Sjávarútvegur – aflvaki öflugrar nýsköpunar

Sjávarútvegur – aflvaki öflugrar nýsköpunar

„Sjáv­ar­út­veg­ur hef­ur verið upp­spretta helstu tækni­fram­fara og ný­sköp­un­ar í hinu ís­lenska hag­kerfi og sam­vinna fyr­ir­tækja í sjáv­ar­út­vegi, vís­inda­sam­fé­lag­inu og yf­ir­valda hef­ur verið mik­il og öfl­ug. Ísland hef­ur náð ein­stök­um ár­angri síðustu ára­tugi á þessu sviði og hef­ur þar jafn­vel alþjóðlega for­ystu, ekki síst í ný­sköp­un og verðmæta­sköp­un sem teng­ist hinum ýmsu hliðargrein­um sjáv­ar­út­vegs. Þessi ár­ang­ur hef­ur vakið at­hygli víða, m.a. hjá er­lend­um fjár­fest­um sem hafa í auknu mæli lagt fé í ís­lensk fyr­ir­tæki sem starfa í hliðargrein­um sjáv­ar­út­vegs.“

Þetta er ein niðurstaða í viðamik­illi skýrslu um stöðu og horf­ur í ís­lensk­um sjáv­ar­út­vegi og fisk­eldi sem unn­in var af óháðum sér­fræðing­um að beiðni Kristjáns Þórs Júlí­us­son­ar sjáv­ar­út­vegs­ráðherra. Í skýrsl­unni kem­ur fram að fyr­ir­tæki í hliðargrein­um sjáv­ar­út­vegs starfa á marg­vís­leg­um sviðum; við þróun og fram­leiðslu líf­efna og lækn­inga­vara úr sjáv­ar­fangi, þróun og fram­leiðslu umbúða fyr­ir sjáv­ar­af­urðir, þróun vinnslu- og tækni­lausna fyr­ir sjáv­ar­út­veg. Árið 2018 var fjöldi ár­s­verka í fyr­ir­tækj­um 2.540 og námu sam­an­lagðar rekstr­ar­tekj­ur um 78 millj­örðum króna.

615 millj­arða verðmæti

Skýrsl­an er mik­il­vægt inn­legg í umræðuna um sjáv­ar­út­veg, stöðu hans og þá ótrú­legu mögu­leika sem fyr­ir hendi eru á kom­andi árum. Áætlað er að fram­leiðslu­verðmæti sjáv­ar­út­vegs og tengdra greina hafi verið um 332 millj­arðar króna árið 2019 og þar af hafi verðmæti veiða og vinnslu verið 260 millj­arðar. Framtíðin get­ur verið björt því verðmæta­sköp­un í þess­um grein­um gæti auk­ist í 615 millj­arða árið 2030. Reiknað er með mest­um vexti í fisk­eldi og hröðum vexti í líf­tækni og örþör­ung­um. Með sí­fellt auk­inni tækni og bættri nýt­ingu, ekki síst upp­sjáv­ar­fisks, er hægt að ná fram aukn­um verðmæt­um í vinnslu, þótt ekki komi til aukn­ing í afla.

Skýrslu­höf­und­ar telja að erfitt sé að meta verðmæta­aukn­ingu í búnaði og þekk­ingu en benda á að á síðustu árum hafi orðið mik­il þróun hjá þess­um fyr­ir­tækj­um; nýj­ar vör­ur og tækni komið fram svo sem vatns­skurður, ný vinnslu­lína, of­urkæl­ing, nýr frysti­búnaður fyr­ir upp­sjáv­ar­fisk, ný hönn­un á ís­fisk­skip­um, nýj­ar umbúðir og meiri rekj­an­leiki. „Þró­un­in mun halda áfram og næstu tíu ár er reiknað með að fram­leiðslu­verðmæti nær tvö­fald­ist. Mörg ís­lensk fyr­ir­tæki hafa náð góðum ár­angri á er­lendri grund og bygg­ist hann oft á öfl­ugu sam­starfi við inn­lend fyr­ir­tæki og krefj­andi heima­markað. Ef vöxt­ur verður í öðrum hlut­um virðiskeðjunn­ar mun það hafa bein áhrif á þróun á sviði búnaðar og þekk­ing­ar.“

Hafi ein­hverj­um ekki verið það ljóst áður þá ætti eng­inn að þurfa að ef­ast um, eft­ir lest­ur skýrsl­unn­ar, að sjáv­ar­út­veg­ur hef­ur og verður aflvaki öfl­ugr­ar ný­sköp­un­ar inn­an og utan grein­ar­inn­ar.

Milli­færsl­ur og geng­is­fell­ing­ar

Með fisk­veiðistjórn­un­ar­kerf­inu hef­ur ekki aðeins verið lagður grunn­ur að ný­sköp­un og aukn­um verðmæt­um held­ur hef­ur Ísland skapað sér al­gjöra sér­stöðu meðal ríkja OECD þegar kem­ur að greiðslum sjáv­ar­út­vegs­fyr­ir­tækja fyr­ir aðgang að auðlind­um. Íslensk­ur sjáv­ar­út­veg­ur er sá eini sem borg­ar meira til hins op­in­bera en hann fær greitt úr op­in­ber­um sjóðum. „Sú staðreynd að ís­lensk sjáv­ar­út­vegs­fyr­ir­tæki geta staðist sam­keppn­ina jafn vel og raun ber vitni er ann­ars veg­ar merki um góða stjórn fisk­veiða og fjár­hags­leg­an styrk sjáv­ar­út­vegs á Íslandi en einnig um bágt ástand í fisk­veiðum ann­ars staðar.“

Sem sagt: Íslend­ing­um hef­ur tek­ist að byggja upp ein­hvern hag­kvæm­asta sjáv­ar­út­veg heims, sem er skattlagður sér­stak­lega á sama tíma og flest­ar þjóðir halda úti um­fangs­mik­illi op­in­berri aðstoð. Þessa rík­is­styrktu starf­semi hef­ur ís­lensk­ur sjáv­ar­út­veg­ur staðist í harðri sam­keppni á er­lend­um mörkuðum.

Það er því magnað að til séu stjórn­mála­menn sem tala og berj­ast fyr­ir því að koll­varpa þessu kerfi og veikja enn frek­ar sam­keppn­is­stöðuna með of­ur­skött­um. Ó, hve sag­an gleym­ist fljótt.

Fyr­ir daga kvóta­kerf­is­ins var út­gerðar- og fisk­vinnslu­fyr­ir­tækj­um haldið við hung­ur­mörk með milli­færsl­um og geng­is­fell­ing­um. Auðlind­um var sóað og sókn­ar­kerfi og póli­tísk miðstýr­ing leiddi til offjár­fest­ing­ar sem síðar var mætt með sér­stök­um úr­eld­ing­ar­sjóði fyr­ir fiski­skip. Ol­íu­sjóður niður­greiddi ol­íu­kostnað fiski­skipa og afurðalán voru veitt til að styðja við út­flytj­end­ur. Fram­kvæmda­stofn­un rík­is­ins veitti út­gerðarfyr­ir­tækj­um sér­staka fjár­hagsaðstoð til að halda þeim á lífi. Sveit­ar­sjóðir héldu veik­b­urða bæj­ar­út­gerðum á lífi.

Kerfið allt var rotið – gegn­sýrt af milli­færsl­um til að styðja við óhag­kvæm­an og ósjálf­bær­an sjáv­ar­út­veg. Búin var til eins kon­ar vít­is­vél þar sem gengi krón­unn­ar var eitt helsta hag­stjórn­ar­tækið og það fellt reglu­lega. Geng­is­fell­ing, geng­is­sig, gengisaðlög­un urðu orð sem voru flest­um töm – hluti af veru­leika ís­lensks launa­fólks sem bar byrðarn­ar. Gjald­eyrisaf­greiðslur bank­anna voru lokaðar þegar „leiðrétta“ þurfti gengið til að halda óarðbær­um at­vinnu­rekstri áfram í súr­efn­is­vél. Árið 1980 hækkaði gengi doll­ars um liðlega 160% og á sex árum til 1986 féll krón­an um tæp 600% gagn­vart doll­ar. Verðbólga var krón­ísk og át upp all­ar kaup­hækk­an­ir. Árin 1980 til 1982 var verðbólga alltaf yfir 50% og 1983 var verðbólga 84% og fór upp fyr­ir 100% á tíma­bili.

Auðvelt að eyðileggja

Dag­ar óarðbærs sjáv­ar­út­vegs, offjár­fest­ing­ar, of­veiði og geng­is­fell­inga eru fyr­ir löngu að baki. Með kvóta­kerf­inu var hægt en ör­ugg­lega sagt skilið við kerfi sem var fjár­magnað með lak­ari lífs­kjör­um al­menn­ings. Nú er ekki tek­ist á um það við rík­is­stjórn­ar­borðið eða í þingsal hvort fella eigi gengi krón­unn­ar um 10, 20 eða 30 pró­sent eða auka niður­greiðslur á ol­íu­kostnaði fiski­skipa. Bæj­ar­út­gerðir íþyngja ekki leng­ur sveit­ar­sjóðum. Átök­in eru um hversu þung­ar álög­ur eigi að leggja á sjáv­ar­út­veg um­fram aðrar at­vinnu­grein­ar. Og að einu leyti er þessi ágrein­ing­ur góður því hann er merki um hversu vel hef­ur tek­ist til við skipu­lag fisk­veiðistjórn­ar­kerf­is­ins, sem er fyr­ir­mynd annarra ríkja sem eru með sjáv­ar­út­veg í sam­bandi við op­in­ber­ar súr­efn­is­vél­ar.

Skýrsl­an um stöðu og horf­ur í ís­lensk­um sjáv­ar­út­vegi og fisk­eldi, leiðir í ljós mik­inn styrk ís­lenskra sjáv­ar­út­vegs­fyr­ir­tækja en ekki síður hve tæki­fær­in eru mik­il á kom­andi árum í tengd­um grein­um. Við get­um leyft okk­ur að dreyma um æv­in­týri um allt land. En það er auðvelt að eyðileggja æv­in­týri og snúa eft­ir­sókn­ar­verðri stöðu í efna­hags­lega mar­tröð.

Share
Share

Written by:

View All Posts
Follow Me :