Aukið heilbrigði eða ríkisstyrkir

Aukið heilbrigði eða ríkisstyrkir

Þegar þessi orð eru sett niður á blað er rúm klukku­stund í að at­kvæðagreiðslur hefj­ist í þingsal um nokk­ur frum­vörp rík­is­stjórn­ar­inn­ar. Gangi allt eins og lagt er upp með verða fimm frum­vörp orðin að lög­um um það leyti sem marg­ir fá sér síðdeg­iskaffi. Fæst hafa áhrif á dag­legt líf okk­ar, en geta skipt máli til lengri eða skemmri tíma. Ég ótt­ast hins veg­ar að eitt frum­varpið ýti sam­fé­lag­inu inn á hættu­leg­ar braut­ir.

Lög­um um aðgerðir gegn markaðssvik­um er ætlað að stuðla að auknu heil­brigði fjár­mála­markaða, efla fjár­festa­vernd og traust fjár­festa á fjár­mála­mörkuðum. Fram­haldi ferðagjaf­ar er ætlað að vinna gegn nei­kvæðum áhrif­um kór­ónu­veirufar­ald­urs­ins á starf­semi fyr­ir­tækja í ferðaþjón­ustu. Mark­mið með breyt­ing­um á lög­um um fisk­eldi er að stuðla að betri nýt­ingu fjarða og hafsvæða til fisk­eld­is. Með breyt­ingu á bráðabirgðaákvæði í lög­um um aðbúnað, holl­ustu­hætti og ör­yggi á vinnu­stöðum er fram­lengd heim­ild til að semja um rýmri vinnu­tíma en ákvæði lag­anna gera ráð fyr­ir vegna þeirra starfs­manna sem veita þjón­ustu við fatlað fólk með langvar­andi stuðningsþarf­ir.

Fimmta frum­varpið sem verður að lög­um er beinn stuðning­ur rík­is­ins við starf­semi einka­rek­inna fjöl­miðla. Með samþykkt þess er stigið fyrsta skrefið í að gera sjálf­stæða fjöl­miðla fjár­hags­lega háða rík­is­vald­inu. Í stað þess að ráðast að rót vand­ans – sem er for­rétt­indi rík­is­rek­inn­ar fjöl­miðlun­ar – er leið rík­is­styrkja val­in.

Fátt hættu­legra

Ég hef lengi varað við að inn­leitt verði flókið kerfi milli­færslna og rík­is­styrkja. Í júní 2018 skrifaði ég meðal ann­ars:

„Fátt er hættu­legra fyr­ir frjálsa fjöl­miðlun en að vera háð op­in­ber­um styrkj­um og nefnd­um á veg­um hins op­in­bera sem skammta úr hnefa fjár­muni til að standa und­ir ein­stök­um þátt­um í rekstr­in­um. Fjöl­miðlun sem er háð hinu op­in­bera með bein­um hætti verður aldrei frjáls nema í orði.“

Eng­um ætti því að koma á óvart að ég geti ekki stutt stjórn­ar­frum­varp um stuðning við fjöl­miðla, jafn­vel þótt meiri­hluti alls­herj­ar- og mennta­mála­nefnd­ar hafi gert skyn­sam­leg­ar breyt­ing­ar á frum­varp­inu. Þar skipt­ir mestu að stuðning­ur­inn verður tíma­bund­inn.

Með samþykkt frum­varps­ins eru þing­menn ekki að plægja jarðveg­inn fyr­ir fjöl­breytta flóru fjöl­miðla sem trygg­ir að rétt­ar upp­lýs­ing­ar séu dregn­ar fram, að ólík sjón­ar­mið fái að heyr­ast og nauðsyn­legt aðhald sé að helstu stofn­un­um sam­fé­lags­ins.

Út af sam­keppn­ismarkaði

Í liðinni viku mælti ég fyr­ir frum­varpi, sem ég lagði fram ásamt Brynj­ari Ní­els­syni, um breyt­ing­ar á lög­um um Rík­is­út­varpið. Mark­mið frum­varps­ins er að jafna sam­keppn­is­stöðu einka­rek­inna fjöl­miðla gagn­vart rík­is­reknu fjöl­miðlafyr­ir­tæki í tveim­ur skref­um. Í fyrra skref­inu verði Rík­is­út­varp­inu óheim­ilt að stunda beina sölu á aug­lýs­ing­um, hlut­fall aug­lýs­inga fari ekki yfir fimm mín­út­ur á hvern klukku­tíma í út­send­ing­ar­tíma og að óheim­ilt verði að slíta í sund­ur dag­skrárliði með aug­lýs­ing­um. Þá sé Rík­is­út­varp­inu bannað að afla kost­un­ar á dag­skrárliði. Tak­mark­an­ir þess­ar verði á tíma­bil­inu 1. janú­ar 2022 til og með 31. des­em­ber 2023. Frá árs­byrj­un 2024 verði sam­keppn­is­rekstri Rík­is­út­varps­ins á aug­lýs­inga­markaði hætt.

Í grein­ar­gerð er því haldið fram að frjáls fjöl­miðlun á Íslandi standi höll­um fæti. Á sama tíma og sam­keppn­is­staðan er skekkt með lög­verndaðri yf­ir­burðastöðu Rík­is­út­varps­ins standi einka­rekn­ir inn­lend­ir fjöl­miðlar frammi fyr­ir harðri sókn alþjóðlegra stór­fyr­ir­tækja inn á aug­lýs­inga­markaðinn. Að nokkru er þetta hluti af stærri vanda en stofn­an­ir og fyr­ir­tæki rík­is og sveit­ar­fé­laga eru víða í sam­keppni við einkaaðila. „Vís­bend­ing­ar eru um að op­in­ber­ir aðilar, ekki síst op­in­ber hluta­fé­lög, hafi hert sam­keppn­is­rekst­ur sinn á síðustu árum,“ seg­ir í grein­ar­gerðinni og um leið bent á að þegar hið op­in­bera kepp­ir við einka­rekst­ur sé mik­il­vægt að tryggja jafn­ræði með eins góðum hætti og kost­ur er. Regl­ur verði að vera skýr­ar og af­markaðar um um­fang op­in­bers sam­keppn­is­rekstr­ar. Þá seg­ir einnig:

„Um­svif op­in­berra aðila á sam­keppn­ismarkaði geta leitt til skaðlegr­ar fákeppni, rutt sjálf­stæðum rekstri út af markaði og jafn­vel leitt til ein­ok­un­ar. Und­ir slík­um aðstæðum er nýj­um aðilum gert erfiðara fyr­ir að hasla sér völl á markaði. Leiða má rök að því að sam­keppn­is­rekst­ur hins op­in­bera geti unnið gegn mark­miði sam­keppn­islaga sem er að efla virka sam­keppni í viðskipt­um.

Op­in­ber­ir aðilar njóta oft for­skots á grund­velli laga í sam­keppni við einkaaðila. Dæmi um þetta er fjöl­miðlarekst­ur rík­is­ins und­ir hatti Rík­is­út­varps­ins ohf. Aug­ljóst er að sam­keppn­is­rekst­ur rík­is­ins hef­ur veru­lega nei­kvæð áhrif á rekst­ur og fjár­hag sjálf­stæðra fjöl­miðla sem flest­ir standa höll­um fæti. Tak­mörk­un á um­svif­um og síðar bann við sam­keppn­is­rekstri á sviði aug­lýs­inga og kost­un­ar ætti því að öðru óbreyttu að bæta hag sjálf­stæðra fjöl­miðla.“

Frem­ur verkjalyf

Því miður eru litl­ar lík­ur á því að frum­varpið fái efn­is­lega um­fjöll­un í nefnd, en auðvitað er haldið í von­ina. Það er sann­fær­ing okk­ar fé­laga, eins og raun­ar margra annarra þing­manna, að skyn­sam­legra sé að styrkja stöðu einka­rek­inna fjöl­miðla með því að tak­marka veru­lega sam­keppn­is­rekst­ur rík­is­ins frem­ur en að koma upp flóknu kerfi milli­færslna og rík­is­styrkja. Slíkt stuðli að auknu heil­brigði á fjöl­miðlamarkaði, með lít­il­lega auknu jafn­ræði milli rík­is­fjöl­miðlun­ar og sjálf­stæðra fjöl­miðla. Auk tak­mörk­un­ar á sam­keppn­is­rekstri rík­is­ins hef ég áður lagt til að rekst­ur sjálf­stæðra fjöl­miðla verði styrkt­ur með skatta­leg­um aðgerðum, þar sem jafn­ræðis er gætt.

Ég geri ekki ráð fyr­ir öðru en að góður meiri­hluti þing­manna styðji aukna rík­i­s­væðingu fjöl­miðlun­ar og stigi í fót­spor lækn­is­ins sem kem­ur sér und­an því að skera sjúk­ling­inn upp til að koma hon­um til heilsu en vel­ur frem­ur að gefa hon­um verkjalyf til að halda hon­um á lífi þótt lífs­gæðin séu ekki mik­il eða framtíðin björt.

Share
Share

Written by:

View All Posts
Follow Me :