Barist fyrir hugsjónum

Barist fyrir hugsjónum

Ég hef haldið því fram að það sé nauðsyn­legt, ekki síst fyr­ir stjórn­mála­menn, að skilja hvar ræt­ur hug­mynda og hug­sjóna þeirra liggja. Með skiln­ingi kem­ur sann­fær­ing­in – kraft­ur­inn til að leggja lið í hug­mynda­bar­áttu sem oft er hörð, jafn­vel óvæg­in.

Ræt­ur Sjálf­stæðis­flokks­ins liggja í sjálf­stæðis­bar­áttu þjóðar­inn­ar og varðstöðu fyr­ir frelsi ein­stak­linga til orðs og æðis, gagn­vart öfg­um alræðis og ein­ræðis, komm­ún­ista og fas­isma. Verði þess­ar ræt­ur slitn­ar upp visn­ar Sjálf­stæðis­flokk­ur­inn upp og glat­ar til­gangi sín­um.

Fyr­ir and­stæðinga flokks­ins kann að vera erfitt að skilja af hverju við sjálf­stæðis­menn leggj­um áherslu á að halda full­veldi Íslands í sam­skipt­um við aðrar þjóðir. Af hverju það er órjúf­an­leg­ur hluti af sjálf­stæði þjóðar að hafa full yf­ir­ráð yfir ut­an­rík­is­viðskipt­um, og fram­selja ekki valdið til yfirþjóðlegr­ar stofn­un­ar. Af hverju Sjálf­stæðis­flokk­ur­inn barðist í ára­tugi fyr­ir opn­um sam­skipt­um við aðrar þjóðir og brjóta þannig hlekki hafta og ófrels­is í ut­an­rík­is­viðskipt­um.

Þráður í gegn­um allt

Þeir sem þekkja ekki úr hvaða jarðvegi sjálf­stæðis­stefn­an er sprott­in sjá ekki þráðinn sem ligg­ur í gegn­um alla hug­mynda­fræðina um sjálf­stæði ein­stak­lings­ins, at­vinnu­frelsi, eign­ar­rétt­inn, og hlut­verk rík­is­ins, sem er til fyr­ir borg­ar­ana og starfar í þeirra þágu. Fyr­ir aðra er það jafn­vel fram­andi hvernig jafn­rétt­is­hug­sjón Sjálf­stæðis­flokks­ins bygg­ist á af­námi allra sérrétt­inda, jöfn­um lífs­mögu­leik­um og jafn­ræði borg­ar­anna. Þjóðfé­lag sem trygg­ir at­hafna- og skoðana­frelsi ein­stak­ling­anna – hlú­ir að „per­sónu­leika og sjálf­stæði ein­stak­ling­anna“ – býr til frjó­sam­an jarðveg fyr­ir lýðræði. „Í slík­um jarðvegi get­ur hvorki ein­ræði né of­beld­is­fullt flokks­ræði fest ræt­ur,“ sagði Jó­hann Haf­stein í ræðu á fundi Heimdall­ar 1939 – tíu árum eft­ir stofn­un Sjálf­stæðis­flokks­ins.

Sjálf­stæði þjóðar og frelsi ein­stak­lings­ins eru órjúf­an­leg hvort frá öðru eins og Bjarni Bene­dikts­son (eldri) benti á: „Á Íslandi þarf sjálf­stæði allr­ar þjóðar­inn­ar að efl­ast af sjálf­stæði ein­stak­ling­anna.“

Í starfi mínu á þingi hef ég byggt á póli­tískri sann­fær­ingu – hug­mynda­fræði og lífs­sýn sjálf­stæðis­stefn­unn­ar um mann­helgi ein­stak­lings­ins og þeirri vissu að and­legt og efna­hags­legt frelsi sé frumrétt­ur hvers og eins. Á stund­um hef­ur reynt á þolrif­in en ekki síður þol­in­mæðina. Oft hef­ur gefið á bát­inn en svo hafa mik­il­væg­ir áfanga­sigr­ar unn­ist, sem hafa tryggt betri lífs­kjör al­menn­ings. Og til­ver­an hef­ur orðið skemmti­legri og lit­brigði mann­lífs­ins fjöl­breytt­ari.

Skilja ekki kraft­inn

Í ræðum, viku­leg­um pistl­um hér á síðum Morg­un­blaðsins, hlaðvarpsþátt­um, viðtöl­um í út­varpi og sjón­varpi og tíma­rits­grein­um hef ég bar­ist fyr­ir fram­gangi hug­mynda sem all­ar eru sótt­ar í kistu sjálf­stæðis­stefn­unn­ar með ein­um eða öðrum hætti. Og fátt er skemmti­legra eða meira gef­andi en glíma við hug­mynd­ir – kynn­ast ólík­um viðhorf­um og sjón­ar­miðum. Póli­tísk­ir and­stæðing­ar hafa aldrei áttað sig á því hvaða kraft­ur felst í því fyr­ir Sjálf­stæðis­flokk­inn að vera far­veg­ur fyr­ir nýj­ar hug­mynd­ir. Þeir skilja ekki ork­una sem stjórn­mála­flokk­ur sæk­ir í skoðana­skipti. Lif­andi stjórn­mála­flokk­ur er suðupott­ur hug­mynda og hug­sjóna, þar sem tek­ist er á – stund­um harka­lega – en flokks­menn hafa burði og þroska til að sam­ein­ast fyr­ir fram­gangi grunn­hug­sjóna. Sjálf­stæðis­menn byggja á bjart­sýni, en nær­ast ekki á tor­tryggni eða öf­und. Við gleðjumst yfir vel­gengni, hvetj­um og styðjum við fram­taks­semi fólks og vilj­um lofa því að njóta eig­in dugnaðar og út­sjón­ar­semi. Mark­miðið er að bæta lífs­kjör­in og fjölga tæki­fær­un­um. Draum­ur­inn er að ís­lenskt launa­fólk verði eigna­fólk og fjár­hags­lega sjálf­stætt.

Í janú­ar 2019 skrifaði ég hér í Morg­un­blaðið:

„Stjórn­mála­flokk­ur sem ekki hef­ur burði til að sam­eina í hug­mynda­fræði sinni ólíka hags­muni – smíða brú milli launa­fólks og at­vinnu­rek­enda, milli ungs fólk og þeirra sem eldri eru, milli lands­byggðar og höfuðborg­ar – verður lítið annað en banda­lag sér­hags­muna eða fá­menn­ur en oft há­vær hóp­ur sem er lík­ari sér­trú­ar­söfnuði en stjórn­mála­flokki. Stjórn­mála­flokk­ur sem er þess ekki um­kom­inn að mynda far­veg fyr­ir sam­keppni hug­mynda og skoðana mun hægt en ör­ugg­lega vesl­ast upp, missa þrótt­inn og deyja. Slík­ur flokk­ur á ekki er­indi við framtíðina.“

Ástríðan og sann­fær­ing­in

Síðar í sömu grein skrifaði ég:

„Hlut­verk Sjálf­stæðis­flokks­ins er að rækta sam­bandið við kjós­end­ur – slípa og móta hug­sjón­ir. Þróa hug­mynd­ir í takt við nýja tíma og nýj­ar áskor­an­ir, án þess að hverfa frá grunn­gildi um frelsi ein­stak­lings­ins. Það þarf hins veg­ar að fylgja hug­mynd­un­um eft­ir af ástríðu og sann­fær­ingu.“

Það er ekki sjálf­gefið að taka ákvörðun um að sækj­ast eft­ir end­ur­kjöri sem þingmaður. Ástríðan verður að vera fyr­ir hendi. Í stjórn­mál­um verður ár­ang­ur­inn lít­ill án sann­fær­ing­ar og löng­un­ar til að berj­ast fyr­ir fram­gangi hug­mynda. Ástríðan, sann­fær­ing­in og löng­un­in er enn til staðar – og síst minni en áður. Stefnu­festa er nauðsyn­leg en þol­in­mæði ekki síður því drop­inn hol­ar stein­inn. Bar­átt­an fyr­ir frelsi ein­stak­lings­ins og full­veldi lands­ins held­ur áfram. Í þeirri bar­áttu vil ég taka full­an þátt.

Share
Share

Written by:

View All Posts
Follow Me :