Prófkjör eru langt því frá að vera gallalaus en því verður varla á móti mælt að þau geta leyst ótrúlegan kraft úr læðingi – kraft almennra flokksmanna. Vel heppnað og fjölmennt prófkjör Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík um liðna helgi getur orðið góður upptaktur fyrir kosningarnar í september.
Dagana 10. til 12. júní fer fram prófkjör í Suðvesturkjördæmi en þar sækist sá er þetta skrifar eftir endurnýjuðu umboði til að sitja sem fulltrúi Sjálfstæðisflokksins á Alþingi. Óháð niðurstöðu prófkjörsins skynja ég að Sjálfstæðisflokkurinn er með vind í seglum um allt land. Með öflugum frambjóðendum en ekki síður skýrri stefnu og málflutningi eigum við sjálfstæðismenn möguleika á því að standa að loknum kosningum um fjölmennan og öflugan þingflokk, sem gefur styrk til að hrinda hugsjónum okkar í framkvæmd.
Ég hef ítrekað haldið því fram í ræðu og riti að Sjálfstæðisflokkurinn verði að lýsa því yfir að hann sé flokkur atvinnurekenda, flokkur launafólks, flokkur bænda, flokkur þéttbýlis og dreifbýlis, flokkur þeirra sem þurfa á samhjálp að halda, flokkur unga fólksins og þeirra sem eldri eru – flokkur sem brúar en sundrar ekki. En fyrst og fremst á Sjálfstæðisflokkurinn að lýsa því yfir að hann sé flokkur hins venjulega Íslendings. Það er á grundvelli þessa og með hliðsjón af því sem ég hef sagt en ekki síður ritað í hundruðum greina þar sem ég lagði drög að verkefnalista fyrir frambjóðendur. Eðli mál samkvæmt er slíkur listi ekki tæmandi en gefur a.m.k. innsýn í mörg þeirra verkefna sem ég tel að við sjálfstæðismenn eigum að sinna á komandi árum.
Fjárhagslegt sjálfstæði
Við eigum að leggja áherslu á hag millistéttarinnar – á hagsmuni launafólks. Við skulum koma aftur á einu þrepi í tekjuskatti en innleiða um leið stiglækkandi persónuafslátt eftir því sem tekjur hækka. Við erum sannfærð um mikilvægi þess að stefna í skattamálum eigi að mótast með hliðsjón af samkeppnishæfni landsins – fyrirtækjanna og launafólks.
Við vitum að grundvöllur jafnréttis er fjárhagslegt sjálfstæði einstaklingsins og við skiljum samhengið á milli fjárhagslegs sjálfstæðis, lágra skatta, atvinnufrelsis og velsældar. Við eigum okkur þann draum að allt launafólk verði eignafólk og fjárhagslega sjálfstætt.
Við viljum tryggja að ungt fólk eigi a.m.k. ekki síðri tækifæri til að eignast eigið húsnæði en foreldrar þeirra, afar og ömmur. Okkar skjaldborg er um séreignastefnuna svo fólk eigi raunverulegt val um hvort það vill eiga eða leigja þak yfir höfuðið.
Við munum tryggja réttindi borgaranna gagnvart hinu opinbera, standa vörð um friðhelgi einkalífsins, eignaréttinn, trúfrelsið og réttinn til tjáningar og félagafrelsið. Við eigum að innleiða og standa vörð um netfrelsi og upplýsingafrelsi borgaranna.
Við þurfum að tryggja að launafólk hafi aukið valfrelsi um lífeyrissjóð um leið og við aukum möguleika þess til að taka beinan þátt í atvinnulífinu með skattalegum hvötum.
Auknar kröfur til ríkisrekstrar
Við ætlum að gera ríkari kröfur til opinbers rekstrar, auka skilvirkni og gera þjónustuna betri – fá meira fyrir peninginn. Við höfnum því að öll vandamál verði leyst með auknum ríkisútgjöldum.
Við vildum koma á samstarfi ríkisins, lífeyrissjóða og annarra fagfjárfesta við uppbyggingu hagrænna innviða, ekki síst í samgöngum.
Við verðum að innleiða samkeppni á flestum sviðum til að tryggja hagkvæma nýtingu fjármagns og vinnuafls, góða þjónustu og hagstætt verð.
Við eigum að gera það eftirsóknarvert að stofna og eiga fyrirtæki – setja sjálfstæða atvinnurekandann aftur á sinn stall. Hætta að refsa framtaksmönnum fyrir að ná árangri í rekstri, einfalda regluverk og ýta þannig undir heilbrigða samkeppni. Við hrósum framtakssemi og gleðjumst yfir velgengni samferðafólks okkar og viljum ryðja hindrunum úr vegi frumkvöðla.
Við verðum að draga úr samkeppnisrekstri ríkisins við einkaaðila – gera leikinn a.m.k. sanngjarnari, jafnt á fjölmiðlamarkaði sem í öðrum atvinnugreinum.
Við viljum nýta fullveldi þjóðarinnar í samskiptum við aðrar þjóðir á jafnræðisgrunni. Kjörorð okkar er að fjölga tækifærunum en ekki fækka þeim.
Við skulum opna alla stjórnsýslu hins opinbera þannig að almenningur geti fylgst með gerðum og ákvörðunum stjórnmálamanna og embættismanna.
Valfrelsi í heilbrigðu samfélagi
Við viljum leiða umfangsmikla fjárfestingu í heilbrigðiskerfinu. Við erum óhrædd við að nýta kosti einkaframtaksins í heilbrigðisþjónustu en stöndum vörð um hugsjónina um að allir séu sjúkratryggðir, óháð efnahag, tryggjum valfrelsi þeirra og komum í veg fyrir tvöfalt heilbrigðiskerfi. Skipulag heilbrigðisþjónustu á að taka mið af þörfum hinna sjúkratryggðu en ekki kerfisins. Öflug heilbrigðisþjónusta byggir á samþættingu og samvinnu hins opinbera og sjálfstætt starfandi aðila.
Við ætlum að huga að grunnþáttum menntunar – innleiða samkeppni og auka þar með valmöguleika ungs fólks til menntunar. Við viljum styrkja iðn- og tækninám og gera það enn eftirsóknarverðara. Fyrst og síðast ætlum við að styrkja menntakerfið sem öflugasta tækið til jöfnuðar.
Við verðum að stokka upp almannatryggingakerfið, innleiða nýja hugsun við að aðstoða þá sem þurfa á því að halda. Við viljum tryggingakerfi öryrkja sem refsar ekki þeim sem geta bætt sinn hag. Með sama hætti skal auka valfrelsi eldri borgara og auka möguleika þeirra til að afla sér atvinnutekna.
Við skulum tryggja fötluðum raunverulegt valfrelsi í þjónustu óháð búsetu.
Við þurfum að segja tæknilegum kratisma upp störfum og taka völdin af samfélagsverkfræðingum. Berjast fyrir heilbrigðu þjóðfélagi með gamalt kjörorð í huga – Gjör rétt, þol ei órétt – sem vísar til þess að við viljum að sanngirni og virðing sé í öllum samskiptum.
Ekkert af því sem hér er talið upp ætti að koma þeim á óvart sem þekkja skoðanir mínar og hugsjónir. En margt er ótalið, sumt mikilvægt. Rafræn stjórnsýsla gefur tækifæri til að veita betri og ódýrari þjónustu – einfaldar líf fólks og fyrirtækja, en gefur um leið tækifæri til uppstokkunar í stjórnsýslunni allri. Verkefnalistinn er svo sannarlega langur. Hvort okkur tekst að hrinda öllum verkefnum í framkvæmd og klára þau, ræðst af úrslitum kosninganna í september.