„Sjávarútvegur hefur verið uppspretta helstu tækniframfara og nýsköpunar í hinu íslenska hagkerfi og samvinna fyrirtækja í sjávarútvegi, vísindasamfélaginu og yfirvalda hefur verið mikil og öflug. Ísland hefur náð einstökum árangri síðustu áratugi á þessu sviði og hefur þar jafnvel alþjóðlega forystu, ekki síst í nýsköpun og verðmætasköpun sem tengist hinum ýmsu hliðargreinum sjávarútvegs. Þessi árangur hefur vakið athygli víða, m.a. hjá erlendum fjárfestum sem hafa í auknu mæli lagt fé í íslensk fyrirtæki sem starfa í hliðargreinum sjávarútvegs.“
Þetta er ein niðurstaða í viðamikilli skýrslu um stöðu og horfur í íslenskum sjávarútvegi og fiskeldi sem unnin var af óháðum sérfræðingum að beiðni Kristjáns Þórs Júlíussonar sjávarútvegsráðherra. Í skýrslunni kemur fram að fyrirtæki í hliðargreinum sjávarútvegs starfa á margvíslegum sviðum; við þróun og framleiðslu lífefna og lækningavara úr sjávarfangi, þróun og framleiðslu umbúða fyrir sjávarafurðir, þróun vinnslu- og tæknilausna fyrir sjávarútveg. Árið 2018 var fjöldi ársverka í fyrirtækjum 2.540 og námu samanlagðar rekstrartekjur um 78 milljörðum króna.

615 milljarða verðmæti
Skýrslan er mikilvægt innlegg í umræðuna um sjávarútveg, stöðu hans og þá ótrúlegu möguleika sem fyrir hendi eru á komandi árum. Áætlað er að framleiðsluverðmæti sjávarútvegs og tengdra greina hafi verið um 332 milljarðar króna árið 2019 og þar af hafi verðmæti veiða og vinnslu verið 260 milljarðar. Framtíðin getur verið björt því verðmætasköpun í þessum greinum gæti aukist í 615 milljarða árið 2030. Reiknað er með mestum vexti í fiskeldi og hröðum vexti í líftækni og örþörungum. Með sífellt aukinni tækni og bættri nýtingu, ekki síst uppsjávarfisks, er hægt að ná fram auknum verðmætum í vinnslu, þótt ekki komi til aukning í afla.
Skýrsluhöfundar telja að erfitt sé að meta verðmætaaukningu í búnaði og þekkingu en benda á að á síðustu árum hafi orðið mikil þróun hjá þessum fyrirtækjum; nýjar vörur og tækni komið fram svo sem vatnsskurður, ný vinnslulína, ofurkæling, nýr frystibúnaður fyrir uppsjávarfisk, ný hönnun á ísfiskskipum, nýjar umbúðir og meiri rekjanleiki. „Þróunin mun halda áfram og næstu tíu ár er reiknað með að framleiðsluverðmæti nær tvöfaldist. Mörg íslensk fyrirtæki hafa náð góðum árangri á erlendri grund og byggist hann oft á öflugu samstarfi við innlend fyrirtæki og krefjandi heimamarkað. Ef vöxtur verður í öðrum hlutum virðiskeðjunnar mun það hafa bein áhrif á þróun á sviði búnaðar og þekkingar.“
Hafi einhverjum ekki verið það ljóst áður þá ætti enginn að þurfa að efast um, eftir lestur skýrslunnar, að sjávarútvegur hefur og verður aflvaki öflugrar nýsköpunar innan og utan greinarinnar.
Millifærslur og gengisfellingar
Með fiskveiðistjórnunarkerfinu hefur ekki aðeins verið lagður grunnur að nýsköpun og auknum verðmætum heldur hefur Ísland skapað sér algjöra sérstöðu meðal ríkja OECD þegar kemur að greiðslum sjávarútvegsfyrirtækja fyrir aðgang að auðlindum. Íslenskur sjávarútvegur er sá eini sem borgar meira til hins opinbera en hann fær greitt úr opinberum sjóðum. „Sú staðreynd að íslensk sjávarútvegsfyrirtæki geta staðist samkeppnina jafn vel og raun ber vitni er annars vegar merki um góða stjórn fiskveiða og fjárhagslegan styrk sjávarútvegs á Íslandi en einnig um bágt ástand í fiskveiðum annars staðar.“
Sem sagt: Íslendingum hefur tekist að byggja upp einhvern hagkvæmasta sjávarútveg heims, sem er skattlagður sérstaklega á sama tíma og flestar þjóðir halda úti umfangsmikilli opinberri aðstoð. Þessa ríkisstyrktu starfsemi hefur íslenskur sjávarútvegur staðist í harðri samkeppni á erlendum mörkuðum.
Það er því magnað að til séu stjórnmálamenn sem tala og berjast fyrir því að kollvarpa þessu kerfi og veikja enn frekar samkeppnisstöðuna með ofursköttum. Ó, hve sagan gleymist fljótt.
Fyrir daga kvótakerfisins var útgerðar- og fiskvinnslufyrirtækjum haldið við hungurmörk með millifærslum og gengisfellingum. Auðlindum var sóað og sóknarkerfi og pólitísk miðstýring leiddi til offjárfestingar sem síðar var mætt með sérstökum úreldingarsjóði fyrir fiskiskip. Olíusjóður niðurgreiddi olíukostnað fiskiskipa og afurðalán voru veitt til að styðja við útflytjendur. Framkvæmdastofnun ríkisins veitti útgerðarfyrirtækjum sérstaka fjárhagsaðstoð til að halda þeim á lífi. Sveitarsjóðir héldu veikburða bæjarútgerðum á lífi.
Kerfið allt var rotið – gegnsýrt af millifærslum til að styðja við óhagkvæman og ósjálfbæran sjávarútveg. Búin var til eins konar vítisvél þar sem gengi krónunnar var eitt helsta hagstjórnartækið og það fellt reglulega. Gengisfelling, gengissig, gengisaðlögun urðu orð sem voru flestum töm – hluti af veruleika íslensks launafólks sem bar byrðarnar. Gjaldeyrisafgreiðslur bankanna voru lokaðar þegar „leiðrétta“ þurfti gengið til að halda óarðbærum atvinnurekstri áfram í súrefnisvél. Árið 1980 hækkaði gengi dollars um liðlega 160% og á sex árum til 1986 féll krónan um tæp 600% gagnvart dollar. Verðbólga var krónísk og át upp allar kauphækkanir. Árin 1980 til 1982 var verðbólga alltaf yfir 50% og 1983 var verðbólga 84% og fór upp fyrir 100% á tímabili.
Auðvelt að eyðileggja
Dagar óarðbærs sjávarútvegs, offjárfestingar, ofveiði og gengisfellinga eru fyrir löngu að baki. Með kvótakerfinu var hægt en örugglega sagt skilið við kerfi sem var fjármagnað með lakari lífskjörum almennings. Nú er ekki tekist á um það við ríkisstjórnarborðið eða í þingsal hvort fella eigi gengi krónunnar um 10, 20 eða 30 prósent eða auka niðurgreiðslur á olíukostnaði fiskiskipa. Bæjarútgerðir íþyngja ekki lengur sveitarsjóðum. Átökin eru um hversu þungar álögur eigi að leggja á sjávarútveg umfram aðrar atvinnugreinar. Og að einu leyti er þessi ágreiningur góður því hann er merki um hversu vel hefur tekist til við skipulag fiskveiðistjórnarkerfisins, sem er fyrirmynd annarra ríkja sem eru með sjávarútveg í sambandi við opinberar súrefnisvélar.
Skýrslan um stöðu og horfur í íslenskum sjávarútvegi og fiskeldi, leiðir í ljós mikinn styrk íslenskra sjávarútvegsfyrirtækja en ekki síður hve tækifærin eru mikil á komandi árum í tengdum greinum. Við getum leyft okkur að dreyma um ævintýri um allt land. En það er auðvelt að eyðileggja ævintýri og snúa eftirsóknarverðri stöðu í efnahagslega martröð.
You must be logged in to post a comment.