðum raun­veru­legt val­frelsi í þjón­ustu óháð bú­setu.

Við þurf­um að segja tækni­leg­um krat­isma upp störf­um og taka völd­in af sam­fé­lags­verk­fræðing­um. Berj­ast fyr­ir heil­brigðu þjóðfé­lagi með gam­alt kjör­orð í huga – Gjör rétt, þol ei órétt – sem vís­ar til þess að við vilj­um að sann­girni og virðing sé í öll­um sam­skipt­um.

Ekk­ert af því sem hér er talið upp ætti að koma þeim á óvart sem þekkja skoðanir mín­ar og hug­sjón­ir. En margt er ótalið, sumt mik­il­vægt. Ra­f­ræn stjórn­sýsla gef­ur tæki­færi til að veita betri og ódýr­ari þjón­ustu – ein­fald­ar líf fólks og fyr­ir­tækja, en gef­ur um leið tæki­færi til upp­stokk­un­ar í stjórn­sýsl­unni allri. Verk­efna­list­inn er svo sann­ar­lega lang­ur. Hvort okk­ur tekst að hrinda öll­um verk­efn­um í fram­kvæmd og klára þau, ræðst af úr­slit­um kosn­ing­anna í sept­em­ber.

Share
Share

Written by:

View All Posts
Follow Me :