Ég hef haldið því fram að það sé nauðsynlegt, ekki síst fyrir stjórnmálamenn, að skilja hvar rætur hugmynda og hugsjóna þeirra liggja. Með skilningi kemur sannfæringin – krafturinn til að leggja lið í hugmyndabaráttu sem oft er hörð, jafnvel óvægin.
Rætur Sjálfstæðisflokksins liggja í sjálfstæðisbaráttu þjóðarinnar og varðstöðu fyrir frelsi einstaklinga til orðs og æðis, gagnvart öfgum alræðis og einræðis, kommúnista og fasisma. Verði þessar rætur slitnar upp visnar Sjálfstæðisflokkurinn upp og glatar tilgangi sínum.
Fyrir andstæðinga flokksins kann að vera erfitt að skilja af hverju við sjálfstæðismenn leggjum áherslu á að halda fullveldi Íslands í samskiptum við aðrar þjóðir. Af hverju það er órjúfanlegur hluti af sjálfstæði þjóðar að hafa full yfirráð yfir utanríkisviðskiptum, og framselja ekki valdið til yfirþjóðlegrar stofnunar. Af hverju Sjálfstæðisflokkurinn barðist í áratugi fyrir opnum samskiptum við aðrar þjóðir og brjóta þannig hlekki hafta og ófrelsis í utanríkisviðskiptum.
Þráður í gegnum allt
Þeir sem þekkja ekki úr hvaða jarðvegi sjálfstæðisstefnan er sprottin sjá ekki þráðinn sem liggur í gegnum alla hugmyndafræðina um sjálfstæði einstaklingsins, atvinnufrelsi, eignarréttinn, og hlutverk ríkisins, sem er til fyrir borgarana og starfar í þeirra þágu. Fyrir aðra er það jafnvel framandi hvernig jafnréttishugsjón Sjálfstæðisflokksins byggist á afnámi allra sérréttinda, jöfnum lífsmöguleikum og jafnræði borgaranna. Þjóðfélag sem tryggir athafna- og skoðanafrelsi einstaklinganna – hlúir að „persónuleika og sjálfstæði einstaklinganna“ – býr til frjósaman jarðveg fyrir lýðræði. „Í slíkum jarðvegi getur hvorki einræði né ofbeldisfullt flokksræði fest rætur,“ sagði Jóhann Hafstein í ræðu á fundi Heimdallar 1939 – tíu árum eftir stofnun Sjálfstæðisflokksins.
Sjálfstæði þjóðar og frelsi einstaklingsins eru órjúfanleg hvort frá öðru eins og Bjarni Benediktsson (eldri) benti á: „Á Íslandi þarf sjálfstæði allrar þjóðarinnar að eflast af sjálfstæði einstaklinganna.“
Í starfi mínu á þingi hef ég byggt á pólitískri sannfæringu – hugmyndafræði og lífssýn sjálfstæðisstefnunnar um mannhelgi einstaklingsins og þeirri vissu að andlegt og efnahagslegt frelsi sé frumréttur hvers og eins. Á stundum hefur reynt á þolrifin en ekki síður þolinmæðina. Oft hefur gefið á bátinn en svo hafa mikilvægir áfangasigrar unnist, sem hafa tryggt betri lífskjör almennings. Og tilveran hefur orðið skemmtilegri og litbrigði mannlífsins fjölbreyttari.
Skilja ekki kraftinn
Í ræðum, vikulegum pistlum hér á síðum Morgunblaðsins, hlaðvarpsþáttum, viðtölum í útvarpi og sjónvarpi og tímaritsgreinum hef ég barist fyrir framgangi hugmynda sem allar eru sóttar í kistu sjálfstæðisstefnunnar með einum eða öðrum hætti. Og fátt er skemmtilegra eða meira gefandi en glíma við hugmyndir – kynnast ólíkum viðhorfum og sjónarmiðum. Pólitískir andstæðingar hafa aldrei áttað sig á því hvaða kraftur felst í því fyrir Sjálfstæðisflokkinn að vera farvegur fyrir nýjar hugmyndir. Þeir skilja ekki orkuna sem stjórnmálaflokkur sækir í skoðanaskipti. Lifandi stjórnmálaflokkur er suðupottur hugmynda og hugsjóna, þar sem tekist er á – stundum harkalega – en flokksmenn hafa burði og þroska til að sameinast fyrir framgangi grunnhugsjóna. Sjálfstæðismenn byggja á bjartsýni, en nærast ekki á tortryggni eða öfund. Við gleðjumst yfir velgengni, hvetjum og styðjum við framtakssemi fólks og viljum lofa því að njóta eigin dugnaðar og útsjónarsemi. Markmiðið er að bæta lífskjörin og fjölga tækifærunum. Draumurinn er að íslenskt launafólk verði eignafólk og fjárhagslega sjálfstætt.
Í janúar 2019 skrifaði ég hér í Morgunblaðið:
„Stjórnmálaflokkur sem ekki hefur burði til að sameina í hugmyndafræði sinni ólíka hagsmuni – smíða brú milli launafólks og atvinnurekenda, milli ungs fólk og þeirra sem eldri eru, milli landsbyggðar og höfuðborgar – verður lítið annað en bandalag sérhagsmuna eða fámennur en oft hávær hópur sem er líkari sértrúarsöfnuði en stjórnmálaflokki. Stjórnmálaflokkur sem er þess ekki umkominn að mynda farveg fyrir samkeppni hugmynda og skoðana mun hægt en örugglega veslast upp, missa þróttinn og deyja. Slíkur flokkur á ekki erindi við framtíðina.“
Ástríðan og sannfæringin
Síðar í sömu grein skrifaði ég:
„Hlutverk Sjálfstæðisflokksins er að rækta sambandið við kjósendur – slípa og móta hugsjónir. Þróa hugmyndir í takt við nýja tíma og nýjar áskoranir, án þess að hverfa frá grunngildi um frelsi einstaklingsins. Það þarf hins vegar að fylgja hugmyndunum eftir af ástríðu og sannfæringu.“
Það er ekki sjálfgefið að taka ákvörðun um að sækjast eftir endurkjöri sem þingmaður. Ástríðan verður að vera fyrir hendi. Í stjórnmálum verður árangurinn lítill án sannfæringar og löngunar til að berjast fyrir framgangi hugmynda. Ástríðan, sannfæringin og löngunin er enn til staðar – og síst minni en áður. Stefnufesta er nauðsynleg en þolinmæði ekki síður því dropinn holar steininn. Baráttan fyrir frelsi einstaklingsins og fullveldi landsins heldur áfram. Í þeirri baráttu vil ég taka fullan þátt.