Máttur ríkisins vs. trúin á einstaklinginn

Máttur ríkisins vs. trúin á einstaklinginn

Stærsta verkefni komandi missera og ára er að byggja upp efnahag landsins eftir áföll sem voru óhjákvæmilegur fylgifiskur heimsfaraldurs Covid. Markmiðið er að til verði þúsundir starfa, styrkja lífskjör launafólks og tryggja samfélag velferðar.

Ólíkar hugmyndir um hvernig best sé að standa að verki marka skil milli stjórnmálaflokka, jafnt innan og utan ríkisstjórnar. Sannfæring um mátt ríkisins tekst á við trúna á kraft og útsjónarsemi einstaklingsins.

Í huga stjórnlyndra er skynsamlegt að sækja fram og fjölga starfsmönnum hins opinbera. Slík atvinnusókn verður ekki fjármögnuð nema með þyngri álögum á fyrirtæki og almenning. Andspænis þeim standa þeir sem leggja áherslu á að skapa verðmæti með því að hleypa súrefni inn í atvinnulífið, með lægri gjöldum og einfaldara regluverki og skilvirku eftirliti.

En allir, hvar í flokki sem þeir standa, leggja áherslu á nýsköpun. Á stundum virðist það þó aðeins vera í orði, því um leið er hvatt til regluvæðingar atvinnulífsins, aukins eftirlits og þyngri skattheimtu. Sumir eru haldnir hreinum ótta við að einstaklingar fái að njóta frumkvæðis og dugnaðar. Á móti þessu hefur ríkisstjórnin tryggt skattalega hvata til fjárfestingar í nýsköpun og umbylt fjármögnunarumhverfinu. Og stigin hafa verið mikilvæg skref til einföldunar regluverks þótt enn sé mikið verk að vinna.

Í framtíðarsýn stjórnmálamanna um uppbyggingu atvinnulífsins fer hins vegar lítið fyrir mikilvægi þess að ýta undir og tryggja samkeppni á sem flestum sviðum þjóðlífsins, ekki síst þar sem hún er lítil, takmörkuð eða jafnvel engin.

Stór hluti íslensks efnahagslífs er án samkeppni eða líður fyrir mjög takmarkaða samkeppni. Samkeppnisleysið leiðir til sóunar á mannafli og fjármagni, hærra verðs, lakari þjónustu og verri vöru. Nýsköpun er í böndum og framboð vöru og þjónustu verður einhæfara. Með aðgerðum eða aðgerðaleysi hafa ríkið og sveitarfélög hindrað samkeppni með margvíslegum hætti.

Ríkið veldur skaða

Vandinn sem glímt er við er ekki skortur á opinberu eftirliti heldur skortur á samkeppni og oft á tíðum ósanngjörn samkeppni hins opinbera við einkaframtakið. Það er áhyggjuefni hve margir, ekki síst stjórnmálamenn, láta sér samkeppnisleysi í léttu rúmi liggja. Auðvitað kemur það ekki á óvart að ríkisrekstrarsinnar leiði lítt hugann að því hversu miklum skaða ríkið veldur með samkeppnisrekstri við einkafyrirtæki. Í þeirra huga skiptir t.d. „velferð“ Ríkisútvarpsins meira máli en fjölbreytileg og lífleg flóra sjálfstæðra fjölmiðla.

Undan verndarvæng ríkisins herja ríkisfyrirtæki á einkafyrirtæki til að vinna nýja markaði og afla sér aukinna tekna. Í skjóli opinbers eignarhalds hefur verið lagt til atlögu við einkafyrirtæki – lítil og stór. Íslenskir kaupmenn standa höllum fæti gagnvart ríkisrekstri í Flugstöð Leifs Eiríkssonar. Dreifingar- og flutningafyrirtæki eiga í vök að verjast gagnvart ofurafli ríkisfyrirtækis, sem sendir skattgreiðendum reikninginn fyrir misheppnuðum tilraunum til landvinninga. Ríkisrekstur fjölmiðla kemur í veg fyrir sanngjarna samkeppni á fjölmiðlamarkaði og heldur sjálfstæðum fjölmiðlum í fjárhagslegri spennitreyju og dregur úr þeim þróttinn.

Samkeppni í menntakerfinu er takmörkuð enda fjandskapur gagnvart sjálfstæðum skólum landlægur í íslenskum stjórnmálum. Þar ræður ekki metnaður um að tryggja gæði menntunar né fjölbreyttari valkosti nemenda. Við höfum orðið áþreifanlega vör við hvernig skipulega er unnið að því að ríkisvæða heilbrigðisþjónustuna, draga úr samkeppni, fækka valmöguleikum landsmanna og hefta sjálfstæða starfsemi heilbrigðisstarfsfólks. Biðlistar í stað þjónustu og tvöfalt heilbrigðiskerfi festir rætur.

Listinn er langur.

Skilvirkt eftirlit

Ítarlegt samkeppnismat sem OECD vann á regluverki sem gildir hér á landi í byggingarstarfsemi og ferðaþjónustu leiddi í ljós að með einföldun er hægt að bæta hag landsmanna um tugi milljarða á ári. Regluvæðing atvinnulífsins hefur með öðrum orðum leitt til tugmilljarða sóunar á hverju ári.

Einföldun regluverksins laðar fram samkeppni og auðveldar athafnamönnum að láta til sín taka. Flókið regluverk og frumskógur skatta og gjalda eru vörn hinna stóru – draga úr möguleikum framtaksmannsins til að bjóða nýja vöru og þjónustu. Við höfum séð hvernig róttækar breytingar á ýmsum sköttum og gjöldum hafa skilað sér í aukinni samkeppni sem neytendur hafa notið. Undir forystu Bjarna Benediktssonar voru almenn vörugjöld afnumin og hið sama á við um tolla af fatnaði. Breytingarnar juku samkeppni í verslun.

En eitt er að einfalda reglur og draga úr skattbyrði. Annað að tryggja skilvirkni í samkeppniseftirliti sem er mikilvæg forsenda þess að ábati samkeppninnar skili sér til neytenda. Breytingar á samkeppnislögum á liðnu ári eru mikilvægt skref í þessa átt, en þó aðeins skref. Vísbendingar eru um að málsmeðferðarhraði, ekki síst í samrunamálum, sé óviðunandi.

Ef við ætlum okkur að ná árangri á komandi árum í uppbyggingu atvinnulífsins og styrkja stoðir velferðarsamfélagsins verður að innleiða samkeppni á öllum sviðum til að tryggja hagkvæma nýtingu fjármagns og vinnuafls, góða þjónustu og hagstætt verð. Þar leika ríkisvaldið, löggjafinn og ekki síst eftirlitsstofnanir lykilhlutverk.

Share
Share

Written by:

View All Posts
Follow Me :