Að trúa á undramátt frelsisins

Að trúa á undramátt frelsisins

Ég hygg að mér sé óhætt að full­yrða að eng­inn ís­lensk­ur stjórn­mála­maður hafi skilið eft­ir sig jafn­mikið vel ígrundað og rök­stutt efni – ræður, blaða- og fræðigrein­ar – og Bjarni Bene­dikts­son (eldri). Efnið er fjöl­breytt; efna­hags- og at­vinnu­mál, ut­an­rík­is- og varn­ar­mál, stjórn­skip­un, menn­ing, saga og sjálf­stæði þjóðar­inn­ar. Yf­ir­burðaþekk­ing og skiln­ing­ur Bjarna á fjöl­breytt­um viðfangs­efn­um er aug­ljós. Fyr­ir þann sem gert hef­ur stjórn­mál að aðal­starfi, um lengri eða skemmri tíma, er lær­dóms­ríkt að kynna sér hug­mynd­ir og skoðanir Bjarna á hlut­verki og skyld­um stjórn­mála­manns­ins.

Á fimm ára af­mæl­is­fagnaði Vöku, fé­lags lýðræðissinnaðra stúd­enta, í mars 1940, gerði Bjarni að um­tals­efni eig­in­leika for­ystu­manna og hlut­verk stjórn­mála­manna. „Stjórn­mála­maður­inn verður m.a. að þekkja land sitt, gæði þess og tor­fær­ur, þjóð sína, kosti henn­ar og galla, viðskipti henn­ar við aðrar þjóðir og geta gert sér grein fyr­ir, hver áhrif at­b­urðir með þeim munu hafa á hag henn­ar,“ sagði Bjarni og bætti við: „Svo verður hann [stjórn­mála­maður­inn] að þekkja sjálf­an sig, mann­legt eðli, veil­ur þess og styrk­leik.“

Bjarni, sem þá var 32 ára, vitnaði í Bis­marck sem hélt því fram að stjórn­mál væru ekki vís­indi held­ur list­in til að sjá hvað væri mögu­legt á hverj­um tíma og hrinda því í fram­kvæmd. En ekki sé nægj­an­legt að gera sér grein fyr­ir mögu­leik­un­um. „Til viðbót­ar verður að hafa kjark til að standa með því, sem maður tel­ur rétt, og þora að fram­kvæma það, hvað sem taut­ar.“

Þekk­ingu á góðum stjórn­ar­hátt­um er hægt að öðlast með námi en Bjarni brýndi fyr­ir há­skóla­nem­um að list­in „að stjórna rétt og þrekið til að fylgja máli sínu eft­ir, hvað sem á dyn­ur, lær­ist ekki og er fáum gefið. En eng­inn verður mik­ill listamaður fyr­ir náðar­gáf­una eina, til þess þarf þrot­laust nám og ástund­un. Ávöxt­ur­inn af starfi stjórn­mála­manns­ins kem­ur seint í ljós, og yf­ir­leitt verður ekki rétti­lega um það dæmt, fyrr en ævi­skeiði hans er lokið.“

Freist­ing­ar stjórn­mál­anna

Bjarni varaði við þeim hætt­um eða freist­ing­um sem stjórn­mála­menn standa frammi fyr­ir:

„Starf stjórn­mála­manns­ins hlýt­ur því ætíð að verða örðugt, en örðug­ast er það, þar sem lýðræðis­stjórn rík­ir. Ann­ars staðar geta stjórn­mála­menn látið sér í léttu rúmi liggja, hverja dæg­ur­dóma störf þeirra fá. En í lýðræðislandi verður hver sá, sem halda vill áhrif­um sín­um, þ.e. sá er trú­ir á eig­in málstað, að sann­færa al­menn­ing um, að ákv­arðanir hans og at­hafn­ir séu rétt­ar. Þetta leiðir þann, sem til for­ystu hef­ur verið sett­ur, eðli­lega oft í þá freistni að velja held­ur þá leiðina, sem al­menn­ingi er geðþekk­ari, held­ur en hina, sem for­ystumaður­inn tel­ur rétta. En um leið er for­yst­an far­in og stjórn­mála­maður­inn þar með bú­inn að bregðast skyldu sinni.“

Tveim­ur árum síðar átti Bjarni í rit­deil­um við Árna Jóns­son alþing­is­mann frá Múla. Þar sagðist Bjarni oft hafa spurt sjálf­an sig að því hvað það væri sem fengi hann og aðra til að leggja stjórn­mál fyr­ir sig. Til væru önn­ur arðbær­ari störf og minna lýj­andi. Hann hafi hins veg­ar ætíð litið svo á að „sá gerði lítið gagn í stjórn­mál­um, sem eigi feng­ist við þau af ein­hverri innri þörf. Vegna þess, að hon­um fynd­ist að þau væri hans verk­efni í líf­inu. Vegna þess, að hann þætt­ist hafa komið auga á ein­hver slík sann­indi, að hann væri minni maður, ef hann legði sig ekki all­an fram til að berj­ast fyr­ir þeim.“

Það „sem ég álít rétt“

Árið 1942 hafði Bjarni setið í stóli borg­ar­stjóra í tvö ár, aðeins 34 ára gam­all. Í rit­deil­unni við Árna Jóns­son skýrði hann með ein­föld­um og skýr­um hætti af hverju hann hefði lagt stjórn­mál fyr­ir sig:

„En ég skal játa, að ég hef teygst til stjórn­mála­af­skipta, af því að ég hef ákveðna sann­fær­ingu um, að ef ís­lensku þjóðinni eigi að vegna vel, þá verði sjálf­stæðis­stefn­an að verða ráðandi í mál­um henn­ar. Ég seg­ir það satt, og ég er áreiðan­leg­an ekki einn um það af þeim, sem við stjórn­mál fást, að ég hef oft heit­strengt það að skipta mér ekki fram­ar af þeim mál­um. En þegar til hef­ur átt að taka, þá hef­ur mér fund­ist ég vera minni maður, ef ég legði eigi fram krafta mína til þess að vinna fyr­ir það, sem ég álít rétt.“

Ég hef stund­um velt því fyr­ir mér hvaða dóm Bjarni gæfi stjórn­mál­um sam­tím­ans. Hug­sjón­ir hans og skoðanir voru skýr­ar, byggðar á þekk­ingu og inn­sæi. En um leið virti hann ólík­ar skoðanir – sagði það grunn lýðræðis að „virða skoðanir hver ann­ars“. Í ræðu á 17. júní 1945 lagði Bjarni áherslu á að lýðræðið „fær ekki staðist, nema viður­kennt sé, að sjón­ar­miðin eru mörg og skoðanir þar af leiðandi ólík­ar“.

Spyrna við fót­um

En eitt­hvað seg­ir mér að Bjarna Bene­dikts­syni hefði lítið þótt til svo­kallaðra sam­ræðustjórn­mála koma. Hefði átt erfitt með að skilja stjórn­mála­menn sem forðast hug­mynda­fræðilega bar­áttu en eru upp­tekn­ir af tækni­leg­um út­færsl­um og ferl­um. Hann hefði hins veg­ar verið fljót­ur að átta sig á að und­ir yf­ir­borði sam­ræðustjórn­mála kraum­ar stjórn­lyndi – sann­fær­ing­in um að sam­fé­lagið sé ekki annað en tækni­legt úr­lausn­ar­efni – verk­efni sam­fé­lags­verk­fræðinga – og upp­spretta póli­tískr­ar rétt­hugs­un­ar sem gref­ur und­an sam­keppni hug­mynda.

Ég er sann­færður um að Bjarni hefði varað ein­dregið við því hvernig reynt er að þurrka út póli­tísk og hug­mynda­fræðileg mörk milli stjórn­mála­manna og stjórn­mála­flokka með inni­halds­lausri orðræðu, klisj­um og brigsl­yrðum. Hann hefði brýnt fé­laga sína í Sjálf­stæðis­flokkn­um til að spyrna hart á móti og leita aldrei viður­kenn­ing­ar við hring­borð sam­ræðustjórn­mála. Byggja hins veg­ar allt sitt starf á skýr­um hug­mynd­um um frelsi ein­stak­lings­ins og full­veldi þjóðar­inn­ar. Treysta enn frek­ar á „frum­kvæði, mann­dóm og dug borg­ar­anna“ þar sem stjórn­völd „greiða fyr­ir fram­kvæmd­um þeirra“ en leggja „ekki á þær höml­ur og hindr­an­ir“. Í sinni ein­földu mynd: Trúa á undra­mátt frels­is­ins.

Share
Share

Written by:

View All Posts
Follow Me :